Það er ekki víst að nafn Frieder Nake hljómi kunnulega, en hann er stærð- og tölvufræðingur ásamt því að vera frumkvöðull á sviði tölvulistar. Nake ritaði nafn sitt á spjöld listasögunnar með því að halda fyrstu sýninguna sem vitað er að sett hafi verið upp á tölvugrafískum myndum í Stuttgart árið 1965. Þetta var ári eftir að fyrsta tölvan kom til Íslands, en ekki hefur tekist að finna neinar heimildir um að sú tölva hafi verið notuð til listsköpunar.
Frieder Nake hafði heldur engin áform um að leggja fyrir sig listsköpun. Áhugi hans beindist að möguleikum myndrænnar tölvuvinnslu en verkin sem hann sýndi voru útprentun af tvívíðum línuteikningum, sem voru jafnframt afrakstur tilrauna Nake með skapandi algóritma. Spurningin um getu tölvunnar til að líkja eftir sköpunarferli listamanna lá til grundvallar tilraununum. Hann skrifaði því einnig kóða sem höfðu það markmið að kanna hvort tölvan gæti líkt eftir verkum þekktra listamanna á borð við Paul Klee. Nake var ekki einn um að spyrja slíkra spurninga því um svipað leyti hóf Michael Noll, að gera samskonar tilraunir í Bandaríkjunum með verk eftir Mondrian.