
AI á vinnustaðnum: Er gervigreindin að taka við af fólki?
Gervigreindin hefur með árunum orðið sífellt stærri hluti af daglegum störfum og fyrirtækjarekstri. Mörg störf hafa horfið eða breyst vegna notkunar fyrirtækja á AI, sem hefur bæði jákvæðar og neikvæðar afleiðingar. Þessi þróun á gervigreindinni vekur umræður um framtíðina á vinnumarkaðnum og stöðu fólks á þeim markaði.
1. Störf sem AI hefur þegar tekið yfir
Ein af stærstu breytingunum sem gervigreindin hefur komið með er í endurteknum störfum sem krefjast ekki mikið af sköpunarafli. Sjálfvirkni og gervigreindin hafa tekið við störfum í þjónustuverum, verksmiðjum og lagerstjórnun. Til dæmis hefur sjálfvirknin stórbætt framleiðslugetu í verksmiðjum með því að fækka mistökum, hraða á framleiðslu og draga úr kostnaði. Róbótar sjá um flutninga á vörum, samsetningu og jafnvel gæða yfirliti. Afleiðingarnar af þessu hafa leitt til mikils fjölda uppsagna í sumum greinum, þar sem störf sem áður kröfðust mannlegs starfsfólks eru nú framkvæmd af vélum og hugbúnaði (Ali, 2024). Í þjónustugeiranum hefur gervigreindin líka breytt miklu, „chatbots“ sjá núna um stóran hluta af samskiptum við viðskiptavini, leiðbeina fólki um vefsíður og leysa einfaldar fyrirspurnir. Þetta dregur úr þörfinni fyrir hefðbundna þjónustustarfsmenn og eykur skilvirkni í viðskiptavinaþjónustu (Dialzara. 2024).
2. Störfin sem eru í hættu
Gervigreindin hefur ekki aðeins haft áhrif á einföld og endurtekin störf, heldur er hún líka að breyta mörgum störfum sem áður voru talin örugg fyrir sjálfvirkni. Fyrirtæki nota gervigreindina til að vinna með ákvarðanatökuferli og greiningar sem voru áður einungis í höndum mannfólks. Til dæmis hafa fyrirtæki í fjármálabransanum byrjað að nýta gervigreind til að meta lánstraust einstaklinga og greina fjárhagslegar áhættur. Auk þess eru markaðsdeildir að nýta gervigreindina til að búa til auglýsingaherferðir sem byggja á ítarlegri greiningu á hegðun notenda (Ali, 2024).
Í heilbrigðisgeiranum hefur gervigreindin einnig orðið partur af ferlinu þar sem hugbúnaður til greininga hefur verið notfærður til að lesa röntgenmyndir og bera kennsl á sjúkdóma með góðri nákvæmni. Þannig lausnir geta hjálpað starfsmönnum að einbeita sér að flóknari þáttum starfseminnar en samt skapar það óvissu um framtíðarhlutverk þeirra (Dialzara. 2024).
3. Áhrif á vinnumarkaðinn og ný störf
Þótt að gervigreindin hafi leitt til þess að margir hafa misst störf þá hefur tæknin líka skapað ný störf. Með gervigreindinni og sjálfvirkni þá verður aukin þörf fyrir ný störf eins og gagnavinnslu, hugbúnaðarþróun og viðhald á tækjabúnaði. Þar að auki hefur eftirspurn eftir fólki til að þróa, þjálfa og viðhalda kerfum tengd gervigreind aukist. Sérfræðingar halda að í framtíðinni muni störf breytast fremur en að hverfa, þar sem fólk mun vinna í samvinnu með gervigreindinni fremur en að hún muni koma í staðinn fyrir mannfólk (Edison & Black, 2024).
4. Lítil og meðalstór fyrirtæki og áskoranir þeirra
Þrátt fyrir þessa þróun þá er notkun gervigreindarinnar ekki án sinna vandamála. Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa oft ekki efni á dýrum gervigreindarkerfum og sjá kannski ekki strax ávinninginn af slíkri fjárfestingu. Starfsmenn þurfa að fá sérstaka þjálfun til að geta unnið með þessa nýju tækni og eru þær breytingar nauðsynlegar til að geta nýtt tæknina til fulls. Þetta er oft mjög kostnaðarsamt og tekur tíma, sérstaklega fyrir fyrirtæki með lítið fjármagn.
5. Áhrif á samfélagið
Innleiðing gervigreindarinnar getur skapað ófyrirsjáanlegar afleiðingar á vinnumarkaðinum. Þeir sem hafa ekki menntun eða vinna í störfum sem krefjast takmarkaðra mannlegra hæfileika eru í mestri hættu á atvinnumissi. Aftur á móti gæti þetta ýtt undir menntun og aukinni áherslu á störf sem byggja á mannlegri sköpun, samskiptum og þjónustu.
Niðurstaða
Gervigreindin er augljóslega að hafa áhrif á vinnumarkaðinn og hefur nú þegar haft mikil áhrif á margar atvinnugreinar. Þó að þróun tækninnar búi til ný tækifæri þá skapar hún einnig vandamál fyrir bæði fyrirtæki og starfsmenn. Hvernig ríkisstjórnir og fyrirtæki munu takast á við þessar áskoranir mun ákveða framtíðarþróun vinnumarkaðarins. Til að passa upp á að þessi breyting komi sem flestum til hagsbóta þá þurfa fyrirtæki, stjórnvöld og menntastofnanir að vinna saman að því að undirbúa vinnuaflið fyrir þær breytingar sem eru í vændum.
Höfundur: Halldór Smári Karlsson, nemandi við Háskólann í Reykjavík
Heimildir:
Ali, R. A. (2024). How Can AI Replace Humans in the Job Sector? LinkedIn https://www.linkedin.com/pulse/how-can-ai-replace-humans-job-sector-rana-adnan-ali-pxfyf#:~:text=Robots%20equipped%20with%20AI%20algorithms,who%20previously%20performed%20these%20tasks.
Dialzara. (2024). AI in Customer Service: Impact on Jobs 2024. Dialzara Blog. https://dialzara.com/blog/ai-in-customer-service-impact-on-jobs-2024/
Edison & Black. (2024). Over 97 Million Jobs Set to be Created. https://edisonandblack.com/pages/over-97-million-jobs-set-to-be-created-by-ai.html#:~:text=Job%20Creation%20and%20Transformation&text=A%20study%20by%20McKinsey%20Global,50%20million%20new%20jobs%20globally
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.