Þegar ég skrifa þessa grein í 30.000 feta hæð á leiðinni til Kaupmannahafnar með aðstoð Johnnie frænda og humlaðra frænda hans, verður mér hugsað til ferðlaga hér áður fyrr, hvernig við ferðumst núna og hvernig við munum ferðast í framtíðinni. Hér áður fyrr þegar fólk ferðaðist, komu margar hendur að ferðalaginu frá þeim þjónustuveitendum sem hlut áttu að máli. Pöntun ferðarinnar var í gegnum söluaðila ferðaskrifstofu eða flugfélagsins, með góðum fyrirvara alla jafna, annaðhvort símleiðis eða með viðkomu á söluskrifstofuna. Þegar ferðagögnin voru klár tók oftar en ekki við bið eftir ferðalaginu. Þegar að ferðalaginu kom var farið í bankann og talað við gjaldkera og gjaldeyrir keyptur eða ferðatékkar. Þá var farið á flugvöllinn og þar beið maður í röð við innritunarborðin og spenningurinn óx jafnt og þétt og fólk kynntist þeim sem voru næstir í röðinni og forvitnuðust hvert ferðinni væri heitið. Ef fólk lenti á spjalli við ferðavana einstaklinga gat það fengið „tips and tricks“, varðandi hvað ætti að gera og hvað ekki á áfangastað. Öll þjónusta á flugvellinum var vel mönnuð og gekk vel fyrir sig.