Skip to main content
3. apríl 2025

HÍ stofnar eignarhaldsfélag til að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarf fræðimanna

Oddur Sturluson

Oddur SturlusonÍ lok árs 2022 stofnaði Háskóli Íslands félagið Sprotar – eignarhaldsfélag Háskóla Íslands ehf. til að halda utan um eignarhluti Háskólans í rannsóknar- og sprotafyrirtækjum sem hafa sprottið úr starfi og rannsóknum á vegum skólans. Við stofnun tók félagið við eignarhaldi í 21 fyrirtæki sem eru orðin 22 í dag en í þeim hópi eru sum efnilegustu djúptæknifyrirtæki landsins.

Helsta ástæðan fyrir stofnun félagsins var að bæta stefnumótun og yfirsýn Háskólans til að hann geti betur stutt við nýsköpun og hagnýtingu. Með því að safna eignarhlutum Háskólans undir eitt félag fæst betri skilningur á því hvernig við getum aukið hagnýtingu og samfélagsleg áhrif rannsókna. Stofnun Sprota er hluti stærra markmiðs Háskólans um að styðja við nýsköpunarumhverfi landsins. Allur hagnaður félagsins af sölu á hlutabréfum í þroskuðum fyrirtækjum verður nýttur til þess að styrkja ný og upprennandi nýsköpunarverkefni. Við munum gera það með því að veita styrki fyrir verkefni sprotafyrirtækja á frumstigi („proof-of-concept“) og tryggja þeim þannig nauðsynlega aðstoð við að komast af hugmyndastigi.

Fyrirtækin í eigu Sprota eiga það sameiginlegt að byggjast á brautryðjandi rannsóknum og tækni. Slík verkefni krefjast lengri þróunartíma þar sem viðfangsefni fyrirtækjanna eru gríðarlega flókin. Löglegar, vísindalegar og viðskiptalegar hindranir valda því að það getur tekið slík fyrirtæki mörg ár að komast á flug en áhrifin verða þeim mun meiri fyrir vikið. Háskóli Íslands er þolinmóður hluthafi og áhersla er lögð á að veita frumkvöðlum sem eru samstarfsaðilar tíma til að vaxa og dafna frekar en að eltast við fljótfenginn gróða.

Langtímastuðningur fyrir byltingarkennd fyrirtæki
Segja má að ferlið hefjist þegar starfsmaður Háskólans fær hugmynd eða gerir uppgötvun sem væri hægt að hagnýta. Ef uppfinning verður til við störf innan Háskólans eða Landspítalans eiga þessar stofnanir rétt á hlutdeild í henni samkvæmt lögum nr. 72/2004. Til þess að ferlið gangi snurðulaust fyrir sig var sett á laggirnar Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala árið 2013 en nefndin hefur mikilvægu hlutverki að gegna í aðstoð við starfsmenn, nemendur og rannsóknarstyrkhafa við að hagnýta rannsóknarniðurstöður sínar og uppfinningar.

Starfsmaður þarf að tilkynna um uppfinningu eða rannsóknarniðurstöðu til nefndarinnar áður en hún er gerð opinber til að tryggja að mögulegt verði að sækja um einkaleyfi. Hugverkanefnd tekur þá ákvörðun hvort Háskólinn eða Landspítalinn muni fjármagna einkaleyfisumsókn og frekari hagnýtingu. Ef ákveðið er að sækja um einkaleyfi greiðir nefndin fyrir þá vinnu og styður frekari þróun uppfinningarinnar í samstarfi við uppfinningamennina. Ef uppfinningin er hagnýt skiptist arðurinn af henni þannig að starfsmaður fær 35% af hagnaði, 10% rennur til rannsóknarstarfs hans, 10% til viðeigandi starfseiningar starfsmannsins og 45% til Háskóla Íslands og Landspítala. Þannig er tryggt að bæði starfsmaðurinn og stofnunin njóti ávinnings af velgengni uppfinningar.

Í sumum tilfellum er hins vegar uppfinningin eða hugmyndin metin þannig að skynsamlegt sé að stofna sprotafyrirtæki í kringum hana. Ný fyrirtæki verða til innan Háskólans á hverju einasta ári. Nú þegar á þessu ári hafa tvö ný félög bæst við í eignasafn Sprota: Minamo ehf. og KatlaCode ehf. Minamo þróar örveruhamlandi húðun fyrir sílikonígræðslur til að draga úr sýkingarhættu á meðan að KatlaCode er hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að sjálfvirknivæðingu sjúkraskráa. Bæði fyrirtækin eru góð dæmi um lausnir sem byggjast á vísindalegum grunni til að leysa brýn vandamál.

Líklega er þekktasta fyrirtæki sem Sprotar á hlutdeild í Oculis, sem þróar lyf við augnsjúkdómum. Félagið var stofnað árið 2003 af Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum og Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði. Félagið er í dag skráð í kauphöll bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi og er með mörg spennandi járn í eldinum. Þetta er skýrt dæmi um hvernig fyrirtæki sem spratt upp úr rannsóknum hefur skilað miklum árangri, bæði fjárhagslega og vísindalega, en auk þeirra eru mörg önnur félög í safni Sprota sem vinna að metnaðarfullum verkefnum.

Hlutverk Háskóla Íslands í alþjóðlegu samhengi
Háskóli Íslands veitir sprotafyrirtækjum sínum ýmiss konar stuðning, hvort sem um er að ræða ráðgjöf um hugverk, einkaleyfi, hagnýtingu uppfinninga eða aðgang að aðstöðu og aðföngum skólans. Hann starfar náið með aðilum á borð við Auðnu tæknitorg, Vísindagarða HÍ og Klak við að efla nýsköpunarumhverfið í heild sinni en sífellt er verið að leita nýrra leiða til að styðja við frumkvöðla. Með það markmið að leiðarljósi var ákveðið að Sprotar - eignarhaldsfélag skyldi þjóna sem svokallaður „Proof-ofconcept“ sjóður, þar sem fjárhagslegur ávinningur af sölu eða arðgreiðslum yrði nýttur til að styðja upprennandi nýsköpunarverkefni sem hafa komið á borð Hugverkanefndar. Með því að nýta hagnað úr eignarhaldi til frekari fjár festinga getur Háskólinn skapað sjálfbæra leið til að styðja við nýsköpun og tryggja að nýjar hugmyndir fái tækifæri til að blómstra. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að eignarhaldsfélagið verði ekki háð ytri fjármögnun til að styðja við sprotafyrirtæki Háskólans.

Stefna Háskóla Íslands í nýsköpun og hagnýtingu vísinda er hluti af stærra alþjóðlegu samhengi þar sem stjórnvöld um allan heim hafa lagt aukna áherslu á að láta rannsóknir skila sér út í samfélagið. Þessi þróun endurspeglar vitundarvakningu um mikilvægi þess að nýta vísindalegar niðurstöður til að leysa margar brýnustu áskoranir samfélagsins, hvort sem það er á sviði heilsu, umhverfis, fræðslu eða tæknilausna. Þótt frumkvöðlastarf og nýsköpun sé ekki eina leiðin fyrir vísindamenn til að auka samfélagsleg áhrif rannsókna sinna er það öflugt tól sem okkur ber skylda til að beita þegar við á. Með þessari stefnu leggur Háskólinn sérstaka áherslu á vísindalega nýsköpun og samstarf við atvinnulíf og samfélag. Með því að tryggja yfirsýn, stefnumótun og stuðning getur Háskóli Íslands veitt sprotafyrirtækjum það sem þau þurfa til að ná árangri.

Höfundur: Oddur Sturluson, framkvæmdastjóri Sprota – Eignarhaldsfélags Háskóla Íslands

Skoðað: 104 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála