Skip to main content
16. janúar 2025

Nýsköpun er ekki bara fyrir frumkvöðla!

Helgi Guðmundsson

Helgi GuðmundssonNýsköpun (e. innovation) hefur öðlast ákveðna merkingu hér á Íslandi og orðið að samheiti yfir að vera skapandi, þ.e. að skapa eitthvað alveg nýtt.

Frumkvöðlaumhverfið hefur einnig sérstaklega tileinkað sér hugtakið og því til hróss gert ótrúlega góða hluti í gegnum nýsköpunarsjóði og samkeppnir, hraðla og nýsköpunarvikur með meiru. Þar er þó oftast áhersla á að þessa þrengri merkingu þess að skapa eða „nýskapa“ ferskar og nýjar lausnir, gjarna tæknilausnir, sem hægt er að stofna fyrirtæki í kringum, sækja fjárfestingar og skala upp.

Fyrir vikið þá hugsum við sjaldan um gróin fyrirtæki sem nýskapandi, né heldur þriðja geirann í formi ýmissa félagasamtaka, svo ekki sé talað um hið opinbera og nýsköpun í ýmiskonar stjórnsýslu. Enn þá verra, þá hugsar fólkið sem þarna starfar og leggur sitt af mörkum sjaldan um sig og sitt hlutverk sem nýskapandi.

Þetta er synd. Þarna missum við af miklum tækifærum til að vera nýskapandi.

Í þessari grein langar mig að leggja upp þrjár leiðir sem við öll getum nýtt til að verða betri ásamt því að tækla algenga hindrun fyrir betri nýsköpun sem við erum einnig mjög gjörn á að skauta fram hjá og/eða bæla niður.

Að gera greinarmun á því að skapa og að vera nýskapandi
Út frá frumkvöðlasamhengi þá hugsum við oftast um að skapa eitthvað nýtt, eitthvað sem helst hefur ekki sést áður. Það er hins vegar í raun þrengri skilgreining þess að vera skapandi.

Erlendis eru skilgreiningar þess að vera nýskapandi (e. innovative) víðtækari. Vissulega er það að færa fram eitthvað nýtt en stór hluti nýsköpunar felst í að þróa nýjar útfærslur á því sem þegar er til.

Sem birtingarmynd þá var á 8. áratugnum feykivinsæl sjónvarpssería þar sem nafn aðalsöguhetjunnar rataði inn í enskar orðabækur sem samnefnari fyrir nýsköpun. Þetta var MacGyver, og í orðabókum vitnar það að „to macgyver something“ til þess að búa til einhverja nýja lausn úr allskonar hlutum í umhverfinu sem flestir voru ætlaðir í eitthvað allt annað. Einkenni þessarar söguhetju var það sem hann framkvæmdi í hverjum þætti til að leysa þrautir og losna úr vandræðum.

Að skilja eðli hluta - hvert er vandamálið?
Fyrst þurfum við að nefna það sem hindrar okkur líklega hvað mest í að nýskapa: Samband okkar við vandamál.

Við viljum helst ekki hugsa of mikið um vandamál. Fólk á vinnustöðum sem vill ekki hætta að tala um vandamál er oft séð sem neikvætt, óþægilegt og oftar en ekki jaðarsett eða fjarlægt. Við verðum jú öll að vera lausnamiðuð. „Hugsum í lausnum“ er sígildi slagarinn.

Talið hins vegar við þá allra bestu á heimsvísu í nýsköpun og nútíma vöruþróun og þið finnið samhljóða grundvallarsjónarmið hjá þeim öllum: Að lykillinn að árangursríkri vöruþróun og nýsköpun sé að elska og skilja vandamálið. Að forðast eins og hægt er að falla algerlega fyrir einni tiltekinni lausn.

„Kill your darlings“ er oft talað um í samhengi sprotafyrirtækja sem frumkvöðlar eiga einstaklega erfitt með.

„Ideation“ er annað hugtak. Ferlið að sannreyna hvort við séum að þróa lausn við raunverulegu vandamáli, eða lausn í leit eftir vandamáli.

Í nútíma vöruþróun tölum við um uppgötvun (e. discovery) þar sem við rannsökum hluti fyrir fram áður en við veðjum aleigunni á að þróa. Við viljum læra hratt og lágmarka áhættu.

Sannleikurinn er að fæstar lausnir er í raun nýjar undir sólinni. Það eina sem er býsna stabílt eru vandamálin og þarfirnar. Lausnir hins vegar þróast stöðugt. Það sem er inn í dag er út á morgun.

“The first truth is that at least half of our ideas are just not going to work. There are many reasons for an idea to not work out. The most common is that customers just aren't as excited about this idea as we are.”
― Marty Cagan: Inspired - How to Create Tech Products Customers Lovea

Spotify hefur síðustu 12-15 árin verið í sviðsljósi sem eitt besta dæmið á heimsvísu um nýsköpunarfyrirtæki og hefur vissulega staðið undir því orðspori. En hvaða vandamál og hvaða þörf er Spotify að tækla og þjóna?

Að njóta tónlistar og hljóðefnis hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Lengi framan af þýddi það að mæta á uppákomur þar sem tónlistar- og sagnafólk kom fram. Á 18. öld var loks fundin upp leið til að taka upp hljóð og hlusta á heima í stofu. Grammófónn var hins vegar ekkert sérstaklega meðfærileg tækni og fátt um úrval. Næst komu þá vínylplötur, síðar kasettur, geisladiskar og stafræn form, ásamt tækni og tækjum sem spiluðu þessi form. 
Nýjasta birtingarmyndin er aðgengi gegnum streymi í snjalltækjunum okkar þar sem Spotify ásamt YouTube og fleiri streymisveitum hafa náð hvað bestum árangri.

Sama stabíla grunnþörfin en samspil tækni og lausna í stöðugri þróun.

Nálganir á fjölbreyttari nýsköpun:
Að taka eitthvað sem finnst þegar og gera það betra. 
Er Apple skapandi fyrirtæki? Það er debatt. Þeir voru ekki fyrstir með neina þá tækni sem þeir eru markaðsráðandi með. Voru ekki fyrstir með einkatölvur, fundu ekki upp grafíska viðmótið, né heldur mp3 tækni og spilara, spjaldtölvur, síma, VR gleraugu, heyrnartól, og áfram mætti telja.

Er Apple hins vegar nýskapandi fyrirtæki? 100% já. Öll þessi tækni var dyntótt og oft pirrandi að nota þar til Apple gerði hana frábærlega notendavæna og vel hannaða.

Að taka eitthvað sem varð til í einum tilgangi og endurnýta í annan.
Svokölluð „Exaptive“ nýsköpun. Örbylgjuofnar voru uppgötvaðir af slysni út frá röntgentækni þegar fólk sem vann í námunda við röntgenvélar á þriðja áratug 19. aldar tók eftir því að súkkulaði í vasanum bráðnaði alltaf þegar vélarnar voru í gangi.

Nintendo lagði á 8. áratugnum grunninn að leikjatölvuiðnaðinum og urðu markaðsráðandi á heimsvísu um skeið. En þau voru nýskapandi á dálítið sérkennilegan hátt. Þeirra aðal nýsköpunar strategía var að nota aldrei nýjustu tækni, heldur frekar 2-3 ára tækni sem oft var þróuð annars staðar, búið var að slípa vankanta af og orðin ódýr. Gráskala skjái í stað litaskjáa sem dæmi.

Þetta gerði þeim kleift að þróa ódýr og endingargóðar spilatölvur og slógu út samkeppni af því bæði foreldrar og börn elskuðu t.d. hand- leikjatölvurnar (GameBoy) í ferðalögin. Tæki sem entust heilu bílferðirnar á sömu hleðslunni og endalaust hnjask, á meðan tæki keppinauta sem notuðu nýjustu tækni og litaskjái entust stutt. Vinsældir Nintendo lokkaði að fjölda leikjahönnuða sem bjuggu til aragrúa leikja fyrir Nintendo, sem gerði tækin enn vinsælli, á meðan aðrir börðust í bökkum.

Að læra af öðrum geirum sem eru að tækla vandamál sem eru í eðli sínu lík.
Elgato er í dag markaðsráðandi fyrirtæki í alhliða upptökutækni sem gerir fólki kleift að setja upp lítil stúdíó til að taka upp og klippa til myndbönd ætluð birtingar á streymisveitum eins og YouTube, Twitch, og sambæri- legum aðilum. Fram til c.a. 2017 réru þau hins vegar lífróður við að reyna að þjónusta og selja til stærri kvikmynda og upptökuvera.

Klókir aðilar veittu því athygli að í leikjaheimum var ný bylgja af spilurum að byrja að taka upp á vídeó og streyma spilamennsku gegnum þjónustur eins og YouTube og Twitch. Góð ráð voru hins vegar dýr þegar kom að því að setja upp lítil heimastúdíó því allur búnaður var mjög dýr.
Bingó. Þarna var nýr markaður sem sýndi sig vera margfalt stærri. Með því að ná til þessara notenda, vinna náið með þeim, skilja í kjölinn þeirra áskoranir, aðstæður og vandamál og með því að þróa klókar og notendavænar lausnir sem sprengdu ekki budduna þá eru þeir í dag margfalt stærri og markaðsráðandi afl í nýjum geira.

Slack byrjaði ekki sem sú þekkta samskiptalausn fyrir fyrirtæki sem hún er í dag - heldur sem spjallkerfi inn í fjölspilunarleik sem líktist Minecraft. Leikurinn floppaði og allt stefndi í þrot. Áður en endanlega var gefist upp kom þó til tals að þrátt fyrir allt voru spilararnir hæstánægðir með eitt í leiknum - spjall fídusinn. Á sama tíma hjá allt öðrum markhópi, stærri fjölþjóða fyrirtækjum með margar starfsstöðvar, var vaxandi þörf eftir betri leiðum fyrir starfsfólk sem vann á ólíkum starfsstöðvum, oft öðrum tímabeltum, að eiga góð samskipti sín á milli.

Aha augnablikið kom og undanfari Slack framkvæmdi pivot með því að einangra spjallkerfið og þróa áfram að þörfum þessa nýja markhóps. Aftur markaðsráðandi aðili í allt öðrum geira.

Nýsköpun er ekki bara fyrir frumkvöðla eða mjög „skapandi“ fólk
Opinber sem einkafyrirtæki, félagasamtök og teymi geta auðveldlega verið mun meira nýskapandi en þau trúa að sé hægt. Með því að…

Elska vandamálin og skilja þau í kjölinn frekar en forðast eða skauta fram hjá þeim. 
Tileinka sér lipurð í þróun og ítra fram lausnir frekar en falla fyrir einni tiltekinni lausn.
Nálgast nýsköpun ekki bara út frá því að finna upp eitthvað nýtt, heldur nýjar og ferskar útfærslur á því sem þegar er til.

...þá er hægt að virkja margfalt fleiri sem í dag telja sig ekki endilega skapandi eða frumkvöðla til allskonar spennandi nýsköpunar.

Höfundur: Helgi Guðmundsson, Organizational Coach og Vöruþjálfi hjá Orgz

Skoðað: 16 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála