![](/templates/yootheme/cache/48/tolvumal_logo_transparent-48de29bf.png)
Hugbúnaðarlausnir í forgrunni Startup SuperNova 2024
Tíu sprotar fá tækifæri til þess að þróa hugmyndir sínar áfram í Startup SuperNova viðskiptahraðlinum árið 2024. Þátttaka í þessum sex vikna hraðli miðar að því að hraða framgangi sprotafyrirtækja og gera þau að álitlegum fjárfestingarkosti. Þátttakendur fá fræðslu og þjálfun við þróun viðskiptahugmynda og aðgang að hópi leiðandi sérfræðinga, þar á meðal reyndum frumkvöðlum og fjárfestum auk framkomuþjálfara og mentora.
Startup SuperNova hefur síðustu fjögur ár verið vettvangur fyrir sköpun og vöxt og er þetta í fimmta sinn sem hraðallinn er keyrður. Frá upphafi hefur áhugi á hraðlinum verið mikill en alls hafa 50 teymi skipuð um 150 frábærum frumkvöðlum tekið þátt og ríflega 320 í viðbót hafa tekið þátt í svokölluðum Superclass. Þar er um að ræða opinn tveggja til þriggja daga viðburð þar sem þátttakendur fá þjálfun og leiðsögn við að útbúa 18 mánaða aðgerðaráætlun fyrir verkefnin sín. Superclass viðburðurinn hefur verið haldinn síðastliðin þrjú ár sem undanfari Startup Supernova. Þessi gríðarlegi áhugi sýnir vel hve mikil gróska er í sprotasamfélaginu á Íslandi og tækifæri til áframhaldandi þróunar og uppskölunar eru víða.
Setja markið hátt frá upphafi
Alla jafna eru það tækni- og hugbúnaðarlausnir sem komast að í Startup SuperNova einkum vegna þess að leitast er við að byggja upp og betrumbæta viðskiptalausnir sem ætlaðar eru alþjóðamarkaði. Smæð íslenska markaðarins gerir það að verkum að sprotafyrirtæki sem ætla að tryggja sér fjárfestingu frá vísisjóðum þurfa að stefna á alþjóðamarkað frá upphafi. Það er þó að mörgu að huga í undirbúningi þeirrar vinnu og ráðgjöf frá mentorum og öðrum reynsluboltum getur því verið dýrmæt.
Lausnir þvert á atvinnugreinar
Sprotafyrirtækin sem valin voru til þátttöku í hraðlinum í ár vinna öll með einum eða öðrum hætti að hugbúnaðarlausnum. Þátttakendurnir voru valdir úr sterkum hópi umsækjenda og koma úr afar fjölbreyttum greinum íslensks atvinnulífs en fjölbreytileiki teyma hefur verið einn helsti styrkleiki hraðalsins undanfarin ár. Byltingarkenndar lausnir í heilbrigðisgeiranum, afþreyingariðnaði og jarðfræði, auk umbóta í verkefna-, gagna- og skjala- stýringu til dæmis með aðstoð gervigreindar eru dæmi um flóruna í ár.
Ásta Sóllilja, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups, leggur áherslu á mikilvægi þessarar tækniáherslu: „Með því að leggja áherslu á tæknilausnir í Startup SuperNova erum við ekki aðeins að styðja við viðskiptavöxt heldur einnig að stuðla að stafrænum umbreytingum í íslensku atvinnulífi. Við viljum gefa frumkvöðlum þvert á atvinnugreinar tækifæri og umhverfi til þess að vaxa á þann hátt að þau verði áhugaverð fyrir alþjóðlega fjárfesta og fjárfestingarsjóði. Það er lykilatriði að íslenskir frumkvöðlar hugi að því hvernig þeir geti skalað upp viðskiptahugmyndir sínar til að vekja athygli áhættufjárfesta“ (munnleg heimild, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir).
Meðan Ísland heldur áfram að festa sig í sessi sem nýsköpunarmiðstöð, endurspeglar áherslan á tæknidrifin sprotafyrirtæki í Startup SuperNova bæði núverandi strauma í frumkvöðlasamfélaginu og stefnu í viðskiptalífi á alþjóðavísu á komandi árum.
„Möguleikarnir hér eru gífurlegir og við hlökkum til á hverju ári að hlúa að nýsköpun og tæknilegum framförum með þessum hraðli” segir Ásta Sóllilja.
Sterkt stuðningsumhverfi nýsköpunar
Verkefnið Startup SuperNova var stofnað árið 2020 og er samstarfsverkefni KLAK - Icelandic Startups, Nova og Huawei með stuðningi frá Grósku hugmyndahúsi. KLAK hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Félagið aðstoðar sprotafyrirtæki við að vaxa innanlands og út fyrir landsteinana með því að hraða þróun þeirra og tengja þau við sérfræðinga, fjárfesta og aðra lykilaðila. KLAK hefur skipað sér sess sem lykilaðili í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi og leggur sig fram við að vera leiðandi afl í grasrót frumkvöðla samfélagsins.
Höfundur Ísey Dísa Hávarsdóttir, verkefnastjóri hjá KLAK - Icelandic Startups
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.