Samskipti, hvað með þau?
Samskipti manns og tölvu hafa þróast mikið undanfarin ár og eru í stöðugri þróun en ný hönnun, ný tæki, nýjar aðferðir og hugbúnaður verða til nánast á færibandi. Þróunin tengist ekki eingöngu gæðum samskiptanna heldur einnig atriðum eins og hönnun, innleiðingu á nýjum möguleikum og áhrifum þeirra. Markmiðið er að notandinn njóti þess að nota tölvuna, fái góðan aðgang að upplýsingum og öflugum samskiptaformum sem falla að hans þörfum svo hann fái sem mest út úr tækninni hvort sem um er að ræða inntak, úttak eða samspil manns, tækni og tækja.
Sérhvert tæki sem búið er örgjörva hefur einhvers konar tengi fyrir starfsemi sína, sum sér notandinn beint en önnur eru tengi milli innri kerfa. Hvernig við nýtum tölvur er tengt því hvernig við sjáum þá möguleika sem settir eru fram á skjáum, við vitum oftast ekki mikið um öll hin tengslin á bakvið.
Þó að tölvur hafi verið til í meira en hálfa öld og miðað við þá staðreynd að tölvur eru miklu öflugri í dag en þær voru fyrir 50 árum, kemur það á óvart að helstu aðferðir okkar til samskipta við þær hafi ekki breyst mikið í raun fyrr en á allra síðustu árum. Lyklaborðið þróaðist útfrá ritvélinni sem er minnst 150 ára gömul hugmynd en músin kom fram um 1963 þegar Douglas Carl Engelbert kynnti til leiks forvera hennar. Jafnvel grafíska notendaviðmótið (GUI) á ættir að rekja til Xerox fyrir 40 árum eða árið 1973. Hvað höfum við verið að dunda okkur við allan þennan tíma?
Núna sjáum við samskiptin færast hratt af lyklaborðinu og músinni í allskonar snertiskjái sem snjallsímar ruddu brautina fyrir til almennings. Þróunin hefur verið í þá átt að smækka tækin þannig að gamaldags lyklaborð eða mús á ekki lengur við. Við höfum líka séð snjallar útgáfur af lyklaborðum sem fyrst urðu þráðlaus, síðan smágerð og jafnvel upprúlluð. Þeir sem eru vanir lyklaborðinu og ætla að skrifa, þó ekki sé nema pistil á lengd við þennan, kjósa enn að nota lyklaborð, en hver veit hvað næstu kynslóðir gera ef þær venjast ekki lyklaborðinu. Ég sé ekki betur en nú sé aftur komið í tísku að nota tvo putta til að slá á lyklaborðið, eða lyklaskjáinn, þannig að allir þessir árgangar sem lærðu fingrasetningu með mismiklum áhuga sitja kannski uppi með úrelta færni.
Snertiskjáir hafa líka verið í þróun, farið frá því að leyfa bara einn fingur eða penna til að styðja á skjáinn, yfir í einn fingur til að draga til stýringar yfir í tvo fingur og jafnvel fleiri til að draga mynd á skjánum sundur og saman. Nýjasta tækið fyrir almenning er líklega Google gleraugun sem er stýrt með snertingu en staðsetning á "skjánum" er byltingakennd. Hér má líka skjóta inn VR eða Virtual Reality, frá Sony og Oculus Rift, endurvakning á gömlum draumum um tækni sem færir okkur meira og meira inní tölvuna svo við geturm sökkt okkur inn í leiki, kort, o.fl. o.fl. Hröð þróun á samskiptaleiðum við tölvu er rétt að byrja því t.d. er verið að þróa leiðir til að hafa samskipti án þess að snerta eitthvað t.d. með aughreyfingum eða heilabylgjum.
Samtal manns og tölvu hefur lengi verið draumur tölvunotenda og margir muna eftir Hal í myndinni 2001: Space Odyssey frá 1968 sem gat þróað með sér tilfinningar. Margar myndir fylgdu í kjölfarið sem allar byggðust á áhugaverðum hugmyndum um framtíðina og samskipti manns og tölvu. Man ég sérstakleg eftir A.I. Artificial Intelligence frá 2001, en hugmyndin mun hafa komið fram um 1970 og I, Robot frá 2004 sem var byggð á smásagnasafni eftir Isaac Asimov frá 1950. Hægt er að nefna ótal fleiri myndir þar sem tölvur leika stórt hlutverk, læt duga að nefna Matrix (1999), Minority Report (2002), Star Wars (1977) og Star Trek (2009).
Þegar árið 1978 kom Texas Instument með Speak and Spell sem var lítil fartölva fyrir börn sem breytti texta í tal. Þróunin hefur mjakast áfram og í dag er er alvanalegt að láta tölvu lesa upp fyrir sig efni, t.d. af allskonar lesbrettum eins og Kindle eða bara úr símanum. Ekki má heldur gleyma talgervlum (Text To Speach Engine eða TTS) sem hafa aðstoðað blinda og sjónskerta við að lesa tölvutæka texta og vefsíður. Sá nýjasti heitir Dóra og Karl.
Að tala við tölvu er hægt í dag og mörgum tækjum er stýrt með tali. Það sem flestir kannast við er að tala við símann sinn og biðja hann að hringja í Pétur eða Pál. Margskonar hugbúnaður er til fyrir þá sem vilja láta tölvuna tala við sig eða lesa fyrir sig. Þetta er spennandi tækni sem breytir því hvernig við getum haft samskipti við tölvuna. Nú er hægt að tala við tölvuna og hún getur svarað til baka en þessi samskipti felast oftast í að biðja tölvuna um ákveðna hluti sem hún þekkir, t.d. „File Open" og hún svara "Select the file". Meira að segja Íþróttaálfurinn talar við tölvustýrð tæki og lætur senda sér tannbursta. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að margir notfæri sér ekki þennan möguleika og viti ekki að t.d. í Windows er innbyggður talmöguleiki (Narrator).
Samtals manns og tölvu eru ekki einungis ögrandi og spennandi verkefni því sumir telja það gæti orðið að marrtröð. Stephen Hawking skrifaði fyrir í þessum mánuði grein í „The Independent“ þar sem hann vekur upp umræðu um ágæti gervigreindra (AI) sem hann telur mögulega geti orðið bæði það besta og versta sem komið hefur fyrir mannkyninu. Er Hawking þá að vísa í að erfitt sé að sjá fyrir alla möguleikana sem gervigreind skapar og hvert þeir leiði. Hann telur að við þurfum öll að hugleiða hvernig við getum haft áhrif á þróunina til góðs og forðast slæmar afleiðingar.
Í framtíðinni verður örugglega fjölbreyttari notkun fyrir tölvutal og samskipti við tæki. Möguleikar sem okkur dettur ekki í hug í dag sem gaman verður að fylgjast með og prófa.
Höfundur Ásrún Matthíasdóttir, ritstjóri Tölvumála og lektor við HR
Heimildir sem stuðst var við
http://computer.howstuffworks.com/humans-interface-with-computers.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Human%E2%80%93computer_interaction
http://www.s2is.org/issues/v1/n1/papers/paper9.pdf
http://en.wikipedia.org/wiki/Graphical_user_interface#History
http://en.wikipedia.org/wiki/Mouse_(computing)#History
http://en.wikipedia.org/wiki/Speak_%26_Spell_%28toy%29
http://en.wikipedia.org/wiki/2001:_A_Space_Odyssey_%28film%29
http://en.wikipedia.org/wiki/I,_Robot_%28film%29
http://en.wikipedia.org/wiki/A.I._Artificial_Intelligence
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.