Skip to main content
22. ágúst 2019

Sjálfvirknivæðing Veitna

Hendrik MyndMargar áskoranir bíða okkar á næstu árum. Handlestur af mælum, takmörkuð sýn svæða og skortur á sjálfvirkni, eru allt viðfangsefni sem Veitur þurfa að kljást við. Tækninni fleygir fram og kallið eftir meiri upplýsingum verður alltaf meira. Snjallnemar, gervigreind og vitvélar eru komnar til að vera og við þurfum að hugsa okkur hvernig við nýtum alla tæknina til að sjálfvirknivæða okkur betur. Meiri sýn á vatnsöflunarsvæði, notendur og dreifikerfi munu gefa okkur öflugt gagnasafn til að lágmarka kostnað, hámarka afköst, auka öryggi og bæta yfirsýn.

 

Ef allar lagnir rafmagns- og vatnslagnir Veitna væru settar saman myndi lengjan ná í hátt i 9000 km eða svipuð vegalengd og loftlínan milli Keflavíkur og Kyoto s.m.k.v. www.Distance.to. Það lýsir umfangi veitukerfis okkar. 

sjalfvirkni

Lagnir rafveitu og vatnsmiðla á höfuðborgarsvæðinu

 Teiknimyndasagan Veitur

Ímyndum okkur nú að í teiknimyndasögunni um Veitur væru aðstæður þannig að hver notandi væri með snjallmæli sem gæfi Veitum mynd af hitastigi, þrýstingi og rennslismagni af heitu og köldu vatni. Bara upplýsingarnar um þrýstinginn kæmu svo í landupplýsingakerfi sem Veitur nota og þannig væri hægt að sjá myndrænt hvernig staða á þrýstingi í kerfinu öllu væri. Sjáum svo fyrir okkur að til væri hitakort/hæðarkort af höfuðborgarsvæðinu sem sýndi á mjög skilmerkilegan máta hvar þrýstingur er eðlilegur og hvar ekki. Þessar upplýsingar myndu ekki bara bæta öryggi t.d. við brunastörf, heldur gætu Veitur mögulega lágmarkað kostnað við rekstur dælustöðva m.t.t. þess þrýstings sem þarf að vera í kerfunum. Auðveldara væri að finna leka og auðveldara væri að segja til um það hvort verið væri að offramleiða/vanframleiða vatn. Allt þetta væri bara aukaafleiðing af því að losna við handmælingar og mannlegt eftirlit við notkun vatns á heimilum og fyrirtækjum. Hinsvegar kemur sú spurning upp hvort Veitur mega nota þessar upplýsingar vegna persónuverndarlöggjafarinnar en það er sér kafli í sögunni sem verið er að skrifa.

Snjallir brunahanar

Ef Veitur mega ekki nota þessar upplýsingar til neins annars en að bæta ferlið við reikningagerð þá þarf að hugsa þessa sýn á stöðum utan heimila. Þá hafa komið upp hugmyndir um t.d. snjalla brunahana. Á höfuðborgarsvæðinu eru um 1800-1900 brunahanar og eru þeir dreifðir nokkuð jafnt yfir svæðið. það vill svo til að þeir eru beintengdir við vatnslagnir. Til eru brunahanar sem hægt er að nota sem aðgangspunkta til þrýstingsmælinga. Þar er hægt að mæla hljóð í vatni sem getur hugsanlega hjálpað til við að staðsetja leka. Spurning er svo hvort hægt sé að nota sömu aðferð við leit að lekum í hitaveitu, þ.e.a.s. nota þrjá mælipunkta til að staðsetja hvar lekarnir eru og þ.a.l. sjálfvirknivæða lekaleit að einhverju leyti.

Borholur

Á höfuðborgarsvæðinu eru hátt í 50 borholur bara í hitaveitukerfinu. Þeim er stýrt í dag af bestu getu út frá mismunandi miklum upplýsingum. Þar sem margar borholurnar eru frekar gamlar er tæknin sem til er í dag oft ekki til staðar. Segjum sem svo að ef borholur væru sjálfstæðari ásamt því að sýn á rafmagnsnotkun og rennsli væri skilmerkilegri. Veitur gætu þá lágmarkað rafmagnskostnað með því að keyra þær holur sem væru hagstæðastar hverju sinni. Eftirlit getur orðið meira sjálfvirkt þ.e.a.s. myndgreining og vitvélar væru notaðar til að finna út hvar holur eru öðruvísi. Getur gervigreind tekið inn utanaðkomandi þætti ásamt keyrslu stuðlum og valið þær holur í rekstur sem eru hentugastar með það að markmiði að lágmarka kostnað og hámarka nýtni.

Fráveita

Hvernig snjallvæðum við fráveitukerfin okkar? Getum við notað veðurgögn, rennslisupplýsingar og mælingar til að sjá betur hversu hátt hlutfall fráveitu er einfaldlega heitt vatn eða rigning? Væri ekki ákjósanlegt ef við gætum séð fyrirfram að ákveðin fráveitustöð lendi í vandræðum m.v. veðurspá? Að við gætum undirbúið hana eftir bestu getu. t.d. með því að vera fullviss um að engar stíflur séu til staðar eða að lágt væri í þró til að hafa meiri möguleika á að taka við allri rigningu sem kæmi. Einnig væri hægt að mæla betur hita og rennsli í fráveitukerfinu til að staðsetja hvar heitt vatn eða rigning kemur inn. Veðurgögnin gætu einnig hjálpað okkur að sjá fyrir mögulegan vatnsskort ef vatnsborðsmælingar væru fullkomnar eða gerlamengun væri yfirvofandi, þ.e.a.s. þær verða við sérstakar aðstæður. Þá væri t.d. hægt að undirbúa svæðin áður en vandræðin koma.

Rafveita

Við snjallmælingu rafmagns á heimilum mun sýn notanda og veitukerfis batna til muna. Notandinn  gæti séð nákvæmlega hversu mikið rafmagn hefur verið notað og hversu mikið það kostar hann. Hann gæti auðveldlega borið saman kostnað milli tímabila og séð hvort rafmagnsreikningurinn væri að hækka óeðlilega. Einnig væri hægt loka fyrir rafmagn á ákveðnum stöðum t.d. í tengslum við eldsvoða eða jarðskjálfta.

Framtíðin

Stefna Veitna í dag hefur breyst, nú er lögð áhersla á að boða framsækna hugsun þar sem við ætlum alltaf að hafa heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og hreinar strendur, þar sem stefnan er að lágmarka sóun, tryggja auðlindir og dreifingu. Stór þáttur í því að ná þeim markmiðum verður að bæta yfirsýn kerfa  og fyrsta skrefið er að safna fleiri gögnum. Meiri og betri upplýsingar upp úr búnaði og svæðum geta gefið til kynna hvar gallarnir eru eða hvar við getum bætt kerfið, hvort sem það eru upplýsingar úr dreifistöð, dælu, hverfi eða auðlind.

Hvernig komast Veitur áfram í þessum málum? spyr einn af ungu verkfræðingunum sig. Þurfum við ekki bara að stíga svolítið út fyrir þægindaramman og hrista boxið, opna okkur meira? Gera gögnin okkar aðgengilegri og starfa betur með háskólasamfélaginu, stuðla að meiri þróun í veitugeiranum. Byggja upp stemningu og þekkingu fyrir meiri sjálfvirkni og snjallheitum. Stækka net skynjara og upplýsinga sem hægt er að mylja með einhverjum ofurtölvum sem eru í boði í dag.

Höfundur: Hendrik Tómasson, MSc í rafmagnsverkfræði og þróunarstjóri snjallkerfa hjá Kerfisþróun og stýringu

Skoðað: 1177 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála