Skip to main content
30. apríl 2015

Myndlist á tímum tölvutækni

Meó - prófíllÞað er ekki víst að nafn Frieder Nake hljómi kunnulega, en hann er stærð- og tölvufræðingur ásamt því að vera frumkvöðull á sviði tölvulistar. Nake ritaði nafn sitt á spjöld listasögunnar með því að halda fyrstu sýninguna sem vitað er að sett hafi verið upp á tölvugrafískum myndum í Stuttgart árið 1965. Þetta var ári eftir að fyrsta tölvan kom til Íslands, en ekki hefur tekist að finna neinar heimildir um að sú tölva hafi verið notuð til listsköpunar.

Frieder Nake hafði heldur engin áform um að leggja fyrir sig listsköpun. Áhugi hans beindist að möguleikum myndrænnar tölvuvinnslu en verkin sem hann sýndi voru útprentun af tvívíðum línuteikningum, sem voru jafnframt afrakstur tilrauna Nake með skapandi algóritma. Spurningin um getu tölvunnar til að líkja eftir sköpunarferli listamanna lá til grundvallar tilraununum. Hann skrifaði því einnig kóða sem höfðu það markmið að kanna hvort tölvan gæti líkt eftir verkum þekktra listamanna á borð við Paul Klee. Nake var ekki einn um að spyrja slíkra spurninga því um svipað leyti hóf Michael Noll, að gera samskonar tilraunir í Bandaríkjunum með verk eftir Mondrian.

Tveir menningarheimar

Nake var ekki eini tölvufræðingurinn sem fékkst við tilraunir með tölvugrafík á sjöunda áratugnum, en hann var iðinn við að máta verk sín við verk listamanna og taka þátt í samsýningum. Þau ár sem Nake var virkur í sýningarhaldi var almennur áhugi á nýjustu tækni en listamenn voru ekkert síður spenntir fyrir nýjungunum en almenningur. Margir þeirra trúðu á framtíð samstarfs lista- og  vísindamanna sem þeir töldu að myndi stuðla að jákvæðri þróun tækninnar. Þessi áhugi birtist meðal annars í fjölda sýninga sem settar voru upp í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem varpað var fram spurningum um tengsl lista og nýjustu tækni. Tilraunir Nake áttu vel heima í slíku samhengi og því rötuðu verk hans meðal annars á sýninguna Cybernetics Serendipity sem haldin var í ICA[1] í London árið 1968. Sama ár var sýningin Machine as Seen at the End of the Mechanical Age sett upp í MoMA[2] í New York, en þar var samband manns og tækni skoðað í gegnum listaverk frá upphafi vísindabyltingarinnar til samtímans. Báðar sýningarnar mörkuðu tímamót vegna þess að sýningarnarstjórarnir, Jasia Reichardt og Pontus Hultén, notuðu sýningarformið til að velta fyrir sér áhrifum nýjustu tækni á list framtíðarinnar.

Mynd 1 Frieder Nake 1970

Mynd 1: Frieder Nake, 1970

Sameiginlegur undirtónn beggja sýninganna fól ekki aðeins í sér trú á tæknina. Þær byggðu  á þeirri sannfæringu að í framtíðinni myndu lista- og vísindamenn starfa náið saman. Umræðan um þörfina á slíku samstarfi hafði kviknað beggja vegna Atlantsála í framhaldi af útkomu bókar C.P.Snow, The Two Cultures and the Scientific Revolution árið 1959. Menningarheimarnir tveir sem höfundurinn vísar til í titli bókarinnar voru  heimar vísinda og bókmennta eða hugvísinda sem hann taldi hafa lokað sig af hvor frá öðrum í kjölfar vísindabyltingarinnar. Hann taldi að aðskilnaðurinn hefði leitt til gagnkvæms skilningsleysis sem gæti reynst mannkyninu hættulegt.

Nýmiðlar og ný listasaga

Ýmsir samverkandi þættir urðu þess valdandi að áhugi listheimsins á tækninni fjaraði út þegar leið á áttunda áratuginn. Tölvur voru áfram utan seilingar fyrir aðra listamenn en þá sem störfuðu innan háskóla og höfðu aðgang að rannsóknarstofnunum.  Áhugi á þessu tímabili í sameiginlegri sögu lista, vísinda og tækni dvínaði því smám saman. Hann kviknaði ekki aftur fyrr um aldamótin, eftir að Internetið hafði náð almennri útbreiðslu. Í framhaldinu komu á markað öflugar fartölvur sem réðu við áður óþekkt gagnamagn. Þetta gerði alla myndvinnslu auðveldari og tölvurnar um leið að eftirsóknarverðum tækjum fyrir myndlistarlistamenn.
Til að lýsa þessum nýja veruleika var talað um nýmiðla og nýmiðlalist. Listaskólar víða um heim brugðust við með því að setja á stofn sérstakar deildir sem sérhæfðu sig í listsköpun með nýjum miðlum. Það sem framsýnir lista- og vísindamenn sáu fyrir sér á sjöunda áratugnum virtist skyndilega vera orðið að veruleika og umræðan um skörun lista og vísinda komst aftur í hámæli. Í fyrstu gerðu fæstir sér grein fyrir því að bylgjan sem reis hvað hæst á sjöunda áratugnum hafði aðeins dalað en ekki rofnað. Þeir sem höfðu fylgst með þróuninni vissu að nýmiðlarnir áttu sér sögu, sem tilheyrði ekki aðeins sögu tækniþróunar og rannsókna heldur einnig sögu listanna. Það var þó ekki fyrr en tæknin hafði náð almennri útbreiðslu sem það vaknaði áhugi á nýjum aðferðum í listsögurannsóknum sem hafa gert fræðimönnum kleift að öðlast nýja þekkingu og skilning á sambandi lista, vísinda og tækni.  

Vera Molnar  

Það má vera að flestir hugsi um Photoshop þegar talið berst að listsköpun í tölvu, en fyrir listamenn sem eru innvígðir í heim tölvunnar dugar ekkert annað en forritun. Þeir líta svo á að þar sem forritið sé hið eiginlega tungumál tölvunnar verði þeir að geta tjáð sig á þessu tungumáli til að geta skapað sjálfstæð listaverk í tölvu. Þessi afstaða hefur átt þátt í að endurvekja áhuga á verkum Frieder Nake  og listamanna á borð við Veru Molnar sem fylgdi í fótspor hans á sjöunda áratugnum.
Vera Molnar, sem verður níræð á þessu ári, hóf feril sinn sem geómetrískur listmálari í lok fimmta áratugar 20 aldar. Hún hefur frá upphafi byggt verk sín á einföldum grunnformum og var farin að vinna með umröðun og breytur með „ímyndaðri vél“ áður en hún kynntist tölvutækninni. Tölvan gerði henni kleift að vinna hratt og kerfisbundið með rökleiðslur sem algóritminn gat endurtekið með hárfínum breytum, sem sköpuðu spennu í verkunum.  

Mynd 2 Vera Molnar Transformations 1974

Mynd 2: Vera Molnar, Transformations, 1974

Stór yfirlitssýning sem haldin var á verkum Veru Molnar fyrir tveimur árum er til marks um viðurkenningu á gildi verka hennar fyrir list samtímans.  Hún er í hópi óumdeildra frumkvöðla á sviði listrænnar tjáningar þar sem listamenn líta á forritun sem sinn eiginlega miðil. Nokkrir íslenskir listamenn hafa unnið með forritun á þennan hátt, en lengstan feril að baki í hópi myndlistarmanna á Páll Thayer. Verk Páls hafa ákveðna sérstöðu vegna þeirrar áherslu sem hann leggur á gildi kóðans fyrir verkið.

Svefn tölvunnar

Þótt Páll vinni í miðli sem mörgum finnst ennþá framandi í heimi listanna, hafa verk hans sterkar vísanir í listasöguna. Gott dæmi um slíkt er fyrsta verkið í röð sem Páll kallar Microcodes frá árinu 2009. Ætlun Páls var að skapa gagnsæ verk sem gætu hjálpað áhorfendum að skilja tungumál Perl forritsins.  
Verkið heitir Sleep og lítur svona út :
 #/usr/bin/perl
sleep ((8*60)*60)

Mynd 3 Páll Thayer On Everything skjáskot tekið  2011-04-29 at 12.42.22 PM

Mynd 3: Páll Thayer, On Everything, skjáskot tekið  2011-04-29 at 12.42.22 PM

Fyrir þá sem þekkja listasöguna er titilinn vísun í samnefnda kvikmynd eftir Andy Warhol. Myndin tekur átta klukkustundir í sýningu og varir því jafn lengi og svefn manneskjunnar sem sést sofa í myndinni. Í verki Páls er engin mynd en í staðinn vísar tungumál kóðans til aðferða Joseph Kosuth sem notar heimspekilegar yrðingar í stað myndmáls. Páll notar hins vegar stærðfræðilega yrðingu og vísar um leið til fyrirmælalistar Fluxus. Fyrirmæli Páls eru tvískipt því listamaðurinn hvetur áhorfandann til þátttöku með því að hlaða verkinu niður í sína eigin tölvu. Síðari fyrirmælin má meðtaka eins og konseptverk sem ekki þarf að framkvæma, en sé það gert er það kóðinn sem skipar tölvunni að sofa í átta klukkustundir. Þannig skírskotar verkið í ýmsar áttir um leið og það afhjúpar virkni kóðans sem venjulega er falinn á bakvið skjámyndina.   

Höfundur: Dr. Margrét Elísabet Ólafsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður í Reykjavíkurakademíunni

Heimildir:

[1] Institut of Contemporary Art
[2] Museum of Modern Art

Skoðað: 2954 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála