Skip to main content
20. febrúar 2025

Jöfn tækifæri?

Lára Stefánsdóttir

Stefán Baxter- eða er ég hrossafluga?

Undanfarna kvartöld hefur mér verið tíðrætt um menntunarskort í tengslum við tölvur, Internet og farsíma. Hálf örvæntingarfull á stundum hef ég verið að benda á hversu mikilvægt er að mennta fólk vel á þessu sviði. Menntakerfið er til að jafna stöðu barna og unglinga í landinu og tryggja öllum jafnan aðgang að menntun. Það væru auðvitað töluverðar ýkjur að segja að ekkert hafi gerst en okkur hefur ekki tekist að sjá til þess að menntakerfið veiti börnum og ungmennum jafnan aðgang að því að læra um og á tækni. Ekki enn.

Ég spyr mig hvort mikilvægi menntunar á þessu sviði sé bara ímyndun mín en tekst ekki að sannfæra mig um það. Ég hef upplifað þennan tíma á mismunandi hátt, auðvitað mín eigin upplifun og því í sjálfu sér ekki rétt eða röng fyrir neinn nema mig. Fyrst fannst mér umræðan snúast helst um íslenska tungu, íslensku var ekki hægt að nota. Flestir brugðust við þannig að þá væri ekki hægt að nota tölvur, þær spilltu tungumálinu og gætu orðið til þess að við glötuðum íslenskunni. Örfáir fóru að berjast fyrir því að við gætum notað íslensku en flestir gengu burt. En rökin fyrir að læra ekki á og um tækni fjölluðu um íslensku.

Síðan kom Internetið sem mér þótti óþarfi í upphafi, maður gæti bara hringt. Svo áttaði ég mig hratt á að það var nú ekki þannig, það væri miklu meira þarna. En flestir áttuðu sig jafnhratt á því að þetta væri stórhættulegt fyrirbæri, þarna væri allsbert fólk sem væri með dónaskap og illmenni sem tældu ungmenni. Fyrir marga þá sem menntuðu börn var þá best að halda börnum frá tækninni. Á sama tíma upplifði ég ein stærstu ævintýri ævi minnar með fólki út um allan heim sem var að þróa og skoða. Íslenska menntakerfið fiktaði í tölvum en tók verkfærið ekki inn í menntun.

Tölvur voru dýrar, bara fyrir þá sem betur voru staddir í lífinu, ekki fyrir alla. Menntakerfið tryggði ekki jöfnuð, þannig lærðu sum ungmenni töluvert meira um tæknina og möguleika hennar, af því þau bjuggu á heimilum sem sköpuðu tækifæri, önnur ekki. Eins og með alla menntun breytti þetta kannski engu fyrir þá sem voru með snarpa hugsun og stóðu sterkir í námi og voru fljótir að tileinka sér þegar þeir komust að tækninni. Fyrir hina breytti þetta öllu.

Svo komu litlar tölvur, farsímar, sem miklu fleiri gátu aflað sér, en frekar áttu nemendur að kaupa reiknivélar en nota þá til að reikna, fara á bókasafn fremur en fletta upp. Þannig lærðu ekki allir að nýta verkfærið til menntunar. Samfélagsmiðlar komu þarna einhvern tímann og þá kom upp ekki ólík umræða og með Internetið forðum. Þar var fólk með dónaskap, mannvonsku og síðan eitthvað sem skilgreint var sem innihaldslaust. Á sama tíma virðist sem harka hafi færst í að hindra með öllu móti að nota tækni og banna farsímanotkun í skólum því börnin geti ekki hagað sér eða lært með tækið innan seilingar. Ég, sem í einfeldni minni hélt að farsíminn væri gripur sem yrði tekið fagnandi og nýttur í námi og skólastarfi, komst að því að mikilvægara er að banna þetta „dót“. Jafnvel svo mjög að ný ríkisstjórn tekur sérstaklega fram að það þurfi að skoða það alvarlega hvort banna eigi farsíma í skólum. Mér fallast hendur.  Enn skal Ekki nota tæknina til að tryggja jafnt aðgengi að menntun um og með tækninni.

Já og þá kom gervigreindin. Það var svo sem alltaf vitað að hún myndi koma, okkur vantaði bara stærri geymslur og kraftmeiri örgjörva og góðar reikniformúlur til að ná að fá upplýsingarnar hraðar og skipulegar. Námsmatsaðferðir og kennsluaðferðir virka ekki lengur. Við þurfum að læra allt öðruvísi, við þurfum að skilja hverju gervigreindin skilar okkur. Skilja hættur og tækifæri. Ritgerðin sem allt of lengi hefur verið í hávegum höfð til að sanna þekkingu þess sem ritaði hana er augljóslega enn ólíklegri til að ná markmiði sínu en nokkru sinni fyrr.

Eftir kvartöld af tækniforðun, tækniótta, tja eða tækniskelfingu, erum við eiginlega á sama stað og þegar Internetið kom inn í líf okkar á Íslandi 1991. Samt ekki. Þeir sem hafa haft hæfileika og tækifæri til að mennta sig sjálfir eða haft fjölskyldu sem hjálpar til við það, hafa gert stórkostlega hluti. Stofnað fyrirtæki, búið til hugbúnað, orðið ríkir eða farið á hausinn. Ná betri stöðu á vinnumarkaði og hafa einfaldlega fleiri tækifæri í lífinu en aðrir sem þau hafa nýtt, eða ekki. Eftir standa þeir sem fengu ekki og fá ekki að vera með. Þarna eru foreldrar barna sem nú eru að alast upp og fá ekki heldur tækifæri og finnst besta lausnin að banna farsíma en ekki leiðbeina og vísa veginn.

Ég á eftir stuttan tíma á vinnumarkaði, hámark tvö ár, fer á eftirlaun. Þá er fínt að velta fyrir sér starfsævinni þar sem tölvur hafa verið með mér með einum eða öðrum hætti nánast allan tímann. Ég syrgi mismunun en fagna samstarfi með þeim sem hafa viljað þróa, skoða, velja og hafna tækni í tengslum við menntun. Ég hef verið heppin, fengið fleiri tækifæri en mig óraði fyrir. Síðast en ekki síst með því að taka þátt í að búa til skóla með starfsfólki sem allt hefur lagst á eitt til að nýta tæknina í öllum kennslugreinum og nemendum sem breytast úr þolendum náms í gerendur eigin menntunar og draga okkur öll lengra. Ævintýri sem ég verð alltaf þakklát fyrir.

Eftir stendur að ég upplifi ekki núna, að menntakerfið hafi jafnað möguleika íslenskra barna eða hafi skapað þeim jöfn tækifæri á þessu sviði. Einhver fullyrti við mig að ef hrossaflugur myndu hverfa þá myndi það ekki breyta neinu fyrir vistkerfið. Ekki veit ég neitt um það en kannski er ég hrossafluga og það breytir ekki svo miklu hvað ég er að gera. En mikið óskaplega er búið að vera gaman og ég hlakka til að glíma við gervigreindina.

Höfundur: Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga 

Skoðað: 140 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála