Skip to main content
30. janúar 2025

Nýsköpunargáttin sem auðveldar frumkvöðlum lífið

Ólafur Örn Guðmundsson

Ólafur Örn GuðmundssonUpplýsingatækni og nýsköpun hafa á síðustu árum orðið að tveimur af mikilvægustu þáttum í þróun atvinnulífs á Íslandi. Þessi þróun hefur leitt til mikilla framfara í bæði hefðbundnum atvinnugreinum og á nýjum sviðum. Hugverkaiðnaður á Íslandi er orðin fjórða stærsta atvinnugreinin með tilliti til útflutnings og fer sífellt stækkandi. Með hliðsjón af þessari þróun er ljóst að nýsköpun í upplýsingatækni og hugverki er lykilatriði til að tryggja áframhaldandi vöxt og velmegun í íslensku samfélagi. Því er nauðsynlegt að til staðar sé öflugt stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun. Eitt af því sem hefur reynst áskorun fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki, sér í lagi á fyrstu stigum, er að finna upplýsingar um þann stuðning sem stendur til boða.

Skapa.is er nýsköpunargátt fyrir Ísland sem undirritaður stofnaði með það að markmiði að auðvelda frumkvöðlum að nálgast upplýsingar um nauðsynlegan stuðning og fræðslu. Vefsíðan, sem er samfélagsdrifin, er opin öllum og gjaldfrjáls og hefur það hlutverk að styðja við nýsköpunar- samfélagið með því að miðla hagnýtum upplýsingum til frumkvöðla. Þannig er nýsköpunargáttinni ætlað að vera eitt af grunninnviðum í stuðningi við frumkvöðla hér á landi.

Frá hugmynd að veruleika
Hugmyndin að Skapa.is kviknaði í gegnum mína eigin nýsköpunarvegferð. Þar fann ég á eigin skinni, bæði við stofnun samanburðarvefsíðunnar Aurbjörg.is og indó sparisjóðs, þörfina fyrir að hafa á einum stað allar upplýsingar aðgengilegar sem snúa að stuðningi við nýsköpun. Ég bjó til minn eigin lista yfir styrki, viðskiptahraðla, fjárfestingasjóði og annað sem gæti komið að notum, sem ég svo deildi áfram með öðrum. Með tímanum varð ljóst að fleiri voru að halda utan um sína eigin lista, hver í sínu horni og úr varð sú hugmynd að kortleggja nýsköpunarumhverfið og þann stuðning sem er í boði og setja saman á einn miðlægan stað á vefsíðunni Skapa.is.

Að rata í gegnum frumkvöðlafrumskóginn
Skapa.is er nýsköpunargátt, upplýsingaveita og fræðsluvefur fyrir frumkvöðla og aðra aðila sem eru að stíga sín fyrstu skref í nýsköpunar- umhverfinu. Þar má nálgast upplýsingar um nýsköpunar- og viðskipta- hraðla, styrki, klasa, fjárfestingasjóði, englafjárfestingar og margt fleira. Vefsíðan er í stöðugri þróun, þar sem notendur geta sent inn ábendingar um stuðningsaðila, viðburði og annað sem má bæta við á síðuna. Þetta gerir Skapa.is að lifandi vettvangi sem breytist í takt við breyttar þarfir frumkvöðla.

Það hefur komið skemmtilega á óvart hversu vel vefsíðunni hefur verið tekið, en strax eftir að hún fór í loftið fékk hún góð viðbrögð og fjölda heimsókna. Stuðningsaðilar í frumkvöðlasenunni hafa verið duglegir að benda frumkvöðlum á síðuna, og þannig sparað þeim tíma og aukið möguleika á stuðningi við hugmyndir þeirra.

Samfélagsdrifið verkefni
Mikilvægur hluti af árangri Skapa.is er sú samfélagsdrifna nálgun sem liggur að baki. Frumkvöðlasenan á Íslandi einkennist af hjálpsemi, og það hefur endurspeglast í þessu verkefni. Notendur hafa ekki aðeins nýtt sér upplýsingarnar heldur einnig bent öðrum frumkvöðlum á hana. Fjöldi ábendinga hefur einnig borist frá notendum sem vilja bæta síðuna með nýjum upplýsingum eða verkfærum sem er lykilatriði í þróun og vexti nýsköpunargáttarinnar.

Ný og endurbætt útgáfa
Nýverið var Skapa.is endurbætt með stuðningi frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og hefur þannig fengið nýtt og stærra hlutverk sem er ætlað að fylla upp í skarðið sem varð til þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands var lögð niður árið 2021. Endurbæturnar innihalda meðal annars styrkjadagatal, viðburðadagatal og upplýsingar um opinberar stofnanir sem leita til nýsköpunarfyrirtækja til að leysa áskoranir samfélagsins. Þar að auki hefur stuðningsumhverfið á landsbyggðinni verið kortlagt ásamt því að notendum er bent á leiðir til að sækja ráðgjöf, endurgjöf og aðgengi að mentorum fyrir nýsköpunarverkefni.

Fræðsluhlutverk síðunnar hefur einnig verið eflt, þar sem nú er hægt að finna gagnlegar upplýsingar um fyrstu skref í nýsköpun, mismunandi fjármögnunarleiðir og aðra mikilvæga þætti sem frumkvöðlar og sprotafyrirtæki þurfa að hafa í huga til að ná árangri.

Fram undan
Nýsköpunargáttin er í stöðugri þróun og framtíðar möguleikarnir eru fjölmargir. Skapa.is er aðgengilegur og hagnýtur vettvangur fyrir alla frumkvöðla til að auðvelda þeim að nálgast upplýsingar, draga úr tímafrekri leit og hjálpa þeim að sigla í gegnum frumkvöðlafrumskóginn.

Höfundur Ólafur Örn Guðmundsson, stofnandi Skapa.is og Aurbjargar og í stofnendahópi indó sparisjóðs

Skoðað: 61 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála