
Staða nýsköpunar í HR og mögulegar leiðir til frekari þróunar
Nýsköpun er einn af hornsteinum samfélagslegra framfara, og á síðustu árum hefur áherslan á hana aukist verulega í íslensku háskólasamfélagi. Háskólinn í Reykjavík (HR) hefur átt stóran þátt í þessari þróun og gegnt mikilvægu hlutverki í að efla nýsköpun á Íslandi. Háskólinn í Reykjavík hefur ekki aðeins lagt áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta og hagnýta menntun með nýsköpun að leiðarljósi, heldur einnig að stuðla að nýsköpunarvinnu með fjölmörgum verkefnum meðal nemenda og starfsmanna.
Háskólinn í Reykjavík hefur sett sér það markmið að efla nýsköpun innan háskólasamfélagsins og leggja grunn að hagnýtum lausnum fyrir framtíðina með framúrskarandi menntun, rannsóknum og nýsköpun. HR hefur þróað ýmsar námsleiðir og námskeið sem snúa að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, meðal annars innan tæknisviðs, þar sem mikið er lagt upp úr því að kenna nemendum að þróa og innleiða nýjar lausnir á raunverulegum vandamálum með því að beita nýsköpun. Einnig er mikil áhersla á hagnýta rannsóknarvinnu innan háskólans þar sem einstaka rannsóknahópar og stærri stuðla að þróun nýrrar tækni, meðal annars í samvinnu við fyrirtæki og opinberar stofnanir í fjölbreyttum greinum. Slíkt tryggir að nemendur og kennarar hafi öfluga tengingu við atvinnulífið og séu meðvitaðir um þarfir og áskoranir sem koma upp í þjóðfélaginu. En það er ekki aðeins innan tæknisviðs þar sem nýsköpun fær rými. Á samfélagssviðinu hefur viðskipta- og hagfræðideild til dæmis þróað fjölbreyttar leiðir til að efla frumkvöðlahugsun hjá nemendum sínum. Námskeið sem leggja áherslu á stefnumótun, viðskiptaþróun og nýsköpun hafa verið mikilvægur þáttur í að undirbúa nemendur fyrir að takast á við framtíðarmarkaði með nýjum og skapandi lausnum. Umrætt námskeið hefur teygt sig yfir allar deildir skólans og hittast nemendur þvert á deildir í slíku námskeiði þar sem þau vinna saman, þrátt fyrir ólíka bakgrunnsþekkingu, að því að leysa vandamál með því að beita frjórri hugsun.
Hvað hefur HR gert til að efla nýsköpun?
HR hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi hvað varðar nýsköpun innan íslensks háskólasamfélags. Háskólinn hefur ætíð talið það þýðingarmikið að tengja nám beint við atvinnulífið með eftirtektarverðum árangri. Samstarf við fyrirtæki, stofnanir og önnur nýsköpunarfyrirtæki hefur skapað vettvang fyrir nemendur til að vinna að spennandi verkefnum og þróa lausnir sem geta haft bein áhrif á samfélagið. Verkefni á borð við Gulleggið og ýmsar frumkvöðlasmiðjur (e. hackathons) sem háskólinn tekur þátt í eða styður, hafa hjálpað nemendum að koma hugmyndum sínum á framfæri og gert þeim kleift að öðlast reynslu af frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi.
Önnur mikilvæg leið sem HR hefur farið er að skapa þverfaglegt umhverfi fyrir nemendur. Með því að tengja saman mismunandi greinar, eins og viðskipti, tækni og hugvísindi, er stuðlað að því að nemendur fái fjölbreyttari sýn á nýsköpun og þrói lausnir sem eru víðtækari og betur undirbúnar fyrir markaðsþarfir. Þetta ýtir undir skapandi hugsun og eykur möguleikann á því að nýsköpun innan háskólans leiði til raunverulegra breytinga. Auk þess hefur háskólinn byggt upp stuðningskerfi fyrir nemendur og kennara sem vilja stunda frumkvöðla- og nýsköpunarstarf.
Hvernig getur HR gert enn betur í nýsköpun?
Háskólinn í Reykjavík vinnur gott starf á sviði nýsköpunar, en alltaf er svigrúm til að gera enn betur. Til að efla nýsköpun innan háskólans er mikilvægt að leggja aukna áherslu á fjölbreytileika og þverfaglega samvinnu. Með því að bjóða upp á fleiri námskeið og verkefni þar sem nemendur úr mismunandi deildum vinna saman, til dæmis tækni- og verkfræðinemar með viðskipta- og laganemum, skapast tækifæri til að þróa nýjar lausnir. Einnig er mikilvægt að efla tengsl HR við alþjóðlegt nýsköpunarumhverfi, með því að vinna með alþjóðlegum fyrirtækjum, rannsóknarstofnunum og háskólum, og skapa þannig fleiri tækifæri fyrir nemendur til að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.
Til að styðja betur við sprotafyrirtæki og frumkvöðla eftir útskrift vinnur HR að því að skapa umhverfi þar sem útskrifaðir nemendur geta haldið áfram frumkvöðlastarfi sínu. Það getur verið í formi ráðgjafar eða tengslanets við aðra aðila í nýsköpunarumhverfinu og atvinnulífinu. Einnig leggur HR aukna áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð í nýsköpun, bæði í námi og rannsóknum, til að efla nemendur til að þróa lausnir sem eru tæknilega skilvirkar og samfélagslega ábyrgðarfullar.
Loks er áhersla lögð á að skapa hvetjandi námsumhverfi sem leggur áherslu á sköpunargleði og frumkvæði, þar sem nemendur fá frelsi og stuðning til að þróa nýjar hugmyndir. Með því að líta á mistök sem tækifæri til náms og verðlauna frumkvæði, stuðlar HR að aukinni sköpunargleði og eflir þátttöku nemenda í nýsköpunarstarfi.
Lokaorð
Háskólinn í Reykjavík hefur á undanförnum árum sýnt fram á vilja til að efla nýsköpun innan íslensks háskólasamfélags. Með skýrum áherslum á hagnýta menntun, tengsl við atvinnulífið og stuðning við frumkvöðla, hefur háskólinn skapað vettvang fyrir nýsköpun sem hefur haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Með því að halda áfram að þróa nýsköpun innan háskólans, með áherslu á þverfaglega samvinnu, alþjóðatengsl, sjálfbærni og stuðning við sprotafyrirtæki, mun HR festa sig enn frekar í sessi sem leiðandi háskóli á sviði nýsköpunar á Íslandi og jafnvel á alþjóðavísu.
Höfundur: Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, forseti Tæknisviðs við Háskólann í Reykjavík
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.