Skip to main content
8. maí 2014

Skýlausnir á "mannamáli"

fimmtudagurTölvuský eru í dag ekki ný af nálinni. Almenningur hefur verið að nýta sér slíka þjónustu undanfarin ár með notkun lausna eins og t.d. Facebook, Dropbox eða Onedrive og eru ský, í einhverri mynd, að verða partur af daglegu lífi fólks.

 En hvað eru ský og hvað bjóða þau upp á?

Gartner skilgreinir ský sem kost í upplýsingatækni þar sem skalan- og teygjanleikar upplýsingatækninnar eru nýtt með notkun internetsins. Helstu einkenni skýjalausna eru sjálfsþjónusta eftir þörfum, gott aðgengi að interneti, sameiginleg nýting auðlinda, teygjanleiki og mælanleg þjónusta.

Á mannamáli þýðir það að með því að nýta sér kosti skýsins færðu þá þjónustu sem þig vantar, þegar þig vantar, þar sem þú ert - svo lengi sem aðgengi að neti sé til staðar.

Hvernig getur skýið gagnast mér?

Til að átta sig á hvernig skýið getur þjónustað þörfum notandans er gott að stilla inn á ákveðinn núllpunkt og hugsa: Hvað þarf ég að gera og hvað vantar mig til þess?
Fjöldi fyrirtækja eru farin að nýta sér mismunandi kosti skýsins enda möguleikarnir nánast óendanlegir. Skýið hentar flestum fyrirtækjum, stórum sem smáum fyrir, mismunandi verkefni og á mismunandi hátt. Lítil fyrirtæki sem eru að hefja rekstur, geta t.d. losnað við að fjárfesta í dýrum búnaði sem óvíst er hvort borgi sig. Önnur fyrirtæki sjá sér hag í að nota ákveðinn hugbúnað í skýinu, keyra þróunarumhverfi, afritun og margt fleira.


Hér eru nokkur dæmi um hvernig skýið getur nýst fyrirtækjum:

  • Office 365 býður upp á aðgengi að Officehugbúnaðinum og tölvupóst hvar sem er, úr hvaða tölvu eða snjalltæki sem er. Einnig getur fylgt gagnageymsla á netinu sem er sífellt afrituð auk skjalastýringarsvæðis (sharepoint) sem nýtist fyrirtækjum sérlega vel í að halda utan um gögnin sín ásamt því sem kerfið býður upp á betri samvinnu í verkefnum, þökk sé skýinu. Þannig þarf notandinn eingöngu aðgang að interneti til að komast í gögn fyrirtækisins, sem getur verið áhyggjulaust með öll gögn eru afrituð og örugg.
  • Lifandi upplýsingaskjáir taka til sín efni úr skýinu og birta efni eftir skilgreindum kröfum. Skilaboðin eru vistuð í skýinu og skilgreint hvenær og á hvaða skjám efnið á að birtast. Eina sem notandinn þarf er vefaðgangur þar sem hann fer inn á sitt svæði og skipuleggur efnið sitt. Þannig er hægt að birta auglýsingar, matseðla eða aðrar upplýsingar á lifandi hátt.
  • Gagnageymsla í skýinu er þekkt lausn eins og kemur fram hér að ofan. Fyrirtæki þurfa þó að spyrja sig hver stýrir gögnunum og hver ræður yfir þeim. Hvað gerist ef fyrirtækið notar fría lausn eins og dropbox og starfsmaður hættir? Til eru einfaldar lausnir sem þjóna sama tilgangi og uppfylla sömu þarfir og notendur nota í dag en eru öruggari fyrir fyrirtæki og tryggja að gögnin verði hjá fyrirtækinu þó starfsmaðurinn hætti.
  • Þróunarumhverfi (Dev/Test) er vinsæl lausn. Í stað þess að kaupa vélbúnað undir þróunarumhverfi þá er minnsta mál að leigja aðgengi að vélbúnaði þar sem kaupandi fær nákvæmlega það sem hann þarf, þegar hann þarf og borgar eingöngu fyrir það sem hann þarf að nota. Hægt er að stýra aðgengi að vélbúnað miðað við klukkustundir og daga.
  • Viðlagaáætlun (e. Disaster Recovery). Gert er afrit af tölvuumhverfi fyrirtækisins utanhúss. Ef fyrirtækið verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli og allt hrynur er gott að vita að aðeins tekur smá stund þar til fyrirtækið verður komið í gang með öll kerfi og gögn sem það þarf – úr skýinu!

Höfundur: Ingi Björn Ágústsson lausnaráðgjafi hjá Nýherja.

Skoðað: 3278 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála