Skip to main content
24. október 2019

Hvað er Camfecting?

GudrunKæri lesandi, þú hefur líklegast einhvern tímann heyrt af því að hægt sé að hakka sig inn í vefmyndavélina í tölvunni þinni en hversu mikið eigum við að vera stressa okkur á því? Af hverju ætti einhver að vilja njósna um þig í gegnum vefmyndavélina? Er ekki frekar reynt að njósna um þá sem eru frægir á einhvern hátt?

Mér vitanlega hefur ekkert gott íslenskt orð komið fram yfir enska orðið camfecting. Orðið byggir á tveimur orðum, þ.e.a.s. camera og infecting (myndavél og smitun). Camfecting er notað yfir það ferli þegar óprúttinn aðili reynir að hakka sig inn í tölvur hjá einstaklingi án hans leyfis og nær tökum yfir vefmyndavél (e. webcam) hans. Með því að hakka sig inn í vefmyndavélina getur hakkarinn séð allt það sem vefmyndavélin snýr að og þar með njósnað um einstaklinginn án hans vitundar. Hakkarinn getur einnig tekið myndir og myndbönd af því og notað það til þess að kúga pening út úr einstaklingnum eða deilt og selt efnið á netinu til aðila sem hafa áhuga á því, allt án vitundar viðkomandi.

Hvernig ná hakkarar stjórn á vefmyndavélinni?

Oftast ná hakkarar að sýkja tölvuna með einhverskonar spilliforriti (e. malware). Spilliforrit er orð sem er notað yfir einhverskonar hugbúnað sem er búinn til í þeim tilgangi að skemma og sýkja tölvur. Spilliforrit skaðar tölvuna eftir að því hefur verið komið fyrir á einhvern hátt í tölvu fórnarlambsins. Oft er vísað til spilliforrita sem tölvu- vírusa, orma eða trójuhesta. Eigandi tölvunnar hefur, t.d. halað niður mynd, myndbandi, hljóðskrá eða öðru forriti sem hefur að geyma falinn spillihugbúnað. Vírusinn keyrist sjálfkrafa hljóðlaust upp inn í tölvuna þegar einstaklingurinn opnar það sem hann upphaflega hlóð niður í tölvuna sína og þar með gerir hann hakkaranum kleyft að ná tökum yfir vefmyndavélinni. Einstaklingurinn hefur lítinn sem engan grun um að hugbúnaðurinn er kominn í tölvuna. Í flestum vefmyndavélum er lítið ljós sem segir til um hvort kveikt sé á myndavélinni eða ekki. Ef kviknar á þessu ljósi, þó að það sé slökkt á myndavélinni, þá er það merki um að ekki sé allt með feldu. Það getur þýtt að einhver sé að fylgjast með þér í gegnum myndavélina en hakkarar geta líka komið í veg fyrir að kvikni á ljósinu þegar þeir eru að njósna um þig og því er erfitt að taka eftir því hvort verið sé að fylgjast með þér í gegnum vefmyndavélina.

Camfecting er ein algengasta og auðveldasta leiðin til þess að hakka tölvur hjá fólki. Samkvæmt FBI þarftu ekki einu sinni að vera tölvusnillingur til þess að njósna um fólk í gegnum vefmyndavélar. ​ Árið 2013 fjallaði BBC um það að til er blómstrandi svartur markaður þar sem aðgangur að tölvum með sýktar vefmyndavélar er seldur. Þar kom fram að aðgangur að tölvu í eigu konu kostar 1 dollara en fyrir 1 dollara var einnig hægt að fá aðgang að 100 tölvum í eigu karla. Það má því segja að það er eftirspurn þarna úti eftir að fá aðgang að tölvum til þess að horfa á einstaklingana í gegnum vefmyndavél, þá helst hjá konum, hvort sem hún er fræg eða ekki.

Árið 2014 gerði FBI viðamikla rannsókn á Blackshades trojan hugbúnaði sem var seldur á Hack Forums fyrir 40 dollara á niðurhal. Blackshades gerði hökkurum kleyft að fá aðgang að sýktum tölvum og framkvæma margar aðgerðir á þeim án þess að eigandinn vissi af því, t.d. að sjá allar myndir og skrár í tölvunni, komast yfir lykilorð viðkomandi og fá aðgang að vefmyndavélinni. Rannsóknin sýndi að hugbúnaðurinn var keyptur af minnsta kosti þúsund manns í allt að 100 löndum og voru um 500.000 tölvur smitaðar út um allan heim. FBI handtók yfir hundrað manns sem voru með Blackshades í tölvunni sinni.

En hvernig má koma í veg fyrir að njósnað sé um þig í gegnum vefmyndavélina?

Sjáðu til þess að innbyggði eldveggurinn (e. firewall) í tölvunni þinni sé uppi og keyrandi. Hann verndar kerfið með því að fylgjast með nettraffíkinni og blokkar grunsamlegar tengingar. Þú getur nálgast firewall stillingarnar á Windows með því að fara eftirfarandi leið: ​ Control Panel > System and Security > Windows Defender Firewall > Turn Windows Firewall On or Off ​. Fyrir ​ MacOs notendur getur þú farið þessa leið: ​ System Preferences > Security & Privacy > Firewall ​.

Notaðu áreiðanlegar vírusvarnir sem verja tölvuna fyrir allskonar vírusum.

Ekki falla fyrir augljósum brellum. Algengt er að netþrjótar hafi samband við þig og segi að upp hafi komið öryggisbrestur í tölvunni þinni og bjóðist til þess að sjá um vandamálið.

Forðastu einnig að smella á hlekki eða hlaða niður viðhengjum í gegnum tölvupósta eða á samfélagsmiðlum, frá óþekktum aðilum.

Opin WiFi net geta verið viðkvæm fyrir netglæpum. Hakkarar ráðast oft á tölvur fólks sem nota frítt net á opinberum svæðum og reyna að koma spilliforriti í tölvu notendanna. Með því að nota VPN geturðu notað internetið á öruggan hátt. VPN stendur fyrir Virtual Private Network. Það býður upp á meira öryggi og friðhelgi þegar þú vafrar á netinu. Sem dæmi um VPN er NordVPN sem er mikið notað ​ en það sér til þess að enginn komist yfir netgögnin þín með því að nota dulkóðun og háþróaðar öryggisaðgerðir gegn hökkurum. Enginn getur séð netumferðina þína og þar með ertu vel varinn fyrir öryggisógn á borð við hin ýmsu spilliforrit. Hægt er að lesa sér betur til um NordVPN með því að ýta á eftirfarandi hlekk NordVPN .

Aftur á móti er auðveldasta og 100% áreiðanlegasta leiðin til að koma í veg fyrir að einhver njósni um þig, í gegnum vefmyndavélina, einfaldlega að hylja vefmyndavélina. FBI og fólk sem starfar við tölvuöryggi mæla með því. Hægt er að líma fyrir hana með dökku límbandi eða límmiða. Einnig má finna margar verslanir sem selja hlífar sem límast yfir myndavélina en gera þér fært um að opna og loka hlífinni. Með því að hylja myndavélina kemur þú ekki í veg fyrir að tölvan þín gæti verið hökkuð og því mæli ég með að fara yfir alla hlutina sem nefndir voru fyrir ofan. Betra er að vera örugg en miður okkar!

Höfundur: Guðrún Margrét Ívansdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir:

Blue, V. (2016, 23. september). The FBI recommends you cover our laptop ́s webcam, for good reason. Sótt 20. september 2019 af https://www.engadget.com/2016/09/23/the-fbi-recommends-you-cover-your-laptops-webcam-good-reasons/?guccounter=1

Hennig, N. (2018). Privacy.   Library Technology Reports, 54 (3), 22. NordVPN. (2019). How to tell if your laptop has been hacked. Sótt 20. september af https://nordvpn.com/blog/tell-if-laptop-camera-hacked/ Wikipedia. (2019, 23. apríl). Camfecting. Sótt 21. september 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Camfecting#Risk_sources

Wikipedia. (2019, 22. ágúst). Blackshades. Sótt 21. september 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Blackshades

Wikipedia. (2019, 21. september). Malware. Sótt 22. september 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Malware  

Skoðað: 1549 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála