Ódýrari lausnir í menntun - Ókeypis hugbúnaður og hvernig á nota hann
Mikið hefur verið rætt undanfarið um niðurskurð í grunnskólum landsins. Það er því miður satt og fallast þá hendur margra sem vilja leiða inn nýjungar í skólana því þeir hafa ekki fjármagn til þess. Nýting upplýsingatækni er eitt af fórnarlömbum þessara leiðinda. Skólarnir eru flestir með einhverjar tölvur, sumir jafnvel með sérstakt tölvuver. Samt er nánast einróma samþykki um það að tölvurnar í skólum landsins séu “orðnar gamlar og hægar”.
Í langflestum skólum landsins eru tölvurnar að nota Windows stýrikerfið en það kerfi hefur haft það orðspor á sér í gegnum árin að best sé að hreinsa allt af tölvunni og setja allt aftur upp með reglulegu millibili sem gæti verið 13 ár. Þessi framkvæmd getur tekið heilan dag ef það þarf að taka afrit af myndum og setja upp alla rekla og uppfæra stýrikerfið svo að þekktir öryggisgallar séu lagfærðir. Þetta gæti orðið ennþá leiðinlegra ef eigandinn er búinn að týna uppsetningadisknum sem fylgdi með tölvunni og kannast einhverjir við það vandamál.
Í skólum eru tölvurnar í mörgum tilfellum tengdar einni tölvu sem inniheldur það stýrikerfi og þann hugbúnað sem tölvan sem þú situr fyrir framan í tölvuverinu þarf og í hvert sinn tölvurnar eru ræstar þá senda þær allar beiðni á þessa einu tölvu um stýrikerfi og hugbúnað og það myndar allsvakalegan flöskuháls. Þetta fyrirkomulag er vægast sagt óskilvirkt en sparar víst einhvern pening í vinnu kerfisstjóra en þetta þýðir að börnin fá tölvur sem er búið takmarka. Þau fá heldur ekki leyfi til þess að setja inn nýjan hugbúnað. Það þarf að æfa börnin í allri almennri tölvunotkun en ekki bara kenna þeim á eitt tiltekið forrit. Við þurfum að kenna þeim að setja upp hugbúnað og gera þessi mistök sem við öll gerum en ekki halda tölvunni í gíslingu.
Hvað er til ráða? Í þessari grein eru gefnar leiðbeiningar að uppsetningu á frjálsum og ókeypis hugbúnaði sem gamla góða skólatölvan fer létt með að keyra og kennarar og börn geta í sameiningu sett upp frá grunni á örskömmum tíma.
Linux stýrikerfið
Vélbúnaðarhluti tölvunnar verður ekki hægari með árunum eins og margir halda fram. Harði diskurinn getur bilað en nýjan disk er hægt að kaupa á um það bil 10.000 krónur. Stýrikerfin geta þó orðið hægari með árunum en í tilraun sem við framkvæmdum tók það okkur aðeins 10 mínútur að láta Linux stýrikerfið Ubuntu inná 6 ára gamla tölvu!
Uppsetning er mjög einföld og eftir þessar 10 mínútur er fyrir framan þig nothæft kerfi. Í Linux heimum eru margar útgáfur í boði og fyrir byrjanda gæti verið yfirþyrmandi að velja eitthvað eitt kerfi en kosturinn er að oftast er í boði “létt” útgáfa af mörgum kerfum sem hentar fullkomlega fyrir eldri tölvur og lýsir fólk upplifun sinni af tölvum sem hafa þetta uppsett sem “glænýrri tölvu.” Má þar helst nefna kerfin Xubuntu eða Lubuntu ofl.
Linux stýrikerfið býður uppá ótrúlegan fjölda af ókeypis hugbúnaði sem auðvelt er að verða sér út um. Uppsetning á þessum forritum fer í gegnum forritið Ubuntu Software Center og er mikið auðveldari en á Windows en uppsetningin er með sama hætti og á Google Play eða Appstore þar sem einungis þarf örfáa músarsmelli til að fá inn ný forrit. Hugbúnaðurinn er flokkaður eftir notkunarmöguleikum, inniheldur greinagóðar lýsingar, myndir og dóma annara notenda. Allt þetta er sett upp eins og netverslun og ætti því að vera auðveldur fyrir byrjendur, að minnsta kosti fyrir þá sem hafa einhvern tíman vafrað um á internetinu.
Lausnir á netinu
cookie.com:
Cookies er sniðugur hugbúnaður fyrir þá krakka sem eru að byrja sín fyrstu skref í tölvuheiminum. Margir gamalgrónir leikir eins og snákaspilið, púsl og aðrir skipulagsleikir þar sem krakkar eiga að raða formum og litum, stærðfræðileikir og einnig lestrarkennsla á grunnstigi. Börn geta lesið sögur og eru ýmsar grafískar brellur sem lífga upp á söguna. Að lestrinum loknum geta krakkarnir tekið próf og séð hversu mikið þeir hafa lært eftir lesturinn t.d hvað ákveðin dýr hétu eða aðrar spurningar um söguþráðinn. Hugbúnaðurinn er einstaklega einfaldur í notkun og ættu foreldar, kennarar og börn því ekki að eiga í neinum vandræðum með að læra á hann.
Openoffice / LibreOffice:
Meirihluti kennara og námsmanna eru kunnug stýrikerfinu Windows frá Microsoft og eru algengustu forritin sem eru notuð eru t.d Word, Excel, Powerpoint og Photoshop. Þessi hugbúnaður er dýr og eru skólar og fyrirtæki út um allan heim með samninga við Microsoft og fá þennan hugbúnað ódýrari en hinn almenni borgari, en með því að eyða örfáum mínútum á netinu er hægt að finna sambærilegan hugbúnað frítt. Stofnanir virðast hins vegar vera hræddar við að prófa nýja hluti og fastar á þeirri skoðun að það sem hefur alltaf virkað á að halda áfram að virka og ekki má breyta nokkrum hlut. Þessi hugbúnaður virkar nánast alveg eins og hugbúnaðurinn frá Microsoft og er lítið sem þarf að læra til þess að komast á sama kunnáttustig og með office pakkanum. Okkur þykir skoplegt þegar kennarar hafa lítinn vilja til þess að læra
eitthvað nýtt eins og á einfaldann hugbúnað sem gæti hjálpað skólakerfinu mikið og á sama tíma reyna þeir að vekja áhuga nemenda sinna á einhverju nýju efni.
Hagur af því að læra á netinu.
Menntafólk er farið að sjá það að nota netið við lærdóm er gríðarlega áhrifaríkt og stundum betra en að sitja fyrirlestra. Allir þrír höfundarnir eru í háskóla og styðjast við khanacademy.com til auka skilning sinn á stærðfræði. Kennslusíðan hefur aukið skilning okkar á námsefninu gríðarlega mikið og erum við vissir um að við værum ekki jafn vel staddir í náminu ef ekki væri fyrir þessa síðu. Útskýringar kennara eru einstaklega áhugaverðar og fagmannlega settar fram, hægt er að fylgja eftir árangri sínum á myndrænan hátt og eftir hverja lotu er hægt að taka stutt próf. Eftir prófið er skráð niður hvar nemandinn þarf að bæta sig og hvar hann er sterkur, nemandinn getur síðan fylgt því eftir kýs hann að bæta sig á ákveðnum sviðum. Þessa síðu má auðveldlega nota á öllum stigum skólagöngunnar, jafnvel í grunnskóla þar sem síðan bíður uppá það að kennarar tali yfir kennslumyndbönd og þýði þau þannig á íslensku.
Google Drive:
Google Drive (hét áður Google Docs) teljum við vera einn besta kostinn þegar kemur að því að vinna með öðrum í verkefnum. Hægt er að vinna í sama skjalinu á sama tíma án þess að þurfa að treysta á það að vera á sama staðnum. Verkefni er hægt að vinna í rauntíma og vistast gögnin sjálfkrafa í gagnaský Google sem gerir það að verkum að gögnin tapast ekki og er hægt að komast í þau hvar sem er í heiminum. Hægt er að vinna textaskjöl, glærusýningar, excel skjöl og teikna gröf í hugbúnaðinum, og er þetta valkostur sem nemendur og aðrir ættu að íhuga þegar kemur að því að vinna í sameiginlegu verkefni.
Hvað á að kaupa?
Vel er hægt að nota eldri vélbúnað svo lengi sem réttur hugbúnaður er settur á hann. Svo er vaxandi krafa meðal kennara að fá spjaldtölvur í stofurnar. Á meðan einhverjir kennarar heimta iPad til að nota í kennslu þá eru aðrir kennarar sem kunna ekki að kveikja á tölvum og finnst þær óþarfi. Þess má geta að það eru til margar aðrar spjaldtölvur en þær sem Apple framleiðir og keyra flestar á Android stýrikerfinu. Þegar þessi grein er skrifuð kostar ódýrasti iPad mini á vefsíðu epli.is 59.900 en það er spjaldtölva með HD myndavél. Ódýrasta spjaldtölvan á vef Tölvutek.is kostar 16.900 og er reyndar með myndavél en ekki í sömu gæðum. Þá er spurt, þurfa krakkarnir háskerpumyndavél á meðan þau eru að læra? Það er augljós kostur en óþarfi. Miðað við þessi verðdæmi væri hægt að kaupa 7 spjaldtölvur af ódýru gerðinni fyrir sama verð og 2 iPad mini en þennan kost er vert að skoða þegar mikill niðurskurður blasir við í stað þess að blása allar spjaldtölvur af. Varðandi hugbúnað á tækin þá segja sumir að það séu til miklu betri smáforrit (“Öpp”) á iPad en skoðum þróunina:
Október 2011 voru til 319.000 forrit fyrir Android tæki.
Október 2012 voru til 700.000 forrit fyrir Android tæki.
Þetta þýðir að það streyma inn um 400.000 ný forrit á ári á þessa markaði og er því frekar erfitt að segja “Nei. Þetta forrit er ekki til á þessi tæki.” Ekki nema sá hinn sami geti farið yfir 1000 forrit á dag. Verð jafngildir gæðum. Þessi grein endurspeglar ekki okkar skoðun á tilteknum vörum heldur er markmið okkar að benda á ódýrari lausnir því menntun þjóðarinnar er í húfi og þar af leiðandi lífsgæði okkar allra!
Höfundar:Viktor Smári Ágústuson, Kjartan Örn Óskarsson og Andri Ólafsson, nemendur í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík
Birt 13. júní 2013
Heimildir og tenglasafn:
Tölfræði yfir smáforrit á Google Play:
http://en.wikipedia.org/wiki/Google_Play
Frjáls og ókeypis stýrikerfi:
http://xubuntu.org/ og http://lubuntu.net/
Ókeypis kennslusíður:
http://www.khanacademy.org/
Cookie vefur fyrir krakka:
http://www.cookie.com/
Google Drive:
http://docs.google.com
Fríir office pakkar:
http://www.openoffice.org/
http://www.libreoffice.org/
Frí teikniforrit:
http://www.gimp.com
http://www.getpaint.net/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.