
Gervigreind í skólastarfi: Ný verkfæri fyrir kennara
Mig langaði að vita hvernig kennarar og nemendur upplifa áhrif gervigreindar í skólastarfi og ræddi því við nokkra. Í samtölunum kom í ljós að þrátt fyrir að nemendur séu farnir að nota gervigreind mikið, hafa kennarar ekki endilega fylgt þróuninni eftir.
Nemandi í Kvennaskólanum sagði mér hreint út: „Það nota allir nemendur ChatGPT og eiginlega of mikið.“ Sama saga heyrðist frá nemanda í MR. Það er ljóst að þetta tól er orðið hluti af námi, en eru kennarar meðvitaðir um hversu mikil áhrif þetta mun hafa á skólakerfið? (Nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík, 10. febrúar 2025; Nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík, 15. febrúar 2025).
Kennarar þurfa fræðslu um gervigreind
Stærðfræðikennari í MR viðurkenndi að gervigreind hefði ekki haft mikil áhrif á kennsluaðferðir hans enn sem komið er. Hann sagði: „Nemendur hafa notað tölvuforrit og annað slíkt til að hjálpa sér með heimadæmi í áraraðir, og það sést venjulega frekar vel þegar slíkt er gert.“ Hann tók þó eftir því að gervigreindin væri farin að nota aðferðir úr amerískum kennslubókum, sem sýnir að nemendur eru að fá mismunandi nálganir á viðfangsefni en áður. (Stærðfræðikennari í Menntaskólanum í Reykjavík, 12. febrúar 2025).
Íslenskukennari í Kvennó sagðist hafa lítið kynnt sér ChatGPT en taldi samt að það gæti verið gagnlegt fyrir nemendur við upplýsingaöflun og skilning á texta. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að kenna nemendum að umgangast gervigreind á uppbyggilegan hátt. (Íslenskukennari í Kvennaskólanum í Reykjavík, 15. febrúar 2025).
Grunnskólakennari, sem hefur prófað að nota gervigreind til að aðlaga texta og búa til sérsniðin próf, sagði: „Nú þegar nýtist hún sem verkfæri fyrir kennara í að spara sér vinnutíma og framkvæma ýmis verk sem þeir gátu ekki sinnt áður.“ Það er augljóst að gervigreind gæti verið frábært hjálpartæki fyrir kennara, en það virðist skorta fræðslu um hvernig þeir geti nýtt hana á áhrifaríkan hátt (Grunnskólakennari, 13. febrúar 2025).
Einkakennari í vasann – hvernig eigum við að bregðast við?
Nemendur eru þegar farnir að nýta gervigreind sem einkakennara. Þeir geta fengið svör við spurningum, útskýringar á hugtökum og jafnvel sérsniðnar úrbætur á verkefnum sínum á nokkrum sekúndum. Ef kennarar ætla sér að halda áfram að vera leiðtogar í skólastarfi þurfa þeir að fylgjast með þessari þróun og læra hvernig þeir geta notað gervigreindina sér í hag.
Það er ekki spurning um hvort heldur hvernig kennarar og skólastofnanir ætla að aðlaga sig að þessum nýju aðstæðum. Ef ekkert er gert munu nemendur halda áfram að nota gervigreind til að leysa verkefni sín, en án nokkurrar leiðsagnar um gagnrýna hugsun eða siðferðislegar afleiðingar þess.
Gervigreind sem hjálpartæki fyrir kennara
Kennarar geta sjálfir notað gervigreind til að búa til sérsniðið námsefni á ódýran hátt, aðlagað verkefni að þörfum nemenda og jafnvel fengið ábendingar um hvernig þeir geta betur leiðbeint nemendum sínum. Grunnskólakennari orðaði þetta vel: „Ég hef meiri áhyggjur af kennurum sem þrástagast á því að tæknin sé hættuleg en ekki af nemendum sem nota hana“ (Grunnskólakennari, 13. febrúar 2025).
Ef kennarar nýta sér gervigreind geta þeir dregið úr álagi og jafnframt eflt kennslu sína. Í stað þess að sjá hana sem ógn ættu þeir að nýta hana til að dýpka skilning nemenda og gera kennsluna fjölbreyttari.
Að veita kennurum fullnægjandi þjálfun í notkun gervigreindar
Kennarar þurfa viðeigandi þjálfun til að nota gervigreind á skilvirkan hátt. Með dýpri skilningi á virkni gervigreindarkerfa, getu þeirra og takmörkunum geta kennarar betur greint hugsanlega hlutdrægni í gögnum, stuðlað að jafnrétti og tryggt ábyrga nýtingu gervigreindartóla í kennslu.
Þjálfun og kennsla getur veitt kennurum innsýn í hvernig gervigreind greinir gögn og tekur ákvarðanir, sem gerir þeim kleift að innleiða tæknina í samræmi við góð viðmið og markmið námsins. Gervigreind getur veitt nemendum námsreynslu sem er sérsniðin að þeirra þörfum, áhuga og námsgetu (Asyia Kazmi, 2024). Hún getur einnig veitt tafarlausa endurgjöf og hjálpað nemendum að átta sig á stöðu sinni í námi og hvað þeir þurfa að bæta (AI in Schools, 2024). Gervigreind getur einnig gert flókin hugtök skýrari og áhugaverðari með myndrænum og gagnvirkum aðferðum og gert menntun aðgengilegri fjölbreyttum hópum nemenda (Javier Canales Luna, 2024).
En það eru einnig áskoranir sem þarf að huga að. Gervigreind krefst söfnunar á miklu magni persónulegra gagna, sem vekur áhyggjur um gagnavernd og friðhelgi (Asyia Kazmi, 2024). Einnig getur hlutdrægni í þjálfunargögnum leitt til mismununar ef gögnin eru ekki fullkomlega hlutlaus (The Ethics of AI in Education: - Taxila Business School, e.d.). Minni mannleg samskipti í skólastarfi gætu einnig haft neikvæð áhrif á áhuga og námsárangur (AI in Schools, 2024).
Því er mikilvægt að kennarar séu vel upplýstir. Vel lærðir kennarar geta leiðbeint nemendum í notkun gervigreindar og stuðlað að samvinnu og trausti innan námsumhverfisins. Til að auðvelda kennurum að tileinka sér þessa þekkingu hafa ýmis virt fræðisetur og stofnanir þróað námskeið til að auka færni þeirra í notkun gervigreindar. Til dæmis býður Stanford Teaching Commons upp á yfirgripsmikla fræðslu um gervigreindar læsi fyrir kennara (Understanding AI Literacy | Teaching Commons, e.d.). Að auki eru ýmis ókeypis námskeið í boði á netinu, þar á meðal nokkur af þeim bestu sem hafa verið tekin saman af Kangaroos AI (Diana Chen, 2024).
Niðurstaða
Gervigreind er komin til að vera og hefur þegar haft áhrif á skólastarf. Nemendur nota hana í auknum mæli, en kennarar þurfa að fylgja þessari þróun eftir. Með fræðslu og réttum verkfærum geta kennarar nýtt gervigreind til að styrkja nám nemenda í stað þess að sjá hana sem ógn. Það er lykilatriði að skólar og kennarar móti stefnu um notkun hennar svo hún gagnist bæði kennurum og nemendum á sem bestan hátt.
Höfundur: Sædís Ósk Einarsdóttir nemi við Háskólann í Reykjavík.
Heimildaskrá
AI in Schools: Pros and Cons. (2024, 24. október). College of Education. https://education.illinois.edu/about/news-events/news/2024/10/24/ai-in-schools--pros-and-cons
Asyia Kazmi. (2024, 11. september). Can AI transform education? https://www.gatesfoundation.org/ideas/articles/ai-tools-education-technology
Diana Chen. (2024, 13. apríl). The 5 Best Free AI Courses for Teachers (2025). https://www.kangaroos.ai/blog/best-free-ai-courses-teachers/
Javier Canales Luna. (2024, 12. ágúst). AI in Education: Benefits, Challenges, and Ethical Considerations. https://www.datacamp.com/blog/ai-in-education
The Ethics of AI in Education: - Taxila Business School. (e.d.). Sótt 16. febrúar 2025, af https://taxila.in/blog/the-ethics-of-ai-in-education/
Understanding AI Literacy | Teaching Commons. (e.d.). Sótt 16. febrúar 2025, af https://teachingcommons.stanford.edu/teaching-guides/artificial-intelligence-teaching-guide/understanding-ai-literacy
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.