4. hluti: 1995-2004 - Samfélagsbreytingar, fjármagn og hugbúnaður
Árin 1995–2004 voru tímar mikilla samfélagsbreytinga og upplýsingatæknin lék þar stórt hlutverk. Þessar breytingar vörðuðu allt líf almennings á Íslandi, umhverfi fyrirtækjanna og framtíðarsýn fólks um árþúsundamótin. Í setningarávarpi sínu á ráðstefnu um skólastarfi og upplýsingatækni árið 1996 sagði Jóhann Gunnarsson, heiðursfélagi í Skýrslutæknifélaginu, að samfélagið væri að á vegferð upplýsingahraðbrautarinnar, en spáði því að upplýsingasamfélagið myndi ekki verða til fyrr en um árið 2010. Hann lýsti framtíðarsýn sinni í grafi en óhætt er að segja að þróunin hafi orðið mun hraðari en hann sá fyrir.
Miðaldra karlmaður í dökkum jakkafötum á aflokaðri skrifstofu párar erindi á blað. Vélritunarstúlka í afgreiðslunni tekur við því og slær inn á ritvél eða tölvu. Árið 2014 sést þessi sjón varla nema í sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum og var orðin sjaldséð árið 1995. Flestir, konur og karlar, voru sjálfbjarga á einmenningstölvu, oft í opnu rými, og margir nýttu sér möguleika internetsins. Sumir höfðu aðgang að innanhússnetum en færri höfðu samskipti við fólk út um allt gegnum nettengingu. En breytingar lágu í loftinu.
Sala á hugbúnaði og vélbúnaði fór ört vaxandi og æ fleiri störfuðu á þeim vettvangi. Fjármagn leitaði þangað í æ ríkara mæli, sumpart vegna væntinga en ekki síður þar sem eftirspurn fyrirtækja, stofnana og einkaaðila jókst gríðarlega.
Kaupendur tölvubúnaðar höfðu oft og tíðum óraunsæja mynd af gildi tölvuvæðingar. Einhverjir horfðu tortryggnir á þessa hröðu þróun, en fleiri leituðu að allsherjarlausn sem leysa ætti allan vanda og þessi lausn var tölvubúnaður. Tæknitrúin gat leitt menn til að losa sig við allt það gamla: útbúnað, fólk, áratugaþekkingu og vinnufyrirkomulag. Tölvukerfi skyldi leysa það af hólmi. Ráðgjöf á sviði tölvuvæðingar varð sífellt fyrirferðarmeiri sem og krafan um að hún lyti faglegum reglum frekar en lögmálum sölumennskunnar.
Breytingar urðu einnig á áherslum í menntun, bæði með aukinni fjölbreytni í menntun fólks í þessari atvinnugrein og ekki síður vegna þess að menntastofnanir nýttu sér betur og betur þá möguleika sem tæknin bauð upp á.
Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 1995–2004
Vélbúnaður og gagnavinnsla: Einkatölvur – einn notandi, mikill sveigjanleiki, töflureiknar, ritvinnsla, tölvugrafík; Tilkoma sýndartölva (Virtual Machines); Tilkoma blaðþjóna (Blade servers);
Forritunarmál þessa tíma voru: C++, Java, Delphi, C, Visual Basic
Gagnagrunnar: Oracle, IBM DB2, SQL Server, InterBase
Stýrikerfi: Windows 95; Mac OS X. Linux, ýmsar útgáfur.
Vafrar: Netscape, Mozilla, Internet Explorer, Opera, Apple Safari, Firefox.
Hugbúnaðargerð á Íslandi byggðist í upphafi á því að mæta þörfum viðskiptavina, sem notuðu ákveðinn vélbúnað. Einnig þurfti að leysa verkefni fyrir fyrirtæki sem höfðu eigin tölvudeildir eða þjónustuðu skilgreindan hóp viðskiptavina, svo sem ríki og sveitarfélög, bankana eða stór fyrirtæki í einstökum atvinnugreinum. Á níunda áratugnum byggðist upp eiginlegur hugbúnaðariðnaður á Íslandi. Hægt er að máta ýmsar tímasetningar í leit að þeim upphafspunkti. Er Friðrik Sigurðsson stofnandi TölvuMynda leit um öxl í mars 2007 sagði hann meðal annars um þróun áratuganna tveggja þar á undan:
Þegar horft er um öxl eftir tuttugu ára starf er tvennt sem kemur upp í hugann. Annars vegar þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið hjá viðskiptavinum okkar og íslensku viðskiptalífi almennt á þessum tíma. Hins vegar þær miklu breytingar sem orðið hafa hjá fyrirtækinu sjálfu. Báðar þessar breytingar eru af sama meiði og snúast um byltingu hugarfars.
Þegar félagið [TölvuMyndir] var stofnað árið 1986, stóð metnaður minn þá að stórum hluta til að skapa mér og öðrum sem að rekstrinum komu lífsviðurværi.[2]
Þegar komið var fram á tíunda áratuginn var hugbúnaðargerð á Íslandi búin að slíta barnsskónum. Oddur Benediktsson prófessor fjallaði um þá vegferð í tímaritinu Tölvumál í október 1998.
Íslendingar hafa sjálfir þróað megnið af þeim notendahugbúnaði, sem rekstur þjóðfélagsins krefst. Má teljast með ólíkindum að hinn frekar fámenni hópur sem er við hugbúnaðarstörf hafa áorkað jafn mikilli kerfisgerð og raun ber vitni.[3]
Vinnuumhverfi í hugbúnaðargerð á Íslandi breyttist umtalsvert kringum árþúsundamótin. Ný forritunarmál komu á sjónarsviðið. Fjölgun varð í hópi menntaðra kerfis- og tölvunarfræðinga og jókst eftirspurnin eftir þeim svo að ýmsir voru dregnir út á vinnumarkaðinn áður en þeir luku námi. Erfitt var að ná í fólk, greidd voru há laun, fagmennska og hæfni var ekki eins mikil og áður og jafnvel ráðið inn fólk sem lítið eða ekkert vissi um tölvur.[4] Annar aðbúnaður, svo sem afþreying og mötuneyti, voru notuð í þessari samkeppni um fólkið.[5] Liðnir voru þeir dagar þegar menn byrjuðu með tvær hendur tómar, unnu myrkranna á milli mánuðum saman án þess að greiða sjálfum sér kaup og keyptu notuð húsgögn í Sölunefnd varnarliðseigna,[6] sem seldi gömul húsgögn úr herstöð Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. Einn af þeim sem áttu aðild að nýsköpunarfyrirtækjum á þessum tíma lýsir ástandinu eins og hálfgerðu gullgrafaraæði.[7] Þetta ástand varði fram til ársins 2001 er netbólan hjaðnaði.
Nýsköpunarfyrirtækin og umhverfi þeirra 1995–2004
Nýsköpunar- eða sprotafyrirtæki urðu mjög áberandi í umræðunni í íslensku atvinnulífi á tíunda áratugnum, ekki síst í hugbúnaðargerð. Í netbólunni svokölluðu á árunum 1995–2000 komu þau mjög við sögu. Ýmsir sjóðir urðu til, sem lánuðu til hugbúnaðargerðar, svo sem Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn. Þeir styrktu nýsköpun og rannsóknarverkefni á vegum háskóla. Ekki voru allir sáttir við það hvernig sumir þessara sjóða störfuðu. Gagnrýnt var að stjórnmálamenn töluðu meira um að hygla sprotum en efnt væri. Stofnendur sprotafyrirtækja töldu sumir að styrkirnir væru fráteknir fyrir fólk í rannsóknum hjá ríkinu og ef það fengi ekki styrkina yrði það atvinnulaust.[8]
Nýsköpunarfyrirtækjum fjölgaði mjög á þessu tímabili og fjármögnun þeirra varð fjölbreyttari en fyrr. Sumir sóttu sér fjármagn út fyrir landsteinana. Ýmis hugbúnaðarfyrirtæki tengdust inn í þá flóknu fléttu eignaskipta, uppkaupa, uppskipta og sameiningar sem varð á tölvu- og upplýsingatæknimarkaðnum. Um sprotafyrirtæki á nýrri öld er fjallað nánar í öðrum kafla.
Ný forritunarmál breiðast út í íslenskri hugbúnaðargerð
Í stað eldri forritunarmála urðu forritunarmálin C og C++ vinsæl á tíunda áratugnum og skömmu fyrir árið 2000 kom Java til sögunnar og varð útbreitt. Önnur forritunarmál, svo sem Delphi, héldu áfram að njóta vinsælda.
Eftir aldamót varð PHP ríkjandi vefforritunarmál um hríð. Samhliða þessari þróun sótti .NET í sig veðrið. Kostur þess var að unnt var að fá tiltölulega óvant ungt fólk, rétt sloppið úr skóla, til að ná tökum á forritun í .NET undir góðri handleiðslu.[9] Sprotafyrirtækin héldu sig, með undantekningum, mest við þessi forritunarmál. Fróðlegt er að skoða vangaveltur um hugbúnaðargerð á netinu í kjölfar ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins um vefinn og framtíð hans árið 1996. Velt var upp þeirri spurningu hvort forritarar yrðu óþarfir og hönnuðir tækju við. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Kjarnorku ehf., taldi það óþarfa ótta og spurningu um eðlilega verkaskiptingu.[10] Sum fyrirtæki, eins og OZ, væru að forrita fyrir netið en aðrir, eins og Menn og mýs, notuðu netið til að kynna það sem þeir væru að gera, í þeirra tilviki nafnamiðlara fyrir Macintosh.[11] Fyrst og fremst þyrftu menn þó að tileinka sér nýjan hugsunarhátt með tilkomu vefsins:
Skilin milli tækni og innihalds verða sífellt óljósari og eins er það ljóst að útlit skiptir orðið miklu meira máli en áður. Þeir dagar eru liðnir að menn komist upp með DOS-skeljarútlit.[12]
Forritun fyrir stærri aðila, svo sem Microsoft og íslenska samstarfsaðila þeirra, var í fastari skorðum og tók minni breytingum á þessu tímabili en hins vegar óx umfangið í þróun og sölu viðskiptahugbúnaðar verulega.
Vöxtur í gerð og sölu viðskiptahugbúnaðar
Gerð viðskiptahugbúnaðar fyrir einkatölvur hélt áfram af auknum krafti eftir 1995 en með ákveðnum breytingum. Áfram var boðið upp á íslenskan hugbúnað, bæði sérhannaðan fyrir þarfir stórra fyrirtækja en einnig ögn staðlaðri búnað. Þróun og aðlögun fór bæði fram innan stærri fyrirtækja og stofnana og einnig hjá aðilum sem sérhæfðu sig í hugbúnaði jafnt sem vélbúnaði. Þeir tímar voru að mestu liðnir að hugbúnaður væri háður þeim vélbúnaði, sem hann keyrði á, nema sá allra elsti.
Margir buðu upp á íslenskan viðskiptahugbúnað, meðal annars miðtölvur. Kerfi hf. var til dæmis stórt á þeim markaði með viðskiptahugbúnaðinn Alvís fyrir AS/400[13] og á sama markaði voru AKS, Birki, Lind, Frum/Miðverk og Tölvubankinn.
Miðtölvurnar tóku hröðum breytingum eins og sjá má á myndrænu yfirliti sem Sigurður Bergsveinsson gerði yfir IBM-miðtölvur í tilefni fjörutíu ára afmælis Ský árið 2008:
Miðtölvurnar fengu samkeppni í viðskiptalausnum fyrir einkatölvur og hlutdeild þeirra á markaðnum minnkaði. Lausnir fyrir einkatölvur náðu fótfestu sem fullgildur viðskiptahugbúnaður og hér er yfirlit yfir nokkrar þeirra:
- Bústjóri – Fjölnir – Navision – alhliða viðskipta- og upplýsingakerfi
- Stólpi – birgða- og fjárhagskerfi
- Ópus – (1990: Ópus – Allt) – alhliða viðskiptahugbúnaður
- Allt hugbúnaður (1990: Ópus – Allt) – alhliða viðskiptahugbúnaður
- Concorde – upplýsingakerfi, heldur utan um pantanir, sölu, birgðir og verkstýringu
- TOK – bókhalds- og viðskiptahugbúnaður
- Hugtak – lausnir fyrir sjávarútveg
- H-laun – launakerfi
- BÁR – bókhalds- og áætlanakerfi sem ríkið notaði
- GoPro – málastjórnun, skjalastjórnun og upplýsingastjórnun
Mestallur viðskiptahugbúnaður var enn skrifaður á Íslandi.[14] Það átti þó eftir að breytast hratt. Farið var að bjóða upp á staðlaðan viðskiptahugbúnað sem náð hafði útbreiðslu erlendis og í sumum tilvikum að aðlaga hann þörfum íslenska markaðarins. Það tók langan tíma og íslenskur viðskiptahugbúnaður hafði lengi vel í fullu tré við innfluttu lausnirnar. [15]
En hér á landi sem annars staðar urðu erlendar lausnir í íslenskri aðlögun á endanum ofan á.
Navision – átök um verðmæta vöru
Navision var fyrsti erlendi, staðlaði viðskiptahugbúnaðurinn sem kom á íslenska markaðinn. Upphaflega kom IBM með Navision til Íslands, en Strengur, samstarfsaðili IBM, tók að sér að fóstra íslensku útgáfuna,[16] sem hét Bústjóri. Strengur var fyrsta fyrirtækið hér á landi til að taka að sér umboð fyrir þennan viðskiptahugbúnað, upphaflega eingöngu til að íslenska hugbúnaðinn.[17] Fyrstu Navision-útgáfurnar á Íslandi voru undir íslenskum nöfnum, svo sem Bústjóri og Fjölnir. Mikil átök urðu um Navision á Íslandi á þessum upphafsárum og þar voru helstu keppinautarnir IBM/Nýherji, Strengur, Landsteinar, Tæknival, Navís og ýmsir fleiri. Stofnun Landsteina og Navís út frá Streng má rekja til Navision-hugbúnaðarins.[18]
Fram að því hafði viðskiptahugbúnaður hér á landi yfirleitt verið íslenskur og byggður að stórum hluta á ýmsum sérlausnum. Framan af hafði Strengur heildsölu og smásölu á Navision á sömu hendi. Síðar var hins vegar stofnað sérstakt fyrirtæki, Navision Software Ísland, sem tók við heildsölunni, en Strengur hélt smásölunni. Bæði fyrirtækin Landsteinar og Navís voru stofnuð til að annast uppsetningu á Navision hugbúnaði og ráðgjöf í tengslum við hann.[19]
Í fréttum 10. febrúar 1996 kemur fram að Tæknival hafi ásamt Landsteinum og nokkrum fyrrum starfsmönnum Strengs hf. stofnað nýtt fyrirtæki hér á landi, sem hyggist selja og þjónusta viðskiptahugbúnaðinn Fjölni og Navision financial, danska hugbúnaðinn sem Fjölnir byggði á. Þetta var Navís og átti Tæknival helming í fyrirtækinu á móti Landsteinum og starfsmönnum, sem áttu svipaðan hlut hvor um sig. Í frétt Morgunblaðsins segir:
Að sögn Þorsteins Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Navís, sjá menn ýmsa möguleika í markaðssetningu og sölu þessa hugbúnaðar hér á landi, m.a. vegna samstarfsins við Tæknival. Hann segir að gert sé ráð fyrir því að hið nýja fyrirtæki hefji starfsemi í apríl, en enn eigi þó eftir að ganga frá samningum við Streng varðandi leyfi til að selja Fjölni.
Landsteinar hafa á undanförnum árum lagt áherslu á markaðssetningu og sölu á Navision hugbúnaðinum erlendis og hefur fyrirtækið meðal annars sett á fót dótturfyrirtæki í Bretlandi til að sjá um sölu búnaðarins þar. Fram til þessa hefur það hins vegar ekki selt Fjölni hér á landi. …
Strengur er eini dreifingar- og þróunaraðili Fjölnis-hugbúnaðarins hér á landi, en auk Strengs selja nokkur fyrirtæki hugbúnaðinn. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun þó vera þrýst á um að breyting verði gerð á þessu fyrirkomulagi. Bent er á að erlendis sé skipulag þessara mála með talsvert öðrum hætti hvað sölu og dreifingu á þessum hugbúnaðarkerfum varðar. Þar komi sá aðili sem sjái um þróun og dreifingu hugbúnaðarins hvergi nálægt sölu hans til endanlegra notenda.
Haukur Garðarsson, framkvæmdastjóri Strengs, segir að sér sé kunnugt um hið nýja fyrirtæki en hann reiknar ekki með því að tilkoma þess á markaðinn muni hafa veruleg áhrif á starfsemi Strengs. „Við erum með dreifingarréttinn í dag samkvæmt samningum okkar við framleiðanda hugbúnaðarins, ásamt því að vera með nokkra söluaðila á okkar snærum. Þetta fyrirtæki kemur því væntanlega aðeins til með að verða einn söluaðili til viðbótar, ef samningar takast milli Strengs og þessara aðila.“
Haukur segir að Strengur hafi unnið að sölu og markaðssetningu Fjölnis frá árinu 1989. Þetta markaðsstarf hafi gengið mjög vel og sennilega sé Fjölnir nú einn mest seldi viðskiptahugbúnaður hér á landi. „Þegar vel gengur þá er mjög algengt að fleiri vilji njóta uppskerunnar og því eðlilegt að nýir aðilar reyni komast þarna inn sem söluaðilar,“ segir Haukur.[20]
Síðar sameinuðust fyrirtækin Landsteinar og Strengur. Navision-hugbúnaðurinn var áfram þróaður og var auglýstur í nokkur ár undir nafni LS Retail, en söluaðilinn var Landsteinar-Strengur. LS Retail fékk eigin framkvæmdastjóra árið 2007.[21] Haustið 2009 var í undirbúningi sameining SKÝRR, Landsteina-Strengs og fleiri fyrirtækja, sem nú eru innan Advania. Microsoft Dynamics-hlutinn, Navision og AX voru þá alfarið undir hatti LS Retail en í nánu samstarfi við Landsteina-Streng fram undir sameininguna.[22] Fyrirtækið gerði þó í eigin nafni stóran samning við Microsoft um sölu á AX-hluta hugbúnaðarins haustið 2009. Á þessu tímabili uppskipta og eftirmála hrunsins voru tengslin milli fyrirtækjanna rofin en hlutabréf LS Retail fluttust frá Baugi til Straums.[23] Kögun varð einnig söluaðili fyrir Navision á Íslandi.[24]
Concorde XAL – gerði það sem ekki var áður hægt
Viðskiptahugbúnaðurinn Concorde kom á markað snemma á tíunda áratugnum, fyrst á vegum Hugar hf. sem Gunnar Ingimundarson stofnaði ásamt fleirum. Concorde var „staðlaður, erlendur viðskiptahugbúnaður, sem var aðlögunarhæfur, þannig að maður gat samt sem áður forritað sérlausnirnar í honum“.[25] Mismunur var milli hinna ýmsu gerða viðskiptahugbúnaðar. Styrkur Concorde var einkum á sviði framleiðslu- og birgðastýringar og hafði Concorde þar ákveðna sérstöðu.[26] Notkun hugbúnaðarins snerist ekki eingöngu um að tölvuvæða það sem áður hafði þurft að vinna í höndunum. Hann var líka verkfæri til að gera það sem ekki hafði verið hægt áður, ekki unnt að vinna handvirkt og því einfaldlega ekki verið gert.[27]
Þrjú íslensk fyrirtæki hófu samstarf um að koma Concorde á markað hérlendis árið 1993. Í Morgunblaðinu 10. ágúst það ár segir svo frá þessi samstarfi:
FYRIRTÆKIN Hugur, HP á Íslandi og Tæknival hafa hafið með sér samstarf um markaðssetningu á Concorde XAL viðskiptahugbúnaði frá danska fyrirtækinu Damgaard Data. Með þessum hugbúnaði er unnt að bjóða fyrirtækjum af öllum stærðum heildarlausn í tölvuvæðingu með ýmsum eiginleikum sem fram til þessa hefur verið að finna í mun stærri og dýrari hugbúnaðarkerfum, að sögn Gunnars Ingimundarsonar, framkvæmdastjóra Hugar. […] Þegar hafa á fjórða tug fyrirtækja keypt þennan hugbúnað frá því hann var fyrst í boði um mitt sl. ár.
Concorde XAL er staðlaður viðskiptahugbúnaður sem nær yfir öll svið í rekstri fyrirtækja, bæði fjármálaleg verkefni og framleiðslu- og verkbókhald. Hugbúnaðurinn er þannig úr garði gerður að hann má aðlaga að þörfum hvers fyrirtækis og auðvelt er að bæta við verkefnum. Með honum er hægt að vinna á nánast öllum stýrikerfum og tölvum þ.m.t. einmenningstölvum og nærnetum en einnig á tölvum sem nota Unix stýrikerfið. Meðal núverandi notenda eru P. Samúelsson, Prentsmiðjan Oddi, Nói-Síríus, Íslenska útvarpsfélagið og Tölvusamskipti.
Frosti Bergsson, framkvæmdastjóri HP á Íslandi, segir að hér á landi hafi vantað úrval nútímalegs viðskiptahugbúnaðar sem nýti til fullnustu þann vélbúnað sem Hewlett Packard hafi í boði og skapi fyrirtækinu ákveðna sérstöðu. Þar sé fyrst og fremst átt við hugbúnað sem vinni í svokölluðu biðlara/miðlara umhverfi með Unix stýrikerfi. Fyrst nú bjóðist fyrirtækjum raunhæfur valkostur við hefðbundnar millitölvur. [28]
Margir notendur eldri viðskiptahugbúnaðar færðu sig yfir í staðlaðar lausnir og fengu tilboð um þjálfun og aðlögun þegar þær eldri, íslensku, voru að fjara út á markaðnum. Dæmi um það var að Þróun hf. gerði viðskiptavinum sínum þetta tilboð: „Þróun býður öllum CONCORDE notendum námskeið í notkun kerfisins. Nú þegar hafa nokkrir viðskiptavinir skipt frá BIRKI yfir í CONCORDE.“[29]
Sameining með útrás í huga
Nokkur fyrirtæki sameinuðust árið 2000 og lögðu saman krafta sína, meðal annars með útrás í huga. Sum þeirra höfðu áður komið við sögu viðskiptahugbúnaðar, sameiningar fyrirtækja og útrásar. Í hlut áttu fjögur íslensk fyrirtæki og tvö dönsk. Þetta voru:
- Þróun hf., sem var eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins á þessum tíma, stofnað árið 1976. Það hafði allt frá upphafi unnið á sviði viðskiptahugbúnaðar, við ráðgjöf, hugbúnaðarþróun og þjónustu við viðskiptavini sína. Þegar hér var komið vann fyrirtækið í tveimur deildum, annars vegar í deild sem kennd er við viðskiptalausnirnar Axapta, Birki og Concorde og hins vegar í sérverkefnadeild. Þá var fyrirtækið farið að huga að þróun lausna fyrir viðskipti á netinu (e-business).
- Þekking – upplýsingatækni, sem var þá ársgamalt fyrirtæki en byggt á grunni upplýsingadeildar KEA.
- Tristan ehf., sem var fjögurra ára um árþúsundamótin. Fyrirtækið hafði haslað sér völl á sviði þjónustu víðneta og fjarskiptakerfa en einnig boðið upp á ráðgjöf og lausnir á sviði intra- og internetmála, vefverslana, margmiðlunar, e-business-lausna og hýsingar.
- Hugvit hf., sem var sjö ára gamalt fyrirtæki. Það var orðið eitt af stærstu fyrirtækjunum á sviði hópvinnulausna í Evrópu. Fyrirtækið þróaði og dreifði stöðluðum hugbúnaði sem sniðinn var að þörfum notanda. GoPro, stöðluð hugbúnaðarlausn, skjalavörslukerfi með upplýsingum sem safnað var í einn gagnagrunn, var aðalvara fyrirtækisins, en það bauð einnig upp á staðlaðar veflausnir og fleira af því tagi.
- Dönsku fyrirtækin voru F8-Data og SCIO A/S, sem einnig var með GoPro. [30]
GoPro
Ríkið og Reykjavíkurborg voru stærstu aðilarnir sem notuðu GoPro-skjalavistunarkerfið frá Hugviti, en það náði mestri útbreiðslu á árunum 1995–2000. Menntamálaráðuneytið hóf reyndar að skrá mál hjá sér rafrænt árið 1994 og saman mynduðu GoPro-kerfi ráðuneytanna kerfi sem nefnt er Málaskrá ráðuneytanna. Í Morgunblaðinu í september 1997 er fjallað um notkun ríkisins á GoPro:
HUGVIT HF. var stofnað árið 1993 og eru helstu eigendur Eignarhaldsfélag Alþýðubankans, Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn, Ólafur Daðason og fjölskylda ásamt fleiri einstaklingum og fyrirtækjum. Strax í upphafi var lögð áhersla á þróun hugbúnaðar undir Lotus Notes sem hentaði að mati aðstandenda best fyrir þau hópvinnukerfi sem þróa átti.
Á upphafsárum Hugvits var ráðist í verkefni með nokkrum ráðuneytum varðandi tölvuvæðingu og skráningu erinda sem þeim berst. Það kerfi kallast Málaskrá ráðuneytanna og eru öll erindi skráð inn í málaskrána og haldið utan um feril málanna ásamt þeim skjölum sem tengjast þeim.
Málaskráin varð síðan grunnur af skjala-, verkefna- og samskiptabrunni sem heitir GoPro. GoPro er nú í notkun hjá fjöldanum öllum af íslenskum fyrirtækjum og er að hasla sér völl á erlendri grundu.[31]
Útrásin, sem boðuð var, skilaði sér í nokkrum tækifærum erlendis. Meðal annars var skrifað undir viljayfirlýsingu við bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft í október 2003 um þróun á GoPro Professional fyrir .NET og samstarfið við Microsoft varð áframhaldandi. En í fyrrgreindri umfjöllun Morgunblaðsins um GoPro segir Agnar M. Jónsson frá Hugviti:
Það er ekki líklegt að íslensk fyrirtæki nái að keppa við erlenda risa á borð við Microsoft, Oracle, IBM. Það er mun vænlegri leið til árangurs að finna vannýttan markaðskima og koma með lausn þar á undan öðrum og nota síðan forskotið til markaðssetningar erlendis. Til þess getur verið nauðsynlegt að leita til samstarfs við fyrirtæki sem þekkja betur til aðstæðna á mörkuðunum og hafa bolmagn til að ná árangri. Við höfum alist upp í sköpunarríku þjóðfélagi með sterka menningararfleið og það nýtist okkur í hugbúnaðarsmíðinni.
Agnar segir að starfsmenn Hugvits hafi snemma áttað sig á tækifærum netsins.
Þau tækifæri felast einkum og sér í lagi í þeim ógöngum sem fyrirtæki hafa lent í við viðhald á heimasíðum sínum. Starfsmenn fyrirtækja hafa þurft að reiða sig á tæknimenn með HTML-kunnáttu til að birta efni á vefnum. Þetta hefur orðið til þess að vefir fyrirtækja hafa úrelst og þeir þar af leiðandi ekki orðið sá vettvangur sem menn vonuðust eftir. Þegar fyrirtæki hefur áttað sig á þessari stöðu hefur tvennt verið til ráða, annars vegar að loka vefnum eða að uppfæra og viðhalda honum með tilheyrandi kostnaði án nokkurrar tryggingar um að vefurinn verði í sama fari að nokkrum tíma liðnum.[32]
Þær gömlu ekki dauðar úr öllum æðum
Þótt fókusinn í viðskiptahugbúnaði færðist yfir á PC-tölvurnar héldu sumar lausnirnar sem keyrðu á miðtölvum eftir sem áður velli lengi og má þar sem dæmi nefna Alvís. Ýmsar tilraunir voru gerðar til að aðlaga hann einnig Windows-umhverfinu, meðal annars með því að skrifa skel ofan á hinn eiginlega hugbúnað. En nýir viðskiptavinir bættust ekki við, heldur leituðu annarra lausna. Þrátt fyrir það hélt þessi hugbúnaður áfram að vera til staðar hjá eldri viðskiptavinum.[33]
Fleira var í farvatninu sem náði síðar enn meiri útbreiðslu. Rafræn viðskipti voru að verða hluti af viðskiptalífinu og hugtakið viðskiptagreind skaut rótum á sama tíma.[34]
Fjölmargir þættir sem tengdust upplýsingatæknisamfélaginu urðu til að gerbreyta lífi almennings á tíunda áratugnum. Fólkið sem uppgötvaði einkatölvuna á næsta áratug á undan upplifði nú aðra og ekki síðri umbyltingu. Börnin sem komust á unglingsár upp úr árþúsundamótunum kynntust veröld sem var að mörgu leyti mjög ólík þeirri sem foreldrar þeirra ólust upp við.
Árið 1995 má með sanni segja að hafi verið tímamótaár í notkun tölvutækni á Íslandi líkt og víða annars staðar. Internetið hafði haldið innreið sína á nær öllum sviðum samfélagsins og var orðið almenningseign en ekki aðeins eign nokkurra „tölvufríka“ eins og tímaritið Frjáls verslun orðaði það í umfjöllun um netið það ár.[35] Í fyrsta tölublaði tímaritsins Tölvumála árið 1995 er fjallað um þessa þróun frá ýmsum hliðum og meðal annars byggt á efni frá ráðstefnu sem haldin var síðla árs 1994. Þessi ráðstefna reyndist að mörgu leyti gefa góða sýn á umfjöllun næstu ára. Og fleiri lögðu orð í belg.
Í áramótaávarpi Vigdísar Finnbogadóttur, forseta Íslands, í upphafi ársins 1995 fjallaði hún um þær samfélagsbreytingar, sem voru að verða, og sagði meðal annars:
Aldrei fyrr hefur tæknin sýnt okkur jafnmarga möguleika og um þessar mundir. Stundum er talað um þekkingarsprengju, sem orðið hafi á liðnum áratugum. Nú blasir við okkur ný sprenging í þekkingarmiðluninni. Á örskotsstundu komumst við í samband við upplýsingabanka um allan heim, getum leitað okkur fróðleiks frá fyrstu hendi, hvort sem við erum skólafólk á Kópaskeri eða í Króksfjarðarnesi eða starfsmenn í Reykjavík eða Raufarhöfn.[36]
Vigdís setti þróunina í alþjóðlegt samhengi og velti því fyrir sér hvaða hlut Íslendingar ætluðu sér í nýrri veröld upplýsingatækninnar:
Erlendir forystumenn á ýmsum sviðum hafa á undanförnum mánuðum fullyrt að það sem ráða muni úrslitum varðandi velgengni einstakra þjóða í harðnandi samkeppni á komandi árum verði menntun þeirra og þekking.[37]
Vitanlega velti fólk því fyrir sér hvers vegna þessi bylting hefði átt sér stað á einmitt þessum tímapunkti en ekki fyrr, því tæknin var til staðar og einnig sá grunnur sem internetið byggði á. Lengi hafði verið framboð á ýmiss konar þjónustu á netinu.[38] Engu að síður breyttist heimsmynd manna einmitt á þessu ári og upplýsingasamfélagið varð sýnilegra: „Fyrir ári síðan vissi enginn að það væri til eitthvað sem heitir Internet. En nú getur enginn án þess verið.“ Þetta fullyrðir Magnús Hauksson, ritstjóri tímaritsins Tölvumála, í ritstjórnarpistli sínum í ársbyrjun 1995.[39] Hann veltir fyrir sér skýringum og nefnir myndræn notendaskil og ódýrari búnað og gjald fyrir notkun. Nýir möguleikar netsins höfði líka til stærri hóps en áður.
Tenging í eina klukkustund á dag innifalin
Þrátt fyrir upphafna hrifningu margra sem um fjölluðu var notkun netsins, einkum veraldarvefsins, á byrjunarreit. Hvernig skyldi veruleiki þeirra sem notuðu internetið árið 1995 hafa verið? Býsna ólíkur því sem hann varð áratug síðar og enn ólíkari nútímanum, 2018, þegar stór og smá tæki eru sítengd við netið.[40]
Mikið var fjallað um netið. Tímaritið Frjáls verslun gaf lesendum sínum góð ráð um búnað og hvernig nýta mætti internetið og veraldarvefinn. „Það þarf aðgang að einkatölvu, mótald og sérstakt forrit. Mælt er með mótaldi sem er a.m.k. 14.400 bita en slík mótöld má fá fyrir minna en 20 þúsund krónur. Öflugri mótöld, 28.800 bita eru komin á markað en töluvert dýrarin en hin.“ Þá er fjallað um hvaða búnað þurfi til að geta til dæmis náð í „lifandi myndir“ eða tónlist. Ráðlegt sé að hafa hljóðkort í tölvunni og gott skjákort, sem tryggir góða myndupplausn. Veraldarvefinn þarf að skoða gegnum vafra og bent er á að forritið Mosaic hafi um nokkurt skeið tryggt myndrænt notendaviðmót á internetinu en Netscape hafi leyst það af hólmi.[41] Notendur netsins gera þó ýmislegt fleira en að vafra á veraldarvefnum, skoða myndir og spila tónlist. Tölvupósturinn er þar í efsta sæti en einnig upplýsingaöflun og viðskipti á netinu. Hvort sem menn eigi erindi í gagnabanka eða vilji sækja sér nýjustu fréttir eða upplýsingar um gengi gjaldmiðla, stunda bókakaup eða hestaviðskipti, allt sé þetta mögulegt á internetinu.[42]
Þegar hér var komið sögu, 1995, höfðu um 5–6 þúsund manns á Íslandi aðgang að internetinu og þar af voru um 3000 þeirra virkir. Tíu árum fyrr voru þeir aðeins tíu talsins.[43]
Einn af ráðandi aðilum á internetmarkaðnum á Íslandi var á þessum tíma fyrirtækið Miðheimar. Um 300 fyrirtæki voru tengd internetinu á vegum fyrirtækisins og nokkur þúsund einstaklingar. Í mánaðargjaldinu var falin tenging í eina klukkustund á dag að hámarki og væri hún ekki notuð féll hún „dauð“ niður en safnaðist ekki upp til næsta dags.[44] Skráðar internetheimsóknir á viku voru þá um 90 þúsund en þess er getið að daglega bætist við nýir internetnotendur.[45]
Níu aðilar veittu internetþjónustu um þessar mundir:
- Skíma hf.
- Miðheimar hf.
- Menn og mýs hf.
- Nýherji hf.
- Margmiðlun hf.
- Netherjar hf.
- Strengur
- Íslenska menntanetið
- SURÍS. Samtök upplýsinganetsrannsókna sem sagt er að sjái um tengingar við netið en þjónusti ekki einstaklinga eða fyrirtæki.[46]
Internetið – villta vestrið breytist í nútímalega stórborg
Þótt kostir internetsins og möguleikar hafi verið áberandi 1995 gætti einnig ótta og fordóma. Í Morgunblaðinu í desember það ár er sagt að umfjöllun um alnetið[47] hafi yfirleitt byggst á óttalegum sögum um að þar sé allt vaðandi í klámi og viðurstyggð. Tilefni umfjöllunarinnar er heimsókn norska alnetsfræðingsins Odd de Presno, sem var að kynna nýútkomna bók er þýdd hafði verið á íslensku, Netheima. Tvennt er áberandi, að koma þurfi böndum á netið og misvitrir spádómar um hvernig það muni þróast. Odd tekur dæmi af því hvernig gögn séu send yfir netið. Þau séu bútuð niður í pakka, sem fari ekki allir sömu leið á áfangastað. Lendi einhver þessara pakka á hindrun, til dæmis vegna stríðsátaka, þá sjái netið um að finna honum aðra leið án þess að því sé hægt að stýra. Þróun netsins og samfélaginu þar líkir hann við lítið þorp, sem óx hratt og þróaðist yfir í stjórnlaust umhverfi, sem helst líktist villta vestrinu. En það er mat Odd að það sé að verða líkara nútímalegri stórborg að vexti og skipulagi.[48]
Þegar spjaldtölvur urðu vinsælar rættust ýmsir fjarstæðukenndir spádómar. Enn frekar er farsímar urðu að þeim fjölnotatækjum sem þeir voru orðnir 2014. Aðdragandann má rekja furðu langt aftur. Mark Weiser (1952–1999) hjá Xerox Parc í Bandaríkjunum sá til dæmis slíkar breytingar fyrir sér um 1990. Hann hafði efalaust áhrif á það hvernig ýmis smátæki voru þróuð. Það tók þó tíma fyrir framtíðarsýn hans að verða að tækni í höndum almennings.
Um árþúsundamót spáðu ýmsir í framtíðina. Þær spár höfðu beint hagnýtt gildi: hvaða framleiðendur ætti að veðja á, hvaða tækjum ætti að hampa og hvers konar hugbúnað ætti að framleiða. Jafnvel einfaldir farsímar buðu upp á ýmsa möguleika. Fyrirtækið Maskína hannaði kerfi sem nýtti farsímatækni í auglýsinga- og markaðssetningarskyni á árunum 2001–2002. Þar á meðal voru vinsælir happdrættisleikir með kóða á vöruumbúðum sem mátti senda með textaskilaboðum (SMS) í von um vinning. Fjármagn til verkefnisins fékkst frá Íslenska hugbúnaðarsjóðnum og erlendum fjárfestum.[49]
... búist við risasprengju í samruna farsímanna og upplýsingatækninnar
Þegar GPRS-tæknin og þriðja kynslóð farsíma voru í sjónmáli spáðu ýmsir byltingu. Jóakim Reynisson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Tals, sem seinna rann inn í Vodafone, skrifar í Tölvumál árið 2000:
Það hefur mikið að segja hver þróunin verður í farsíma- og upplýsingatólum öllum. Sjáum við fyrir okkur eitt tæki sem getur allt eða mörg tæki sem hvert vinnur ákveðið verk, eða blöndu af þessu öllu? […] sum okkar vilja lítinn nettan síma til að tala í og annað tól til að halda utan um tölvupóst, skilaboð, skipulag og þess háttar. Enn aðrir vilja eitt allrahanda tæki fyrir alla notkun, til að tala í, skoða myndir, versla með og skemmta sér með. Allir þessir möguleikar munu skapa gríðarleg tækifæri fyrir alla sem að málum koma, neytendur sem og hönnuði og viðskiptaaðila því eins og fyrr sagði er hreinlega búist við risasprengju í samruna farsímanna og upplýsingatækninnar.[50]
Fyrstu tveir áratugirnir eftir komu fyrstu stórtölvunnar til Íslands voru ekki tímabil mikilla breytinga. Nokkrir aðilar báru höfuð og herðar yfir aðra á markaðinum. IBM hafði trygga stöðu á sviði vélbúnaðar, hugbúnaðargerð fyrir ríki og flestar opinberar stofnanir voru í höndum SKÝRR og fátt virtist ætla að breyta þessu. Fjölmörg teikn voru þó á lofti um breytingar og ýmsir stórir aðilar voru farnir að leita annarra lausna bæði í hugbúnaði og vélbúnaði. Peningar voru að komast inn í þessa atvinnugrein, bæði með tilkomu Íslenska hugbúnaðarsjóðsins og ýmissa einkaaðila en það var óséð áður.[51]
Tvennt varð óumdeilanlega til þess að flýta fyrir þeim stórfelldu breytingum sem í vændum voru:
- Tilkoma hlutafjármarkaðar
- Einkavæðing
Þetta tvennt varð jarðvegur mikilla breytinga á eignarhaldi stærstu fyrirtækjanna á Íslandi jafnt í vélbúnaði sem hugbúnaði. Sviptingar, átök og ótrúlegar leikfléttur minntu á stundum mest á viðskiptareyfara.
Kauphöllin var sett á laggirnar á Íslandi árið 1985, fyrst nefnd Verðbréfaþing Íslands. Fyrstu viðskiptin sem þar fóru fram voru með íslensk ríkisskuldabréf. Íslenskir bankar og Seðlabanki Íslands stóðu fyrir stofnun Kauphallar. Það var þó ekki fyrr en árið 1990 að viðskipti með hlutabréf hófust. Á þeim áratug sem í hönd fór varð virkur hlutafjármarkaður á Íslandi eitt af þeim öflum sem breyttu hag fyrirtækja á sviði tölvutækni, vélbúnaðar jafnt sem hugbúnaðar og einnig fyrirtækja sem byggðu á tölvu- og upplýsingatækni, svo sem Marels og Össurar. Þá hafði hlutafjármarkaðurinn veruleg áhrif á ýmis félög sem fjárfestu í tölvufyrirtækjum.
Grái markaðurinn
Hinn svokallaði „grái markaður“ var ekki síður áberandi í viðskiptum um hlutabréf. Hann var frábrugðinn Verðbréfaþingi Íslands / Kauphöll Íslands að því leyti að þar fóru fram viðskipti með hlutabréf í fyrirtækjum sem ekki voru skráð í Kauphöllinni og lutu ekki því regluverki sem þar var skylt að fara eftir. Á Íslandi var ekki hefð fyrir slíkum viðskiptum og því má segja að „reglur á þróuðum fjármagnsmörkuðum, þar sem fjárfestar njóta eðlilegrar verndar“[52] hafi ekki virkað sem skyldi.
Á fyrsta áratug hlutafjármarkaðar á Íslandi urðu ýmsar sviptingar og þar komu við sögu íslensk hugbúnaðarfyrirtæki. Sum voru skráð í Kauphöllinni á einhverjum tímapunkti. Verðgildi hlutabréfa sveiflaðist og hlutafjármarkaðurinn gaf færi á stórfelldum uppkaupum, eigendaskiptum og leikfléttum.[53] Í sumum tilvikum voru fyrirtæki síðan afskráð í kjölfar eigendaskipta. Það voru þó ekki alltaf þau hlutabréfaviðskipti sem fóru fram í Kauphöllinni sem mestar sviptingar voru í kringum. Viðskipti með hlutabréf voru oft ævintýraleg í meira lagi. Hin alþjóðlega netbóla þandist út en atburðarásin hafði jafnframt séríslensk einkenni.
Upplýsingatæknin í Kauphöllinni
Skráning upplýsingatæknifyrirtækja á Verðbréfaþingi og í Kauphöllinni var mikil innspýting í greinina. Þetta voru ár mikilla væntinga, bjartsýni og umsvifa. En lítum á almennt umhverfi kauphallarviðskipta á þessum árum og svo nánar á hlut upplýsingatækninnar. Í ársbyrjun 1999 mátti lesa í Morgunblaðinu mjög uppörvandi fréttir af Verðbréfaþinginu:
Mikil umskipti hafa orðið á umfjöllun og áhuga á hlutabréfaviðskiptum á Íslandi undanfarin ár. Á síðasta ári lagði um helmingur þjóðarinnar nafn sitt með einum eða öðrum hætti við kaup á hlutabréfum og þá ekki síst í útboði á bréfum ríkisins í fjármálastofnunum. […]
UMTALSVERÐ hlutabréfaviðskipti hafa átt sér stað á Verðbréfaþingi Íslands það sem af er árinu [1999]. Á mánudag var metdagur á þinginu er hlutabréfaviðskipti dagsins námu rúmum hálfum milljarði. Í desembermánuði 1998 var slegið nýtt mánaðarmet er viðskipti með hlutabréf námu 2,5 milljörðum. Á liðnu ári námu heildarviðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands 12,5 milljörðum króna sem samsvarar um 50 milljóna króna viðskiptum á dag. Heildarviðskipti með hlutabréf á þessu ári nema tæpum 1,1 milljarði […] Fjöldi félaga skráðra á Verðbréfaþingi Íslands hefur margfaldast á fáeinum árum.[54]
Það var ekki nóg með að hlutur fyrirtækja í upplýsingatækni væri að vaxa heldur voru fyrirtækin líka þau arðsömustu á þessum tíma. Albert Jónsson, forstöðumaður verðbréfamiðlunar Fjárvangs, sagði af því tilefni í þessari umfjöllun Morgunblaðsins:
Þau fyrirtæki sem skiluðu bestri arðsemi á síðasta ári voru fyrirtæki í upplýsingatækni s.s. Opin kerfi og Nýherji. Þessi tvö fyrirtæki eru lykilaðilar á íslenskum tölvumarkaði en net þeirra í öðrum fyrirtækjum s.s. SKÝRR, Tæknivali ofl. mun væntanlega skila þeim aukinni arðsemi vegna yfirburðaþekkingar þeirra á íslenskum tölvumarkaði. Mikil tækifæri eru í upplýsingatækni á næstu misserum og því ljóst að fjárfestar munu gera miklar kröfur um að forystufyrirtæki á þessu sviði muni grípa þau tækifæri sem gefast á markaðinum á þessu ári og þar mun ekki vega minnst hið svokallaða 2000-vandamál.[55]
Í janúar 1999 litu nýjar vísitölur dagsins ljós. Þá var skráning fyrirtækja í Kauphöllinni (þá Verðbréfaþingi Íslands) orðin svo umfangsmikil að nauðsynlegt var að setja á laggirnar nýjar vísitölur fyrir ákveðnar atvinnugreinar, svo sem upplýsingatækni. Eftirtalin fyrirtæki mynduðu þá vísitölu:
- Nýherji
- Opin kerfi
- SKÝRR
- Tæknival[56]
Eftir árþúsundamótin dró úr skráningum í Kauphöllinni.
Í grein um íslenskan hlutafjármarkað nokkrum árum síðar sagði: „Upplýsingatæknigreinin hækkaði mest allra greina, en miklar væntingar eru um vöxt greinarinnar auk þess sem arðsemi hennar var í heild ágæt.“ Þetta sást vel á grafi sem fylgdi greininni.[57]
En hvaða áhrif hafði þessi þróun á fyrirtækin í upplýsingatækni? Enginn vafi er á því að þarna var kominn farvegur fyrir fjármagn til fyrirtækjanna, mat á verðmæti þeirra og mælistika fyrir þær væntingar, sem gerðar voru til þeirra. Það sem gerðist fór fram, að hluta til í það minnsta, fyrir opnum tjöldum og með aðgengi allra þeirra sem áttu fjármagn til að leggja í púkkið, vildu losa fé og fundu hlutabréf við hæfi til að kaupa og selja.
Það taldist til tíðinda þegar fyrirtæki sem voru að drjúgum hluta í eigu sjóða á hlutafjármarkaði sameinuðust eða skiptust upp eins og frétt á vef Kauphallarinnar snemma árs 2000 ber með sér:
Eignarhald hefur verið sameinað á nokkrum af stærstu upplýsingatækni-fyrirtækjum landsins og tveimur dönskum hugbúnaðarfyrirtækjum. Fyrirtækin eru Hugvit hf., SCIO A/S, Þróun hf., Þekking hf. og Tristan ehf. […]
Þá hefur Hugvit hf gengið frá kaupum á rekstri danska upplýsingatæknifyrirtækisins F8-Data og verður fyrirtækið sameinað rekstri SCIO AS.
Þessi nýja sameinaða eining verður ein sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum með um 280 starfsmenn á sínum snærum og vel á annan milljarð í veltu. Á þessu ári er gert ráð fyrir að erlendar tekjur verði um 700-800 milljónir. […]
Þrátt fyrir áherslu á hinn víðari sjóndeildarhring erlendis verður mikil og þung áhersla lögð á þjónustu við innlenda notendur hvar sem þeir eru á landinu. Sérstök áhersla verður lögð á uppbyggingu á Akureyri. [58]
Síðasta línan í fréttinni er án efa tengd því að eitt þessara fyrirtækja, Þekking hf., var sprottið af rótum tölvudeildar KEA á Akureyri.
Saga tveggja áhugaverðra hugbúnaðarfyrirtækja, sem miklar væntingar voru bundnar við en enduðu sem vonbrigði, að minnsta kosti fyrir fjárfesta, lýsir vel andrúmsloftinu sem skapaðist um og kringum árþúsundamótin þegar bjartsýni var ríkjandi og netbólan ekki sprungin.
Softis – auglýsingin sem olli usla
Saga Softis er þekkt dæmi, en síður en svo það eina, um ævintýralega hækkun hlutabréfa í hugbúnaðarfyrirtæki þar sem byggt var á væntingum. Þegar litið var á þessa atburðarás í baksýnisspegli meira en hálfum öðrum áratug síðar var henni lýst á þennan veg:
Þau hlutabréfaviðskipti sem þó vöktu mesta athygli á árinu 1993 voru verðhækkanir hlutabréfa Softis hf. Softis vann við þróun á tölvuforriti sem nefndist Louis en því var spáð að það væri aðeins tímaspursmál hvenær samningar næðust við bandarísk stórfyrirtæki um kaup á hugbúnaðinum. Í kjölfarið myndaðist mikill spenningur í kringum Softis og segja má að í bréfum félagsins hafi í fyrsta sinn komið fram raunveruleg merki blöðrumyndunar á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Þann 9. mars voru viðskipti með bréf Softis á genginu níu á gráa markaðnum en þremur dögum síðar var gengi bréfanna komið í 25 og þann 28. apríl var gengið komið í 32. Að vísu voru mjög lágar upphæðir að baki þessum viðskiptum en stöðugur fréttaflutningur af Softis og þessum verðhækkunum á hlutabréfum fyrirtækisins greip ímyndunarafl almennings og jók áhuga og forvitni á hlutabréfamarkaðnum. Softis, sem hafði ekki enn gert neina sölusamninga, hugðist nýta sér þessa athygli til þess að afla sér nýs starfsfjár. Softis tók því út heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu 30. apríl 1993 til að auglýsa bréf félagsins þar sem því var lofað að félagið væri á „lokasprettinum að semja við ýmis erlend stórfyrirtæki“ ― og bauð almenningi að kaupa bréf í félaginu. Auglýsingin tók fram að gengi bréfanna hækkaði ört:
„Hlutabréfin í Softis hafa verið að hækka jafnt og þétt. Reikna má með því að fjárfesting í hlutabréfum Softis skili betri arði en gengur og gerist. Það er því einstakt tækifæri sem þér býðst núna. Athugið! Mjög takmarkað magn bréfa er til sölu.“[59]
Þessi auglýsing sætti gagnrýni og var ekki birt aftur.
Í viðskiptahluta Morgunblaðsins þann 6. maí 1993 segir: „SOFTIS HF. er það fyrirtæki sem mesta athygli hefur vakið á hlutabréfamarkaði undanfarna mánuði og viðskiptagengi hlutabréfa í fyrirtækinu hefur verið það hæsta sem sést hefur á Opna tilboðsmarkaðnum og Verðbréfaþingi Íslands.“[60] Þótt í greininni sjálfri, sem fylgir þessum upphafsorðum, megi sjá ýmsa fyrirvara og fram sé tekið að ekkert sé fast í hendi enn, þá er ljóst að menn voru afskaplega bjartsýnir á gengi fyrirtækisins.
Sama dag mátti hins vegar lesa í fréttahluta Morgunblaðsins að Bankaeftirlitið væri að kanna hlutabréfasölu í Softis í kjölfar fyrrnefndrar auglýsingar.[61] Næstu dagana er umfjöllun fjölmiðla af ýmsum toga en niðurstaðan var sú að sala hluta af hlutabréfunum var dregin til baka.[62] Áfram var fyrirtækið þó til umfjöllunar í blöðunum næstu mánuði og ár eins og sjá má á yfirliti í skýrslu Gylfa Magnússonar, Íslenskir fjölmiðlar og netbólan, sem út kom á vegum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í desember 2008. Þar var einnig horft í baksýnisspegilinn. Í hnotskurn er þessu ferli lýst í upphafs- og lokakafla viðauka A í netbólu-skýrslunni, en þar segir: „Fyrstu fréttir af Softis í Morgunblaðinu eru frá upphafi 10. áratugarins. Þær eru allar mjög jákvæðar.“ Undir lok kaflans kemur hins vegar fram að „9. maí 1996 má lesa í Morgunblaðinu að tekjur fyrirtækisins árið áður hafi verið óverulegar eða innan við ein milljón króna. […] 1999 má sjá að gengi bréfanna er komið í um 1,5. […] fyrirtækið skiptir um nafn, eigendur og áherslur 2003 og heitir nú OpenHand.“[63]
Hlutabréfakaup hættu síður en svo að freista fólks. Umræðan í samfélaginu og stjórnvaldsaðgerðir, einkum skattaafsláttur sem veittur var vegna hlutabréfakaupa árin 1999 og 2000[64], gerðu það einnig að verkum að mikið líf var í þeim markaði.
Áhuga Íslendinga á hlutabréfum á þessum tíma má einnig sjá með því að skoða tölur um viðskipti með hlutabréf í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands. Veltan nær sextánfaldaðist á tveimur árum, frá 1998 til 2000, fór úr 12,7 milljörðum króna í 198,9 milljarða. Árið 2001 dróst hún tímabundið saman aftur, í 138,3 milljarða, en síðan tók hún að vaxa á ný.[65]
OZ – markaðssetningarmálin
Á margan hátt var saga OZ í eðli sínu keimlík sögu Softis og sett undir sama hatt í Viðauka 5 við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.[66] OZ vakti þó ef eitthvað var mun meiri áhuga fjölmiðla og vel gekk að markaðssetja ímynd fyrirtækisins. OZ bauð upp á margs konar nýjungar í margmiðlun og hugbúnaðarlausnum sem minna á samskiptamiðla nútímans og var á þann hátt ákveðinn brautryðjandi, en kannski of snemma. Mikið var lagt upp úr því að verið væri að feta nýstárlegar slóðir og tókst að skapa ákveðna stemningu kringum fyrirtækið. Saga OZ er stundum nefnd í sömu andrá og deCODE, enda voru bæði fyrirtækin áberandi í íslensku þjóðlífi á svipuðu árabili. Sögu OZ eru gerð frekari skil annars staðar í þessu riti.
Fjárfestingarsjóðir voru ekki allir eins, og í grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins 21. febrúar 1998 eru dregin fram mismunandi einkenni þeirra:
[…] þátttaka Nýsköpunarsjóðs í fjárfestingarverkefnum er ekki hefðbundin stofnlánastarfsemi. Sjóðurinn beinir sjónum sínum fyrst og fremst að áhættumeiri fjárfestingarverkefnum á fyrstu stigum vaxtar, þ.e. á þeim stigum þar sem hefðbundinn áhættufjármagnssjóður starfar ekki. Honum er því ekki ætlað að keppa við aðra fjárfesta, sem nú þegar hafa á farsælan hátt markað sér veigamikið hlutverk á síðari stigum áhættufjárfestinga, eins og t.d. Aflvaki, Þróunarfélagið, Burðarás og Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hafa svo ágætlega gert.[67]
Einkavæðing
Einkavæðing SKÝRR
SKÝRR hafði lengi vel yfirburðastöðu hvað varðaði hugbúnað fyrir opinbera geirann á Íslandi. Það var þó farið að kvarnast aðeins úr þessari sterku stöðu SKÝRR þegar fyrirtækið var einkavætt. Einkavæðing SKÝRR hafði mikil áhrif á hugbúnaðarmarkaðinn á tíunda áratugnum. SKÝRR var gert að hlutafélagi í september 1995 og fékk þá nafnið SKÝRR hf. Hlutafélagið var í fyrstu í eigu sömu aðila, ríkisins og Reykjavíkurborgar, en ári síðar ákváðu þeir að selja meirihlutann í fyrirtækinu, 51%. Salan tók sinn tíma og lauk með því að Opin kerfi hf. keyptu hlutinn í maí 1997 og tóku við rekstrinum 1. september sama ár.[68]
Aðdragandi einkavæðingarinnar var breytingar í stjórn SKÝRR í ársbyrjun 1993. Veganesti hinna nýju fulltrúa ríkisins og einnig fulltrúa Reykjavíkurborgar var að endurmeta stöðu og hlutverk fyrirtækisins,[69] en um þessar mundir var við völd ríkisstjórn sem vann að einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Stjórn SKÝRR gerði þessa bókun á fundi sínum í mars 1993:
- Hlutverk Skýrr í þjónustu við eignaraðila
- Staða Skýrr á samkeppnismarkaði
- Rekstrarform Skýrr
- Eignarhlutföll[70]
Næstu tvö árin var unnið að hlutafélagavæðingu og síðan einkavæðingu en alls tók ferlið fjögur ár. Í skýrslu einkavæðingarnefndar frá 2003 var því lýst svo:
Haustið 1996 var framkvæmdanefnd um einkavæðingu falið að skoða sölu hlutabréfa ríkisins í félaginu. Eftir ítarlega athugun á þeim leiðum sem til greina kæmu við sölu hlutabréfanna lagði framkvæmdanefndin það til að seldur yrði meirihluti hlutafjár í Skýrr hf. með því að auglýsa eftir tilboðum. Nánar tiltekið lagði nefndin það til að selt yrði 51% hlutafjár til eins aðila með tilboðsfyrirkomulagi og til viðbótar yrði starfsmönnum fyrirtækisins boðið að kaupa allt að 5% hlutabréfa samanlagt. Eftirstöðvar hlutabréfa í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar skyldu síðan seldar almenningi að tveimur árum liðnum og síðan yrði fyrirtækið skráð á Verðbréfaþing Íslands.[71]
Vitanlega voru ýmsar vangaveltur um þessar miklu breytingar og meðal annars fjallað um ástæðurnar í viðtali í SKÝRR-fréttum við Hallgrím Snorrason, annan þeirra sem komu nýir inn í stjórnina á vegum ríkisins á vordögum 1995:
SKÝRR var upphaflega stofnað sem tölvuþjónustudeild fyrir ríki og borg. Í áranna rás hefur fyrirtækið þróast mikið og staða þess var orðin óljós svo einhver breyting var óhjákvæmileg. Að hluta til sá SKÝRR enn um tölvuþjónustu fyrir ríkið, en menn litu ekki lengur á fyrirtækið sem einhvern skyldukost. Aðrir eigendur, Reykjavíkurborg og Rafmagnsveitan, voru komnir með sína eigin tölvuvinnslu og uppbygging tölvuvinnslunnar hjá borginni fór t.d. ekki fram hjá SKÝRR. Fyrirtækið stóð frammi fyrir því að vera bæði í samkeppni í þjónustu og hugbúnaðargerð á markaði. Það er vondur kostur nema vera á sömu forsendum og keppinautarnir – að vera á eigin ábyrgð og við sömu skilyrði og þeir.[72]
Í hönd fylgdu nokkrir umbrotatímar. Um áramótin 1996–1997 var brugðist við slæmri afkomu liðins árs með uppstokkun og áætlun um breytingar á rekstri félagins. Forstjóraskipti urðu á þessum tíma og dr. Jón Þór Þórhallsson, sem stýrt hafði SKÝRR í hátt í tvo áratugi, lét af störfum. Við starfinu tók Stefán Kjærnested.[73]
Eftir að Opin kerfi keyptu 51% hlut í SKÝRR urðu mannaskipti í brúnni og tók Hreinn Jakobsson við starfi forstjóra SKÝRR.
Opin kerfi fengu SKÝRR ekki á silfurfati. Frosti Bergsson, sem varð stjórnarformaður SKÝRR eftir kaup Opinna kerfa á fyrirtækinu, segir frá því í bók um SKÝRR (2002) að hann telji að eigendurnir hafi viljað selja fyrirtækið úr landi.[74] Það rennir stoðum undir þá skoðun að útboðslýsingin var á ensku, sem var ekki reglan á þeim tíma. Í útboði um söluna voru það hins vegar eingöngu íslenskir aðilar, Opin kerfi, Kögun í samstarfi við Olíufélagið Esso og TölvuMyndir í samvinnu við Burðarás sem komust í forval. Niðurstaðan var sú að gengið var til samninga við Opin kerfi. Það sem réð úrslitum var einfaldlega „hæsta talan í umslögunum“ en munur á tilboðum aðilanna þriggja reyndist ótrúlega lítill.[75]
Breytinga var að vænta og Frosti lýsir þeim í hnotskurn: „Við vildum halda áfram rekstrinum og þjóna þeim kúnnum sem þarna voru. En við vildum gera SKÝRR meira markaðssinnað.“ Hann bætir því við að hann hafi heyrt að hinir tveir aðilarnir hefðu haft hugmyndir um að sameina SKÝRR rekstri sínum og ráðast í róttækan uppskurð.[76]
Opin kerfi – umbrot og árangur
Opin kerfi komu mjög við sögu þeirra umbrota sem urðu í upphafi tíunda áratugarins og fram á nýja öld í íslensku viðskiptalífi og tengdust tölvuvæðingu og stórviðskiptum á því sviði. Kaupin á SKÝRR voru aðeins ein hliðin á þeim miklu umsvifum.
Rætur fyrirtækisins eru í Hewlett-Packard á Íslandi, erlendu fyrirtæki sem starfaði á Íslandi á árunum 1985–1991. IBM og Hewlett-Packard áttu það því sameiginlegt að hafa fengið leyfi til rekstrar á Íslandi þrátt fyrir að vera í erlendri eigu. Árið 1991 var stofnað fyrirtækið HP á Íslandi hf. og var Hewlett-Packard eigandi 25% hlutafjár og lagði þá starfsemi sína á Íslandi niður að öðru leyti. Starfsmenn Hewlett-Packard á Íslandi og Pharmaco áttu hins vegar 75% af hlutafé hins nýja félags. Árið 1995 varð félagið alíslenskt er Hewlett-Packard seldi 25% hlut sinn til félagsins. Þá var nafninu breytt í Opin kerfi hf.
Opin kerfi héldu áfram að vaxa og keyptu meðal annars hlut í Tæknivali. Fyrirtækið átti aðild að stofnun Teymis ehf. árið 1994.[77] Eins og þegar hefur komið fram eignuðust Opin kerfi 51% hlut í SKÝRR en síðar keyptu Opin kerfi allt hlutafé félagsins og var SKÝRR afskráð úr Kauphöll 2002. Um svipað leyti var Teymi sameinað SKÝRR. Einnig keyptu Opin kerfi tölvufyrirtækið ACO, Tölvudreifingu ehf., hluti í Miðheimum/Skímu ehf., hugbúnaðarfyrirtækinu Þróun og hluti í hugbúnaðarfyrirtækinu Hugur hf. og Hans Petersen hf. Hlutabréf Opinna kerfa voru skráð á Verðbréfaþingi Íslands (Kauphöll Íslands) árið 1997 og hækkuðu þau meira en nokkur önnur hlutabréf það árið. Bein og óbein eignaraðild Opinna kerfa í innlendum hugbúnaðarfélögum var um árþúsundamótin orðin býsna mikil og flókin. Það sést vel á yfirliti byggðu á mynd úr ársskýrslu Opinna kerfa hf. (OK) og OKG hf. frá 2002[78]
Almennur samdráttur var á Íslandi upp úr árþúsundamótum. Þensla hafði verið ríkjandi á Íslandi allt til ársins 2000. Í kjölfar samdráttarins fóru Opin kerfi að huga að fjárfestingum erlendis. Fyrirtækið stofnaði Enterprise Solution í Danmörku sem síðar breyttist í Kerfi A/S. Fyrirtækið keypti öll hlutabréf í Datapoint Svenska AB í Svíþjóð 2001. Í upphafi árs 2003 varð móðurfélag Opinna kerfa að Opin Kerfi Group, en stofnað var nýtt félag, Opin kerfi ehf., til að sjá um sölu- og þjónustustarfsemi á Íslandi. Það sama ár keypti móðurfélagið Virtus AB og sameinaði Datapoint í Svíþjóð undir nafninu Kerfi AB 1. janúar 2004. Starfsmenn móðurfélagsins voru þá orðnir um 600.
Sumarið 2004 urðu þau tíðindi að Kögun keypti rúmlega þriðjung í Opnum kerfum Group af Straumi fjárfestingarbanka, sem átti 21% hlut, og Lífeyrissjóði sjómanna. Í umfjöllun Fréttablaðsins um kaupin segir meðal annars: „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins telja ýmsir innan Opinna kerfa að Straum hafi skort þolinmæði, sem kjölfestufjárfestir í félaginu.“ Gunnlaugur M. Sigmundsson forstjóri Kögunar sagði af þessu tilefni: „Við höfum trú á framtíð Opinna kerfa og sjáum ýmis tækifæri til samvinnu fyrirtækjanna og samlegðar og þá ekki síst við dótturfélögin SKÝRR og Teymi.“[79] Næsta skref Kögunar var að gera yfirtökutilboð í öll hlutabréf félagsins og afskrá það úr Kauphöll Íslands. SKÝRR hf. var þá fært beint undir rekstur Kögunar ásamt Teymi ehf. með áherslu á hugbúnað en önnur félög undir Opin Kerfi Group fylgdu þeim hluta félagsins sem sá um sölu tölvubúnaðar, tengda ráðgjöf og þjónustu.
Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn – ÍSHUG
Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn, ÍSHUG, var stofnaður árið 1997. Meðal fjárfestinga Íslenska hugbúnaðarsjóðsins var 15% hlutur í Tölvumiðlun[80] og 27% hlutur í Softa, sem hann keypti af Hitaveitu Suðurnesja sem átti þá jafnstóran hlut. Fyrirtækið var með sérhæfðan hugbúnað á sviði viðhaldsstjórnunar fyrir orkuver og stóriðju,[81] Einnig keypti ÍSHUG hlutabréf Búnaðarbankans í upplýsingafyrirtækjum 2001.[82]
Eftir að netbólan sprakk upp úr 2000 kom Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn nokkrum hugbúnaðarfyrirtækjum til hjálpar þegar þau lentu í kröggum. Sjóðurinn gekk á sama tíma sjálfur í gegnum endurfjármögnun sem Nýsköpunarsjóður kom meðal annars að. Alls átti sjóðurinn á þeim tíma hlut í tuttugu fyrirtækjum og tíu erlendir fjárfestar komu að þeim kaupum sem sjóðurinn hafði milligöngu um. Sjóðurinn keypti 19,6% hlut í CCP kringum áramótin 2001–2002. Þá var þróun fyrsta stóra tölvuleiks CCP, EVE Online, langt komin. Sjóðurinn átti um 18% í hugbúnaðarfyrirtækinu Menn og mýs, en seldi finnskum áhættufagfjárfestum um 14% af þeim hlut. ÍSHUG átti einnig 17% í Maskínu á þessum tíma en erlendur áhættufagfjárfestir keypti 27% hlut í fyrirtækinu á þessu tímabili.[83]
Á árinu 2002 var fjallað um eignaraðild ÍSHUG í ýmsum fyrirtækjum og fjármögnun sjóðsins, en eignaraðild hans að fyrirtækjum hér á landi var oft æði flókin eins og fram kemur í þessari grein, sem fjallar nánar um þau eignarbönd sem að framan segir frá:
Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn á hlut í um 20 fyrirtækjum og hafa þegar um 10 erlendir fjárfestar komið að þeim. Nýverið náðust samningar við finnsku áhættufagfjárfestana Magnolia Ventures og Hiidenkivi Investment um kaup á um 14% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Menn og mýs sem Íshug á um 18% í.
Menn og mýs er þekkingarfyrirtæki á sviði DNS, Domain Name System, sem er grunnþjónusta á Netinu eða nokkurs konar símaskrá fyrir Netið. Starfsmenn Manna og músa eru 21 talsins á Íslandi, í Sviss og Bandaríkjunum […]
Eins hefur áhættufagfjárfestirinn Argnor Wireless Ventures keypt um 27% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Maskinu sem Íshug á um 17% í. Maskina framleiðir vöru sem nefnist The Wizard. The Wizard er umhverfi sem gerir notendum farsímaþjónustu kleift að búa til sínar eigin farsímaþjónustu og dreifa þeim á kunningja og vini.[84]
Ýmsir voru til kallaðir við endurfjármögnun ÍSHUG, bæði erlendir aðilar og Nýsköpunarsjóður, sem kom inn með fjármagn í sjóðinn í lok ársins 2001.
Endurfjármögnun skilaði 2.500 milljónum króna
Að sögn Sigurðar Smára er talsverð gerjun á upplýsingatæknisviðinu og þeirri svartsýni sem þar hafi ríkt að undanförnu sé lokið. „Allt síðasta ár fór í endurskipulagningu á starfsemi Íshug. Ég tel að við séum nú að uppskera eftir þá vinnu sem þar fór fram. […] var farið í gegnum heildarendurfjármögnun á eignasafninu öllu sem skilaði 2.500 milljónum króna inn í félög sem Íshug á hlut í. Þar af komu um 500 milljónir frá Íshug en um 2.000 milljónir frá innlendum sem erlendum fjárfestum meðal annars fyrir okkar milligöngu.“ […] „Fyrirtækin hafa því verið að ná rekstrargrunni aftur, þá sér í lagi þau sem stóðu í viðamiklu þróunarstarfi á vörum fyrir erlenda markaði.“[85]
Eins og fram hefur komið hafði sjóðurinn keypt tæplega 20% hlut í tölvuleikjafyrirtækinu CCP hf. og varð stærsti hluthafinn í félaginu árið 2002. Væntingar voru miklar en þó með fyrirvara um að viðskiptahugmyndir CCP gengju eftir. Haft var eftir Sigurði Smára Gylfasyni framkvæmdastjóra ÍSHUG í Morgunblaðinu að ef þessar áætlanir gengju eftir myndu allt að 250 þúsund notendur geta spilað leikinn samtímis.[86]
Tæknival var stofnað árið 1981. Í tilkynningu um stofnun fyrirtækisins er því markað allvíðtækt starfssvið, það er framleiðsla, innflutningur, sala og viðhald á tölvu- og rafeindabúnaði ásamt rekstri fasteigna og lánastarfsemi. Stofnendur voru Rúnar Sigurðsson, sem þá hafði þegar komið víða við í sögu tölvuvæðingar á Íslandi, og Eiríkur Þorbjörnsson, en hann hvarf frá fyrirtækinu árið eftir og stofnaði Tölvuskólann Framsýn.[87] Rúnar varð hins vegar framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Árið 1983 bættist Sigurður Strange í eigendahópinn og þeir Rúnar keyptu Eirík úr úr fyrirtækinu. Sigurður kom þó ekki til starfa þar fyrr en tveimur árum síðar, sumarið 1985.[88] Í mars 1984 segir meðal annars í auglýsingu í Morgunblaðinu að fyrirtækið hafi um alllangt skeið boðið fyrirtækjum, stofnunum, einstaklingum og félagasamtökum þjónustu sína á sviði tölvuráðgjafar á ýmsum stigum tölvuvæðingar.[89]
Fyrirtækinu var einkum ætlað að hasla sér völl á sviði tölvustýringar og mælitækja og flytja inn iðntölvur og var brautryðjandi á því sviði. Það þróaðist í þá átt að flytja inn ýmsar rekstrarvörur, svo sem disklinga af öllum stærðum, skjásíur og prentborða, meðal annars í telexvélar, en þeir höfðu fram til þess tíma einkum verið seldir á vegum starfsmanna Símans. Á þessu sviði náðist undraverður árangur. Mesta salan á disklingum á þessum árum voru 310 þúsund stykki á einu ári. Þessir disklingar voru hátæknivara, sem ekki mátti selja til Rússlands og Kína. Sumt af því sem fyrirtækið seldi var þó uppfinning Rúnars Sigurðssonar og má þar nefna hljóðdeyfa fyrir prentara, en nálaprentarar þessa tíma voru sérlega háværir.[90] Rúnar fór gjarnan í söluferðir um landið á gula Volvónum sínum, sem var notaður í allt sem gera þurfti hjá fyrirtækinu. Þessar ferðir urðu mörgum minnisstæðar.[91] Eins og í fleiri frumkvöðlafyrirtækjum fyrr og síðar skapaðist mikil fjölskyldustemning hjá Tæknivali og fólk reiðubúið að vinna fram eftir kvöldum upp á pítsu og Tommaborgara.[92]
Árið 1986 var Tæknival búið að festa sig rækilega í sessi á markaðnum og hafði þá sérhæft sig í hönnun og uppsetningu flókinna rafeinda- og tölvukerfa, svo sem fjargæslukerfa, hússtjórnarkerfa og hraðastýringa fyrir orkufyrirtæki og fleiri aðila.[93] Fylgst var með orkunotkun með skynjara sem tengdist hring sem snerist í takt við notkunina. Þegar stefndi í mikla notkun og verð orkunnar hækkaði var oft hægt að taka út orkufrekt tæki til að jafna notkunina. Þetta var gert að danskri fyrirmynd þar sem meiri hefð var fyrir því að sneiða hjá slíku toppum í orkunotkun en á Íslandi. Landsvirkjun hagnaðist raunar á því að fá slíka toppa af og til. Dönsku rafveiturnar hvöttu fólk til að mynda til að þvo þvott þegar orkunotkun var í lægð og nóg af orku á lausu. Þetta þekktu þeir Tæknivalsmenn sem höfðu dvalið þar í landi.[94]
Tæknival fór snemma í útrás. Sigurður Strange, Ómar Örn Ólafsson og Snæbjörn Þór Ingvarsson höfðu allir lært í Danmörku og fóru að taka að sér „verk sem Daninn var kominn í vandræði með“. Þessi umsvif í Danmörku fólu það í sér að starfsmenn fyrirtækisins þurftu að dvelja langdvölum í Danmörku, meðal annars við verkefni fyrir skipaiðnaðinn (Burgmeister og Wein voru stærstir) á vegum Lingsjö, sem var gamalt danskt fyrirtæki. Einnig kom Tæknival að forritun í einhverri stærstu vindmyllu sem þá var til. „Dagpeningar, orlofsgreiðslur, ekkert af þessu var þá til umræðu. Stundum vorum við vikum saman á hótelum og einnig leigðum við sumarhús við ströndina.“ Eitt af seinustu verkefnunum í þessari útrásarlotu var á árunum 1991–1992 en þá var verið að vinna að verkefnum við varmaveitu. „Ísland var Pólland þessa tíma vegna lágs gengis,“ en það var ekki síður íslenska vinnumenningin sem aflaði fyrirtækinu verkefna.[95]
Sala einkatölva, einkum Hyundai, skipti Tæknival einnig máli. Sá háttur var lengi hafður á að flytja boxin utan um tölvurnar með skipum, því þau voru fyrirferðarmest og dýrust í flutningi, en dýrari og fyrirferðarminni hlutar tölvunnar voru fluttir inn með flugi. Tölvurnar voru síðan settar saman á verkstæði fyrirtækisins á nóttunni því að ryðja þurfti annarri starfsemi verkstæðisins frá á meðan.[96]
BT verður til
Árið 1996 stofnaði Tæknival tölvuverslunina BT, með það að markmiði að selja ódýran tölvubúnað. Hugmyndin var sú að skilja þá sölu frá þjónustu við stærri viðskiptavini. Það gat verið óþægilegt að vera að skoða stóra samninga með mikilvægum viðskiptavinum og sinna á sama tíma krökkum sem vildu nýjustu tölvuleikina. Upphaflega hét þessi nýja verslun Bónustölvur en forsvarsmenn matvöruverslunarinnar Bónuss mótmæltu því nafni og þá var nafninu breytt í BT. BT gaf út vörulista einu sinni á ári og var það nýmæli.[97]
Opin kerfi og Tæknival
Árið 1994 keyptu Opin kerfi stóran hlut í Tæknivali og breyttu þar með viðskiptaskuld við Opin kerfi í hlutafé.[98] Tæknival hafði verið einn af söluaðilum Opinna kerfa á HP-vörum og til að grynna á skuldum Tæknivals við Opin kerfi var útbúið skuldabréf með breytirétti yfir í hlutabréf. Þannig eignuðust Opin kerfi um 20% hlut, sem var seldur um ári síðar.[99]
Árið 1997 keyptu Opin kerfi um 32% hlut í Tæknivali og hafði Kaupþing milligöngu um þá sölu. Þá var ráðist í margvíslegar breytingar á Tæknivali. Í desember 1997 keypti Tæknival 69% hlut í Kerfi og í umfjöllun Morgunblaðsins um þau kaup segir meðal annars:
Kerfi er elsta hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi en það var stofnað árið 1954 af Bjarna P. Jónassyni, fyrsta forstjóra Skýrr. Meginstarfsemi Kerfis hf. hefur verið þróun, ráðgjöf og þjónusta fyrir AS/400 tölvur, þar með talið lausnir fyrir sjávarútveg. Á síðustu árum hefur mikil áhersla einnig verið lögð á að þróa lausnir fyrir margs konar tölvuumhverfi. […]
Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Tæknivals hf., segir að kaupin séu liður í því að styrkja fyrirtækið í hugbúnaðargerð og heildarlausnum. Sérstaklega muni kaupin gera kleift að styrkja hugbúnaðargerð fyrir matvælaiðnað. „Við munum halda áfram á þeirri braut að bjóða heildarlausnir fyrir fyrirtæki,“ segir hann. Fyrir á Tæknival 15% hlut í hugbúnaðarfyrirtækjunum Hug hf., 15% í Teymi, 50% í Navís, 50% í Intraneti og 50% í Kugg. Þar að auki starfrækir fyrirtækið sjálft 60 manna hugbúnaðardeild.[100]
Opin kerfi seldu síðan sinn hlut í Tæknivali 1999. [101]
Eftir mikinn vöxt hjá Tæknivali fyrri hluta tíunda áratugarins fór að syrta í álinn seinni hluta hans. Við endurskipulagningu á fyrirtækinu er Tæknival og ACO voru sameinuð hætti Rúnar Sigurðsson sem framkvæmdastjóri. Árni Sigfússon tók við stjórn fram til árþúsundamóta. Eftir það voru alltíð eigenda- og framkvæmdastjóraskipti næstu árin.[102]
AX-hugbúnaðarhús
Fyrsta skrefið í breytingunum var að aðgreina hugbúnaðarsviðið frá öðrum rekstri. Í nóvember 2001 var Sigríður Olgeirsdóttir kölluð heim frá Danmörku til að taka við starfi framkvæmdastjóra Tæknivals, sem hún gerði í byrjun árs 2002. Þetta varð síðan hugbúnaðarsvið Tæknivals og fékk svo nafnið AX. Hugbúnaður sem Reykjavíkurborg hafði keypt og SKÝRR áður verið með, Agresso, fylgdi AX í uppskiptunum. Ennfremur rann hugbúnaðarfyrirtækið Kerfi inn í AX.[103] Í frétt á vef Kauphallarinnar 1. september 1999 er skýrt frá stofnun AX-hugbúnaðarhúss:
Tæknival hf., Skýrr hf. og Opin kerfi hf., hafa gengið frá stofnun nýs hugbúnaðarfyrirtækis, sem byggir á hugbúnaðarsviði Tæknivals hf og Agresso-sviði Skýrr hf. Hið nýja félag hefur jafnframt keypt hlut Tæknivals í Kerfi hf., og Tæknivali A/S. Gert er ráð fyrir að Kerfi hf. sameinist AX-hugbúnaðarhúsi hf., sem mun hafa aðsetur í Skeifunni 8, þar sem hugbúnaðarsvið Tæknivals er til húsa. Tæknivali A/S er ætlað að annast sölu og þjónustu erlendis.
Gert er ráð fyrir að allt starfsfólk, alls um 100 manns, sem tengist framangreindum verkefnum starfi áfram í hinu nýja fyrirtæki. Tæknival mun eiga 25% í hinu nýja félagi, Skýrr 40%, Opin kerfi 10% og starfsmenn og aðrir fagfjárfestar 25%.
Með stofnun AX-hugbúnaðarhúss hf. eru mörkuð tímamót í sameiningu og eflingu starfsemi á sviði hugbúnaðar hér á landi. Öflugra hugbúnaðarhús mun verða mun betur í stakk búið til að takast á við gríðarleg viðskiptatækifæri bæði hér á landi og erlendis.[104]
Erfiðleikar við árþúsundamótin
Öll þessi fyrirtæki höfðu vaxið fremur hratt en þegar upplýsingatæknifyrirtækin lentu í erfiðleikum kringum árþúsundamótin varð mikill samdráttur á markaðnum á Íslandi sem annars staðar og það olli hluta af þeim vandkvæðum sem hér hafa verið rakin.[105]
ACO-Tæknival og útrás í Apple-heiminum
Sameining ACO og Tæknivals var að frumkvæði hluthafanna Opinna kerfa og Búnaðarbankans og sömuleiðis stofnun hugbúnaðarfyrirtækisins AX. Samdráttur var í prentbransanum, þar sem ACO hafði átt sterka stöðu, og því leitað annarra leiða í samstarfi ACO-Tæknivals. Sony-búðin var til að mynda keypt til fyrirtækisins á þessum tíma. Þá hafði Radíóbúðin, undir stjórn Gríms Laxdal, sem hafði verið með Apple-umboðið, gengið í gegnum erfiðleika (1998) og Apple-umboðið fór yfir til ACO-Tæknivals. Fóru þeir Bjarni Ákason, Frosti Bergsson og Grímur Laxdal saman til Svíþjóðar veturinn 2001–2002 að ganga frá þeim viðskiptum.[106]
Notendafélögin spretta upp
Á þessu tímabili spruttu upp allmörg notendafélög á vegum leiðandi fyrirtækja á markaðnum og var oft vel gert við félaga þeirra, þeim boðið á ráðstefnur og sýningar og talsvert félagslíf var á vegum margra þessara félaga. Þetta var hliðstætt þróun erlendis á sama tíma. DECUS á Ísland var félag Digital-notenda (DEC), notendafélag SKÝRR var nefnt ,,átthagafélag“, þá má nefna Paradox-hópinn, Archimedes, System/38 hjá IBM, ICENUG, félag HP-notenda og félag notenda Dobis/Libis og er þá ekki allt upp talið.[107] Um einstök notendafélög er nánar fjallað annars staðar í sögunni.
Mörg þeirra fyrirtækja sem höfðu orðið til á níunda áratugnum urðu hluti af fyrirtækjasameiningum og -samruna sem fram fóru á árunum kringum árþúsundamótin. Yngri fyrirtæki komu einnig við sögu, en þó er hægt að fullyrða að flest fyrirtækjanna hafi átt það sameiginlegt að hafa orðið til þegar samtengdar PC-tölvur, Unix og AS-400 tóku að hluta við af stórtölvum og miðtölvum. Þetta voru fyrirtæki eins og AKS, Forritun, Hugtak, Hugur, Íslensk forritaþróun, Kerfi, Skyggnir, Strengur, Teymi, TOK, Tölvumiðstöðin, TölvuMyndir, VKS og ýmis fleiri.[108] Bakgrunnur stjórnenda þessara fyrirtækja var margs konar, en aðallega úr tækni-, tölvu- og viðskiptageiranum.
Gunnar Ingimundarson, stofnandi Hugar hf., telur ákveðna samsvörun milli þeirra fyrirtækja sem stofnuð voru á níunda áratugnum og þeirra sem urðu til snemma á 21. öldinni, ekki síst á árunum eftir efnahagshrunið 2008.
Í þeim straumhvörfum, sem urðu á þessum tíma urðu til mörg minni fyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki ekki ósvipað því sem gerist í leikjaiðnaðinum núna [2014]. Þetta voru fyrirtæki eins og Íslensk forritaþróun, 1981, TölvuMyndir, Tölvumiðlun og fjöldi annarra fyrirtækja sem öll áttu það sameiginlegt að verða til í kjölfar PC-byltingarinnar. Þá voru komnar á markaðinn tölvur á aðgengilegu verði, tiltölulega mikil afköst og það breyttist í rauninni allt í einu vetfangi.[109]
Framan af gekk rekstur flestra fyrirtækjanna sem hér um ræðir vel. Upphaflega voru aðeins þrjú til fjögur fyrirtæki á þessum markaði en þeim fjölgaði hratt. Árin 1987–1988 voru uppgripaár en svo sló illilega í bakseglin um hríð um og uppúr 1989 þegar efnahagsástandið versnaði.[110] Er leið á tíunda áratuginn fóru fagfjárfestar að kaupa í fyrirtækjunum og eigendur fyrirtækjanna hættu að vinna kauplaust mánuðum saman til þess að koma fyrirtækjum sínum á laggirnar.[111] Innkoma fjárfestingarsjóðanna hafði einnig sín áhrif. Sameining smærri fyrirtækja undir einn hatt einkenndi tímabilið, ýmist með sameiginlegri eignaraðild eða undir sama nafni. Þeim var sumum skipt upp aftur og rekstur sumra skilinn frá móðurfyrirtækjunum. Þá gátu orðið ýmiss konar sviptingar, ekki síst á nýrri öld.[112]
Stórar sameiningar
Sameining IBM á Íslandi og Skrifstofuvéla-Sunds hf. í Nýherja árið 1992 var stórtíðindi. Fyrirtækið fór þó ekki að skjóta út öngum eða draga til sín nýja sprota alveg strax, eins og mörg önnur. En árið 2000 var dótturfélagið Klak ehf. stofnað „til að nýta þá reynslu og þekkingu sem Nýherji hf. býr yfir í þágu sprotafyrirtækja á sviði upplýsingatækni“. Klak og Innovit sameinuðust í Klak-Innovit árið 2013. Þetta var bara upphafið að því sem koma skyldi. „Þá var einnig stofnað dótturfyrirtækið SimDex ehf. til að halda utan um áframhaldandi þróun og sölu samskiptalausna móðurfélagsins. … Á árinu 2003 var allt hlutafé í Camson hf. keypt, en fyrirtækið var sérhæft í stafrænum búnaði fyrir útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn. Camson hf. var sameinað móðurfélaginu á árinu 2004. Þá var í árslok 2003 samið við IBM Nordic AB um kaup á ráðgjafarfyrirtækinu IBM Consulting Services á Íslandi. Nafni félagsins var breytt í ParX.“[113] Eftir 2005 urðu breytingar á flestum þessum dótturfélögum en þó á misjöfnum tímum.
Um mikla fjármuni var að ræða í þessum geira, jafnvel eftir að netbólan sprakk upp úr árinu 2000. Í umfjöllun viðskiptablaðs Morgunblaðsins haustið 2004 er gerð úttekt á samruna og eignaþjöppun í greininni, og einnig umfangi hennar:
Þegar tekjur upplýsingatækninnar eru sundurliðaðar má sjá að tekjur hugbúnaðar og ráðgjafar námu 20,1 milljarði á síðasta ári, tekjur af síma og fjarskiptaþjónustu 20,3 milljarðar, 22,6 milljarðar voru í tekjur af heildsölu og 1,7 af framleiðslu á upplýsingatækni.
Flestar nýju viðskiptahugbúnaðarlausnirnar sem komu inn á markaðinn, SAP, Oracle og Dynamics (NAV og AX), útheimtu verulega aðlögun fyrir íslensk fyrirtæki. Sagt var að áður hefði hugbúnaðariðnaðurinn falist í því að búa til grunnkerfi en nú færi mest vinna í sértækar lausnir, sem oft tengdust þó þessum grunnkerfum. Þeir sem buðu upp á vinsælustu lausnirnar náðu bestum árangri í útboðum eða seldu þær ásamt mikilli þjónustu. Þessir aðilar settu svip sinn á hlutafjármarkað, bæði opinberan og gráan. Sviptingar á eignarhaldi slíkra fyrirtækja voru skiljanlegar.
Undir lok þessa mikla samruna- og sameiningartímabils, haustið 2004, gerði viðskiptablað Morgunblaðsins fróðlega úttekt á samþjöppun, hræringum, útrás, breytingum og veltu upplýsingafyrirtækja.[114] Þá voru fyrirtæki í upplýsingatækni á Íslandi 679 talsins og útflutningur hafði fjórtánfaldast á tíu árum.[115] Mikil samþjöppun hafði orðið eins og að framan greinir og sviðið mun einfaldara en árið 2001.
Leitað var skýringa á samþjöppun á eignarhaldi í úttektinni. Hún hófst með stofnun Íslenska hugbúnaðarsjóðsins en þegar netbólan sprakk árið 2001 var gengi hugbúnaðarsjóðsins hrunið á gráa markaðinum og tæknifyrirtæki áttu erfitt. Á þeim tímapunkti hafi Straumur komið til sögunnar og safnað til sín fjárfestingarsjóðum, svo sem Íslenska hugbúnaðarsjóðnum og Talent-Hátækni, inn í nýtt dótturfélag, Brú Venture Capital. Þangað inn hafi líka farið áhættufjárfestingar Símans. Síðast en ekki síst er hlutur Kögunar talinn til:
…það er með undir sínum hatti fjölda fyrirtækja sem fást við viðskiptahugbúnað. Nýlega vöktu athygli kaup Kögunar á stórum hlut í tölvufyrirtækinu Opnum kerfum Group hf. og stefndi strax í átök um eignarhaldið í félaginu. Hætt var við boðaðan hluthafafund á síðustu stundu og aðilar settust að samningaborði. Segir orðrómur að Frosti Bergsson og aðilar tengdir honum í OKG vilji losna við Kögun úr hluthafahópnum, en Kögun vill vera inni nema þeir fái gott tilboð í hlut sinn. Telja þeir OKG góðan fjárfestingarkost á þessari stundu. Þá segja heimildir Morgunblaðsins að Skýrr og jafnvel Teymi líka hafi verið boðin sem greiðsla fyrir hlut Kögunar en ágreiningur sé um verð. [116]
Um framhaldið af þessari atburðarás segir Frosti Bergsson:
Þegar Kögun kaupir í Opnum Kerfum Group óska þeir eftir að fá þrjá menn í stjórn af fimm en höfðu bara 35% eignarhlut. Þess vegna lendi ég í slag við Gunnlaug Sigmundsson forstjóra Kögunar. Eftir að hafa keypt 35% hlut í OKG óskuðu þeir eftir því að haldinn yrði hluthafafundur og yrði þá hlutfallskosning, fram kæmu tveir listar, þeir með einn lista með þremur mönnum og ég með annan einnig með þremur mönnum. Þetta snerist um það hver fengi meirihluta í stjórn. Ég fékk stuðning ákveðinna lífeyrissjóða, Íslandsbanka og „mannsins með litla prósentið“ og þeir horfðu fram á það að ég myndi sennilega vinna kosningarnar og fengi þrjá menn en Kögun tvo.[117]
Frosti gerði Kögun í framhaldi af þessu tilboð um að ef þeir gerðu öllum hluthöfum tilboð á því gengi sem þeir hefðu verið að kaupa hlutina í OKG á, þá skyldi hann verða fyrstur til að selja þeim sinn hlut. Þeir svöruðu því til að þetta væru það miklir peningar sem þyrfti til að kaupa alla hlutina að þá þyrftu þeir að taka mikla peninga að láni. Niðurstaðan var þó sú að Kögun ákvað að ganga að samkomulagi um þetta. Um það sem næst gerðist segir Frosti:
Og þannig varð það að við héldum aldrei þennan hluthafafund og það reyndi aldrei á það hvernig atkvæði myndu falla. […]
En svo nokkru seinna var Síminn kominn með 35% í Kögun og vill fá þrjá menn í stjórn af fimm og þá endurtekur sagan sig. En þá kemur Jón Ásgeir [Jóhannesson] og kaupir Kögun og býr til Dagsbrún. Og þá er Kögun komin þar inn og svo er Vodafone komið þar inn og 365.[118]
Þremur árum síðar keypti Frosti Bergsson á nýjan leik íslenska hlutann í OKG, það er að segja Opin kerfi ehf., en skandinavísku fyrirtækin sátu eftir í OKG.
Annar stór þátttakandi í þessari samrunasögu var TölvuMyndir. TölvuMyndir áttu nokkur dótturfyrirtæki sem var skipt eftir ólíkum geirum atvinnulífsins en móðurfyrirtækið „hlúir að vexti þeirra og viðgangi“.[119] Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið eru nefnd Maritech, sem sá um lausnir fyrir sjávarútveg, Origo í veflausnum, Skyggnir í hýsingu og tölvuþjónustu og Theriak, sem smíðaði kerfi fyrir sjúkrastofnanir. Öll þessi félög áttu sér ögn flóknari bakgrunn. Maritech (með Navision-lausnir) var til dæmis sprottið úr öðru dótturfyrirtæki TölvuMynda sem hét Viðskiptalausnir og sameinað norska fyrirtækinu Marex í nýtt félag, MTS International, árið 2000 en ári síðar var það fyrirtæki sameinað norska fyrirtækinu Maritech AS og fékk þá nafnið Maritech. Síðan bættist við sjávarútvegssvið Columbus IT Partner í Noregi. Eftir þá sameiningu var fyrirtækið orðið stærsta fyrirtæki heims á sviði hugbúnaðarlausna fyrir sjávarútveg, með starfsemi á Íslandi, í Noregi og Norður-Ameríku.[120]
TölvuMyndir voru á þessum tíma í eigu margra þeirra aðila sem við sögu hafa komið hér en stærsti einstaki eigandinn var Burðarás.[121]
Í Morgunblaðsgreininni er einnig fjallað um hlut EJS og Tæknivals, en umsvif þeirra höfðu á þessum tíma minnkað og breyst. Einnig var samþjöppun í fjarskiptageiranum:
Árið 2000 var fjöldi símafyrirtækja og netþjónustufyrirtækja mun meiri en í dag, en undir hatt Og fjarskipta hafa runnið fyrirtækin Íslandssími, Tal, Halló og nú síðast Margmiðlun og Lína.net. Á síðustu vikum hafa fjölmiðlafyrirtæki tengst fjarskiptafyrirtækjum hér á landi eignatengslum sem endurspeglar þróun sem er að eiga sér stað í heiminum, en þar er talað um samruna Netsins, sjónvarps og síma í einn pakka. Þannig keypti Síminn stóran hlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu sem rekur Skjá einn á dögunum og Norðurljós, sem eiga Íslenska útvarpsfélagið sem rekur Stöð 2, Sýn og Fjölvarpið meðal annars, keypti ráðandi hlut í Og fjarskiptum og stuttu síðar í IP-fjarskiptum.
Framundan er einkavæðing Landssímans og bíða menn spenntir eftir að sjá hverjir eigendur hans verða eftir einkavæðingu, en nafn Björgólfs Thors Björgólfssonar er oft nefnt í því sambandi enda er hann nú þegar atkvæðamikill í fjárfestingum í fjarskiptum í Austur-Evrópu, meðal annars í félagi við Landssímann.[122]
Þannig var staðan árið 2004 en sviptingar næstu ára fram að bankahruni áttu eftir að hafa frekari breytingar í för með sér.
Einar J. Skúlason (EJS)
Einar J. Skúlason var áberandi fyrirtæki í upplýsingatækni frá því á níunda áratugnum. Fyrirtækið flutti upphaflega inn skrifstofutæki, saumavélar og ýmis smærri tæki en árið 1984 gerði fyrirtækið samning við bankastofnanir um tölvuvæðingu afgreiðslustaða bankanna. Árið 1986 hóf fyrirtækið sölu á PC-tölvum, einmenningstölvum frá Victor, og árið 1998 fékk fyrirtækið umboð fyrir Dell-tölvur.[124]
Árið 1999 var nafni fyrirtækisins breytt í EJS hf. eftir að hafa verið rekið í sextíu ár undir eldra nafninu en EJS sameinaðist rekstrarlausnum SKÝRR árið 2010 undir nafni EJS og var rekið sem eitt af þremur tekjusviðum SKÝRR,[125] síðar Advania.
Margt hafði áhrif á umgjörð íslenskrar hugbúnaðargerðar eftir 1990. Mikil fjölgun hafði orðið í greininni. Árið 1991, þegar Samtök íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja[126] voru stofnuð, voru um fjörutíu fyrirtæki í hugbúnaðarframleiðslu og um þúsund manns sem störfuðu við greinina. Þá var þessi iðnaður orðinn 10–12 ára og nokkuð þroskaður. Umfang upplýsingatækniiðnaðarins var orðið mikið meira en áður og á meðfylgjandi súluriti sést þróun áranna 1995–2003. Á ritinu sjást þess merki að netbólan sprakk um og upp úr árþúsundamótunum.
Fjölgun fyrirtækja í hugbúnaðargeiranum birtist með ýmsum hætti. Í grein frá árinu 2001 í ritinu Peningamálum (2001/3) fjallar Hrönn Helgadóttir um áætlað vinnuafl í hugbúnaðariðnaði 1991–2000 samanborið við aðrar atvinnugreinar samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar:
Vinnuafl í hugbúnaðariðnaði hefur rúmlega tvöfaldast á tímabilinu en í öðrum atvinnugreinum hefur það aukist um rúm 13%. Á árunum 1995-2000 jókst vinnuafl í heild um rúmlega 11.000 störf […] Af þeim voru um 1.700 störf í hugbúnaðariðnaði. Af hverjum 100 störfum sem sköpuðust á tímabilinu voru því 15 í hugbúnaðariðnaði. […] En þó að hugbúnaðargeirinn hafi dregið til sín vinnuafl á síðustu árum hefur skortur á vinnuafli háð greininni þar til hugsanlega nú á síðustu mánuðum. Eitthvað hefur borið á innfluttu vinnuafli til starfa í hugbúnaðargeiranum en einnig hafa fyrirtækin flutt vinnuna til útlanda og má þar nefna að fyrirtæki hafa stofnað starfsstöðvar erlendis t.d. í Indlandi. Þróun hugbúnaðar er vinnuaflsfrek iðja og þarfnast sérmenntaðs vinnuafls sem langan tíma tekur að mennta. Framleiðsluferlið í hugbúnaðariðnaði er einnig oft mjög langt. Langur tími líður yfirleitt frá því að hugmynd fæðist þar til markaðshæf afurð verður til.[128]
Með aukinni þörf fyrir tölvubúnað, bæði vél- og hugbúnað, fjölgaði einnig útboðum.
Mjög misjöfnum sögum fer af því hvernig til hefur tekist við útboð á tölvubúnaði, einkum í stórum verkum á vegum ríkisins. Þegar einn af þeim stöðlum sem hafa verið notaðir um langa hríð við kaup á hugbúnaðar- og vélbúnaðarvinnu, ÍST 32, var í vinnslu, mátti lesa í grein í Tölvumálum eftirfarandi:
Hvers vegna staðall?
Ástæða þess að ráðist var í gerð ÍST 32 er m.a. sú, að meðferð útboðsmála hefur verið fyrir neðan allar hellur á undanförnum árum. Í flestum tilfellum hefur mátt rekja þau vandamál, sem upp hafa komið, til lélegra útboðsgagna eða vanþekkingar verkkaupa á meðferð og úrvinnslu tilboða. Í staðlinum er fjallað ítarlega um framkvæmd útboða og meðferð tilboða og með því að fylgja honum er unnt að koma í veg fyrir mistök af þessu tagi.[129]
Þessi staðall og fleiri dugðu ekki til að sannfæra þátttakendur í útboðum um fagmennsku af hálfu verkkaupa í stórum útboðum, sem sætt hafa opinberri gagnrýni.[130]
Gagnrýni á útboð á vegum opinberra aðila við kaup á hugbúnaði sneri einkum að skorti á fagmennsku útboðsaðila. Ágúst Guðmundsson var í forsvari fyrir eMR, fyrirtæki sem sá um þróun upplýsingakerfa fyrir heilbrigðisstofnanir, og þekkir vel til þeirra útboðslýsinga sem hafa verið gerðar, sér í lagi við útboð vegna hugbúnaðar á heilbrigðissviði. Honum fannst sláandi að þegar annar aðili á heilbrigðissviði, Hjartavernd, bauð út röntgenkerfi sitt, hafi hann loks fundið fagmannleg vinnubrögð í útboði. Útboðslýsingin var faglega unnin, ákvörðun lá fyrir eftir tíu daga og verklagið allt með ágætum. „Þetta er í eina skiptið sem ég hef séð formlegar leiðir notaðar, byggðar á jafnræði,“ segir Ágúst.[131]
Ríkisútboð á hugbúnaði – fjárhags-, launa- og mannauðskerfi
Einna mest umræða var um útboð á fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Lítil frétt í viðskiptablaði Morgunblaðsins í ágúst 2001 segir frá upphafi á löngu ferli, sem leiddi meðal annars til málaferla.
Skrifað var í júlí undir samning milli Skýrr hf. og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs og stofnana hans, um ný fjárhags- og mannauðskerfi. Samningsupphæðin nemur 819 milljónum og tekur til kaupa á stöðluðum hugbúnaði, Oracle e-Business Suite og Workplace, vinnu við uppsetningu og innleiðingu, kennslu og viðhaldsgjöldum fyrsta árið.
Í tilkynningu Skýrr segir að ljóst sé að með þessum samningi sé verkefnastaða félagsins tryggð næstu misserin. Auk þess sé fyrirtækið að vinna að innleiðingu á Oracle fyrir Reykjavíkurborg […][132]
Stefán Kjærnested er sá sem þekkir tildrög þessa útboðs hvað best og það er engin tilviljun. Hann var gagngert ráðinn árið 1999 til Fjársýslu ríkisins, sem þá hét Ríkisbókhald, til þess að vinna að endurnýjun launa- og bókhaldskerfis ríkisins. Gunnar Hall var þá ríkisbókari (fjársýslustjóri) og hann vildi að ríkið færði sig úr sérsmíðuðum kerfum yfir í almenn kerfi. Gefum Stefáni orðið:
Það höfðu verið gerðar nokkrar atrennur að því að endurnýja þessi kerfi, en ekki gengið. Ég var fenginn til þess að höggva á hnútinn. Það voru tvö kerfi aðallega sem við vorum að leysa af hólmi, annars vegar var það BÁR bókhaldskerfið, hins vegar var það Launakerfi ríkisins. BÁR má rekja aftur til ársins 1987. Það var smíðað upp úr amerísku kerfi sem hét MSA, sem hafði verið notað í tvö ár og menn gáfust hreinlega upp á að nota það. Þá voru bestu hugmyndirnar teknar úr því og einfaldaðar og í rauninni smíðað nýtt bókhaldskerfi, BÁR. Það var í keyrslu 1987–2004. Launakerfið var sennilega tíu árum eldra og hafði gengið í gegnum ýmsar viðbætur og stagl. Bæði þessi kerfi voru sérsmíðuð fyrir ríkið og báru þess merki.[133]
Settir voru upp hópar til þess að reyna að greina þarfir ríkisins og setja fram kröfur. Sú vinna hélt áfram til ársins 2000 en þá var tilbúin kröfugerð. Efnt var til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu síðla árs 2000 en það var ekki fyrr en á árinu 2001 að niðurstöður lágu fyrir. Allmörg tilboð höfðu borist.
Við lok tilboðsfrests í byrjun mars 2001 höfðu átta tilboð borist frá sex aðilum. Þrjú tilboð bárust frá Skýrr hf. sem bauð hugbúnað af gerðinni Oracle E-Business suite. Eitt tilboð barst frá Nýherja hf. sem bauð hugbúnað af gerðinni SAP, eitt frá Gopro Landsteinar sem bauð hugbúnaðinn Axapta, eitt frá Columbus sem einnig bauð Axapta-lausn, eitt frá AX hf. sem bauð hugbúnaðinn Agresso og eitt frá Streng hf. sem bauð Navision-hugbúnað. [134]
Málinu lyktaði þannig að tilboði frá SKÝRR hf. var tekið og Oracle þar með valið en kerfið hlaut nafnið Orri. Samningur við SKÝRR var gerður á miðju ári 2001. Þar með hófst langt ferli við innleiðingu á hugbúnaðinum. Við tóku málaferli en Nýherji höfðaði mál vegna samningsins og taldi fram hjá sér gengið. Það var einnig gagnrýnt að þeir sem stæðu að útboðinu tengdust SKÝRR um of. Málarekstrinum lyktaði þannig að ríkið var sýknað af kröfum Nýherja og talið að staðið hefði verið rétt og eðlilega að þessu útboði.[135]
Stefán Kjærnested lýsir innleiðingu kerfisins á þennan hátt:
Nú síðan tók við að koma kerfinu af stað. Þetta var mjög viðamikið kerfi og leysti af hólmi um fjörutíu kerfi. Fyrir utan launa- og bókhaldskerfi, þá leysti þetta kerfi af hólmi til dæmis birgðakerfi á Landspítalanum, verkbókhaldskerfi hjá Vegagerðinni, nokkur tímaskráningakerfi og minni verkbókhaldskerfi. Öll þessi kerfi runnu þarna saman í eitt kerfi.
Þegar við vorum að fara að stað var spurning hvernig við ættum að gera þetta. Það voru uppi tvö sjónarmið, áttum við að reyna að byrja á lítilli stofnun og reyna síðan að stækka módelið? Eða eigum við að fara hina leiðina og taka fyrir stærstu stofnunina, sem var Landspítalinn, og þá var hugsunin sú: Ef við leysum flækjuna fyrir Landspítalann, þá leysum við hana örugglega fyrir alla hina.[136]
Síðari leiðin var valin og Landspítalinn var frumherjastofnun sem byrjaði að vinna í kerfinu árið 2002. Árið 2003 komu fyrstu stofnanir utan Landspítala inn í kerfið og árið 2004 tóku flestar stofnanir fjárhagshluta kerfisins í notkun. Ríkissjóður var gerður upp í fyrsta skipti í kerfinu árið 2004. Starfmannakerfið fylgdi ekki með á sama hraða. „Af því launakerfið er svo viðkvæmt kerfi, þá ákváðum við að stíga varlega til jarðar. Þá var smíðuð brú þannig að við skráðum upplýsingar í Oracle en reiknuðum út í gamla kerfinu,“ segir Stefán.[137] Kerfin tvö voru keyrð samhliða og allar stofnanir nema þær sem voru í launakerfinu H-laun voru komnar inn í nýja kerfið á árinu 2005 en árið 2006 bættust þær við sem voru í H-launum.[138]
Ríkisbókhald og fjársýsla ríkisins hafa haft þá stefnu að úthýsa rekstri og einbeitt sér að því að hafa sérfræðikunnáttu í að nota kerfin og þjónusta þau, en ekki að reka þau.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2012 er ítarlega fjallað um kostnaðinn sem þá hafði orðið af hugbúnaðinum, bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað, og er hann sýndur eftir árum í riti sem fylgdi skýrslunni.[139]
Gagnrýni annarra, svo sem Ágústs Guðmundssonar, beindist meðal annars að þeim kostnaði sem lagður hefði verið í þetta stóra kerfi og vísuðu þeir meðal annars í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ágúst taldi útboðið hafa verið dæmi um einn allsherjar skrípaleik. „Tölvumiðlun hafði áhuga á launa- og starfsmannakerfinu og var með kerfi í rekstri hjá fjölda ríkisstofnana, meðal annars hjá spítölum, en það var metið minna en kerfi sem ekki var búið að skrifa.“ Hann benti líka á að Oracle væri ekki kerfi sem hentaði til að reikna út laun.[140] Arnheiður Guðmundsdóttir var verkefnisstjóri í innleiðingu mannauðshlutans hjá Reykjavíkurborg og LSH og bætir við: „Það sem var stór þröskuldur við innleiðingu þessara kerfa var að ríkið hafði tekið ákvörðun um að kaupa staðlað erlent kerfi en notendur voru látnir hætta með sérsmíðuð kerfið sem virkuðu fyrir íslenskar aðstæður. Bæði starfsmannahlutinn og launahlutinn í Orra voru þannig hönnuð upphaflega fyrir stór erlend fyrirtæki og að lokum þurfti mikla sérsmíði til að þeir virkuðu eins og til var ætlast í okkar flókna launakerfi.“
Enn verða breytingar á skattakerfinu
Árið 1996 þegar var farið, eftir langan aðdraganda, að skanna skattframtöl. Þar með hættu starfsmenn skattstjóra allri skráningu. Skönnunin gafst ekki vel; vélarnar gátu ekki lesið hluta af því sem framteljendur höfðu handskrifað á framtölin. Um áratug hafði verið leitað að hentugri aðferð, án viðunandi árangurs, en loks fannst lausnin, segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri:
Þá er stigið það merkilega skref í sögu okkar að farið var að undirbúa að framteljendur gætu talið fram á netinu hefst 1998, undir stjórn Garðars Valdimarssonar, sem þá var ríkisskattstjóri. Sá sem sá um þetta var Ómar Ingólfsson, sem var áður einn af framkvæmdastjórum í SKÝRR en var þá orðinn starfsmaður hjá Ríkisskattstjóra. Fyrstu framtölin koma inn 1999 en þá var Indriði Þorláksson orðinn ríkisskattstjóri, og hann tekur þessa tækni og innleiðir hana að miklu leyti til fulls. Þetta er mjög merkilegur áfangi að því leyti til að framteljendur tóku þessu fljótt mjög fagnandi, 19 þúsund framtöl komu fyrsta árið, yfir 80 þúsund næsta og yfir 100 þúsund á þriðja, þannig að þetta var mjög fljótt að innleiðast hjá þorra almennings. Þá er í fyrsta sinn farið að árita fjármálaupplýsingar inn á framtölin og þá gekk eftir hugmynd sem við vorum með frá 1990 til 1992 og hófum að undirbúa að snúa ferlinu við; í staðinn fyrir að spyrja framteljendur um hverjar væru tekjur þeirra, sem við höfðum upplýsingar um frá launagreiðendum, bifreiðaskrá, fasteignaskrá og ýmsar aðrar upplýsingar, sögðum við: Eigum við ekki að setja þessar upplýsingar inn á framtalið og spyrja framteljandann: Er þetta rétt?[142]
Byggt var á danskri fyrirmynd en Danir tóku upp þennan hátt skömmu eftir 1980.
Byrjað var smátt, fyrstu voru laun ríkisstarfsmanna sett inn á framtalið, síðan laun frá nokkrum af stærstu launagreiðendunum utan ríkisins. Lengi vantaði upplýsingar frá fjármálastofnunum en á þessum árum var bankaleynd mjög rík og hvorki fengust upplýsingar um innistæður né skuldir Íslendinga. En árið 1998 gekk dómur í Hæstarétti í máli sem snerist um að Skattstjóri hafði kallað eftir upplýsingum um 1357 einstaklinga frá Landsbankanum sem bankinn neitaði að láta af hendi. Hæstiréttur dæmi bankann til að afhenda upplýsingarnar, vegna þess að þarna væri um afmarkaðan hóp aða ræða. Eftir efnahagshrunið 2008 var lögunum breytt þannig að Ríkisskattstjóri skyldi fá þessar upplýsingar, fyrst innistæðurnar 2009 og síðan skuldirnar 2010. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri:
Þar með rættist sá langþráði draumur okkar að geta búið til framtal fyrir þorra framteljenda, af því að við hefðum allar upplýsingarnar og settum þær inn. Það var mjög stór áfangi þegar við gátum gert það í fyrsta sinn árið 2010 og það hefur sýnt sig að framteljendur hafa tekið þessum upplýsingum fagnandi. Það er fimm mínútna verk að gera framtalið, tekur jafnvel enn skemmri tíma hjá flestum; þá erum við ekki að tala um þá sem eru í atvinnurekstri eða einstaklinga í rekstri.[143]
Stöðluð viðskiptatengslakerfi (CRM) – dönsk kerfi keypt
Þau fullkomnu, stöðluðu viðskiptakerfi sem komu fram á sjónarsviðið á síðustu áratugum seinustu aldar þróuðust ört. Ný hugtök urðu fólki töm, til að mynda CRM Custom relationship management – viðskiptatengslakerfi sem gerð eru til að halda utan um samskipti við viðskiptavini. Viðskiptahugbúnaður var að taka breytingum. Í upphafi var aðallega haldið utan um innkaupin og vörurnar og síðan söluna og viðskiptavinina. Síðan fór áhuginn að beinast að því hvað hægt væri að lesa úr þeim gögnum sem haldið var utan um í kerfunum, svo sem hvaða þjónustu viðskiptavinirnir vildu fá og hvenær og hvernig væri tímabært að kynna nýja vöru á markaðinn eða afla nýrra viðskiptavina. Á markaðinn komu sífellt fullkomnari tól til að rýna í upplýsingar. ERP-kerfin urðu sífellt mikilvægari hér á landi sem annars staðar. Mikilvægustu breytingarnar urðu þegar Microsoft keypti tvö dönsk fyrirtæki, Navision og Concorde, sem í dag eru Dynamics-vörurnar NAV og AX.[144]
Útrás íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja hafin
Tölvumiðlun fór snemma í skammvinna útrás til Asíu árin 1994–1995 og setti upp fyrstu internettenginguna í Víetnam. Sérstakt fyrirtæki var stofnað í kringum það verk, NTS hf. Ólafur Ragnar Grímsson átti þátt í að leiða aðila saman. Íslendingarnir sem stóðu fyrir þessu verkefni voru viðstaddir þá sögulegu stund í Ho Chi Min-borg þegar internetsambandi var komið á í Víetnam, 2. maí 1995. Ári síðar kom bakslag í samvinnuna þegar Víetnam lokaðist á nýjan leik fyrir slíkum verkefnum.[145]
Útflutningur hugbúnaðar frá Íslandi var tekinn fyrir í tímaritinu Tölvumálum í mars 1997: „Undanfarin misseri hefur verið vaxandi umræða um möguleika Íslendinga til útflutnings á hugbúnaði og ekki að tilefnislausu, því útflutningur hugbúnaðar hefur aukist hlutfallslega hraðar en flestur annar útflutningur.“[146] Það sem af var tíunda áratugnum hafði útflutningur tvöfaldast á hverju ári og nálgaðist hálfan milljarð árið 1995.[147] Sá fyrirvari er gerður í umfjölluninni að þarna sé „blandaður“ hugbúnaður undanskilinn. „Ljóst er t.d. að Marel hf. er einn stærsti útflytjandi hugbúnaðar en að því er ég best veit er sá hugbúnaður aðeins seldur sem hluti sérhæfðs vélbúnaðar. Annar hluti útflutningsins er í formi sérfræðiþekkingar sem ýmist er unnin hérlendis eða hjá viðkomandi viðskiptavini erlendis.“[148] Sum þeirra vandamála sem útflytjendur íslensks hugbúnaðar glímdu við voru að hverfa, svo sem hár símakostnaður, en önnur voru enn til staðar. Kjartan Ólafsson, framkvæmdastjóri eins útflutningsfyrirtækisins, Fakta ehf., listar helstu vandamálin:
- Miklar sveiflur í framboði og eftirspurn eftir hæfu hugbúnaðarfólki
- Ferðakostnaður vegna fjarlægðar frá markaði
- Hár símakostnaður við útlönd
- Skortur á áhættufjármagni og lánsfé
- Andsnúnar afskriftareglur þegar þróunartími er langur
- Ísland hefur ekki hátækniímynd[149]
Af hálfu útflytjenda skrifaði Björn Z. Ásgrímsson hjá Kerfi hf. um Seascape, „heilsteypt upplýsingakerfi fyrir sjávarútveg“. [150]
Björn taldi að öflugur heimamarkaður skipti sköpum sem forsenda útflutnings:
Meðal helstu viðskiptavina hér á landi eru leiðandi fyrirtæki í sjávarútvegi, svo sem Samherji, ÚA, HB og Hraðfrystihúsið Hnífsdal. Þessi fyrirtæki eru verðugir fulltrúar íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegum samanburði, sem sífellt leita nýrra leiða í uppbyggingu tæknibúnaðar og upplýsingakerfa fyrir sinn fjölþætta rekstur. Með þennan öfluga heimamarkað sem kjölfestu hafa starfsmenn Kerfis hf. getað þróað SeaScape […] hugbúnaður sem leysir jafn víðtækar þarfir og SeaScape hefur ekki verið á boðstólum á alþjóðamarkaði.[151]
Þegar líða tók á níunda áratuginn fóru hugmyndir að þróast um frekari nýtingu tölvutækninnar til að ná fram aukinni hagræðingu og frekari markaðssókn fiskiðnaðarins. Fjarskipti voru að batna, Internetið var komið til sögunnar og tölvutæknin hafði tekið stórstígum framförum bæði í vél- og hugbúnaði.
Rekjanleiki upplýsinga og myndræn framsetning þeirra voru lykilatriði í þessum hugmyndum.
Árið 1986 stóð IBM á Íslandi fyrir samkeppni á meðal hugbúnaðarfyrirtækja um hugbúnað. Ein hugmyndin sem verðlaun fékk var frá sérfræðingum Rekstrartækni sf. og laut hún að nýju upplýsingakerfi fyrir fiskiðnaðarfyrirtæki og voru verðlaunin afhent á hugbúnaðarsýningu ellefu íslenskra fyrirtækja og IBM á Íslandi í febrúar 1987.[152]
Grunnhugmyndin var að byggja upp samhæfðan venslaðan gagnagrunn þar sem magn, tími og ástand voru lykilatriði sem allar aðrar upplýsingar voru byggðar umhverfis. Markmiðið var að útbúa samofið heildarkerfi fyrir upplýsingavinnslu og ákvarðanatöku í fiskvinnslufyrirtækjum.
Framhaldið var síðan að á árinu 1987 var ákveðið að ráðast í gerð kerfisins og var það nefnt Mímisbrunnur en hann er í goðafræðinni brunnur visku og speki. Samstarfsaðilar við gerð kerfisins voru Rekstrartækni sf., Verkfræðistofan Strengur og IBM á Íslandi.
Kerfið var tekið í notkun hjá HB og Co á Akranesi 1989[153] og síðar hjá ÚA og Íshúsfélagi Ísfirðinga.
Mímisbrunnur var síðan þróaður áfram af Tölvutækni ehf. og síðar Kerfi hf. og var þá nefnt SeaScape. Kerfi hf. rann síðar inn í Origo ehf. og síðar Tölvumyndir (TM Software) en Mímisbrunnur var notað í um 10 ár.
Stefán Hrafnkelsson, sem byggði upp leikjafyrirtækið Betware á Íslandi, tekur undir það að öflugur heimamarkaður sé kjölfesta fyrir útflutning á hugbúnaði. Vinna þyrfti hugbúnaðinum fótfestu á Íslandi áður en sótt væri á erlend mið. Þar af leiðandi væri réttlætanlegt að láta innlenda aðila fá kerfið á hagstæðu verði.[154] Betware byggðist því upp á árunum fyrir árþúsundamótin en hóf sókn á erlendum markaði árið 2001.
CODA á Íslandi, sem seldi Windows-hugbúnað Íslenskrar forritaþróunar,[155] reri einnig mjög á alþjóðleg mið. CODA lagðir einkum áherslu á fjárhags-, viðskiptamanna- og lánardrottnabókhald.[156] Hér var um enn eitt mynstur í útflutningi á hugbúnaði að ræða. „CODA á Íslandi ehf. er hreint „þróunarfyrirtæki“, fjármagnað af CODA Group plc. Öll starfsemi þess er útflutningur á íslenskri vinnu og þjónustu.“[157] Þetta hentaði fyrirtækinu vel og var að mati Vilhjálms Þorsteinssonar, aðaltæknisérfræðings fyrirtækisins (Principal Technical Specialist), besta leiðin til útflutnings, eins og lesa má í grein hans í Tölvumálum frá 1997. „Tiltölulega lítil íslensk hugbúnaðarfyrirtæki, þótt stöndug séu og vel rekin, hafa hvorki fjármagn né tíma (né þekkingu, enn sem komið er) til að standa sjálf í markaðssetningu hugbúnaðar fyrir almennan markað á erlendri grund.“[158] Íslenski heimamarkaðurinn var einu sinni sem oftar talinn styrkleiki útflutningsaðila, eins og sést í grein Vilhjálms:
Íslenski markaðurinn hefur reynst okkur góður heimamarkaður. Kröfuharka notenda, mikil samkeppni og metnaður íslensks hugbúnaðarfólks er gott veganesti til útflutnings og gerir hugbúnað okkar eftirsóknarverðari á heimsmarkaði.[159]
Hollenska fyrirtækið BAAN keypti CODA síðar.
Í sama tölublaði Tölvumála er fjallað um reynslu af útflutningi afgreiðslukerfa á vegum Hugbúnaðar hf. til Bretlands, en þar var vaxandi markaður.[160] Spurningin er hvernig nálgast megi svo stóran markað, sem Bretlandi er: „Það að setja upp söluleiðir, byggja upp sambönd og þjónustu er of seinvirkt og dýrt þannig að slíkt var ekki á færi Hugbúnaðar hf. nema í mjög litlum mæli. … Vænlegra til árangurs er að leita að aðilum sem þegar hafa markaðstengsl.“[161]
Fleiri kerfi voru til umfjöllunar í Tölvumálum: Tölvukerfi í eigu Reiknistofu fiskmarkaða hf. (RSF) í Njarðvík var á sama tíma, 1997, með bandaríska útgáfu af tölvukerfinu Tengli, og hét sú bandaríska CASS. [162]
Haustið 2006 skilaði Sigrún Guðjónsdóttir, sem hafði reynslu af framkvæmdastjórn íslenskra tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja,[163] meistaraprófsritgerð í tölvunarfræði um útrás íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Rannsóknin sem hún gerði fólst meðal annars í ítarlegum viðtölum við fjórtán stjórnendur hugbúnaðarfyrirtækja. Hún greindi milli nokkurra tegunda útrásar:
Sú tegund af útrás sem fengið hefur mesta umfjöllun í fjölmiðlum er kaup á erlendum fyrirtækjum en sú útrás sem sennilega skilar mestu í þjóðarbúið er útflutningur á vörum og þjónustu. Það er því hægt að skipta útrásinni í tvo flokka, annars vegar innri vöxt sem er þá sala á vörum og þjónustu í gegnum íslensk fyrirtæki hér heima eða erlendis og hins vegar ytri vöxt sem eru kaup á fyrirtækjum í rekstri erlendis. Innri vöxtur er oftast talinn hægari og minni áhætta fólgin í slíkum vexti. Ytri vöxtur þarf mun meira fjármagn og er talinn áhættumeiri, sérstaklega ef sameina á fyrirtæki úr ólíkum áttum. Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa stundað bæði innri og ytri vöxt en spurningin er hvort er algengara og hvað fyrirtækin telja vænlegra til árangurs.
Hugsanlegar tegundir útrásar:
- Innri vöxtur með útflutningi frá Íslandi
- Innri vöxtur með stofnun útibúa erlendis
- Ytri vöxtur með kaupum á fyrirtækjum erlendis
- Sambland af þessu öllu[164]
Þrátt fyrir talsverð umsvif í útrás íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja voru blikur á lofti á fyrstu árum nýrrar aldar. Margt kom þar til en rekstrarskilyrði þóttu almennt erfið á Íslandi. Í niðurstöðum rannsóknar Sigrúnar Guðjónsdóttur kemur glöggt fram hvað stjórnendurnir töldu einkum valda fyrirtækjum þeirra erfiðleikum:
Einungis þrír viðmælenda töldu að rekstrarskilyrði fyrir íslensk hugbúnaðarfyrirtæki í erlendri sókn væru góð. Átta nefndu að erfitt væri að reka fyrirtæki á Íslandi með erlendar tekjur vegna gengismála. Níu af fjórtán voru með eitt eða fleiri dótturfélög og flestir þeirra voru farnir að leita leiða til að færa erlendar tekjur í gegnum þessi erlendu dótturfélög og fjórir töldu ekki ólíklegt að flytja starfsemina erlendis á næstu árum. Fyrir utan gengið þá töldu viðmælendurnir erfitt að fá gott fólk á Íslandi og nokkrir voru farnir að leita út fyrir landsteinana að starfsfólki eða hreinlega farnir að færa þróun til annarra landa.[165]
En fleira gerði íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum í útrás erfitt fyrir. „Það sem kom á óvart var mikil umræða viðmælenda um stóriðjustefnu stjórnvalda og í raun vonbrigði þessara fyrirtækja með þátt stjórnvalda við að byggja upp þekkingariðnað á Íslandi.“[166]
Ýmis nýsköpunarfyrirtæki leituðu fjármagns út fyrir landsteinana, ýmist frá upphafi eða þegar á leið. Eitt þeirra var OZ:
Ein forsenda árangurs OZ þegar á leið var fjármögnunin eða öllu heldur aðgangur að þolinmóðu fjármagni. […] Hugbúnaðarframleiðsla OZ var að mestu rekin fyrir erlent fé og megin hluti þess kom frá Ericsson sem greiðslur fyrir þróunar- og rannsóknarvinnu. [167]
Þá eru ótalin þau íslensku hugbúnaðarfyrirtæki sem erlendir aðilar keyptu og sameinuðu erlendum fyrirtækjum. Maskína, fyrirtæki sem Hjálmar Gíslason og Guðjón Már Guðjónsson stofnuðu 1999, var gott dæmi um slíkt fyrirtæki. Það var sameinað norsku fyrirtæki árið 2003 og reksturinn að hluta til fluttur úr landi en hélt jafnframt áfram hér á landi undir stjórn nýrra aðila.[168] Árið 2005 má sjá að íslenski hluti fyrirtækisins er einkum að sinna tæknimálum en jafnframt að reyna að hasla sér völl á íslenskum markaði fyrir nýjar símatengdar vörur.
Útibú Maskínu hér á landi sinnir nær eingöngu tæknihluta fyrirtækisins. Önnur útibú, svo sem í Noregi og Bandaríkjunum, sjá um vinnu við aðra hluta þeirra verkefna sem í gangi eru.
[…] „Tæknin er komin í kynningu í Noregi og mun verða tekin í gagnið af stórum aðila í Bretlandi á næstunni. Þótt ekki sé byrjað að auglýsa lausnina hér á landi þá býst ég fastlega við því að þeir sem hringja mikið út fyrir landssteina taki þessari nýju tækni fagnandi enda gefur hún færi á að lækka símreikningana verulega,“ segir Freyr Ólafsson, þróunarstjóri hjá Maskínu.[169]
Útflutningurinn kemur fram í tölum fyrir árið 2003, en þá var útflutningur hugbúnaðar og tölvuþjónustu orðinn 3732 milljónir, og hafði fjórtánfaldast á tíu árum. Nokkur af stærstu fyrirtækjunum í geiranum voru með nær allar sínar tekjur í erlendri mynt, það er CCP, Friðrik Skúlason ehf. og Hugvit, en áætluð samanlögð velta þessara fyrirtækja var um 1,5 milljarðar króna. Hlutfall þessa útflutnings af heildarútflutningi vöru og þjónustu á landinu hafði þá vaxið frá því að vera 0,1% 1993 í 1,3% 2003. Í samanburði við nágrannaþjóðina Írland var þetta kannski ekki mikið – þar var sambærileg tala 9,1% – en Ísland skoraði engu að síður mun hærra en flest önnur lönd, svo sem Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland og Spánn, og var vel yfir meðaltali bæði OECD og ESB. Bretar og Íslendingar voru hins vegar á sama stað hvað þessar tölur varðaði árið 2003.[170]
Sameining gagngert til útrásar
Fjögur íslensk upplýsingatæknifyrirtæki og tvö dönsk sameinuðust í mars árið 2000. Það voru Hugvit hf., Þróun hf., Þekking hf., Tristan ehf., SCIO A/S og F-8 sem var sameinað SCIO A/S, en bæði fyrirtækin voru dönsk. Yfirlýst markmið sameiningarinnar var að fara í „kröftuga útrás“ á erlendum markaði. Þessi fyrirtæki störfuðu á sviði viðskiptahugbúnaðar, netviðskiptalausna (e-business), skjalastjórnunar, hópvinnukerfa og hýsingar- og rekstrarþjónustu. Stærstu hluthafar voru Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn, Ólafur Daðason og Eignarhaldsfélag Alþýðubankans auk Landssímans. Starfsstöðvar sem ákveðnar voru við sameininguna voru í Reykjavík og á Akureyri, Kaupmannahöfn, London, Berlín og í Stokkhólmi.[171]
Starfsemi íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja erlendis
Það hefur lengi tíðkast að ýmis íslensk tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki séu með hluta starfsemi sinnar í öðrum löndum líkt og gerist um allan heim. Oft er þetta gert til að vera nálægt stærstu mörkuðunum fyrir hugbúnað fyrirtækjanna. Sum fyrirtæki eru með mestalla hugbúnaðargerð sína fyrir markaði erlendis, allt frá leikjafyrirtækinu CCP til LS Retail, sem selur Navision-lausnir til erlendra samstarfsaðila og á erlenda markaði. Stundum hafa fyrirtæki flutt hluta starfsemi sinnar til útlanda vegna skorts á tæknimenntuðu fólki á Íslandi. Þetta hefur einkum verið áberandi á nokkrum þenslutímabilum. Þar má nefna Betware, sem hafði í áföngum fært hluta sinnar starfsemi til Danmerkur, Spánar og Serbíu áður en það var selt erlendum aðilum árið 2013. Margt þarf að taka með í reikninginn, meðal annars kostnað og annan aðbúnað fyrirtækja erlendis. Betware hafði á tímabili starfsemi í Póllandi en kostnaður hækkaði ört og því var hluti starfseminnar fluttur til Serbíu. Almenn enskukunnátta hugbúnaðarfólks þar í landi gerði það fýsilegri kost en að færa meira af starfseminni til Spánar.[172]
Einkavæðing opinberra fyrirtækja – bankar keppast um hæfustu forritarana
Einkavæðing opinberra fyrirtækja hafði talsverð áhrif á þróun tölvumála á Íslandi, bæði sölu hugbúnaðar og vélbúnaðar. Stærsta og augljósasta dæmið var einkavæðing SKÝRR, sem fjallað er um annars staðar í sögunni.
Einkavæðing bankanna árið 2002 og stórra opinberra fyrirtækja um svipað leyti varðaði einnig hug- og vélbúnaðarheiminn á Íslandi. Tölvudeildir bankanna áttu þó heldur betur eftir að eflast er fjær dró einkavæðingunni og urðu deildirnar talsverðir gerendur í hugbúnaðarþróun á Íslandi, einkum í samkeppninni um hæfasta starfsfólkið.
Þótt Íslendingar væru nýjungagjarnir og tilbúnir að prófa nýjar leiðir þá leið nokkur tími þar til farið var að líta á internetið sem vænlegan kost í viðskiptum. Sú þróun varð þó ekki stöðvuð.
Netbankar – ef þér leiðast biðraðir
Með tilkomu hraðbankanna á árunum eftir 1985 var skyndilega unnt að sækja pening út á kort hvenær sem viðskiptavinum hentaði. Áður höfðu notendur orðið að binda sig við afgreiðslutíma bankaútibúanna. Landsbankinn var kominn með 25 hraðbanka á 19 stöðum árið 1994 og aðrir bankar voru á svipuðu róli. Athyglisvert var þó að ekki þótti arðbært að bjóða upp á slíka þjónustu á landsbyggðinni um sinn, vegna þess að símakostnaður væri of hár.[173]
Litið var til erlendra aðila um þróunina á bankamarkaðnum. SE-bankinn í Helsingjaborg var farinn að selja gjaldeyri, sænskar og danskar krónur, til viðskiptavina sinna í sjálfsölum. Norski bankinn Telebank bauð viðskiptavinum að tengjast bankanum um síma og með einföldum tækjabúnaði að framkvæma ýmsar afgreiðslur, svo sem að færa peninga milli reikninga, gera fyrirspurnir um gengi, greiða reikninga og fleira. Minniskort á vegum franskra banka fengu líka umfjöllun. Allt voru þetta dæmi sem tínd voru til sem áfangar á leið til peningalauss samfélags.[174]
Næsta skrefið á Íslandi var að bjóða upp á bankaþjónustu á internetinu. Heimabanki Íslandsbanka var settur á laggirnar í byrjun september 1995 og og aðrir bankar og sparisjóðir voru á svipuðu róli. Almenningi var bent á að nú væri hægt að borga reikningana við „heimilislegan tölvuskjáinn“ en fyrirtæki höfðu getað greitt reikninga sína rafrænt í nokkur ár. Fjallað var um þessa nýlundu í frétt í Tímanum haustið 1995:
Ef þér leiðast biðraðir í bönkum, þjónustugjöldin pirra þig og þú færð stöðumælasekt í hvert sinni sem þú stígur fæti þínum inn í bankastofnun – en ert tölvueigandi og átt mótald, þá áttu þess kost, fyrir milligöngu Landsbankans, að fría þig mánaðarlegu bankaergelsi með því að sækja um og setja upp Einkabanka heima í stofu.
Fyrir 5 árum tók Landsbankinn upp þjónustu við fyrirtæki, sem fólst í því að þau gætu fylgst með bankaviðskiptum sínum gegnum tölvur fyrirtækisins. Síðan í september hafa einstaklingar einnig getað nýtt sér þessa þjónustu og hefur henni verið vel tekið.[175]
Árið 1999 var notkun netbankaþjónustu orðin allútbreidd. Það ár voru um 20% viðskiptavina Landsbankans tengd Einkabankanum, sem var netbanki bankans, og var til þess tekið að það væri eitt hæsta hlutfall sem vitað væri um á Vesturlöndum hjá einstökum banka.[176]
Vefverslanir – tveggja tíma eða átta mínútna verslunarferð
Hugmyndin um vefverslanir á Íslandi komu snemma fram. Fyrst til að opna vefverslun (Netkaup) voru Hagkaup, 1. desember 1995. Netkaup voru rafrænt útibú verslunarinnar og gerðu það „víst nokkuð gott“[177]. Á opnunardaginn auglýstu Netkaup í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu meðal annars með þessum orðum: „Í dag opnum við nýja verslun heima hjá þér! – Hvort viltu eyða tveimur tímum eða 8 mínútum til þess að versla inn til helgarinnar?“[178]
Nokkurs annars eðlis var Heimakringlan, vefverslun á vegum Margmiðlunar – „fyrsta rafræna verslunarmiðstöðin“[179]. Hún var opnuð í febrúar 1995. Í grein um öryggismál í vefviðskiptum lýsir Ólafur Andri Ragnarsson Heimakringlunni svo:
Heimakringlan er verslunarmiðstöð á Internetinu þar sem verslanir bjóða upp á vörur og þjónustu … Neytendur nota almenna vefskoðara til að fá fram vörulista og skoða upplýsingar um vörur og verð. Vörulistar geta sett fram margmiðlunarefni, s.s. myndir, hljóð og hreyfimyndir. Vörum er safnað saman í innkaupakörfu og pöntunin send til viðkomandi verslunar.[180]
Margt er kunnuglegt í þessari lýsingu nú, en hugmyndin kom þó því miður allt of snemma fram, einum áratug eða svo, og Heimakringlan náði ekki fótfestu í þessari tilraun.[181]
Þegar leið nær árþúsundamótunum fóru dagblöðin að bjóða upp á efni á vefnum. 2. febrúar 1998 var vefurinn mbl.is opnaður, en hann hefur verið einna útbreiddastur íslenskra vefmiðla. Aðrir fylgdu eftir, koll af kolli, sumir í tengslum við aðra miðla. Visir.is, annar mjög vinsæll vefmiðill, hefur til að mynda lengi verið veffréttaútgáfa í tengslum við sjónvarpsstöðina Stöð 2 og fríblaðið Fréttablaðið. Ruv.is er vefútgáfa Ríkisútvarpsins, með fréttir og safn nýrra og eldri þátta og fréttatíma. Þá ber að nefna vefmiðla sem hafa verið stofnaðir sérstaklega í því skyni að miðla fréttum, stjórnmálaumfjöllun, menningarefni og fleiru. Þeir hafa bæði verið í boði ókeypis og í áskrift.
Það kostaði dálítið breyttan hugsunarhátt að fá rótgróna blaðamenn til þess að skrifa efni fyrir vefútgáfu, þar sem áherslan er lögð á að koma fréttum fljótt á framfæri þótt það sé á kostnað prófarkalesturs og vandvirkni, sem flestir blaðamenn höfðu tamið sér. Þeir voru meðvitaðir um að fréttirnar sem prentaðar væru eftir þá yrðu óbreyttar um aldur og ævi og uppflettanlegar á bókasöfnum áratugum og jafnvel öldum saman. Sumum gekk illa að sætta sig við það að leyfa hraðanum að ráða og leiðrétta það sem miður fór eftir á, eins og netútgáfa býður upp á. Árni Matthíasson var potturinn og pannan í því að koma Morgunblaðinu í vefútgáfu og segir það hafa verið gæfu þeirra að reyna ekki að endurskapa dagblaðaupplifunina heldur gera sér grein fyrir því að hér var um nýjan miðil að ræða sem lyti eigin lögmálum.[182]
Hugbúnaðargerð í leikjaiðnaði náði fótfestu á Íslandi á tíunda áratugnum. Þá komu fram fyrirtæki sem sérhæfðu sig í leikjaiðnaði. Þar má nefna CCP sem stofnað var 1997, Betware stofnað árið 1998, On the Rocks 2002, Sauma, finnskt fyrirtæki með útibú á Íslandi, stofnað 2004, og Gogogic sem var stofnað árið 2006.[183]
Tveir leiðandi menn í leikjaiðnaði, Hilmar Veigar Pétursson og Stefán Hrafnkelsson, fóru mjög ólíka leið út í leikjaframleiðslu. Röð tilviljana réð því að Hilmar Veigar fór að taka þátt í uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja meðfram námi. Stefán kom hins vegar frá námi og störfum hjá Microsoft í Bandaríkjunum með mjög ákveðna áætlun um uppbyggingu fyrirtækja sinna og hélt sig nákvæmlega við hana, bæði hvað tímasetningar og áfanga snerti. Árangur beggja er engu að síður að mörgu leyti sambærilegur, og þrátt fyrir hindranir hafa þeir náð umtalsverðum sigrum í alþjóðlegum leikjaiðnaði. Fyrirtæki þeirra, CCP og Betware, eru meðal þeirra sem hér verður litið nánar á, en fyrst er rétt að beina sjónum að OZ.
OZ-ævintýrið – inn fer pizza, út kemur kóði
Stemningin, sem löngu síðar var lýst með þessum orðum: Inn fer pizza, út kemur kóði,[184] var vissulega ríkjandi á blómatíma OZ-ævintýrisins.
Margar sögur eru til um starfshætti á OZ, sérstaklega frá fyrstu árunum. Þá var algengt að menn ynnu meðan þeir gátu staðið – eða setið. Þegar þreytan yfirbugaði menn skriðu þeir á dýnu úti í horni eða í sófa og sváfu í nokkra klukkutíma. Þá var sest aftur við skjáinn og haldið áfram að lifa í þrívíddarheimi tölvunnar. Ef hungur gerði vart við sig var yfirleitt hringt eftir pizzu og sneiðarnar maulaðar með annað augað á skjánum. Þannig gátu liðið dagar þar sem nokkrir starfsmenn fóru alls ekki heim til sín og dæmi voru um að menn dveldust í meira en viku samfleytt á vinnustaðnum.
Þetta þótti ekki hafa góð áhrif á einkalíf manna þegar unnustur þeirra sáu þá ekki svo dögum skipti og þau áhrif endurspegluðust í því að þegar auglýst var eftir starfsfólki var reynt að fá einhleypinga til starfa. Þeir áttu betra með að aðlagast hinu tryllingslega vinnuálagi en þeir sem voru í sambúð.[185]
Stofnun OZ hafði án efa margháttuð áhrif á sprotafyrirtæki sem komu í kjölfarið eins og þessi lýsing frá árinu 2011 gefur til kynna:
OZ er gott dæmi um mikilvægi nýsköpunar þar sem sú þekking og reynsla sem verður til, leitast við að viðhalda sjálfri sér, og endurnýjar sig við breyttar aðstæður. Jafnvel má halda því fram að í hugbúnaðargeiranum hafi ævintýrið OZ markað upphaf nýsköpunarferlis sem enn er ekki séð fyrir endann á. OZ sýndi fram á að á Íslandi væri hægt að byggja upp fyrirtæki í hugbúnaðarþróun á mjög metnaðarfullum hugmyndum. Reynsla þeirra sem unnu hjá og fylgdust vel með OZ er þó líklega mikilvægasta afurð fyrirtækisins. […] Reynslu sem OZ nýtti sér sjálft til þess að stofna nokkur sprotafyrirtæki og starfsmenn þess gerðu einnig síðar. […]
Í upphafi var OZ dæmigert sprotafyrirtæki. Það er stofnað af nokkrum guttum (um og undir tvítugu) sem voru í raun með frekar ónákvæma áætlun. Kannski ofsögum sagt að kalla það áætlun, það var meira löngun til að reka fyrirtæki sem nýtti sér nýjustu tækni til samskipta. Það sem vann aðallega með þeim var drifkraftur og óbilandi trú á að allar dyr stæðu opnar og að allt væri mögulegt. Fyrstu árin könnuðu þeir þrívíddartæknina og sáu fyrir sér hvernig hægt væri að nota hana á vefnum. Meðan allir voru enn með innhringimótöld var þetta gríðarlega framsýn hugsun. Þeir unnu þrívíddarverkefni fyrir bæði Intel og Ericsson og í framhaldi af því tókst þeim að selja Ericsson þá hugmynd að samskipti á internetinu væru framtíðin.[186]
Út frá OZ og á vegum starfsmanna OZ fyrr og síðar spruttu fjöldamörg fyrirtæki, eins og kortlagt var í skýrslu viðskiptaþings árið 2011, þar sem dregið var upp svokallað OZ-ættartré, en þar má sjá að aðeins fáein fyrirtækjanna (þau hvítu) sem upp úr OZ spruttu höfðu lagt upp laupana. [187]
Hilmar Veigar Pétursson, sem síðar varð framkvæmdastjóri CCP, vann hjá OZ á þessum ævintýralegu tímum. Hann var á síðasta ári í tölvunarfræði og starfaði sem pizzasendill og umsjónarmaður í tölvuveri í Háskólanum en var tilbúinn að fara í hlutastarf til OZ með námi. Þess í stað var hann, áður en hann vissi af, farinn að vinna áttatíu stundir á viku með náminu.
Hilmar var hjá OZ frá því í ágúst 1996 og til ársloka 1999 og endaði, eins og ýmsir fleiri frá OZ, með því að taka þátt í tveimur fyrirtækjum sem spruttu af meiði OZ-ættartrésins. Umfjöllun um annað þeirra, CCP, er að finna í sérkafla. Hilmar telur áhrif OZ-áranna á hugbúnaðargerð á Íslandi seint ofmetin.
Uppi í OZ lærði maður á fjórum árum það sem maður lærir venjulega á 40 árum. Við höfðum frábært frelsi til að gera alls konar hluti sem maður átti ekki að vera að gera, við vissum bara ekki betur. Og að mörgu leyti var OZ bara sturlað konsept. Einhvern tíma á að sæma Skúla og Guðjón fálkaorðunni fyrir það sem þeir gerðu. Þótt það hafi ekki gengið upp þá var skaðinn aðallega einhver erlend fjárfesting og einhver eftirmarkaðsverð. Það var tap af OZ en gróðinn af fyrirtækinu var mikill. Ástæðan fyrir því að við sitjum hér í dag með alls konar hluti í gangi á Íslandi er sú að við byrjuðum svo snemma að gera svo margt.[189]
Fyrstu ár CCP – Hættuspil og framhaldið
Rætur CCP liggja í OZ. Um helmingur starfsfólksins kom þaðan og menningin hjá CCP, ekki síður en vinnubrögðin, á rætur hjá OZ. Menn nýttu reynsluna frá OZ til að læra af mistökum þeirra.[190] Tónninn í umfjöllun um CCP hefur oft verið svipaður og í kringum OZ, ýmist miklar væntingar eða úrtölur. Fyrirtækið hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir en þegar litið var um öxl árið 2010 var þetta niðurstaða blaðamanns:
Því er ekki að neita að það þurfti mikla framsýni og dirfsku til að stíga það skref sem lítill hópur manna steig árið 1997 og varð upphafið að því veldi sem CCP Games er í dag [2010], með 450 starfsmenn, þar af 250 á Íslandi.[191]
CCP varð til árið 1997 þegar Reynir Harðarson fór frá OZ og stofnaði fyrirtækið, fyrst undir nafninu Loki margmiðlun. Fyrsta borðspil þess var nefnt Hættuspil og kom út árið 1999. Spilið seldist vel á íslenskum markaði, samtals í um tíu þúsund eintökum fyrsta árið.[192] Fljótlega var farið undirbúa leikinn EVE Online og auk þess unnið að verkefnum fyrir Latabæ[193]. Ásamt Reyni komu frá OZ þeir Ívar Kristjánsson, Þórólfur Beck Kristjánsson og Matthías Guðmundsson. Reynir fékk Hilmar Veigar Pétursson, núverandi forstjóra CCP, til liðs við fyrirtækið í mars árið 2000.
Í upphafi höfðu stofnendurnir fremur hægt um sig og voru búnir að læra af reynslunni að allt tæki sinn tíma. „Við höfum átt okkar móment en yfirleitt látið verkin tala,“ segir Hilmar Veigar Pétursson.[194]
Viðskiptamódelið var frekar einfalt, markhópurinn var kröfuharðir spilarar úti um allan heim, sem greiddu mánaðargjald fyrir að taka þátt í leikjasamfélagi í fjölþátttökuleik. Það sem þeim var boðið upp á þróaðist yfir í samfélag spilara um allan heim, fyrst með EVE Online.
Fyrstu ár Hilmars hjá CCP voru engu að síður ákveðið endurlit (dejà vu) til OZ-áranna. Mikil áhersla var á að fyrirtækið væri alþjóðlegt þótt fyrstu árin mætti sjá íslenska skjölun og athugasemdir í kóðanum.[195] Fram að því að netbólan sprakk um árþúsundamótin var nauðsynlegt að sækja fólk út fyrir landsteinana. Þegar peningurinn sem settur hafði verið í fyrirtækið upphaflega var uppurinn tóku við erfiðir tímar. Frá því 2001 og fram í mars 2002 unnu menn launalaust um skeið, verkefnið var einfaldlega komið of langt til að hætta við það og of spennandi að sjá hvernig til tækist. Hópurinn var lítill og samstilltur, varla meira en þrjátíu manns, sem tókst að lifa á litlu sem engu.[196]
Loks árið 2002 fór að rofa til þegar nýtt fjármagn kom inn í fyrirtækið. Fyrst lagði Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn, ÍSHUG, fjármagn til fyrirtækisins í janúar og átti þá 19,6% í því og einn mann í stjórn og hugðist taka virkan þátt í stjórn félagsins.
Starfsemi CCP hefur verið í vexti á undanförnum misserum að því er segir í frétt frá Íshug og nú starfa þar alls 29 manns með mikla reynslu af hugbúnaðargerð og internet- og servertækni. Þróun á fyrstu vöru CCP, tölvuleiknum EVE - The Second Genesis, er nú langt komin og gera áætlanir ráð fyrir að hann komi út í byrjun sumars.[197]
En stærsti viðburðurinn varð í mars. Í fjölmiðlum í marslok 2002 er sagt frá því að CCP hafi fengið á annað hundrað milljónir til að ljúka við leikinn og í flestum fjölmiðlum voru stórar fyrirsagnir: „Íslenska tölvufyrirtækið CCP gerir risasamning: 200 milljóna samningur fyrir tölvuleik“ sagði í fyrirsögn í Fréttablaðinu og Viðskiptablaðið slær upp fyrirsögninni „CCP fær á annað hundrað milljónir til að klára leikinn – árstekjur gætu numið allt að fjórum milljörðum króna“.[198]
Þrátt fyrir einbeitni og vilja þeirra starfsmanna sem héldu áfram að trúa á leikinn EVE Online þá var þetta tímabil þó engan veginn dans á rósum. Allt var logandi í illdeilum meðal hluthafa og í stjórn þegar illa áraði og tímasetningar stóðust ekki; of bjartsýnislegar áætlanir höfðu verið lagðar fram.[199] Framkvæmdastjóri lét af störfum um mánaðamótin apríl–maí 2002 og tilkynnt var um 185 milljóna króna tap fyrir skatt árið 2001.[200]
Leikurinn fór í lokaprófanir um mánaðamótin ágúst–september 2002 og kom síðan á almennan markað í Evrópu og Bandaríkjunum í byrjun maí 2003.[201]
Framkvæmdastjóraskipti urðu aftur kringum áramótin 2003–2004 þegar Ívar Kristjánsson hætti að frumkvæði stjórnar fyrirtækisins og Hilmar Veigar Pétursson tók í framhaldi af því við stjórnartaumunum. Hann ætlaði sér ekki að vera lengi við stjórnvölinn, heldur brúa bilið þar til fyrirtækið „fyndi einhvern gaur“ til að taka við stjórninni, en reyndin varð önnur og eftir á að hyggja segir hann að það hafi alveg tekið um 10–12 ár að læra allt sem hann þurfti um stjórnun slíks fyrirtækis.[202]
Um framhaldið hjá CCP er nánar fjallað í kaflanum um áratuginn 2005-2014.
Fyrstu ár Betware – gráa línan í getraunaleikjum
Betware hafði nokkra sérstöðu á íslenska leikjamarkaðinum frá upphafi þar sem þróun hugbúnaðarins var í upphafi í samvinnu við Íslenskar getraunir. Fyrirtækið á rætur í Margmiðlun og byggðist í raun á lokaverkefni fimm tölvunarfræðinema í Háskólanum í Reykjavík árið 1998, en þar kenndi Stefán Hrafnkelsson, framkvæmdastjóri Margmiðlunar hf. og síðan Betware.[203] Samstarf Margmiðlunar við Íslenskrar getraunir hófst reyndar fyrr og byggðist á hugmyndum um rafræn viðskipti og að kynna kerfi sem myndi auðvelda spilurum Íslenskra getrauna að taka þátt í leikjum á vegum þeirra. Þótt samstarfið við Íslenskar getraunir yrði aldrei nema lítið brot af starfsemi Betware þá varð það engu að síður til þess að Ísland tók forystu í því að færa getraunaspilin á netið og var nethluti slíkra íþróttaleikja á Íslandi fljótlega komið upp í 30% en næstu lönd á eftir, Austurríki og Lettland, voru þá með 10% sinna leikja á netinu.[204]
Sumarið 1998 kom Alþýðubankinn inn í fjármögnun Betware gegnum Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf. ásamt tveimur sænskum fyrirtækjum. Morgunblaðið segir svo frá í viðskiptahluta blaðsins 1. júlí 1998:
Hugbúnaðardeild Margmiðlunar hf. hefur um árabil unnið að þróun lausna á sviði veðmálastarfsemi á netinu, meðal annars fyrir Íslenskar getraunir. Um er að ræða heildarlausnir og þjónustu fyrir sérsmíðaða hugbúnaðarvöndla sem innihalda allt það sem fyrirtæki þurfa til að starfrækja slíka vefi. Í fréttatilkynningu frá Margmiðlun kemur fram að markaður fyrir slíkar lausnir er takmarkaður hér á landi og því hafi Margmiðlun hf. verið að svipast um eftir tækifærum til markaðssóknar á erlendri grund. Í því skyni var Betware Ltd. stofnað. […]
Samningar um áhættufjármögnun Betware Ltd. eru raktir til þátttöku Margmiðlunar í Ventura Market Iceland, verkefni [svo] á vegum Útflutningsráðs Íslands. Fram kemur að endapunktur verkefnisins, fjárfestingarráðstefna sem haldin var síðastliðið haust, hafi gefið af sér góða tengiliði. Í framhaldinu var Margmiðlun hf. valin úr hópi þátttökufyrirtækjanna til að taka þátt í fjárfestingarráðstefnu á vegum Evrópusambandsins. „Betware Ltd. hefur nú þegar aflað sér umtalsverðra viðskiptasambanda á erlendri grund, aðallega í Norður- og Mið-Evrópu, og veita nýgerðir samningar um áhættufjármögnun fyrirtækisins aukið afl í þá markaðssókn.“[205]
Í umfjöllun Frjálsrar verslunar 4. tbl. árið 2000 um efnilegustu netfyrirtækin segir:
Samkvæmt lauslegri könnun Frjálsrar verslunar þykir í dag mest spennandi að fjárfesta í fyrirtækjum með óráðna en lofandi framtíð á alþjóðamarkaði, fyrirtækjum á borð við Betware.com sem býður veflausnir fyrir veðmála- og leikjafyrirtæki og Bepaid.com sem byggir afkomu sína á miðlun auglýsinga.[206]
Varðandi Betware má segja að þeir sem höfðu næga þolinmæði hafi gert vel í að fjárfesta í fyrirtækinu því það óx jafnt og þétt næstu árin, mishratt þó, og sveiflurnar urðu aldrei verulega stórar.
ÍSLENSKA hugbúnaðarfyrirtækið Betware hefur gert samning við Dansk Tipstjeneste, sem mun nota tölvukerfi Betware fyrir alla gagnvirka leiki fyrirtækisins, hvort sem það er á Netinu eða í öðrum nýjum miðlum, svo sem gagnvirku sjónvarpi og farsímum. […]
Segir að markmið Dansk Tipstjeneste með samstarfi við Betware sé að bjóða viðskiptavinum sínum upp á aðra valmöguleika við verslun á Lottó-seðlum og öðrum happdrættismiðum fyrirtækisins. Jafnframt hyggst Dansk Tipstjeneste þróa í framhaldi nýja gagnvirka leiki með Betware. Haft er eftir Stefáni Hrafnkelssyni, framkvæmdastjóra Betware, að samningurinn staðfesti að lausnir Betware, sem eru notaðar hjá Íslenskum getraunum, séu eftirsóknarverðar fyrir kröfuhörð alþjóðleg getrauna- og happdrættisfyrirtæki. [207]
Vöxtur Betware var hraður næstu árin, um 30% á ári, en samt ekki hraðari en svo að hann var vel viðráðanlegur. Næsti stóri viðskiptavinur Betware var lottó í vestasta hluta Kanada, Bresku Kólumbíu, en þá voru Vetrarólympíuleikarnir fyrirhugaðir þar árið 2010. Betware gerði ýmsa leiki sem tengdust Ólympíuleikunum, frá árinu 2005. „Kanadamennirnir voru rosalega hrifnir af okkur á tímabili, en svo komst pólitík í málið og mörkin milli opinbera getraunamarkaðarins og gráa leikjamarkaðarins urðu óskýrari en áður,“ segir Stefán um þetta samstarf, sem engu að síður hélt velli.[208]
Framhald rekstrar Betware var ekki síður viðburðaríkt og um það er nánar fjallað í öðrum kafla.
Fyrstu leitarvélarnar fyrir internetið og veraldarvefinn voru mjög frábrugðnar því sem flestir þekkja nú. Archie, sem fram kom árið 1990, var FTP-svæði þar sem hægt var að komast í efnisyfirlit yfir skrár sem unnt var að hlaða niður. Einungis efnislistar voru sýndir þar, því efni hverrar greinar tók miklu meira pláss en í boði var. Þekktari leitarvélar komu fram árið 1994, Infoseek og Altavista í janúar og Yahoo í apríl.[209]
Google kemur til skjalanna 1996–1998
Leitarvélin Google varð svo útbreidd að bæði í íslensku og erlendum málum varð til sögnin að gúgla. Sérnafnið varð að samheiti fyrir allar leitarvélar.
Í kjölfarið á yfirburðastöðu Google urðu til störf við leitarvélabestun. Slagorð eins og „Ef Google finnur þig ekki, finnur þig enginn“[210] heyrðust í þessu sambandi. Til lítils var að vera með vefsíðu ef enginn gat fundið hana og ýmsum ráðum beitt til þess að síður kæmu upp ofarlega í niðurstöðum leitarvéla.
Fyrirtækið Google bauð upp á ókeypis tölvupóst, Gmail, sem einnig náði yfirburðastöðu fram yfir fyrirrennarana Yahoo og Hotmail á alþjóðamarkaði. Hér á landi buðu frétta- og auglýsingasíður einnig upp á ókeypis tölvupóstföng. Dæmi um þau voru netföng með endingarnar @strik.is og @visir.is.
Bókasöfn voru lengi vel helsta uppspretta upplýsinga fyrir námsmenn, fræðimenn, vísindamenn og forvitið fólk. Sum bókasöfn voru fræðibókasöfn auk þess að vera áskrifendur að mörgum fagtímaritum. Á bókasöfnum og heimilum voru alfræðirit notuð til upplýsingaöflunar, svo sem Encyclopedia Britannica. Með tilkomu veraldarvefsins breyttist margt og fólk fór í æ ríkari mæli að leita sér upplýsinga á vefnum. Í kaflanum um tímaritaaðgang bókasafna er fjallað nokkuð um landsaðgang bókasafna, sem nú býður fyrst og fremst upp á gríðarlegt magn vandaðra tímaritsgreina og er því á sinn hátt alfræðisafn en byrjaði með hefðbundnari hætti:
Starfsemi Landsaðgangs að rafrænum áskriftum hófst með formlegum hætti 23. apríl 1999 þegar landsaðgangur að Encyclopaedia Britannica hófst. Um sama leyti hófst vinna við að meta þörf fyrir aðgang að gögnum á rafrænu formi og semja um aðgang að þeim sem Verkefnisstjórn um rafrænan aðgang sá um.[211]
Landsaðgangurinn að alfræðiritinu Britannica var um margt merkilegt framtak og einstakt að heil þjóð fengi ókeypis aðgang að slíkri námu fróðleiks. Það var á árinu 1998 sem þáverandi menntamálaráðherra[212] samdi um aðganginn fyrir Íslendinga. Þetta framtak hefði eflaust verið lykillinn að notkun Íslendinga á alfræðiefni ef ekki hefðu orðið gerbylting á heimsvísu í miðlun alfræðiupplýsinga. Þessi bylting var tilkoma Wikipedia-alfræðinnar á veraldarvefnum.
Þann 15. janúar 2001 var Wikipedia formlega opnuð á vefslóðinni www.wikipedia.org. Nokkur hópur fólks hafði þá um skeið unnið að tæknilegri og hugmyndafræðilegri útfærslu hugmyndarinnar. Feður þessa útbreiddasta alfræðivefs heimsins eru þeir Jimmy Wales og Larry Sanger. Hugmyndina má rekja allt aftur til ársins 1993. Wikipedia tók heiminn með trompi og fljótlega varð til íslenskt wikipediu-samfélag. Um það segir á vefsvæði íslensku Wikipediu:
Íslenska Wikipedia var stofnuð 5. desember 2003 og er íslensk útgáfa af Wikipediu. Íslenska Wikipedian er með smærri Wikipedium í heimi með innan við 40 þúsund greinar og innan við 20 virka notendur alla jafnan.
[…]
Frá stofnun, í desember 2003 og fram að nóvember 2005 var vöxtur íslensku Wikipediu tiltölulega hægur. Í nóvember 2005 voru vélrænt settar inn greinar um íslensk mannanöfn, yfir 3.500 greinar. Í maí 2006 var heildarfjöldi greina orðinn tíu þúsund. […] Eftir það er sæmilega mikill vöxtur og 20 þúsund greinum er náð í febrúar 2008. Þrjátíu þúsund greinum var náð í nóvember 2010. En ljóst er að það hægir á vexti íslensku Wikipediu.[213]
Fyrsta stafræna farsímanetið var opnað í Finnlandi árið 1991 og 16. ágúst 1994 var fyrsta GSM-netið á Íslandi opnað á vegum Pósts og síma.
Hvert skyldi stefna?
Með tilkomu internetsins og vaxandi notkun almennings á veraldarvefnum vaknaði sú spurning hvort unnt væri að nýta netið í samskiptum milli landa í staðinn fyrir dýra símatækni. Þann 1. desember 1995 skrifaði Árni Matthíasson fróðlega grein í Morgunblaðið um svokallaðan alnetssíma. Sumir viðmælenda hans efuðust um að tölvusími næði útbreiðslu vegna minni gæða en í hefðbundnum síma, þótt kostnaðurinn við utanlandssímtöl myndi hrynja.[214] Árni skoðar íslenskt samhengi í greininni.
Alnetið nýtir símakerfi til að hver og einn geti tengst tölvum um heim allan á ódýran hátt. Árni Matthíasson komst að því að það er hægt að flytja meira en tölvugögn og myndir um alnetið, því svonefndur alnetssími á eftir að breyta viðhorfi manna til langlínusímtala. […]
Hér á landi [hefur] alnetið [...] náð að komast betur á legg […] en víða. Þannig voru 1994, samkvæmt skýrslu Alþjóða símamálasambandsins (ITU), 978 alnetsnotendur á hverja 10.000 íbúa á Íslandi, 772 í Finnlandi, 633 í Noregi, 488 í Svíþjóð og 275 í Danmörku. Samkvæmt sömu skýrslu voru þá 5.573 símar á hverja 10.000 íbúa á Íslandi, 6.831 í Svíþjóð, 6.037 í Danmörku, 5.540 í Noregi og 5.511 í Finnlandi. Ekki eru þá taldir farsímar. Eitt af því sem getur aukið enn áhugann á að tengjast alnetinu er svokallaður alnetssími og verður að telja hann ógnun við símafyrirtæki hvarvetna, sem hafa yfirleitt stærstan hluta tekna sinna af langlínusímtölum. Með alnetssíma má nefnilega hringja milli landa á innanbæjartaxta. […] Þessu til viðbótar hillir undir að hægt verði að nota alnetið til að hringja í hvaða símanúmer sem er, jafnvel þó sá sími sé ekki tengdur tölvu. […]
Framan af sögu þessa búnaðar var samtalið skrykkjótt og ekki gátu báðir talað í einu. Margir kannast við slíkt frá fjarskiptum fyrri tíma þegar talað var „á fjöðrinni“ þ.e. sá sem talaði hélt niðri fjöður á símtólinu og heyrði ekki til hins á meðan.
Með tímanum hefur alnetssímatæknin tekið stakkaskiptum og nú getur samtal gengið nánast eins hratt fyrir sig og í síma.[215]
Björn Jónsson framkvæmdastjóri Grunns – gagnalausna fjallaði um samruna tölvutækni og símatækni í fróðlegri grein í Tölvumálum 1999. Hann fjallar um að skilin milli tölva og síma séu smám saman að mást út. Nútíma símstöðvar ársins 1999 séu í rauninni ekki annað en tölvur, oftast keyrandi einhverja útgáfu af Unix. Hann sýnir á myndrænan hátt hvernig hann sér fyrir sér framtíðarsamskipti fyrirtækja. [216]
Það sem einkum vekur athygli í grein Björns er spá hans um að farsímar séu smám saman að þróast yfir í handtölvur þar sem talþátturinn sé einungis eitt af því sem tæknin bjóði upp á. Hann tiltekur að SMS-smáskilaboðin séu fyrsta dæmið um slíkar gagnasendingar og nýir símar bjóði einnig upp á WAP-aðgang (Wireless application protocol) að internetinu. „Reyndar verður ekki hægt að skoða venjulegar HTML-síður með slíkum símum, heldur þarf að skrifa sérstakar síður í svokölluðu WML-máli,“ segir Björn og bætir við: „Líklegt er þó að WAP muni ekki taka flugið fyrr en með næstu kynslóð farsíma (svokallaðri GPRS tækni) sem væntanleg er á Íslandi eftir um það bil eitt ár.“ Hann, eins og fleiri, gerði þá ráð fyrir innkomu þriðju kynslóðar farsíma fyrr en raunin varð, og fleira markvert var í umfjöllun hans árið 1999:
Með GPRS verður bandbreiddin 116 kb/s í stað 9,6 kb/s eins og núverandi kerfi er. Þriðja kynslóð farsíma sem gera má ráð fyrir eftir tvö til þrjú ár verður með 400 kb/s bandbreidd sem auðveldlega gefur kost á að sýna lifandi myndir á skjá símans og mun skapa mikla möguleika.
Kosturinn við notkun farsíma í þessu sambandi er að samskiptaþátturinn er alltaf til staðar og því hægt að fá tölvupóstinn sinn, tengjast við tölvukerfi eða Internetið. Það er þó ljóst að farsímar sem tölvur hafa ýmsa augljósa vankanta. Þar má helst nefna að skjárinn er smár og upplausn takmörkuð, a.m.k. enn sem komið er. Einnig er þunglamalegt að slá inn texta frá takkaborðinu. Þótt til að mynda unglingar hafi náð umtalsverðri leikni við að slá inn SMS smáskilaboð er hætt við að jarðbundnari tölvunotendum hugnist seint að vinna ritgerðir á farsímann.[217]
Alnetssími og biðin eftir 3G
SMS á þessu tímabili fólst oftast í því að velja stafi með því að þrýsta einu sinni, tvisvar eða þrisvar á staf á takkaborði, til dæmis einu sinni fyrir A, tvisvar fyrir B og þrisvar fyrir C. Þótt til væru símar með fullu lyklaborði, þá er athugasemd tölvunarfræðinema nokkurs frá 2002 dæmigerð fyrir framtíðarsýn margra. Hann spáði því að í framtíðinni myndu foreldrar velja börnum sínum nöfn sem samanstæðu af stöfum sem útheimtu að þrýst væri aðeins einu sinni á stafinn.[218] Hins vegar stendur enn spá Björns um að nemendur fari seint að vinna ritgerðir á farsímann.
Símtækninni fleygði fram en í umfjöllun frá 2005 á vefnum heimur.is var lýst þeim áhyggjum að Íslendingar væru að dragast aftur úr nágrannaþjóðunum, einkum í notkun myndsíma, eftir kraft í tækniþróun kringum aldamótin.
Þegar harðnaði í tækniárinu dalaði hins vegar viðhald uppbyggingarinnar. Þótt langt sé liðið síðan stjórnvöld tilkynntu að hér skyldi byggja upp kerfi sem styddi þriðju kynslóð farsíma þá hefur lítið bólað á þeim tilboðum sem símafélögin áttu að gera í kerfið. […] Mönnum ber saman um að skortur á tækni sem styðji þriðju kynslóð farsíma hamli frekari uppbyggingu hátækniiðnaðar hér á landi. […]
Fyrirtæki í tæknigeiranum hafa á síðustu misserum hætt að horfa til Íslands sem tilraunalands fyrir tæknivörur. Ástæðan er sú að engin kerfi hér á landi styðja við tæknina fyrir þriðju kynslóð farsíma. Bretland og Írland eru sagðir heitir staðir en þar hefur mikil og skipulögð uppbygging átt sér stað á síðastliðnum árum. Þá hefur farsímanotkun aukist gríðarlega í Svíþjóð, en talið er að annar hver farsímanotandi þar sé með myndsíma.[219]
Íslensk fyrirtæki sáu ýmsa möguleika fólgna í símatækni, ekki síst í þjónustu gegnum síma, SMS og WAP. Þarna var um allt frá fótboltaúrslitum til stefnumótaþjónustu og leikja að ræða. En sumir einbeittu sér frekar að símtækninni sjálfri, eins og Maskína, en um hana er fjallað á vefnum heimur.is (vefútgáfu sem tók við af tímaritinu Tölvuheimi) síðar á árinu 2005:
Maskína hefur alla tíð einbeitt sér að farsímalausnum sem tengja saman samskiptatækni farsímanna (s.s. SMS, SIM-toolkit, WAP og J2ME) og þróaðri netþjónalausnir og móttökugáttir. Uppsetning og stýring á lausnunum fer fram í vefviðmóti. Nú síðast bætist svo hringingaþátturinn við og IP-símtæknin.
Á síðustu árum hefur fyrirtækið þróað samskiptalausnir sem tengjast leikjum af ýmsu tagi þar sem notendur senda smáskilaboð með farsímum.[220]
Árni Matthíasson, sem skrifaði um alnetssímann árið 1995, skrifaði aðra grein um efnið tíu árum síðar. Hann skýrir þar þær tækniframfarir sem urðu frá árslokum 1995 til upphafs ársins 2005. Á þessum tíma var Skype að slá í gegn og var enn samhliða IP-tækninni. Um alnetssímann segir Árni: „1. desember 1995 birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá þessari nýju tækni, „Alnetssímanum“ sem áður er getið, en í þeirri frétt er einmitt rætt um átak nokkurra áhugamanna um netsamskipti sem þeir kölluðu Free World Dialup Experiment og hófst í október það ár. […] Free World Dialup lifir enn góðu lífi […]“[221] 3G-símar höfðu enn ekki hafið sig til flugs og Árni segir:
Ekki er langt síðan símafyrirtæki víða um heim kepptust við að kaupa rekstrarleyfi á svonefndum þriðju kynslóðar farsímum, 3G-símum, eins og þeir voru kallaðir. Sú tækni bauð upp á mun meiri gagnaflutningsgetu í farsíma en áður hafði þekkst - farsími var ekki lengur bara farsími heldur tól til að taka við netupplýsingum, tölvupósti, myndskeiðum, tónlist og guð má vita hverju. Þetta kallaði á nýja gerð af símum og ný netkerfi símafyrirtækja, mikil fjárfesting, ekki síst í gríðarlega dýrum rekstrarleyfum, en eins víst að sú fjárfesting myndi skila sér. Annað kom þó á daginn - á meðan símafyrirtækin voru að skipta með sér 3G-kökunni í mestu makindum voru símanotendur byrjaðir að hringja á Netinu og kunnu því bara vel, svo vel reyndar að fyrir þeim var það aðalmálið, mesti spenningurinn var í netsímanum, enginn var að spá í þriðju kynslóð farsíma.[222]
Á margan hátt kveður við svipaðan tón í umfjöllun á vefmiðlinum heimur.is sama ár en þar lýsir greinarhöfundur ákaft eftir því að eitthvað fari að gerast í 3G-símamálum í greininni „Hvar er þriðja kynslóð farsíma?“:
Þriðja kynslóð farsíma er ný þróun á sviði gagnaflutninga. Hraðinn er talinn geta numið 10 mbitum og er það umtalsvert meiri en nú næst með þeirri tækni sem telst vera 2.5 kynslóð farsíma. […] Með farsímum sem styðja þriðju kynslóð tækninnar verður hægt að ráfa um Netið, hlaða niður hreyfimyndum og hljóðskrám og njóta margmiðlunarefnis í meiri mæli en nú þekkist, og meira að segja taka á móti sjónvarpsútsendingum.
Þessi tækni er sögð leggja grunninn að þráðlausum breiðbandstengingum sem veita mun fjölbreytta þjónustu í framtíðinni. Þriðja kynslóð farsímatækninnar er langt komin á veg í mörgum nágrannalöndum Íslands, svo sem í Bretlandi og Svíþjóð, en þar hafa heyrnarlausir nýtt sér möguleikann á hreyfimyndasímtölum farsímanna til að hafa samband sín á milli í rauntíma.
Gallinn við þessa byltingakenndu tækni er hins vegar sá að hún styðst ekki nema að litlu leyti við núverandi dreifikerfi og því þarf að byggja nýtt net um allt land frá grunni. Kostnaðurinn við slíka uppbyggingu er gríðarlegur. Ásamt háum leyfisgjöldum er hann talinn geta numið allt að 10 til 15 milljörðum króna.[223]
Nokkur tími átti enn eftir að líða þar til 3G- og síðan 4G-tæknin varð útbreidd. Netsímatækni á borð við Skype varð þó síður en svo úrelt og margir hafa fylgt eftir. En hvernig lá landið fyrir Skype á fyrstu árunum? Er Árni Matthíasson horfði fram á veginn árið 2005 lýsti hann Skype þeirra tíma:
Skype er einföld og auðskiljanleg leið til að tala við fólk um Netið. Skype er forrit sem sett er upp á tölvu viðkomandi notanda og tölvu þess sem hann vill tala við, bráðeinfalt og fljótlegt. Það notar sömu tækni og skiptiforrit, P2P forrit eins og Kazaa og fleiri álíka, en kallar ekki á neina sérþekkingu notandans; hann sækir forritið, sem er ókeypis, setur það upp, stingur heyrnartólum og hljóðnema í samband við tölvuna og byrjar að hringja. Svo einfalt er að nota Skype að 56.802.595 manns hafa forritið að því er kemur fram á vefsetri Skype.
Með Skype er hægt að hringja einkar ódýr símtöl út um allan heim. Fastur kostnaður er nettengingin, sem nánast allir eru með hvort eð er, og svo þarf að borga fyrir þau gögn sem sótt eru frá útlöndum (ótrúlegt en satt). […] Skype notar 3-16 kílóbæti á sekúndu, eftir gæðum sambandsins.
[…]
Hvað verður um símafyrirtækin? spyrja margir […] Netsími, IP-símatæknin, er nefnilega til þess fallin að kollvarpa símafyrirtækjunum ef þau gæta ekki að sér, gerbreytir tekjustreymi þeirra og spillir arðbærum rekstri. Þau hafa enn leiðslurnar í hendi sér, maður þarf enn að eiga við þau til að fá nettengingu, koparinn inn í hús, en með netsímatækni getur nánast hver sem er stofnað símafyrirtæki. Það þarf bara að semja við eigendur sæstrengja um afnot af strengnum, semja fyrir [svo] fyrirtæki ytra um að taka að sér að tengja inn á símkerfi þar sem þess er þörf og síðan er maður kominn í bisness.[224]
Fyrsta 3G-símaþjónustan á Íslandi fór ekki í loftið fyrr en talsvert seinna en vænst hafði verið, það er 3. september 2007, fyrst á vegum Símans og síðan annarra símafyrirtækja.
Sensa og IP-samskiptalausnir
Á þessum árum voru að verða breytingar á rekstri Símans. Fyrirtækið keypti öll hlutabréf í þjónustufyrirtækinu Sensa sem stofnað var árið 2002. Með kaupunum á Sensa var bætt við sérfræðiþekkingu á sviði IP-samskiptalausna.[225] Árið 2014 var síðan ákveðið að Sensa tæki við þjónustu Símans í upplýsingatækni í kjölfar uppskiptingar Símans á ólíkri starfsemi í undirfélög. Varð fyrirtækið við það eitt öflugasta upplýsingatæknifyrirtæki á Íslandi með 120 starfsmenn. Starfsmenn upplýsingatæknisviðs Símans fluttust til Sensa. Orri Hauksson forstjóri Símans sagði breytingarnar rökrétt framhald á áherslubreytingum mánaðanna á undan:
Við höfum að undanförnu verið að skerpa á skipulagi samstæðunnar […] Eftir þessa breytingu samanstendur þjónustan við viðskiptavini af rekstri grunnfjarskipta hjá Mílu, fjarskiptalausnum hjá Símanum, upplýsingatækniþjónustu hjá Sensa og efnisveitu hjá Skjánum.[226]
Valgerður H. Skúladóttir varð framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis, en hún var ein af stofnendum fyrirtækisins og hafði fylgt því í þessu ferli og byggt upp sérþekkingu á sviði fyrirtækisins.
Á nýrri öld breyttist tölvunotkun fólks. Almenn tölvueign var orðin mikil og tölvulæsi sífellt meira. Tölvur urðu öflugri og ýmislegt hægt sem ekki hafði verið mögulegt áður. Spjallkerfi komu fram og í fyrstu var notað hið svokallaða IRC (irkið). Því fylgdi ákveðin ný menning meðal tölvunotenda. Það var þó ekki fyrr en með tilkomu útbreiddari samfélagsmiðla á borð við Facebook að þeir urðu almenningseign. Spjallforrit svo sem MSN og arftaka þess má einnig telja til samfélagsmiðla en þau voru líka notuð í hagnýtum tilgangi. Það var ekki fátítt á vinnustöðum upp úr árþúsundamótunum, að fólk sem jafnvel sat hlið við hlið, spjallaði saman á MSN, einkum í opnu vinnurými. Slík samskipti voru þó enn gagnlegri fyrir fólk sem vildi halda sambandi við vini, félaga og fjölskyldu annars staðar, hvort sem var í öðru herbergi, húsi, borg, landi eða heimsálfu. Hraðari tengingar á nýrri öld ýttu mjög undir þessa þróun og með öflugri tölvum og fjölhæfari hugbúnaði var unnt að senda myndir og myndskeið milli fólks.
Gerjun í samfélagsmiðlum
Aðrir miðlar, svo sem Twitter, Instagram og Whatsapp, náðu ekki útbreiðslu fyrr en síðar. Þá er ótalin ein tegund samfélagsmiðla, stefnumótasíður þær, sem bjóða upp á spjall. Þær eru bæði vinsælar og innbyrðis ólíkar. IRC-ið var undanfari sumra þeirra, en jafnframt margra annarra samfélagsmiðla.
Fljótlega fór að bóla á umræðu um netfíkla, í fyrstu ekki endilega í neikvæðri merkingu þess orðs. Viðtal undir yfirskriftinni: „Orðinn netfíkill á örskömmum tíma,“ frá árinu 1995 hefur síður en svo á sér neikvæðan brag og nítján ára viðmælandinn er ekki kynntur sem einangruð og örvæntingarfull vera. Þess er þó getið að hann beri það með sér að stunda ekki líkamsræktarstöðvar og sólbekki: „Ég vinn á tölvur, klippi vídeó, geri músíkvideó, geri grafík og layout. Það má segja að ég vinni ofarlega í fæðukeðjunni hvað varðar tölvuvinnslu á framsetningu myndmáls.“[227] Þetta viðhorf til meintrar netfíknar átti fljótlega eftir að breytast og í umfjöllun Morgunblaðsins haustið 1999 um irkið og smáskilaboðin er að finna eftirfarandi lýsingu á netfíklum: „Netfíkill er sá sem er heltekinn af netnotkun, eyðir sífellt meiri tíma í netheimum, hefur gert ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að draga úr veru sinni í netheimum, stefnir starfsframa, skólagöngu eða nánu sambandi í voða með netnotkuninni …“[228]
Samfélags- og skemmtimiðlarnir voru komnir til að vera, hvað sem öllum úrtöluröddum leið. Á upphafsárunum voru slíkir miðlar í mikilli gerjun og mótun, sem enn eimir eftir af. Eitt af því sem talið er hafa ýtt undir vinsældir þeirra er að á samskiptamiðlum þarf fólk ekki að vera á sama stað/tíma til að eiga samskipti.
IRC-ið og irkararnir – á sýndarveruleikakaffihúsi
Irkið, sem er íslenska nafnið á netspjallinu IRC (Internet Relay Chat) fyrir hóp- og einkaspjall, náði útbreiðslu hér á landi á tíunda áratugnum. Það er upprunalega rakið til Finnans Jarkko Oikarinen sem kom því í umferð í ágúst 1988. Mjög fljótlega hafði irkið náð fótfestu á Íslandi og sem dæmi má taka að í umfjöllun Morgunblaðsins um irkið árið 1999 er rætt við einstakling sem hafði verið á irkinu í níu ár, frá því hann var fjórtán ára.[229]
Irkararnir lögðu mikla áherslu á það að irkið væri samfélag og þróaðist sem slíkt. Í spjalli við einn irkaranna í aukaútgáfu um tölvumál í Stúdentablaðinu 1997 var fjallað um þetta eðli irksins. Hver rás á irkinu var merkt með myllu (#) og rásin #iceland var gríðarvinsæl. Óskar Gunnar Óskarsson lýsti tilurð hennar svo:
Rásin varð til fyrir nokkrum árum og var þá undir stjórn fárra einstaklinga sem stjórnuðu algerlega að eigin geðþótta. Þetta virkaði svo sem þar til fjöldi þeirra sem fór að sækja rásina óx (allverulega) og þá kom í ljós að klíkuskapur allskonar fór að grassera, þetta leiddi til óánægju meðal meirihluta þeirra sem þarna voru og síðan þá hefur lýðræðið verið í þróun.[230]
Notendur rásarinnar tóku til sinna ráða að byggja upp lýðræði á #iceland. „Í þessu samfélagi hefur þróast eins konar lýðræði, þar sem reglulega fara fram kosningar um hverjir séu efstir í goggunarröð rásarinnar.“[231] Blaðamaður Stúdentablaðsins lýsir því svo að það að ná toppnum á þessari rás geri viðkomandi að eins konar forsætisráðherra „þessa litla, skrýtna samfélags“.[232] Og blaðamaður spyr spurningarinnar sem var algeng í árdaga samfélagsmiðlanna: Hver á irkið? Hann svaraði:
Það á í rauninni enginn irkið, það er keyrður svokallaður irc server sem sér fyrir tengingunni út úr landinu. Og kerfisstjóri hjá ákveðinni internetsþjónustu hefur leyfi til þess að reka bot (vélmenni) sem er inni á rásinni allan sólarhringinn og það er þetta vélmenni sem nefndin notar sem stjórntæki.
Ætla má að þeir sem lifðu og hrærðust á irkinu á þessum tíma hafi haft nokkuð góða tilfinningu fyrir þátttöku Íslendinga og því má gera ráð fyrir að mat Óskars sé nærri lagi:
Íslendingar eru mjög öflugir á netinu, hvort sem er í heimasíðugerð eða á spjallrásunum og má meðal annars benda á að íslenska rásin er ein af (ef ekki sú) stærsta á internetinu í dag, þarna eru á ákveðnum álagstímum hátt í annað hundrað manns í einu. … og getur fólk því séð að það þarf að vera gott skipulag til að allur þessi fjöldi manns geti komið saman án verulegra árekstra. Þar sem irkið er í rauninni ekki annað en nokkurs konar sýndarveruleikakaffihús þar sem sömu reglur gilda um hegðun gesta.[233]
Tveimur árum síðar hefur þessi fjöldi margfaldast og hópurinn er fjölbreyttur, allt frá íþróttaiðkendum til tölvusérfræðinga:
Á sunnudögum geta verið allt að 400 manns inni á sömu rásinni og til að vera gjaldgengur í umræðum þar sem 50 manns tala í einu gildir að vera fljótur að hugsa og vélrita, … „Ef það kemur spurning á irkinu þýðir ekkert að fletta svarinu upp í bók því að eftir 2-3 mínútur snýst umræðan um annað.“[234]
Ein spurning blaðamanns Stúdentablaðsins 1997 afhjúpar vel þá umræðu sem var þá og síðar um nýja samskiptamiðla. „Hvers konar fólk er þetta á irkinu? Eru þetta eintómir pervertar og unglingar, eins og fréttaflutningur gæti gefið til kynna?“ Svarið er keimlíkt og í hliðstæðri umræðu síðar: „Þarna er að finna allar mögulegar (og ómögulegar) tegundir fólks alveg eins og í daglega lífinu, en kannski kemur pervertisminn bara betur í ljós þar sem menn geta talað og gert það sem þeir vilja nokkurn veginn nafnlaust.“[235]
Nafnleysið var reyndar aðeins spurning um val. Rétt eins og á seinni tíma samfélagsmiðlum gat fólk falið sig á bak við gervinöfn, spjallað í opnu umhverfi eða farið í einkaspjall við einhvern á rásinni. Við skráningu á irkið þurfti notandi að gefa upp nafn, netfang og velja sér gælunafn. Og þegar á einhverja rásina var komið var fyrsta spurningin oftar en ekki „ask“ (aldur, staður, kyn), eða erlent ígildi þessarar skammstöfunar.
Irkið hélt áfram að vaxa og rásin #iceland þróaðist í að vera vettvangur yngstu irkaranna, 12–16 ára, en fjölmargar aðrar rásir náðu einnig vinsældum, þótt flestir kysu að vera á þeim fjölsóttustu.
Daður og kjarnyrt mál á irkinu
Þessi nýja tegund samskipta vakti forvitni blaðamanna, háskólanema og fræðimanna. Tveir íslenskir kennaranemar gerðu til að mynda lokaverkefni um málfar á irkinu vorið 1999. Þar kom meðal annars fram „að mikið sé daðrað á irkinu og það notað til að mæla sér mót utan netheima. … ýmist sé verið að stofna til sambanda eða til einnar nætur kynna. Fyrir helgarnar sé mikið um það að krakkar og unglingar auglýsi partí.“ Þó er bent á að þessi hlið irksins sé engan veginn sú eina, þótt hún sé ef til vill umtöluðust, en fleiri dæmi eru rakin.[236]
Ennfremur segist […] margoft hafa séð á irkinu auglýst eftir ritgerðum og spjallað við einstaklinga sem sögðust vera komnir með safn ritgerða allt frá grunnskólastigi yfir á háskólastig. Hægt er að senda ritgerðir í gegnum irkið á netformi. … „Ég veit ekki hvort kennarar gera sér almennt grein fyrir þessum möguleika. Ég spyr mína nemendur út í ritgerðirnar þeirra til að vera viss um að þeir hafi sjálfir skrifað þær.“[237]
Það sem vakti áhuga á málfari frekar en umfjöllunarefni var margt: „Unglingar hafa verið fljótir að tileinka sér nýja tækni og fundið leið fram hjá takmörkunum með því að þróa nýtt ritmál. Stílnum svipar til Íslendingasagna, setningar kjarnyrtar og lítið um orðflúr.“[238]
Margir irkarar voru viðkvæmir fyrir pervertaímyndinni sem loddi við irkið og speglaðist í spurningu blaðamanns hér að framan. Það vakti því athygli er irkið var notað til að koma upp um níðinga. Mál ungs pars á Akureyri sem komst í tæri við einn slíkan veturinn 1996–1997 rataði til að mynda í fjölmiðla. Parið ávann sér trúnað barnaníðingsins á irkinu með því að þykjast vera af sama sauðahúsi og hann og aflaði nógu mikilla upplýsinga um hann, meðal annars um bíl hans, til að koma upp um hann. Um þetta mál var meðal annars fjallað á Málþingi gegn kynferðisofbeldi í Háskólabíói 15. mars 1997. Þessi umræða var mjög eldfim, sumir vildu nota tækifærið og hefta notkun nýrrar tækni en netverjar vildu margir hverjir frekar fara þá leið að grípa til eigin ráða gegn slíkri misnotkun kynferðisbrotamanna á netfrelsinu. Það væri betri kostur en að koma á ritskoðun á veraldarvefnum og internetinu.[239] Almennt voru netverjar mjög meðvitaðir um hættuna á því að frelsi þeirra á netinu yrði skert og stjórnendur á irkinu, gæslumenn, voru duglegir að grípa inn í eftir því sem unnt var.
Fréttir af nauðgunarmálum sem rakin voru til kynna fólks á spjallrásum á Netinu, orðrómur um sölu þýfis og fíkniefna vekja ugg hjá mörgum. Lögreglunni í Reykjavík eru farnar að berast kærur frá unglingum sem urðu fyrir áreitni eða einelti frá öðrum unglingum í gegnum SMS-skilaboð GSM-símanna. […] Margir þeirra sem eru á spjallrásunum finna til mikils frelsis og tjá sig mjög óþvingað og stundum með miður skemmtilegum athugasemdum um aðra. Þetta á einna helst við um þá sem eru nýbyrjaðir að nota rásirnar. Gæslumenn með rásunum reyna að koma í veg fyrir að fólk sé að lítilsvirða hvað annað á irkinu. Ef einhver lætur sér ekki segjast eftir nokkrar aðvaranir frá gæslumanni er haft samband við fyrirtækið eða netþjónustuna þar sem hann hefur netaðgang.[240]
Facebook kemur fram á sjónarsviðið 2004 – aðgangur takmarkaður
Upphaf samfélagsmiðilsins Facebook má rekja upp á dag til 4. febrúar 2004 þegar vefurinn facebook.com var settur í loftið, en höfundurinn Mark Zuckerberg er löngu orðinn goðsögn í lifandi lífi. Í upphafi var aðgangurinn takmarkaður við háskólanemendur í Harvard, síðan á öllu á Boston/Cambridge-svæðinu í Bandaríkjunum, en var gefinn frjáls til afnota fyrir alla eldri en þrettán ára árið 2006.
Á Íslandi náði Facebook fljótlega nokkurri útbreiðslu, en það var þó ekki fyrr en undir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar að miðillinn var kominn í almenna notkun. Árið 2014 hafði Facebook fest sig í sessi sem samskiptamiðill meðal flestra aldurshópa og því tilheyrir meginumfjöllun um hann næsta tímabili sögunnar, 2005-2014.
Þegar árþúsundamótin nálguðust yfirskyggði eitt mál flest önnur þegar rætt var um tölvutækni. Það var hinn yfirvofandi „2000-vandi“ og mögulegar afleiðingar hans. Vandinn fólst í því að ártöl höfðu lengi verið skilgreind sem tveggja stafa tala, til að spara dýrmætt geymslupláss „af því diskplássið var svo lítið og geymslurýmið svo dýrt“.[241] En þegar aldamótin nálguðust varð mönnum ljóst að yrði ekkert að gert myndi árið 2000 ganga í garð með þeim hætti að tölvur um allan heim teldu að nú væri árið 1900 runnið upp á nýjan leik.
Íslensk stjórnvöld höfðu mikinn viðbúnað eins og stjórnvöld annarra land. Reynt var að gera kerfi ríkisins eins vel í stakk búin til að takast á við breytingarnar og unnt var.[242] Á vegum stjórnvalda var skipuð nefnd í maí 1998 um 2000-vandann undir forystu Hauks Ingibergssonar en aðgerðir stjórnvalda náðu þó ögn lengra aftur, meðal annars hafði ríkið gert samning við SKÝRR um endurbætur á stærstu kerfum sínum.[243]
Þá var einnig skipaður faghópur á vegum Skýrslutæknifélagsins til að taka á ýmsum sérhæfðari verkefnum varðandi ártalið 2000 í tölvukerfum og sjá félagsmönnum og lesendum Tölvumála fyrir fróðleik þar að lútandi. Hópurinn samanstóð af tíu manns úr ýmsum greinum atvinnulífsins og meðal verkefna hans var að útbúa aðgerðaáætlun fram til júníloka 1999 og sjá um fræðslufundi.[244]
Vandinn sem ekki varð
Árið 2000 gekk í garð og í ljós kom að aðgerðir þær sem gripið hafði verið til höfðu að mestu leyti skilað sér þannig að breytingin varð hnökralítil. Tekist hafði að yfirfæra öll gögn sem á þurfti að halda á rétt form á vegum ríkisins og sú orka sem sett hafði verið í að allt gengi vel fyrir sig skilaði árangri. „Það verkefni gekk hreinlega mjög vel. Var þetta ógn eða ekki? Að minnsta kosti heppnaðist framkvæmdin vel og engin vandamál komu upp,“ er mat Stefáns Kjærnested, sem fylgdist vel með yfirfærslunni fyrir ríkisstofnanirnar.[245] Í fréttum í byrjun ársins kom fram að ekki hefðu komið upp vandræði hér á landi og öll kerfi reynst 2000-hæf.[246] Í uppgjöri á 2000-vandanum í Tölvumálum í maí árið 2000 segir Haukur Ingibergsson meðal annars um árangurinn af þeim aðgerðum sem gripið hafði verið til:
Og hvernig tókst svo til? Markmið nefndarinnar var að þjóðarbúið yrði ekki fyrir neinum skaða vegna ártalsins 2000 í tölvum. Þetta markmið náðist að mestu. Í könnun Gallup fyrir 2000 nefndina í janúar 2000 kom fram að 10% landsmanna töldu sig hafa orðið vör við truflanir á heimili eða vinnustað sem stafaði af 2000 vandanum. Í hópi sérfræðinga, stjórnenda og atvinnurekenda var hlutfallið hærra eða frá 12,5% til 20%. […]
Meginatriðið er þó að 2000 ágallinn var ekki eins útbreiddur og grunsemdir voru um. Þetta leiddi til þess að ekki þurfti að fara í eins miklar lagfæringar og endurnýjanir og óttast var, eftir að greiningu um hvort búnaður væri haldinn 2000 ágallanum var lokið. Sérstaklega á þetta við um ýmis ívafskerfi í alls konar vélbúnaði og iðnaðarvélum. Tröllasögur sem gengu lengi um að bílar mundu stöðvast og heimilistæki truflast voru til dæmis tilhæfulitlar.
Timburmennirnir eftir alla orkuna sem fór í að leysa 2000-vandann blönduðust saman við það að netbólan svokallaða sprakk og árin upp úr árþúsundamótunum urðu mörgum erfið.
Rafræn stjórnsýsla eflist
Í tengslum við 2000-vandann hófst vinna við að skoða verklag og tilgang tölvuvæðingar ríkisins og stofnana þess. Íslenska upplýsingasamfélagið og stefnumótun þess var sett á fjárlög, fyrst hjá forsætisráðuneytinu og síðan á vegum innanríkisráðuneytisins, og á rætur í þessari vinnu. Rafræn stjórnsýsla var eitt viðfangsefnið og vinnu í tengslum við hana hefur verið haldið áfram æ síðan, síðar aðallega með samvinnu við IcePro og Staðlaráð. Í tengslum við útboð ríkisins á hugbúnaði fyrir fjárhags- og launakerfi ríkisins voru þarfirnar skilgreindar. Meðal þess sem unnið var að var að fá alla reikninga sem ríkið greiddi á stafrænt form en þar var bæði við stóra og smærri aðila að eiga. Fyrir þá smærri var tæknin einfaldlega ekki komin eins langt og síðar varð, þegar bankar og vefsíður fóru að bjóða upp á slíka þjónustu fyrir lítil fyrirtæki. Ákveðið var að fara „mjúka“ leið, ólíkt því sem Danir gerðu árið 2005 er þeir tóku einhliða ákvörðun um að allir reikningar til ríkisins skyldu vera rafrænir. Sú aðgerð þótti býsna hörð og var ekki leikin eftir hér á landi.[247]
Auðkenni – rafræn skilríki
Einn þáttur rafrænnar stjórnsýslu var að innleiða rafræn skilríki. Haraldur A. Bjarnason, sem nú er framkvæmdastjóri Auðkennis, vann við að koma á ýmiss konar rafrænum lausnum, svo sem þinglýsingu rafrænna skjala, rafrænni innkaupastefnu og fleiru hjá fjármálaráðuneytinu á tíunda áratugnum. Meðal annars var leitað út fyrir landsteinana að lausnum. Haraldur tók þátt í Evrópusamstarfi um samræmingu og stöðlun í rafrænum samskiptum.[248] Auðkenni var stofnað í september árið 2000 og voru stofnendur bankastofnanir og nokkur fyrirtæki. Breytingar hafa orðið á eignarhaldi Auðkennis en bankastofnanir hafa þó alltaf verið meðal helstu eigendanna. Fyrirtækið var stofnað vegna vaxandi krafna fjármála- og fjarskiptafyrirtækja um aukið öryggi í rafrænum viðskiptum.[249] Mikið var að gerast í þessum málum um árþúsundamótin, en kannski var tæknin ekki alveg tilbúin, þótt hugmyndirnar væru skýrar.[250] Það var þó ekki fyrr en síðar (2005–2007) sem samstarf ríkis og fjármálafyrirtækja hófst um almenna innleiðingu og notkun rafrænna skilríkja. Á sama tíma voru auðkennislyklar teknir í notkun hjá fjármálastofnunum sem tímabundin lausn en skilríkjunum var ætlað að koma í stað þeirra síðar. Enn síðar komu fram rafræn skilríki í farsíma, en stóru umskiptin í notkun á þeim fellur utan tímaramma þessarar sögu.
[1] Ávarp Jóhanns Gunnarssonar við setningu ráðstefnunnar Skólastarf og upplýsingatækni. Tölvumál, 4. tbl. 21. árg. október 1996. bls. 5.
[2] Kveðja frá Friðriki Sigurðssyni í tilefni af því að hann lét af störfum sem forstjóri TM Software (áður TölvuMynda). 6. mars 2007. Útprentað handrit.
[3] Oddur Benediktsson: Hugbúnaðargerð í þrjá áratugi. Tölvumál, 3. tbl, 23. árg, 01.10.1998, bls. 17.
[4] Sigríður Olgeirsdóttir. Viðtal tekið 7.9. 2015.
[5] Gunnar Ingimundarson stofnandi Hugar. Viðtal tekið 9.9. 2015.
[6] Ágúst Guðmundsson minnist þess að hann og félagar hans sem stofnuðu Tölvumiðlun á níunda áratugnum, þegar umhverfi nýrra fyrirtækja var mjög ólíkt því sem varð áratug síðar. Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 23.10.2015.
[7] Hjálmar Gíslason. Viðtal tekið 1.10. 2015.
[8] Stefán Hrafnkelsson. Viðtal tekið 21.10. 2015.
[9] Gunnar Ingimundarson stofnandi Hugar. Viðtal tekið 9.9. 2015.
[10] Andrés Magnússon: Hugbúnaðargerð á Netinu. Tölvumál, 3. tbl. 21. árg. júlí 1996, bls. 12.
[11] Sama heimild, bls 12-13.
[12] Sama hemild, bls 13.
[13] Sigríður Olgeirsdóttir. Viðtal tekið 7.9. 2015.
[14] Sama heimild.
[15] Vilhjálmur Þorsteinsson. Viðtal tekið 9.9. 2015.
[16] Sigurður Bergsveinsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.
[17] Frosti Bergsson. Viðtal tekið 14.9. 2015.
[18] Þorsteinn Hallgrímsson, 2016.
[19] Morgunblaðið – viðskipti. 15. júlí 2003, bls. 12. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=131688&pageId=1934466&lang=is&q=hugb%FAna%F0ur Sótt 21.2.2018.
[20] Morgunblaðið 10. febrúar 1996. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/248897/ Sótt 2.10. 2015.
[21] Guðrún Edda Gunnarsdóttir, 2016.
[22] Landsteinar-Strengur auglýstu LS Retail NAV undir eigin nafni fram á haustið 2009 en LS Retail hafði þá verið sjálfstætt og með eigin framkvæmdastjóra um skeið. Samstarf fyrirtækjanna var mikið. Við samrunann í SKÝRR og síðan AX var endanlega slitið á tengslin en ágreiningur hafði verið um hlutabréf og eignarhald frá bankahruninu.
[23] LS Retail gerir risasamning við Microsoft. Morgunblaðið, 258.tbl. (23.09.2009), bls. 7.
[24] https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%B6gun_hf. Sótt 27.12.2015.
[25] Sigríður Olgeirsdóttir. Viðtal tekið 7.9. 2015.
[26] Gunnar Ingimundarson stofnandi Hugar. Viðtal tekið 9.9. 2015.
[27] Sama.
[28] Morgunblaðið, 10. ágúst 1993. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/110073/ Sótt 2.10.2015.
[29] Samstarf við Þróun um sölu á Concorde XAL hugbúnaðinum. HP Fréttir. 1. tbl. 7. árg. 1995, bls. 2.
[30] Frétt frá Íslenska hugbúnaðarsjóðum vegna sameiningar upplýsingatæknifyrirtækja. 29.3.2000. http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=en&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=6850 Sótt 14.11.2015.
[31] Staðlaður hópvinnuhugbúnaður. Morgunblaðið, 21.september 1997. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/354819/ Sótt 30.12.2015.
[32] Sama heimild.
[33] Sigríður Olgeirsdóttir. Viðtal tekið 6.10. 2015.
[34] Sigurður Bergsveinsson: Saga viðskiptahugbúnaðar á Íslandi. Glærur frá Jólaráðstefnu Skýrslutæknifélags Íslands 8. desember 2010.
[35] Internet. Miðheimar hf. Aðgangur að öllum mörkuðum heims. Frjáls verslun, 2. tbl., 56. árg. 1995, bls. 21.
[36] Vigdís Finnbogadóttir: Af mannauði vex allur annar auður, Tölvumál. 20. árgangur, 1. tbl. febrúar 1995, bls. 9.
[37] Sama heimild.
[38] Sjá kafla um Íslenska menntanetið og Þannig tengdist Íslands internetinu; Magnús Hauksson: Ritstjórnarpistill, Tölvumál, 20. árgangur 1995. 1. tbl. bls. 3.
[39] Magnús Hauksson: Ritstjórnarpistill, Tölvumál, 20. árgangur 1995. 1. tbl. bls. 3.
[40] Hugtak, sem á ensku er nefnt The Internet of Things, lýsir þessari þróun vel.
[41] Internet. Frjáls verslun, 2. tbl., 56. árg. 1995, bls. 18.
[42] Sama heimild, bls. 19-20.
[43] Sama heimild, bls. 18.
[44] Skýringin, sem gefin var á þessu, var sú að tengingar Pósts og síma önnuðu því ekki að sinna meiri umferð eða „til að dreifa álaginu um heldur afkastalitlar símalínur Pósts og síma úr landinu.“ Internet. Miðheimar hf. Aðgangur að öllum mörkuðum heims. Frjáls verslun, 2. tbl., 56. árg. 1995, bls. 21.
[45] Internet. Miðheimar hf. Aðgangur að öllum mörkuðum heims. Frjáls verslun, 2. tbl., 56. árg. 1995, bls. 21.
[46] Nánar er fjallað um SURÍS í kaflanum: Nettenging gegnum Hafró og „Protocoll-stríðið“.
[47] Morgunblaðið valdi snemma að nota orðið alnet um internetið.
[48] Árni Matthíasson: Í netheimum. Morgunblaðið, 15. desember 1995, bls. 36.
[49] Hjálmar Gíslason. Viðtal tekið 1.10. 2015. Guðjón Már Guðjónsson, sem oftast var kenndur við OZ, stofnaði þetta fyrirtæki með honum.
[50] Jóakim Reynisson: GPRS og upplýsingabyltingin. Tölvumál, 2. tbl, 25. árg. bls. 28.
[51] Sigurður Bergsveinsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.
[52] Þetta orðalag notaði Bandaríkjamaðurinn Daniel Levin, doktor í lögum, í viðtali við Morgunblaðið 18. maí árið 2000. Hann hafði þá undanfarna mánuði aðstoðað íslensk stjórnvöld og markaðsaðila við þróun verðbréfamarkaðarins ot taldi nauðsynlegt gera ákveðnar úrbætur á löggjöfinni um markaðinn. Íslensk stjórnvöld yrðu að setja sér skýr markmið við uppbyggingu heilbrigðs fjármagnsmarkaðar. „Grái markaðurinn“ ákveðin þverstæða. Morgunblaðið C4, 113.tbl. 88. árg. 18. maí 2000, bls. 4 C.
[53] Sjá kafla um einstök fyrirtæki, svo sem SKÝRR og Opin kerfi.
[54] Bjartar horfur á hlutabréfamarkaði. Morgunblaðið, 15. janúar 1999. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/443235/ Sótt 15.11. 2015.
[55] Sama heimild.
[56] Félög flutt á milli vísitalna. Morgunblaðið 6. janúar 1999. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/441215/ Sótt 15.11.s015.
[57] Elín Guðjónsdóttir: Íslenskur hlutafjármarkaður. Peningamál 2000/3, bls. 32. http://www.sedlabanki.is/uploads/files/pm003_6.pdf Sótt 13.11.2015.
[58] Frétt frá Íslenska hugbúnaðarsjóðum vegna sameiningar upplýsingatæknifyrirtækja. 29.3.2000. http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=en&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=6850 Sótt 14.11.2015.
[59] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 33.
[60] Bjartsýni í fyrirrúmi hjá Softis. Morgunblaðið, 6. maí 1993, bls. B4.
[61] Bankaeftirlitið kannar hlutabréfasölu í Softis, Morgunblaðið, 7. maí 1993, bls. 2.
[62] Softis dregur til baka sölu á hluta af hlutabréfunum. Morgunblaðið, 6. maí 1993, bls. B4.
[63] Gylfi Magnússon: Íslenskir fjölmiðlar og netbólan. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. R08:01, desember 2008, bls. 32; OpenHand var úrskurðar gjaldþrota árið 2010 samkvæmt fyrirtækjaskrá á vef Ríkisskattstjóra. https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/4108901439 Sótt 28.9. 2015.
[64] Rétt ríflega 20.000 manns sóttu um skattaafslátt hvort ár en það var tvöföldun frá árinu 1996. Gylfi Magnússon: Íslenskir fjölmiðlar og netbólan. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. R08:01, desember 2008, bls. 10.
[65] Gylfi Magnússon: Íslenskir fjölmiðlar og netbólan. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. R08:01, desember 2008, bls. 10.
[66] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010.
[67] Finnur Ingólfsson: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. Morgunblaðið, 21. febrúar 1998, bls. 37.
[68] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 223.
[69] Sama heimild, bls. 224.
[70] Sama heimild.
[71] Einkavæðing á Íslandi 1992-2003. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. C03:3. Skýrslan var unnin fyrir forsætisráðuneytið, þeir sem tóku hana saman voru dr. Friðriki Má Baldursson og Guðmundi Sigfinnsson B.Sc. Rv. apríl 2003, bls. 31-32.
[72] Hér úr bókinni: Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld. Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 229.
[73] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld. Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 243.
[74] Sama heimild, bls. 258.
[75] Sama heimild, bls. 261 og 263.
[76] Sama heimild, bls. 258-259.
[77] HP Fréttir. [2.tbl. 10.árg.] 1998, bls. 7.
[78] Endurgerð mynda úr árskýrslu Opinna kerfa árið 2002.
[79] Með kjölfestu í Opnum kerfum. Fréttablaðið, 223. tbl. 4. árg. 18. ágúst 2004, bls. 2.
[80] Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn kaupir hlut í Tölvumiðlun. Morgunblaðið - viðskiptablað. 23.2.200. Sótt 27.10. 2015. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2000/02/23/islenski_hugbunadarsjodurinn_kaupir_hlut_i_tolvumid/
[81] Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn kaupir hluti í Softa. Morgunblaðið – viðskiptablað. 15.10. 1999. Sótt 27.10.2015. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/1999/10/15/islenski_hugbunadarsjodurinn_kaupir_hlut_i_softa/
[82] Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn kaupir hlutabréf Búnaðarbankans í upplýsingafyrirtækjum. Sótt 27.10. 2015. http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=IS&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=9305
[83] Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn kaupir 19,6% í CCP. Morgunblaðið – viðskiptablað, 24. Janúar 2002. Sótt 27.10.2015. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2002/01/24/islenski_hugbunadarsjodurinn_kaupir_19_6_i_ccp/
[84] Sama heimild.
[85] Sama heimild.
[86] Sama heimild.
[87] Ný fyrirtæki, Dagblaðið Vísir, 68. tbl., 73. og 9. árg. 22. mars 1983, bls. 32.
[88] Hringborð fyrrum starfsmanna Tæknivals, 20.3.2016. Rúnar Sigurðsson, Sigurður Strange, Björk Kristjánsdóttir, Ómar Örn Ólafsson og Rósa Kristín Benediktsdóttir.
[89] Tæknival, auglýsing, Morgunblaðið, 59. tbl. 71. árg., 11. mars 1984, bls. 71.
[90] Hringborð fyrrum starfsmanna Tæknivals, 20.3.2016. Rúnar Sigurðsson, Sigurður Strange, Björk Kristjánsdóttir, Ómar Örn Ólafsson og Rósa Kristín Benediktsdóttir.
[91] Sigríður Olgeirsdóttir sagði Rúnar á gula bílnum að selja disklinga hafa verið einkennandi fyrir þetta tímabil.
[92] Hringborð fyrrum starfsmanna Tæknivals, 20.3.2016. Rúnar Sigurðsson, Sigurður Strange, Björk Kristjánsdóttir, Ómar Örn Ólafsson og Rósa Kristín Benediktsdóttir.
[93] Tæknival tuttugufaldar veltu sína á tveimur árum, Morgunblaðið, 122. tbl. 73. árg. 5. júní 1986, bls. B4.
[94] Hringborð fyrrum starfsmanna Tæknivals, 20.3.2016. Rúnar Sigurðsson, Sigurður Strange, Björk Kristjánsdóttir, Ómar Örn Ólafsson og Rósa Kristín Benediktsdóttir.
[95] Sama heimild.
[96] Sama heimild.
[97] Sama heimild.
[98] Frosti Bergsson. Viðtal tekið 13.10.2015.
[99] Frosti Bergsson. Tölvupóstur 7.12.2015.
[100] Tæknival kaupir 69% í Kerfi. Morgunblaðið 4. desember 1997. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/370106/ Sótt 3.2.2016.
[101] Frosti Bergsson. Tölvupóstur 7.12.2015.
[102] Magnús S. Norðdahl, Sigrún Olgeirsdóttir og Sigrún Guðjónsdóttir voru voru við stjórnvölinn frá 2001-2005.
[103] Frosti Bergsson. Viðtal tekið 13.10.2015.
[104] Tæknival, SKÝRR og Opin kerfi stofna nýtt hugbúnaðarfyrirtæki. 1.9.1999. http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspagepf?language=IS&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=4926 Sótt 15.11.2015.
[105] Frosti Bergsson. Viðtal tekið 13.10.2015 og viðbót 2016.
[106] Frosti Bergsson. Viðtal tekið 13.10.2015.
[107] Ítarlegri umfjöllun um notendafélögin má finna í vefútgáfu þessarar bókar.
[108] Sigurður Bergsveinsson. Viðtal tekið 8. september 2015.
[109] Gunnar Ingimundarson stofnandi Hugar. Viðtal tekið 2014.
[110] Sama heimild.
[111] Sama heimild.
[112] Frosti Bergsson. Viðtal 2015.
[113] Saga Nýherja. http://www.nyherji.is/um-nyherja/nyherji/saga/ Sótt 28.10. 2015.
[114] Þeir eiga upplýsingatæknina. Morgunblaðið C, 23. september 2004, bls. 6.
[115] Svo segir í inngangi að grein Morgunblaðsins og byggt er á tölum frá Hagstofu Íslands. Þeir eiga upplýsingatæknina. Morgunblaðið C, 23. september 2004, bls. 6.
[116] Þeir eiga upplýsingatæknina. Morgunblaðið C, 23. september 2004, bls.6.
[117] Frosti Bergsson. Viðtal tekið 13.10. 2015.
[118] Sama heimild.
[119] Þeir eiga upplýsingatæknina. Morgunblaðið C, 23. september 2004, bls. 6.
[120] Árni Matthíasson: Íslenski hugbúnaðariðnaður betur staddur en nokkru sinni. Morgunblaðið C, 18. mars 2004, bls. 9C.
[121] Sama heimild, bls. 8C.
[122] Þeir eiga upplýsingatæknina. Morgunblaðið C, 23. september 2004, bls. 7.
[123] Sama heimild, bls. 6.
[124] EJS 70 ára. Frjáls verslun, 8.-9. tbl. 71. árg. 01.09.2009, bls. 16. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=380216&pageId=6253040&lang=is&q=Einar%20J%20Sk%FAlason%20Einar%20J%20Sk%FAlason Sótt 3.2.2016.
[125] http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2010/11/10/ejs_og_rekstrarlausnir_skyrr_sameinast/
[126] Fyrsti formaður samtakanna var Friðrik Sigurðsson. Samtökin runnu seinna inn í samtök iðnaðarins.
[127] Þeir eiga upplýsingatæknina. Morgunblaðið C, 23. september 2004, bls. 6.
[128] Hrönn Helgadóttir: Útflutningur hugbúnaðar. Peningamál 2001/3, bls. 77.
[129] Daði Jónsson: Nýr staðall um útboð og verksamninga. Tölvumál, 15. árg. 5. tbl. 01.08.1990, bls. 14.
[130] Sjá nánar kafla um ríkisútboð á hugbúnaði.
[131] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 23.10.2015.
[132] Morgunblaðið. Viðskipti. 23/08/2001. Sótt 15.10. 2015. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2001/08/23/tap_af_rekstri_skyrr/
[133] Stefán Kjærnested. Viðtal tekið 29.10. 2015.
[134] Ríkisendurskoðun: ORRI – Fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Undirbúningur og innleiðing. Október 2012.
[135] Stefán Kjærnested. Viðtal tekið 29.10. 2015.
[136] Sama heimild.
[137] Sama heimild.
[138] Stefán Kjærnested, athugasemd eftir yfirlestur, 27.3.2016.
[139] https://rikisendurskodun.is/wp-content/uploads/2016/01/Orri_lokaskyrsla.pdf Sótt 23.2. 2018.
[140] Ágúst Guðmundsson. Viðtal 2015.
[141] Arnheiður Guðmundsdóttir, 2016.
[142] Viðtal við Skúla Eggert Þórðarson.
[143] Sama heimild.
[144] Sigurður Bergsveinsson. Viðtal 2014.
[145] Ágúst Guðmundsson. Viðtal 2015.
[146] Kjartan Ólafsson: Nokkur orð um útflutning hugbúnaðar. Tölvumál 1. tbl. 22. árg. mars 1997, bls. 9.
[147] Byggt var á tölum Seðlabankans um gjaldeyrisskil. Kjartan Ólafsson: Nokkur orð um útflutning hugbúnaðar. Tölvumál 1. tbl. 22. árg. mars 1997, bls. 9.
[148] Kjartan Ólafsson: Nokkur orð um útflutning hugbúnaðar. Tölvumál 1. tbl. 22. árg. mars 1997, bls. 9.
[149] Sama heimild, bls. 10.
[150] Björn Z. Ásgrímsson: Útflutningur hjá Kerfi hf. Tölvumál, 1. tbl. 22. árg. mars 1997, bls. 15.
[151] Sama heimild.
[152] IBM verðlaunar íslenskt hugvit. Alþýðublaðið, 18. Febrúar 1987, bls. 11. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=244338&pageId=3325290&lang=is&q=IBM%20ver%F0laun Sótt 21.2. 2018.
[153] Nýr hugbúnaður fyrir fiskiðnaðarfyrirtæki. Morgunblaðið, 278. tbl. 77. árg., bls. 34. 5.12.1989.
[154] Stefán Hrafnkelsson. Viðtal tekið 21.10.2015.
[155] Samkvæmt samningi við CODA plc.
[156] Vilhjálmur Þorsteinsson: Útflutningur hugbúnaðar. Tölvumál, 1. tbl. 22. árg. mars 1997, bls. 17.
[157] Sama heimild.
[158] Sama heimild, bls. 18 .
[159] Sama heimild.
[160] Páll Hjaltason: Reynsla af útflutningi afgreiðslukerfa. Tölvumál, 1. tbl. 22. árg. mars 1997, bls. 29.
[161] Sama heimild.
[162] Ingvar Örn Guðjónsson: Íslensk uppboðsþekking seld til Bandaríkjanna. Tölvumál, 1. tbl. 22. árg. mars 1997, bls. 27.
[163] Tæknivals, INNN og Eskils.
[164] Sigrún Guðjónsdóttir: Útrás íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Árangursþættir og framtíðarsýn. Rv. október 2006, bls. 15.
[165] Sama heimild.
[166] Sama heimild.
[167] Margrét Dóra Ragnarsdóttir og Stefán Baldur Árnason, fyrrverandi OZ-arar: Arfleifð OZ. Skýrsla viðskiptaþings 2011. Sótt 19.10. 2015. http://www.vi.is/files/Vi%C3%B0skipta%C3%BEing%202011%20sk%C3%BDrsla%20-%20PDF%20%C3%BAtg%C3%A1fa_1988970559.pdf
[168] Hjálmar Gíslason. Viðtal tekið 1.10. 2015.
[169] Umfjöllun í Töluvheimi frá árinu 2005. Sótt 19.10.2015. http://heimur.is/other/2005/12/28/farsimar-thradlaus-ofurtol-naestu-arum-012005
[170] Þeir eiga upplýsingatæknina. Morgunblaðið C, 23. september 2004, bls.7.
[171] Frétt frá Íslenska hugbúnaðarsjóðum vegna sameiningar upplýsingatæknifyrirtækja. 29.3.2000. http://news.icex.is/newsservice/MMIcexNSWeb.dll/newspage?language=en&pagetype=symbolnewslist&primarylanguagecode=IS&newsnumber=6850 Sótt 14.11.2015.
[172] Viðtal við Stefán Hrafnkelsson, tekið 21.10.2015.
[173] http://soguvefur.landsbanki.is/ 1994.
[174] Sambandstíðindi, 16. árg. 1985 (14.01.1985).
[175] Reikningarnir borgaðir við heimilslegan tölvuskjáinn. Tíminn, 21. október 1995, bls. 7. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=282400&pageId=4082666&lang=is&q=Landsbankans%20Einkabanka
[176] http://soguvefur.landsbanki.is/ 1999.
[177] Árni Matthíasson: Til hvers er alnetið? Morgunblaðið – viðskipti. 22. febrúar 1996, bls. B9.
[178] Auglýsing í Morgunblaðinu 1. desember 1995, bls. 47.
[179] Árni Matthíasson: Til hvers er alnetið? Morgunblaðið – viðskipti. 22. febrúar 1996, bls. B9.
[180] Ólafur Andri Ragnarsson: Öryggisráðstafanir í viðskiptum yfir tölvunet. Tölvumál, 21. árg. 2. tbl. 01.05. 1996.
[181] Stefán Hrafnkelsson: Viðtal tekið 21.10. 2015.
[182] Árni Matthíasson. Viðtal tekið 20.10.2015.
[183] Ólafur Andri Ragnarsson: Leikaiðnaðurinn er alvöru iðnaður. Tölvumál 1. tbl. 34. árg., nóvember 2009, bls. 40.
[184] Úr umræðum á ráðstefnu um konur í hugbúnaðargerð, haldinni í húsakynnum Sabre, september 2015.
[185] Undrabarnið. Frjáls verslun. 58. árg. 10. tbl. 01.10.1997, bls. 54.
[186] Margrét Dóra Ragnarsdóttir og Stefán Baldur Árnason, fyrrverandi OZ-arar: Arfleifð OZ. Skýrsla viðskiptaþings 2011. Sótt 19.10. 2015. http://www.vi.is/files/Vi%C3%B0skipta%C3%BEing%202011%20sk%C3%BDrsla%20-%20PDF%20%C3%BAtg%C3%A1fa_1988970559.pdf
[187] Sama heimild.
[188] Sama heimild.
[189] Hilmar Veigar Pétursson. Viðtal tekið 20.10. 2015.
[190] Sama heimild.
[191] Vaxandi vinsældir í sjö ár. Morgunblaðið, 28. Janúar 2010. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1319802/ Sótt 27.10.2015.
[192] Gísli Kristjánsson: EVE-Online: Útgerðarmaður í ímynduðum heimi. Frjáls verslun, 4. tbl. 70. árg. 2008, bls. 88.
[193] Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir: Þróunarumhverfi CCP. Saga CCP og EVE Online. Kynning hjá Ský, 20. Nóvember 2008.
[194] Hilmar Veigar Pétursson. Viðtal tekið 20.10. 2015.
[195] Sama heimild.
[196] Sama heimild.
[197] Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn kaupir 19,6% í CCP. Viðskiptablað Morgunblaðsins, 19. tbl. 90. árg., 24.1. 2002.
[198] 200 milljóna samningur fyrir tölvuleik. Fréttablaðið, 77. tbl. 2. árg. 23.4. 2002, bls. 2; CCP fær á annað hundrað miljónir til að klára leikinn. Viðskiptablaðið 24.-30. apríl 2002. 17. tbl. 9. árg., bls. 2.
[199] Hilmar Veigar Pétursson. Viðtal tekið 20.10. 2015.
[200] Framkvæmdastjóri CCP lætur af störfum. Viðskiptablaðið, 18 tbl. 9. árg. 1.-7. maí 2002, bls. 2.
[201] EVE kominn út – seldist vel á fyrsta degi. Viðskiptablaðið, 18. tbl. 10. árg. 7-13. maí, 2003, bls.2; EVE á markað í fyrramálið. Sjónvarpið 5.5. 2003.
[202] Hilmar Veigar Pétursson. Viðtal tekið 20.10. 2015.
[203] Stefán Hrafnkelsson. Viðtal tekið 21.10. 2015.
[204] Sama heimild.
[205] Alþýðubankinn tekur þátt í fjármögnun Betware. Morgunblaðið 1. júlí 1998. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/406208/?item_num=0&searchid=98478ea4947fe3ca2daf380fcfafb012c8719e68 Sótt 1.11. 2015.
[206] Efnilegustu netfyrirtæknin! Frjáls verslun, 4. tbl. 62. árg. 2000, bls. 45.
[207] Íslenskur hugbúnaður í Danmörku. Morgunblaðið 15. september 2001. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/626238/?item_num=0&searchid=6464e154c6f65bada62bf7b2df8478a2b1845800 Sótt 1.11. 2015.
[208] Stefán Hrafnkelsson. Viðtal tekið 21.10. 2015.
[209] The History of Search Engines – An Infographic. http://www.wordstream.com/articles/internet-search-engines-history Sótt 28.10. 2015.
[210] Hér af vefsíðu markaðsfyrirtækisins Allra átta: www.8.is
[211] http://hvar.is/index.php?page=um-landsadgang Sótt 10.10. 2015.
[212] Björn Bjarnason.
[213] https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dslenska_Wikipedia
[214] Viðtal við Árna Matthíasson tekið 20.10. 2015.
[215] Árni Matthíasson: Alnetssími. Morgunblaðið x tbl. x árg. 1. desember 1995. Blaðsíða 34.
[216] Björn Jónsson: Samruni tölvutækni og símatækni. Tölvumál, 24. árg. 5.-6. Tbl. 01.12.1999, bls. 41.
[217] Sama heimild, bls. 44.
[218] Úr umræðum í vísindaferð meistaranema í tölvunarfræði í HÍ í OZ veturinn 2001-2002 sem höfundur varð vitni að.
[219] Farsímar – Þráðlaus ofurtól á næstu árum. Heimur hf., 29. mars 2006. Tengill óvirkur, 23. febrúar 2018.
[220] Sama heimild.
[221] Árni Matthíasson: Nýjir tímar síma. Morgunblaðið, 6. febrúar 2005. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1000308/ Sótt 14.10. 2005.
[222] Sama heimild.
[223] Farsímar – Þráðlaus ofurtól á næstu árum. Heimur hf., 29. mars 2006. Tengill óvirkur, 23. febrúar 2018.
[224] Árni Matthíasson: Nýir tímar síma. Morgunblaðið, 6. febrúar 2005. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1000308/ Sótt 14.10. 2005.
[225] Síminn kaupir Sensa. Vísir 16. Apríl 2007. http://www.visir.is/siminn-kaupir-sensa/article/200770416090 Sótt 20.3.2016.
[226] https://www.siminn.is/siminn/i-fjolmidlum/frettir/nanar/store1/item7038
[227] Orðinn tölvufíkill á örskömmum tíma. Morgunpósturinn, 14. tbl. 2. árg, bls. 22.
[228] Netfíklar flýja til netheima. Morgunblaðið, 230. tbl. 86. árg. 10. október 1999, bls. 24.
[229] Kristín Sigurðardóttir: Íslendingasagnastíll unglinganna. Morgunblaðið 230. tbl. 86. árg. 10. október 1999, bls. 22.
[230] Þróast eins og lítið samfélag. Óskar Gunnar Óskarsson, OFi, í spjalli um spjallrásina #iceland. Stúdentablaðið. Aukablað – tölvudagar íslenskra námsmanna. 1997, bls. 8.
[231] Sama heimild.
[232] Sama heimild.
[233] Sama heimild.
[234] Kristín Sigurðardóttir: Íslendingasagnastíll unglinganna. Morgunblaðið 230. tbl. 86. árg. 10. október 1999, bls. 22.
[235] Þróast eins og lítið samfélag. Óskar Gunnar Óskarsson, OFi, í spjalli um spjallrásina #iceland. Stúdentablaðið. Aukablað – tölvudagar íslenskra námsmanna. 1997, bls. 8.
[236] Kristín Sigurðardóttir: Íslendingasagnastíll unglinganna. Morgunblaðið 230. tbl. 86. árg. 10. október 1999, bls. 22.
[237] Sama heimild.
[238] Sama heimild.
[239] Söguritari fékk það hlutverk að taka viðtal – gegnum irkið – við parið á Akureyri, sem í hlut átti og flytja á málþinginu í Háskólabíói 15. mars 1997. Parið lagði mikla áherslu á nafnleysi sitt í þessu máli.
[240] Öryggi og heiðarleiki á Netinu. Morgunblaðið, 10. október 1999. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/496067/ Sótt 2.11. 2015.
[241] Sigríður Olgeirsdóttir, sem var bæði í 2000 nefndinni á vegum ríkisins og nefnd Skýrslutæknifélagsis lýsir vandanum þannig í hnotskurn.
[242] Stefán Kjærnested. Viðtal 2015.
[243] Aldamótavandinn, stöðumat. Skýrsla 2000 nefndarinnar í febrúar 1999. Fjármálaráðuneytið 1999, bls. 5; Haukur Ingibergsson: Uppgjör 2000 vandans. Tölvumál, 2. tbl. 25. árg. 01.05.2000, bls. 6.
[244] Átak 2000. Tölvumál, 4. tbl, 23. árg. 01.12. 1998, bls. 23.
[245] Stefán Kjærnested. Viðtal október 2015.
[246] Ártalið 2000 leiddi ekki til vandræða í tölvukerfum hér á landi. Öll kerfi 2000-hæf. Morgunblaðið, 2. tbl. 88. árg. 4. Janúar 2000, bls. 11; Enginn 2000-vandi. DV, 1. tbl. 90. og 26. árg. 3. janúar 200, bls. 64.
[247] Stefán Kjærnested. Viðtal október 2015.
[248] Haraldur A. Bjarnason. Viðtal tekið 23.11.2015.
[249] https://www.audkenni.is/um-audkenni/fyrirtaekid/
[250] Haraldur A. Bjarnason. Viðtal tekið 23.11.2015.