Hilmar Veigar Pétursson fær
UT-verðlaun Ský 2013
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, fékk í dag UT-verðlaun Ský 2013 en þetta er í fjórða sinn sem verðlaunin eru afhent.
Í rökstuðningi valnefndar segir að Hilmar Veigar sé góð fyrirmynd og frumkvöðull.
„Hann hefur verið óþreytandi í að vinna með og styðja menntastofnanir, allt frá grunnskóla upp í háskóla, þegar kemur að upplýsingatæknimiðuðu námi. Hilmar er verðug fyrirmynd unga fólksins og sýnir svo ekki verður um villst að hægt sé að ná langt með þrautseigjunni og að ekkert gerist ef ekki er haldið af stað og haldið áfram þó að móti blási. Hann hefur einnig í gegnum starf sitt hjá CCP og samtökum upplýsingafyrirtækja aukið almennan áhuga á upplýsingatækni og nýsköpun.“
Hilmar, sem er tölvunarfræðingur B.S. frá Háskóla Íslands, gekk til liðs við CCP árið 2000 sem yfirmaður tæknimála og varð framkvæmdastjóri 2004. Hann hefur leitt EVE Online verkefnið frá árinu 2003 og tekið virkan þátt í mótun vaxtar íslensks hugvits með setu í ýmsum stjórnum og ráðum sem tengjast upplýsingatæni og frumkvöðlastarfsemi. Þá var hann nefndur einn af 20 áhrifamestu mönnum á sviði nettöluvleikja árin 2007 og 2008 af Beckett Massive Onliner Gamer Magazine og er eftirsóttur fyrirlesari víða um heim.
Þá segir ennfremur í rökstuðningi valnefndar:
„Hilmar er einn þeirra sem hefur komið að og hvatt til hugmyndaauðgi í sprotastarfsemi og þannig tekið þátt í vexti tölvuleikjaiðnaðar á Íslandi og aðstoðað þar sem þeir hafa getað. Oftar en ekki er leitað ráða hjá Hilmari sem góðfúslega hefur deilt áralangri reynslu sinni og tengslaneti, því Hilmar veit að ólíkt flestum auðlindum sem eyðast þegar þær eru notaðar þá má segja að þekking vaxi sé henni deilt.“
Það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem afhenti Guðrúnu E. Stefánsdóttur, eiginkonu Hilmars Veigars, verðlaunin á UTmessunni sem nú stendur yfir í Hörpu, en Hilmar er staddur erlendis starfa sinna vegna.
Hér er að finna rökstuðning valnefndar í fullri lengd