Skip to main content
26. febrúar 2015

Stærsta raunhæfa verkefnið frá upphafi

danielbrandur2Daníel Brandur Sigurgeirsson er aðjúnkt við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hann hefur undanfarin tvö ár haft umsjón með einu umfangsmesta nemendaverkefni sem deildin hefur staðið að. „Þetta verkefni hófst fyrir tveimur árum. Pælingin var sú að vera með verkefni sem nemendur vinna í sameiningu og þurfa að setja sig inn í þann hluta kóðans sem er til á hverjum tíma. Það er sjaldgæft að nemendaverkefni í grunnnámi verði að lokaafurð þar sem þau þurfa að vera vel afmörkuð og taka yfirleitt stuttan tíma. Fyrir utan lokaverkefnin, en þar gilda önnur lögmál. Þetta er því mjög sérstakt verkefni, og ekki síst vegna stærðar þess.“

Það eru nemendur á öðru og þriðja ári sem taka þátt í verkefninu. „Nemendur á fjórðu önn eru komnir það langt að geta byrjað á þessu.  Verkefnið er unnið í margs konar forritunarmálum: C#, JavaScript, Python o.fl., og notar ýmis opin hugbúnaðarsöfn og kerfi eins og Angular, Bootstrap, ElasticSearch, NodeJS o.m.fl. Nú hafa hátt í 80 nemendur komið að verkefninu. Þetta er risastórt verkefni þar sem ákveðinn hópur tekur einn hluta, annar hópur annan hluta og svo framvegis. Einhver hefur leyst ákveðið vandamál en leysir ekki alla hluta þess. Þá kemur kannski einhver nýr inn í þetta sem vill bæta einhverju við.“

Daníel segir þetta einmitt vera einn mesta lærdóminn sem draga má af vinnunni við kennslukerfið. „Nemendurnir hafi í tvö ár verið að vinna hörðum höndum að kerfi sem enginn hefur enn séð afraksturinn af. Vinnan hefur snúið að þeim hluta kerfisins sem skrifstofur í HR nota og því hafa nemendur sjálfir ekki séð neinar breytingar.  Það er ekki enn komið í ljós hvort kerfið verði notað enda er það ennþá í prófunarferli hérna innanhúss.“ Hann segir nemendur þurfa að læra það að stundum kemur maður að verkefni, sinnir ákveðnu hlutverki, og lætur svo öðrum það eftir. „Svona vinna þarfnast ákveðins skilnings sem erfitt er að læra af skólabók eða hefðbundnum verkefnum og líkist því sem tölvunarfræðingar fást við í mörgum tilvikum á vinnumarkaðnum. Þar kemur maður oft að einhverju sem aðrir hafa verið að vinna í og maður þarf að setja sig inn í og skilja þá vinnu.“

Guðbjörg Guðmundsdóttir, textagerðamaður tók viðtalið

Skoðað: 2805 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála