Skip to main content
13. febrúar 2025

Hagnýt gervigreind boðar straumhvörf í atvinnulífinu

Stefán Baxter

Stefán BaxterÞað er ekkert minna en magnað að hafa árið 2024 fengið að upplifa fjögur meiriháttar straumhvörf sem öll hafa verið knúin áfram af tölvum og tækni. Ég er efins um að fyrri kynslóðir hafi fengið að upplifa svo afgerandi breytingar jafn oft á sinni starfsævi.

Það heldur áfram að vera mikilvægt að mæta nýjum veruleika með jákvæðum, upplýstum og yfirveguðum hætti, en það getur vissulega reynst erfitt þegar okkur í bransanum líður örugglega mörgum eins og að hurðir nýrra og gríðarlega spennandi tækifæra opnist með æ styttra millibili.

Fjögur meiriháttar straumhvörf
Fyrst mæta einkatölvurnar á svæðið og við sem vorum ung þá erum skiljanlega að mestu sjálfmenntuð í notkun þeirra, sökum takmarkaðrar tölvukennslu á okkar fyrstu skólaárum. Þetta voru spennandi tímar, allt tók að breytast.

Nokkrum árum seinna mæta internetið og vefurinn til leiks með tilheyrandi kúvendingum. Eftir áratug af tengdum ævintýrum, mistökum og sigrum þá grunaði mig ekki að enn stærri breytingar biðu „rétt handan við hornið“.

Við vorum nefnilega ekki fyrr búin að ná tökum á skalanlegum veflausnum þegar samfélagsmiðlarnir komu til sögunnar, breyttu samskiptamynstri og viðskiptatækifærum og valdefldu fólk og hópa, bæði til góðs og ills. Sem samfélag eigum við enn eftir ná tökum á þeim breytingum, en samt er komið að næstu stóru þáttaskilum.

Og nú eru fjórðu straumhvörfin að hefjast með tilkomu hagnýtrar gervigreindar sem hefur loks tekið út nægilegan þroska til að bjóða upp á meiriháttar áskoranir og sóknarfæri.

Stærri en rafmagnið
Upp á síðkastið hef ég tekið undir orð Barack Obama um að gervigreindin verði bylting á pari við uppfinningu rafmagns og þá stærri en Internetið. Obama er líklega ekki með hausinn djúpt í tækninni, en ég trúi því að hvati hans til að ýkja sé lítill og að hann hafi aðgang að upplýsingum sem eru flestu fólki óaðgengilegar.

Ég hef starfað á gatnamótum upplýsingatækni og viðskipta undanfarin 40 ár. Viðfangsefni mín hafa ekki breyst í grunninn, en þau hafa alla tíð miðað að því að skila rekstrarlegum ávinningi með hagnýtingu gagna og nútímatækni.

Frá því sjónarhorni hefur þó nánast allt breyst, en þær breytingar munu líklegast blikna í samanburði við það sem nú bíður okkar.

Þrír sprettir frumkvöðuls
Við aðlögun og innleiðingu gervigreindar hér mun það skipta sköpum að stuðningskerfi og umhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja á Íslandi er til mikillar fyrirmyndar. Sú var alls ekki raunin framan af mínum ferli sem frumkvöðull.

Í meginatriðum hef ég tekið þrjá spretti sem slíkur. Í hverjum þeirra hefur bakland nýsköpunar reynst öflugra en í þeim fyrri.

Sá fyrsti snerist um gerð margvíslegs viðskiptahugbúnaðar en hann stóð frá 1986 til 1996. Á þessum tíma var nánast ógerlegt að finna stuðning hér jafnvel þótt maður hugðist fara með sigurvöru á Bandaríkjamarkað.

Eftir þetta sneri ég mér að gerð veflausna og því að ferja fyrirtæki - eitt og eitt - yfir „Internet-gjána“. Á þessum árum stofnaði ég Gæðamiðlun og Hugsmiðjuna, sem ég stýrði til 2007 en þá fékk ég mér „alvöru vinnu“ í nokkur ár.

Þriðji spretturinn hefst svo árið 2013 þegar mér varð ljóst að gervigreind

- í einhverju formi - myndi brátt nýtast til að bæta daglegan rekstur. Eftir misheppnaða fyrstu tilraun verða Snjallgögn til árið 2018, en þá er orðið einsýnt að gervigreindin myndi mæta af fullum krafti inn í daglegan rekstur og líklega valda meiriháttar straumhvörfum.

Stebbi og sælgætisverksmiðjan
Ef ég ætti að tína til nokkra hluti sem eru ólíkir hjá Snjallgögnum og fyrri sprotafyrirtækjum sem ég hef komið á laggirnar, þá er stærsti munurinn fólginn í því að í staðinn fyrir að selja ráðgjöf og þjónustu erum við að þróa og smíða vörur og pakkalausnir, sem eru skalanleg fyrirbæri en ekki stök sérverkefni.

Ég er í alvöru talað svo spenntur fyrir þróun hagnýtrar gervigreindar, að ég er stundum andvaka á nóttunni yfir því. Á morgnana á leið til vinnu líður mér oftar en ekki eins og litlum strák á leiðinni í sælgætisverksmiðju, smávegis óðamála og uppfullur af æskuþrótti og orkumikilli spennu. Það eru heldur betur forréttindi fyrir mann sem fær ókeypis í sund og strætó eftir áratug!

Hagnýt gervigreind
Að mínu áliti þróa áhugaverðustu hugbúnaðarhúsin í gervigreind öll lausnir sem gera vinnustöðum mögulegt að hagnýta gervigreind og gagnavísindi til að efla sölu og þjónustu ásamt því að bæta daglegan rekstur. Þar koma snjallmenni með háþróaðan málskilning og talfærni sterkt inn, enda með ótrúlega hæfileika til að tala við önnur tölvu- og tæknikerfi, bæði þau sem eldri eru og þau sem eru nýrri af nálinni.

Viðskiptavinir hugbúnaðarhúsa sem einbeita sér að hagnýtri gervigreind eru til dæmis stórfyrirtæki í ferðaþjónustu, smásölu, fjarskiptum og opinberri þjónustu. Mjög ólíkir vinnustaðir innbyrðis og verkefnin þar eru sömuleiðis afskaplega mismunandi, en þó öll með gervigreind og gagnavísindi sem rauðan þráð.

Það skiptir einnig miklu máli í þessu samhengi að þessir fyrstu (engla) viðskiptavinir eru oftar en ekki virkir þátttakendur í þróunarstarfinu.

Ferjumaður eða brúarsmiður
Hugbúnaðarsmíðin okkar á sviði gervigreindar er ólík sérverkefnagerð hjá vefstofu að því leytinu til að nú smíðum við lausnir til að magnflytja fyrirtæki og stofnanir yfir næstu gjá með sjálfvirkari hætti. Það skalast betur og er vænlegra til árangurs erlendis.

Ég tala um gjá, því ég hef staðfasta trú á því að það verði lífspursmál fyrir marga vinnustaði að innleiða hagnýta gervigreind og að það gæti orðið munurinn á feigum og ófeigum – eða einfaldlega vondum eða góðum rekstri. Það er ástæða til að hrósa þeim vinnustöðum í atvinnulífinu sem hafa kveikt á þeirri peru, hvort heldur það eru aðrir þróunaraðilar eða notendur tækninnar.

Góð arðsemi
Arðsemi fjárfestinga atvinnulífsins í gervigreind verður undantekningarlítið mikil. Sífellt fleiri hafa kveikt á þeirri mikilvægu peru, stokkið á vagninn og byrjað að gera tilraunir. Þannig hefur hagnýt gervigreind til að mynda verið notuð til að þróa hárnákvæm spálíkön og finna hentugar leiðir til að auka sölu, styrkja þjónustu, draga úr kostnaði, minnka sóun og bæta daglegan rekstur og ákvarðanatöku um innkaup og birgðastjórn.

Mörg af stærri verkefnum íslenskra hugbúnaðarhúsa á sviði gervigreindar reiða sig á máltækni eins og hún lýtur að íslensku. Á því sviði verður sérstaklega að hrósa máltæknifyrirtækinu Miðeind, sem hefur unnið mikilvægt starf fyrir íslenskuna.

Traustir gagnainnviðir
Að endingu er rétt að benda á einn hlut, sem fyrirtæki geta undirbúið áður en farsæl hagnýting gervigreindar byrjar, en það er að byggja upp trausta gagnainnviði. Farsæl hagnýt gervigreindar er knúin góðum gögnum. Í nýlegri könnun Gartner kom í ljós að aðeins 4% upplýsingastjóra í Bandaríkjunum telja sig gagnalega tilbúna fyrir þessa vegferð. Ég vona að staðan sé ekki verri hér.

Höfundur: Stefán Baxter, stofnandi og framkvæmdastjóri Snjallgagna

Skoðað: 79 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála