Skip to main content
16. apríl 2015

Listin að hanna vefi er rómantískt pönk

Guðmundur1Guðmundur Bjarni Sigurðsson eða Gummi Sig er einn fremsti vefhönnuður landsins og hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem slíkur. Gummi fæst einnig við tónlist í sínum frítíma og gaf fyrr á þessu ári út sitt fyrsta lag. Gummi Sig er notalegur náungi. Þó ég hafi aðeins nýlega kynnst honum þá hefur hann allt frá fyrsta fundi verið eins og gamall félagi. Manni líður vel í návist hans, það var því tilhlökkun að skreppa til Keflavíkur á skrifstofu Kosmos & Kaos og fá að kynnast kappanum betur. Kosmos & Kaos við Hafnargötu í Keflavík er notalegur vinnustaður með karakter. Þarna er gítar á vegg, mublur úr rekaviði, fjölskyldumyndir, Búddastyttur, teppi á gólfi, viðarveggir, reðurtákn, lampaútvarp og margir Makkar. Ég hafði boðað að viðtalið myndið snúast um tónlist og veflist. En viðtalið fór um víðan völl. Við ræddum vissulega tónlist og vefhönnun en með ýmsum útúrdúrum.

Hver er maðurinn?
Ég er fjölskyldumaður, kvæntur Eydísi Hentze Pétursdóttur og saman eigum við fjögur börn á aldrinum 4-13 ára. Ég er uppalinn í Keflavík og hef búið þar fyrir utan tvö ár í Reykjavík og fjögur ár í Danmörku.

Lá alltaf beint við að þú færir í vefhönnun?
Nei alls ekki, ég ætlaði aldrei að verða vefhönnuður. Þegar ég var krakki var ég staðráðinn í að verða arkitekt. Annars var ég alltaf að hanna og búa eitthvað til. Ég var mikið að teikna í skólanum og heima.

Ég hannaði t.d. BMX braut og bjó til Ninja samfélag. Alltaf að skissa eitthvað sem ég svo útfærði. Dæmi um það er þessi BMX braut, en þar byrjaði ég að skissa og hanna. Ég lagði mikinn metnað í þetta verkefni. Svo fékk ég vinina til að grafa þetta út með mér.

En tónlistin, hvenær kemur hún til sögunnar?
Það var ekki mikil tónlist í kringum mig en frændi minn spilaði á gítar. Sjálfur hef ég ekkert tóneyra en hef mikinn áhuga á tónlist. Við frændi spiluðum saman á hljómborð en hann hafði hæfileika, gat t.d. spilað Axel F lagið úr Beverly Hills Cop myndinni (Harold Faltermeyer). Ég skildi ekki hvernig hann gat náð þessu bara með því að hlusta á lagið.

Svo fór ég að spila á gítar, æfði mig ógeðslega mikið og teikningar þurftu að víkja. Ég lærði í raun aldrei neitt á gítarinn, reyndi að fara í klassískan tíma en það hentaði mér ekki.  Svo fór ég í gítartíma en áttaði mig fljótlega á að ég var eiginlega betri að spila rokk en kennarinn.

Ég fæ mikið út úr því að semja og spila lög. Mér finnst þetta vera dálítið svipað, að semja lag og hanna vefi. Maður er alltaf að búa til heim þar sem manni langar að líða vel. Þannig sé ég þetta, mjög svipað. Hvoru tveggja snýst um tilfinningar. Maður getur dottið inn í ákveðinn heim, bæði í hönnuninni og tónlistinni. Verður til svona eining sem gerist kannski ekkert mjög oft en þegar það gerist þá er það æðislegt.

Maður er í núinu, dálítið eins og í búddismanum og hugleiðslu sem ég hef stundað. Ég er kannski búinn að semja lag, fer svo aðeins í burtu,  kem til baka og sameinast einhvern veginn alveg laginu. Verður eitt. Það fylgir þessu svo mikil gleði og innlifun eins og straumur fari í gegnum líkamann (og Gummi leggur áherslu á þetta með hljóðum!).

Ég hef líka átt nokkur svona augnablik þegar ég er að hanna. Þetta er ógeðslega skemmtilegt en gerist ekki oft. Einstakt og eftirminnilegt þegar það gerist.

Hvað með menntabrautina?
Ég fór í Fjölbrautarskóla Suðurnesja og valdi náttúrufræðibraut af því ég ætlaði að fara í arkitektúr en svo fannst mér svo leiðinlegt í stærðfræði. Annars einkenndust þessi ár meira af djammi en námi. Skólinn var bara með og algjört aukaatriði. Þarna gaf ég líklega upp arkitektinn á bátinn því mér leiddist svo stærðfræðin. Ég kláraði stúdentinn en ekki með mikilli reisn. Eftir stúdentinn prófaði ég að fara í Háskóla Íslands, skráði mig í heimspeki en þoldi ekki Immanuel Kant og hætti!

Bróðir minn, sem vinnur í dag við vefhönnun eins og ég, hafði áhrif á næsta skref á menntabrautinni. Hann kynnti fyrir mér 3D Studio Max og var búinn að ákveða að fara í Margmiðlunarskólann, en þangað fór ég líka árið 1999.

Kennari í Margmiðlunarskólanum sagði við okkur að það yrði þannig að það yrði bara boðið í fólk sem væri í þessu námi. Hann skapaði miklar væntingar hjá mér en svo sprakk netbólan um leið og maður útskrifaðist.

Ég fékk rosalegan áhuga og sterka upplifun af því að nota þessi forrit. Ég man þegar ég var að vinna fyrst í After Effects, var að búa til svona kassa og teiknaði borð inn í kassann og það var til eitthvað svona augnablik svona eins og þegar ég var að semja tónlistina áður. Eins og bliss.

Þarna var ég samt ekkert farinn að heillast að vefhönnun, ég var fyrst og fremst hugfanginn af þrívíddarhönnun og After Effects forritinu. Vefhönnun var bara einhver Dreamweaver vinna sem heillaði mig ekkert með space gif og töflum. Ég setti stefnuna á að fara í þrívíddarhönnun, en svo þegar skólinn var búinn þá hrundi allt. Var þetta ekki 2001? Ég er ómögulegur með ártöl.

En sem sagt allar glæstu vonirnar brustu og ég var ógeðslega gramur. Fékk enga vinnu við þetta. Þá hélt ég mig heima og var að búa til tónlist, myndbönd og vinna eitthvað í þrívídd. Var alltaf að vinna í þessu en fékk enga vinnu við hæfi.

Þá ákváðum við Eydís að fara til Danmerkur. Ég skráði mig í nám sem heitir grafísk miðlun sem lauk með sveinsprófi. Námið var mjög hagnýtt, ég lærði á fullt af forritum en mín áhersla var á þrívídd. Mér gekk ágætlega og fékk nemapláss. Námið var í heild fjögur ár en eitt og hálft ár var skóli en restin var starfsnám. Eftir á að hyggja var þetta mjög gott þó mér hafi aldrei fundist það nógu “artí” en það var mjög praktískt.

Bestu dagarnir sem ég átti þarna í starfsnáminu var þegar ég var að vinna í þrívídd. Þetta hljómar kannski eins og ég fíli ekki vefhönnun en það er alls ekki málið! Það er ákveðinn ljómi sem stafar af þrívíddarhönnun en hins vegar er þetta ekki góður bransi að vinna í. Léleg laun. Mig langar ekkert að vinna við þetta núna.

Í náminu áttum við líka að geta hannað vefi, ég gat reddað mér í Dreamweaver og ég held reyndar að ég eigi útgáfu af fyrsta vefnum mínum. Þarf að finna hann, væri gaman að setja hann á netið. En við vorum flutt út á land og mér leiddist í bænum, bjuggum í ógeðslegri íbúð, Eydís þekkti engan og við komin með tvö börn.

Þá sagði ég upp, tók sénsinn en ætlaði að klára námið. Fékk svo strax aðra vinnu. Byrjaði að kóða töflur og spacer gif. En svo kom bók Zeldmans, Designing with Web Standards, og hún breytti öllu.

Gaurinn, sem ég var að vinna með, kunni lítið og ég ákvað bara einn daginn að vinna hlutina á nýjan hátt. Gera div í staðinn fyrir töflur, hætti að nota Dreamweaver og byrjaði að kóða. Þarna fékk ég áhugann fyrir alvöru á vefhönnun en þetta var árið 2004 minnir mig. Fann mig meira í þessu og fékk útrás fyrir sköpunarþörfina.

Hvað gerðirðu svo að námi loknu?
Áður en ég fór heim til Íslands byrjaði ég að sækja um vinnu. Ég hafði lítið að sýna en hafði gert einhvern vef sem var ágætur en ekkert merkilegur. Sendi ferilskrána á Jón Karlsson hjá EC Software og hann sá eitthvað “pótentíal” í mér. Réði mig sem vefhönnuð, en þetta var fyrsta starfið mitt í vefhönnun. Ég skil ekki alveg hvað það var sem hann sá því ég var í raun ekki búinn að gera neitt.

Ég vann í tvo til þrjá mánuði frá Köben m.a. verkefni í Stokkhólmi og ferðaðist um í flugvélum og gisti á hótelum. Fannst ég flottur gaur. Jón Karlsson var algjör mentor fyrir mig. Hann hafði engan bakgrunn í hönnun en hafði unnið með hönnuðum. Mjög djúpraddaður maður (hermir eftir honum) og þekkti fullt af listamönnum. Jón var með það á hreinu hvað væri fallegt. Hann mentoraði mig í rétta átt og kom mér á þennan kúrs ef svo má segja.

Við flytjum svo heim 2006 og ég fer að vinna hjá EC Software. Við gerðum stóra vefi á Norðurlöndunum og á þessum tíma kynnist ég Stjána (Kristjáni Gunnarssyni) sem vann líka hjá EC Software. Hann vann þar sem verkefnastjóri og Internet ráðgjafi.

Heimurinn hrundi svo 2008. Mér var sagt upp hjá EC Software og það var erfitt. Þetta var nánast eins og að missa pabba sinn að verða viðskila við mentorinn minn Jón. Mér leið mjög illa. Sem betur fer þurfti ég ekki að vinna uppsagnarfrestinn og þannig gat ég komið mér af stað sem “freelance” hönnuður. Jóga og hugleiðsla sem ég kynntist í Danmörku hjálpaði mér líka mikið.

Dag einn, að lokinni góðri hugleiðslu, ákvað ég að sigra heiminn. Þetta var bara ákvörðun. Ég fór í kjölfarið að vinna að vefnum mínum, gummisig.com. Hann fékk strax fáránlega mikla traffík og athygli. Komst í öll helstu vefhönnunargallerí í heiminum. Alveg magnað!

En hvernig kom þessi skyndilega frægð?
Ég veit ekki alveg hvernig þetta gerðist en þetta var framúrstefnulegur vefur á sínum tíma og fékk mikla athygli. Indverji, Sai Suresh, sem var að vinna með mér hjá EC Software, forritaði vefinn og við kóðuðum saman. Hann var líka að koma sér á framfæri og saman settum við vefinn í loftið. Af einhverjum ástæðum komst vefurinn í Best Web Gallery http://bestwebgallery.com/.

Út frá þessu komst ég í alls konar viðtöl og fékk umfjöllun í tímaritum á borð við Computer Arts, Smashing Magazine og öðrum sambærilegum.

Þetta er magnað, hver er uppskriftin?
Mér finnst hönnunin enn töff, það er mikill persónuleiki í hönnuninni og hún er frumleg líka. Vefurinn passar kannski ekki í öll tæki í dag og er auðvitað ekki “responsive” en stendur að öðru leyti fyrir sínu.

Valgeir hjá Takk Takk fannst textinn svo góður og mér fannst vænt um það en var líka hissa. Textinn virkaði greinilega en þetta er allt skrifað af mér sjálfum á ensku. Svo bloggaði ég slatta og einhvern veginn skín persónuleikinn í gegn.

Varstu ekki nánast óþekktur á Íslandi á þessum tíma?
Jú ég var það, hafði bara unnið hjá EC Software. En svo fékk ég tilnefningu og verðlaun fyrir vefinn minn hér heima árið 2009 fyrir besta bloggið og efnistök.

Ég var svo beðinn um að hanna ICEweb ráðstefnuvefinn 2010 sem ég er líka ánægður með. Svo fóru að koma alls konar tilboð, allt frá bankavefjum til klámsíðna. Og svo bara alls konar verkefni út um allan heim, allt niður til Ástralíu. Þessi athygli og verðlaunin á SVEF bjuggu til fullt af tækifærum fyrir mig.

Þessi athygli og umfjöllun hefur komið mér í efsta sæti í Google. Stjáni hjálpaði mér líka með það á sínum tíma og svo eru svo margir vefir búnir að linka á minn vef. Ef þú gúgglar “freelance web designer” þá er ég ennþá númer 1 og líka fyrir “Icelandic web design”. Ég er enn að fá fyrirspurnir í tengslum við þessa athygli og þetta hefur auðvitað verið gott fyrir egóið.

Fóru vefstofurnar ekkert að bera í víurnar?
Ég veit ekki hvort ég eigi að vera móðgaður en það bauð enginn mér vinnu og ég sótt aldrei um vinnu á þessum tíma. Ég vann bara í herbergi sonar míns innan um Lego dótið og hafði nóg að gera. Vann líka oft á kaffihúsum og fannst þetta fínt.

Hvaða hefur mest áhrif á þig í þinni vefhönnun?
Umhverfið og náttúran. Ég fer mikið í göngutúra og allt í umhverfinu getur haft áhrif á mína hönnun. Það er fallegt um að litast í Keflavík, fjallasýnin og skýin hafa haft mikil áhrif á mína hönnun. Miklu frekar umhverfið og náttúran en hönnun eftir aðra sem hefur áhrif á mig.

Það getur bara verið svo ógeðslega fallegt í kringum mann. Esjan, ég get alltaf horft á fjöll og ský. Elska fjöll. Nota líka mikið ský eins og sést á gummisig.com og fjöllin á vef Kosmos & Kaos.

Var þetta aldrei hark?
Nei aldrei neitt, verkefnin komu til mín. Þetta gekk vel. Ég verð að minnast á eitt verkefni, það var árið 2010 þar sem vinur minn var að vinna í Luxemborg. Hann spurði hvor ég gæti hannað heimabanka og vefsíðu fyrir banka í borginni.

Ég bað Stjána að skoða þetta með mér. Hann er góður í að gera kostnaðaráætlun og hjálpaði mér með að gera tilboð. Hann reiknaði þetta allt og ráðlagði mér að gera margfalt hærra tilboð en ég var sjálfur að hugsa. En ég treysti honum og sendi tilboðið.

“Sounds reasonable” sögðu þeir og ég var kominn í verkefni næstu vikur. Þetta verkefni hjálpaði mér mikið fjárhagslega, gat farið í fæðingarorlof í kjölfarið og Eydís fór í hreiðurgerð en þarna áttum við vona á okkar fjórða barni.

En svo kemur Kosmos & Kaos?
Já, Stjáni var í freelance eins og ég en við vorum stundum að vinna saman í verkefnum.  Eitt sinn bað ég hann um að hjálpa mér með eina vefverslun, vinna wireframe og í öðrum pælingum. Þá small allt saman og ég sagði í kjölfarið: Eigum við ekki bara að stofna fyrirtæki og prófa þetta? Jú jú hann var til í það, og þá varð Kosmos & Kaos til. Ég var reyndar búinn að stofna ehf. í maí þetta ár undir þessu heiti. Hafði reyndar ætla mér að nefna það Jing og Jang.

Það er andleg tilvísun í nafninu, hvaðan kemur það?
Frá því að ég var í Danmörku hef ég stundað jóga og hugleiðslu og út frá því var ég í þessum pælingum með Jing og Jang o.fl. Las mikið af ritum um búddisma, Krishnamurti, Joseph Campbell o.fl.  Hafði fram að þessu aldrei verið trúaður, frekar vantrúaður. Þessi hugleiðslumóment hafa breytt mér mikið. Nafnið Kosmos & Kaos hefur þó skírskotun í gríska goðafræði (sköpunarsögu) en Eydís kom með þetta nafn á fyrirtækið.

Hefur andlegi þátturinn áhrif á hönnunina?

Ég kann ekki alveg að tengja þetta saman en þetta er samt þarna. Transmittar í gegn held ég. Mér finnst ég sjá það hjá listamönnum eins og Tolla, sem ég hef unnið með, hvernig þeim líður þegar maður horfir á verkin þeirra.

Svo má kannski greina einhver svona áhrif í Bláalónsvefnum. Þar koma svona áhrif velllíðunar á hönnun. Það eru örugglega ákveðin áhrif þar frá þessum andlegu pælingum mínum og kynni mínum af Krishnamurti og heimspeki Bruce Lee. Þetta transmittast í gegn á vefnum og svo auðvitað frábærar myndir sem við gátum unnið með fyrir vefinn.

Það hefur gengið vel hjá ykkur?
Já þetta hefur verið mikil velgengni og í dag erum við alls 13 sem vinnum hjá fyrirtækinu. Það hefur samt ekki verið nein sérstök stefna að stækka. Við ákváðum t.d. í byrjun að við ætluðum ekki að vinna fyrir hvaða fyrirtæki sem er.

Ágætur félagi minn spurði einu sinni: Af hverju ertu að hanna vefsíður, viltu ekki breyta heiminum? En hann var sjálfur að gefa út mannbætandi bækur og vann að göfugum markmiðum. Ég vil meina að það sem ég geri hafi góð áhrif. Falleg hönnun smitar frá sér og leiðir til góðs. Það vil ég gera áfram.

Mig langar aldrei að hverfa frá mínum grunngildum. Fá að búa til heim þar sem fólki líður vel. Finna þetta hátíðnihljóð (býr til hljóð) sem fer stundum í gegnum mig þegar hlutirnir smella saman.

Mig langaði alltaf að vera tónlistarmaður og hverf inn í þann heim stundum. Alltaf þegar ég fer í frí þá byrja ég að semja tónlist. Hef mikla þörf fyrir það, ég vil ekki hanna vefi í fríum.  Nýlega gaf ég út út mitt fyrsta lag (Imminent G er tónlistarsjálf Gumma Sig) og hef fengið fín viðbrögð. Lagið er innblásið af texta Joseph Campbelll en hann er fræðimaður á sviði goðafræði og trúarbragðafræði.

Hvernig myndirðu lýsa starfi vefhönnuðar?
“Creative problem solver” er ágæt lýsing segir hann eftir nokkra umhugsun. Þetta er list. Kúnni hefur ákveðnar hugmyndir og kemur með verkefni sem þarf að leysa. Þetta er samvinna en svo hef ég frelsi til að skapa og leysa. Listin kemur svo með þetta auka. Við höfum sagt að hönnunarstefna Kosmos & Kaos sé rómantískt pönk. Rómantíkin tryggir að allt virki og síðan kemur pönkið með þetta auka, þetta óvænta. Það er listin.

Áður en ég kveð spyr ég hann hvar hann sjái sig eftir 5, 10 eða 15 ár?

Veistu, ég veit það ekki. Það er svo erfitt að sjá fyrir sér gamalt fólk í okkar bransa. En mér finnst drullugaman að hanna vefi og meðan svo er held ég því áfram.

Viðtalið tók Sigurjón Ólafsson

Skoðað: 3114 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála