Samfélagsmiðlar og skilríki
Samfélagsmiðlar eru óneitanlega stór partur af lífi flestra einstaklinga nú til dags. Að sjálfsögðu eru ekki allir með í fjörinu en þó fækkar þeim sem eru á engum samfélagsmiðli með hverjum deginum sem líður. Fyrir 10 árum síðan voru ekki margir að nota samfélagsmiðla, að undanskildum Youtube, sem er vissulega flokkaður sem samfélagsmiðill. Árið 2004 varð Facebook til, sem þó náði ekki almennilegum vinsældum fyrr en nokkrum árum seinna. Twitter hefur verið til síðan 2006 og árin 2010 og 2011 komu Instagram og Snapchat. Það er margt gott hægt að segja um þessa miðla. Þeir auka samskipti manns við vini og fjölskyldu, gera þau hraðari og einfaldari. Þeir auðvelda manni að deila upplýsingum og sjá upplýsingar svo eitthvað sé nefnt.
Það sem fylgir því að miðlarnir séu nýir er að þeir eru ekki fullkomnir og margt sem hægt er að bæta. Það sem ég hef undanfarið mikið pælt í er hvernig hægt sé að koma í veg fyrir leiðinda færslur og athugasemdir inn á þessum miðlum sem undanfarin ár hafa færst í aukana.
Margir verða fyrir barðinu á leiðinlegum skilaboðum, athugasemdum og færslum á hverjum einasta degi. Opinberar persónur lenda mest í þessu enda með flesta fylgjendur og mesta umferð í gegnum sínar síður. Til að mynda hafa leikmenn enska knattspyrnuliðsins Manchester United orðið mikið fyrir barðinu á þessu upp á síðkastið. Þeir hafa verið rakkaðir niður eftir slæm úrslit í leikjum og meira að segja orðið fyrir kynþáttaníði sem er háalvarlegt mál og mikið átak verið í fótboltaheiminum gegn slíku.
Það þarf ekki að leita langt eftir svona leiðinda athugasemdum en undir hverri einustu færslu á Instagram hjá ákveðnum leikmönnum liðsins eru mörg hundruð athugasemdir og meira en helmingur þeirra eru almenn leiðindi.
Paul Pogba, leikmaður liðsins klikkaði á vítaspyrnu 20. ágúst í jafnteflisleik gegn Úlfunum. Pogba varð fyrir kynþáttafordómum á samfélagsmiðlum eftir leikinn og fékk mikið af ljótum skilaboðum. Manchester United sendi frá sér yfirlýsingu daginn eftir og sagðist vera að vinna í því að finna út hvaða aðilar höfðu verið á bakvið verknaðinn. Eftir leik United gegn Crystal Palace 24. ágúst síðastliðinn þar sem liðið tapaði 2-1 urðu tveir leikmenn liðsins fyrir kynþáttaníði á Twitter. Þetta er gert í gegnum aðganga þar sem fólk kemur fram undir fölsku nafni. Eins og gefur að skilja eru leikmenn og þjálfarar liðsins mjög ósáttir með gang mála og hafa kallað eftir breytingum. (Ívan Guðjón Baldursson, 2019)
„Þetta er ógeðslegt. Samfélagsmiðlar verða að gera eitthvað í þessu. Allir aðgangar sem eru opnir ættu að vera tengdir við vegabréf/ökuskírteini. Stoppið þessi nettröll sem búa til marga aðganga til að senda ljót skilaboð á fólk.“(Maquire, 2019)
Harry Maquire, leikmaður liðsins kallaði eftir því í viðtali á dögunum að samfélagsmiðlar yrðu tengdir við skilríki. Þessu er undirritaður sammála. Mér finnst að allir samfélagsmiðlar ættu að vera tengdir við skilríki. Það væri vel hægt að búa til reglur í kringum hegðun einstaklinga á samfélagsmiðlum og ef að fólk myndi brjóta þær þá færi það í bann frá þeim miðli í einhvern ákveðinn tíma. Það er algjörlega óþolandi að fólk geti búið sér til nafnlausa aðganga í tíma og ótíma og skrifað það sem þeim dettur í hug. Á bakvið hvern aðgang ætti að vera skilríki og ef sá einstaklingur ætti fleiri aðganga á sama skilríki þá færu þeir aðgangar einnig í bann. Ég vil meina að með þessu gætum við útrýmt ljótum skilaboðum og slæmri hegðun á samfélagsmiðlum (Magnús Már Einarsson, 2019).
Að skrá sig með skilríkjum þekkist á mörgum stöðum í dag. Bæði að tengja rafræn skilríki við aðganga og eins að taka ljósmynd af skilríkjum og láta það fylgja að aðganginum. Rafræn skilríki virka auðvitað þannig að fólk þarf að auðkenna sig í hvert skipti sem þau eru notuð. Það væri kannski hægt að sleppa því en aðalatriðið væri að hafa skilríki á bakvið hvern aðgang. Eins myndi ég vilja sjá þá reglu að það væri einn aðgangur á mann og sérstaka undanþágu þyrfti til að vera með fleiri.
Allar helstu veðmálasíður heims eru með þannig fyrirkomulag að þú þarft að auðkenna þig með gildum skilríkjum. Ef menn eru svo grunaðir um svindl eða að brjóta aðrar reglur síðunnar þá eru þeir einfaldlega bannaðir og skilríkið ekki fært um að stofna nýjan aðgang.
Ég tel að fólk muni alveg hugsa sig tvisvar um hvað það skrifar og gerir á þessum miðlum ef að mögulegt bann væri undir í hvert skipti sem það ætlaði að gera öðrum lífið leitt. Eins held ég að þetta myndi létta mikið á mörgum samfélagsmiðlum því að ansi stór partur af aðgöngum eru rusl aðgangur. Hver þekkir það ekki að fá skilaboð á samfélagsmiðlum frá chat-botta eða svona rusl aðgöngum. Það myndi væntanlega létta á þessum miðlum ef aðgöngum myndi fækka sem eru ekki tengdir við skilríki. Ég ætla að vona að innan fárra ára verði hlutirnir búnir að breytast til hins betra í þessum málum og að almennilegar reglur verði settar í kringum þetta.
Höfundur: Baldur Haraldsson nemandi við Háskólann í Reykjavík
Höfundur myndar: Gerd Altmann tekið af Pixabay
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.