Undanfarin ár hefur orðið mikil þróun í tölvutækni og þessi þróun hefur meðal annars haft þau áhrif að samskipti fólks í gegnum Internetið hafa aukist. Flest ungmenni í dag nota Internetið í miklu mæli og árið 2009 voru 65% unglinga í Bandaríkjunum með aðgang að samskiptasíðunni Facebook (S. Jones og Fox, 2009). Í rannsókn Valkenburg og Peter (2007) kom í ljós að 61% barna á aldrinum 10-11 ára og 88% unglinga á aldrinum 12-16 ára í Þýskalandi notuðu Internetið til þess að eiga samskipti.
Fólk hefur misjafnar skoðanir á þessari samskiptaleið og telja margir hana bæði neikvæða og hættulega. Þessir einstaklingar óttast að samskipti í gegnum Internetið geti stuðlað að auknu einelti og að ungmenni fari að þróa með sér óheilbrigt samband við ókunnuga einstaklinga. Þetta þarf ekki alltaf að vera raunin því niðurstöður rannsóknar Valkenburg og Peter (2007), á samskiptum barna og unglinga á Internetinu og vinasamböndum þeirra, leiddi í ljós að meirihluti þátttakenda sagðist nota Internetið til þess að hafa samskipti við nána vini sína (Valkenburg og Peter, 2007).