Skip to main content

Forsagan

formali forsagan
Úr formála manntals á Íslandi 1. desember 1950. Hagskýrslur Íslands II. Rv. 1958. Bls. 7.

Forsögu tölvuvinnslu á Íslandi má rekja aftur til miðrar tuttugustu aldar, en nákvæmlega hvenær hún hófst hlýtur ávallt að vera háð mati. Þá er gott að ganga í sjóð fólks sem hefur lifað og hrærst í heimi íslenskrar upplýsingatækni áratugum saman. Mögulegur upphafspunktur er þegar Hagstofan fékk fyrst sérhæfða vél, mekaníska vél, til að gera manntal árið 1949. Árið 1952 var fyrirtækið Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar stofnað og það voru einni g nokkur tímamót. Upphafspunktur þessa rits er þó engu að síður settur árið 1964, þegar fyrsta alvörutölvan kom til Íslands, og fyrir því liggja gild rök. Aðdragandinn var nokkur og er stiklað á því stærsta áður en merkisárið 1964 er skoðað.

Háskólinn fær rafeindareiknivél

Fyrsti Íslendingurinn sem kynntist þessari nýju rafeindatækni að einhverju marki, svo vitað sé, var Magnús Magnússon, síðar prófessor við Háskóla Íslands. Árið 1950 var hann við nám í Cambridge í Englandi og vann þá við EDSAC I-rafeindareikninn og áratug síðar um þriggja mánaða skeið í Regnecentralen í Kaupmannahöfn. Nokkrir íslenskir verkfræðistúdentar kynntust þessari nýju tækni á sjötta áratugnum í námi sínu í Bandaríkjunum. Áhugi þeirra vaknaði á því að fá tæki af þessu tagi til landsins. Fyrstu athuganir bentu reyndar til þess að það væri ekki raunhæft; vélarnar voru allt of dýrar, en ungir og áhugasamir raunvísindamenn létu ekki deigan síga. Haustið 1960 kom Niels Bech, forstjóri Regnecentralen, til Reykjavíkur og orðaði þá hugmynd að sett yrði upp útibú dönsku reiknistofunnar, með rafreiknum af gerðinni GIER (Geodætisk Instituts Elektroniske Regnemaskine). Aftur varð niðurstaðan sú að það væri ekki raunhæft. Sama haust sendi Ottó Michelsen forstjóri Skrifstofuvéla hf. (IBM) verkfræðideild Háskóla Íslands og Rannsóknaráði Íslands tilboð um leigu eða kaup með 60% afslætti á IBM 1620 Model I-rafreikni, sem hafði verið kynntur á árinu 1959. Þessu tilboði var aldrei svarað. Tíminn leið, enn var gerð tilraun til að koma hreyfingu á málið árið 1963. Íslenska stærðfræðifélagið sendi tvo menn, Björn Kristinsson rafmagnsverkfræðing og Helga Sigvaldason verkfræðing, til að kynna sér GIER-rafreikna hjá Regnecentralen í nokkra mánuði og læra viðhald og samsetningu vélanna. Þeir stungu upp á að keyptir yrðu einstakir vélarhlutar í Danmörku, fluttir til Íslands og vélin sett saman þar. Það gekk þó ekki eftir. [i] Þess í stað hófst sú saga sem hér er greint frá.

[1] Magnús Magnússon prófessor emeritus: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003; Dr. Oddur Benediktsson. Viðtal við Ebbu Þóru Hvannberg  prófessor, í vörslu skjalasafns Háskóla Íslands.