Skip to main content
9. apríl 2015

Sjónvarpsstöð í ferðatösku

Arnar valdimarssonÁ örfáum árum hefur verið gríðarleg þróun í tækjum tengdum sjónvarpsútsendingum  og mikil samkeppni, en kröfur neytenda hafa þrýst verðinu mikið niður. Áður fyrr kostaði tugi milljóna að setja upp sjónvarpsver en í dag er það jafnvel á færi einstaklinga að setja upp litla stöð heima hjá sér fyrir tiltölulega litla fjárfestingu. Hjá CCP er búið að setja upp hið sæmilegasta sjónvarpsver þar sem við sendum út ýmsa dagskrá tengda tölvuleiknum okkar EVE Online. Árlega er Fanfest, stórviðburður hjá okkur í Hörpunni, þar sem spilarar koma hvaðanæva að úr heiminum til að hittast, sjá fyrirlestra og fræðast um þróun leiksins. Þessu er öllu sjónvarpað beint á Internetinu.

Tölvuleikja íþróttir (e-sports) eru sífellt að verða vinsælla sjónvarpsefni á internetinu, en árlega framleiðum við metnaðarfulla dagskrá um einn slíkan viðburð sem kallast Alliance Tournament. Þetta er 64 liða útsláttarkeppni þar sem menn berjast á sérútbúnum geimskipum. Þetta er mjög líkt hefðbundnum íþróttaviðburði þar sem tveir lýsa leiknum og skipta svo yfir í sjónvarpsverið þar sem fjórir sérfræðingar greina leikinn og spá í þann næsta. Að útsendingunni starfa allt að 17 manns í einu.
Nýlega bættist við nýr viðburður sem kallast EVE Vegas og er hugsaður fyrir EVE spilara í N-Ameríku. Þangað munu mæta um 600 manns og er það álíka uppsettur viðburður og Fanfest í Hörpunni nema bara minni í sniðum.

Mitt næsta verkefni er að sjónvarpa þessum viðburði og það beint frá hóteli í Vegas. Í þessu felst ákveðin áskorun að reyna að komast af með eins lítið af tækjum og mögulegt er til að geta flutt þetta í sem fæstum töskum, en miðað er við að einn maður stýri útsendingunni.

 Arnar1

Kemst þetta ekki allt í handfarangur?

Fyrsta skref var að reyna að teikna þetta upp til að sjá betur fyrir sér hvernig uppsetning yrði og hversu margar myndavélar, hljóðnemar, ljós, statíf, kaplar o.fl. þyrfti að taka með. Næst var að ráðast til atlögu með skrúfjárnið til að losa útvalin tæki úr rekkunum, raða upp á borð á skrifstofunni og tengja svo allt saman eins og um raunverulega útsendingu væri að ræða.

Arnar 2

Tækjum stillt upp til prufu.

Hjarta sjónvarpstöðvarinnar er myndblandarinn en þangað tengjast öll myndmerki hvort sem þau koma úr myndavélinni eða tölvu sem spilar auglýsingar eða milliskilti. Í gegnum tíðina hefur myndblandarinn verið áfastur stóru hnappaborði og miklum aukabúnaði en nú til dags passar þetta í skjalatösku og það er hægt að stýra klippingum af fartölvu og jafnvel hægt að sækja smáforrit á farsímann ef svo ber undir.

Ljósleiðarinn spilar stórt hlutverk í uppstillingunni hjá mér en í stað þess að rogast með þungan coax kapal sem flytur merki aðeins í eina átt frá myndavél til mín get ég nú sent mynd og hljóð í báðar áttir samtímis. Ég get gefið myndatökumanni fyrirmæli í heyrnatól og sent honum einnig útsendinguna í lítinn monitor sem hann hefur hjá sér. Ljósleiðarinn er örþunnur og léttur og getur tæknilega náð 100km leið án þess að ég þurfi að gera sérstakar ráðstafanir.

Finnst rétt að benda á að þegar flutt er mikið magn tækja milli landa sem eiga að snúa aftur heim þarf að sækja um sérstakt „vegabréf“ fyrir búnaðinn sem kallast Carnet en því þarf að framvísa hjá tollayfirvöldum á flugvellinum. Á Carnet skírteinið þarf að skrá öll tæki ásamt verðmæti þeirra.

Vegas er er litríkur staður og skemmtilegt að fá að takast  á við þetta verkefni þar. Útsendingin gekk í alla staði mjög vel fyrir sig og var áfallalaus. Nú er bara að fara að huga að EVE Vegas 2015.

Arnar Valdimarsson, Senior Video Producer & director of EVE TV

Skoðað: 2352 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála