Skip to main content
13. mars 2025

Rafræn próf eða pappírspróf?

Þórey Ósk Árnadóttir

Þórey Ósk ÁrnadóttirRafræn prófakerfi hafa verið að þróast gríðarlega hratt á undanförnum árum og bjóða orðið upp á ýmsa möguleika. Sum kerfi, eins og til dæmis Canvas kerfið frá Instructure sem flestir, ef ekki allir háskólar á Íslandi nota, leyfa nemendum að hafa aðgang að interneti, forritum og gögnum vistuðum á tölvunni á meðan á prófi stendur.

Nemendur geta því nýtt glærur frá kennurum ásamt kennslubókum og eigin glósum til aðstoðar við að leysa próf. Önnur kerfi loka á allan internet aðgang og læsa öllum öðrum forritum og gögnum á tölvu nemandans nema prófakerfinu sjálfu og þeim gögnum sem kennarar leyfa aðgang að í gegnum það kerfi. Þessi kerfi eru til dæmis DigiExam og Inspera. Öll þessi kerfi bjóða upp á mismunandi tegundir af spurningum; krossa- og fjölvalsspurningar, eyðufyllingar og ritgerðarspurningar svo fátt eitt sé nefnt. Þessi kerfi bjóða einnig uppá það að kerfið fari sjálfkrafa yfir þær spurningar þar sem hægt er á einfaldan máta að skrá hvert rétta svarið er.

Eins og Amalía Björnsdóttir (2020) lýsir í myndbandi á youtube.com þar sem hún kynnir Inspera prófakerfið, þá þurfa kennarar nánast eingöngu að fara yfir lengri textaspurningar og þegar því er lokið reiknar kerfið út einkunn nemendanna og skilar henni beint inn í einkunnabókina. Þetta sama fyrirkomulag er í DigiExam kerfinu sem er notað í Háskólanum í Reykjavík. Kennarinn velur tegundir og fjölda spurninga, stigagjöf fyrir hverja og eina spurningu og þær leiðbeiningar sem þarf fyrir nemendur. Kennarinn og prófstjórinn sjá svo hverjir hafa opnað prófið og hvort og hvenær þeir skila inn prófinu ásamt alls kyns tölfræði.

Með örstuttri leit á internetinu finnast fjölmargar greinar frá síðustu 5-10 árum þar sem því er lýst yfir að pappírspróf heyri fortíðinni til og framtíðin sé í þessum rafrænu prófakerfum. Þetta á við um öll skólastig, allt frá grunnskóla og upp í háskóla, ásamt því að eiga við um annað nám, svo sem bóklegt bílpróf svo dæmi sé tekið (Hreinn Pálsson, 2018; Samgöngustofa, 2024). Ekki virðast þessar yfirlýsingar hafa raungerst að fullu. Ýmsir hnökrar hafa verið á innleiðingu sumra þessara prófakerfa eins og Arnór Guðmundsson (2021) lýsir í viðtali vegna rafræns prófakerfis fyrir samræmd próf í 4., 7. og 9.bekk í grunnskólum landsins. Þar lýsir hann því yfir að það kerfi sem var innleitt í fyrstu sé fullreynt og verði ekki notað framar og að ef fáist ekki nýtt kerfi verði prófin lögð fyrir á pappír.

Þessi reynsla frá grunnskólum landsins er þó alls ekki sambærileg reynslunni af rafrænum prófakerfum í háskólunum. Þar virðast kerfin hafa verið að virka vel og ættu auðveldlega að geta komið algjörlega í stað pappírsprófa.

En af hverju eru þá háskólarnir enn þá að nota pappírspróf?

Hvað veldur því að árið 2024 voru enn þá rúmlega 43% af lokaprófum í Háskólanum í Reykjavík pappírspróf samkvæmt upplýsingum frá prófstjóra skólans? Og hlutfallið er enn þá hærra í tölvunarfræðideild skólans, þar voru um 62% af lokaprófum árið 2024 á pappír.

Ég er nú svo einföld að ég hefði haldið að ef einhver deild væri viljug til að nota tæknina þá væri það tölvunarfræðideildin með alla þá tækniþekkingu sem kennarar þar búa yfir.

  • Af hverju vilja kennarar ekki gera sér vinnuna auðveldari og þurfa ekki að skilja misgóða skrift nemenda, handslá inn allar einkunnir og leggja saman áður en hægt er að skila inn lokaeinkunn nemenda?
  • Af hverju eru nemendur látnir skrifa forritunarkóða á pappír og skila inn án þess að geta prófað hvort kóðinn keyrir?
  • Af hverju er líklega hundruðum þúsunda síðna eytt á hverri önn í að prenta út pappírspróf?

Stutta svarið er: hræðsla kennara við að nemendur noti gervigreind og/eða svindli á annan máta! Sem er eiginlega ótrúlegt þegar verið er að tala um fullorðna einstaklinga sem ættu að vera í háskólanámi á eigin forsendum og af því að þau langar til að læra.

En þetta er staðan í dag. Tæknin sem á að hjálpa okkur og einfalda okkur lífið er tvíeggjað sverð og er líka að gera kennurum erfiðara fyrir. Háskólarnir bera ábyrgð á að tryggja að þegar þeir skila sínum útskrifuðu nemendum út í atvinnulífið eða í framhaldsnám, þá hafi þeir í raun og veru unnið fyrir gráðunni sinni og kunni það sem til var ætlast. En á meðan nemendur reyna að komast auðveldar í gegnum námið sitt með því að nýta sér gervigreind eða fylgja ekki fyrirmælum um að mega ekki nýta sér hjálpargögn við úrlausn prófa þá treysta kennarar ekki prófum teknum í tölvum, þrátt fyrir að þessi kerfi bjóði uppá að læsa á allt nema prófakerfið. Þeir fara því frekar gömlu leiðina og nota pappírsprófin sem þeir treysta.

Vonandi mun þetta breytast í nánustu framtíð. Vonandi munu kennarar öðlast traust á rafrænum prófakerfum og vonandi munu prófakerfin reynast traustsins verð. Vonandi munu tölvunarfræðinemendur framtíðarinnar ekki þurfa að sitja með blað og blýant að skrifa í 3-4 klukkustunda lokaprófi. Vonandi munu þessir sömu nemendur ekki þurfa að skrifa forritskóða á blað og vona að hann keyri ef hann er pikkaður inn í tölvu. Vonandi sjá nemendur framtíðarinnar að sér og sýna heiðarleg vinnubrögð í háskólanámi.

Eins og staðan er í dag þá er eina sem hægt er að gera að vona!

Höfundur: Þórey Ósk Árnadóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá
Amalía Björnsdóttir (2020) „Hvers vegna er fljótlegra að fara yfir í Inspera en pappírspróf“ Kynningarmyndband á youtube.com, skoðað í febrúar 2025. https://www.youtube.com/watch?v=utc8m6_04hY

Hreinn Pálsson (2018) „Prófaumhverfi í Háskóla Íslands bylt á næstu misserum“ Frétt af vef Háskóla Íslands, skoðað í febrúar 2025. https://hi.is/frettir/profaumhverfi_i_haskola_islands_bylt_a_naestu_misserum

Samgöngustofa (2024) „Bókleg almenn ökupróf verða rafræn frá 16.maí 2024“ Frétt af vefnum island.is, skoðað í febrúar 2025. https://island.is/frett/bokleg-almenn-oekuprof-verda-rafraen-fra-16-mai-2024

Arnór Guðmundsson (2021) „Annaðhvort nýtt kerfi eða pappírspróf” Frétt af ruv.is, skoðað í febrúar 2025. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-03-13-annadhvort-nytt-kerfi-eda-pappirsprof

Skoðað: 34 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála