Skip to main content
18. janúar 2024

Fetum okkur inn á spennandi slóðir

Lilja Dögg AlfreðsdóttirViðtal við Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og ferðamálaráðherra, um höfundaréttarmál og reglugerðir í tengslum við gervigreind.

Þú hefur talað um að gervigreind sé brýnasta samfélagsmálefnið sem við stöndum frammi fyrir. Hvað telurðu að sé mikilvægast að tækla? 
Það er engum blöðum um það að frétta að þróun gervigreindarinnar er orðin ör og mun fela í sér ýmiskonar breytingar fyrir samfélög heimsins. Ég tel mikilvægt að ríki heims komi sér saman um umgjörð um gervigreindina en það eru ýmis álitamál sem tengjast þessari tæknibyltingu. Umgjörð og þróun gervigreindarinnar þarf að taka mið af þeim gildum sem mörg ríki heims leggja rækt við, til að mynda lýðræðisleg. Á þessu ári hafa þessi málefni verið talsvert til umræðu i alþjóðastjórnmálunum, til dæmis á vettvangi G7 ríkjanna, helstu iðnríkja heims.

Menntakerfið okkar þarf að vera einkar öflugt til að mæta þessari áskorun og aldrei fyrr hefur reynt eins mikið á lesskilning og ályktunarhæfni ungs fólks. Aukin áhersla á þessa þætti náms mun vera lykilatriði í því hvernig gervigreindin er nýtt. Í menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem ég kynnti í tíð minni sem menntamálaráðherra er meðal annars lögð áhersla á efla tækninám með það að leiðarljósi að færni þróist í takt við þarfir samfélagsins og áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar ásamt því allir geti beitt rökvísi, ígrundun og hafi hugrekki til að skapa. 

Hver telurðu að séu helstu áhrifin sem gervigreind mun hafa á menningarmál, t.d. er varðar íslenska tungu? 
Segja má að eitt framsæknasta skref sem stjórnvöld hafa stigið í seinni tíð hafi verið að fjárfesta í mikilvægum innviðum á sviðum máltækni í gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda og undirbyggja þannig að íslenskan gæti orðið gjaldgeng í heimi tækninnar. Þannig var Ísland virkur gerandi í því að þróa tækni til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki hér á landi sem og erlendis og leggja sitt af mörkum til þess að auka notagildi gervigreindar á okkar eigin forsendum. Okkur hefur gengið nokkuð vel á þessari vegferð, má þar til dæmis nefna þá staðreynd að bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI, sem rekur ChatGPT, nýtti þær máltæknilausnir að fjárfest hefur verið í til þess að bjóða upp á íslensku í þróun á fjórðu útgáfu forritsins.

Gervigreindarforrit geta í dag getur skrifað efni fyrir fólk, útbúið myndefni og listaverk, hannað útlit og jafn skrifað skáldtexta. Telurðu að þessir hlutir muni hafa skaðleg eða jákvæði áhrif í samfélaginu? T.d. er varðar höfundarréttarmál? 
Umræða um samspil gervigreindar við menningu er á fleygiferð um þessar mundir, til að mynda á sviði höfundarréttar. Er það eðlilegt og jákvætt skref að til að mynda heilu handritin af sjóvarpseríum séu einungis rituð af gervigreindarforritum? Í nýliðnu verkfalli leikara og handritshöfunda í Bandaríkjunum var þetta atriði meðal annars undir þar sem samkomulag náðist um takmarkanir á notkun gervigreindar við handritsskrif.

Gervigreindar-líkön sem hægt er að nota til að búa til texta, myndir og tónlist snerta hagsmuni höfunda og listflytjenda á ýmsan hátt. Slík líkön geta framleitt verk sem hingað til hafa eingöngu getað verið afrakstur mannlegrar sköpunar og þannig geta not slíkra líkana verið í samkeppni við sköpun höfunda og listflytjenda. Þá eru líkönin oftast þróuð og þjálfuð með efni (texta, tónlist, myndlist, ljósmyndir) sem að stórum hluta nýtur höfundaverndar án þess að sótt sé um leyfi rétthafa fyrir slíkum notum. Jafnframt geta verk sem verða til við not slíkra gervigreindarlíkana í sumum tilfellum talist brot á höfundarétti vegna líkinda, t.d. verk sem eru framleidd í „stíl“ þekktra höfunda eða gervigreindar tónlist sem er flutt með rödd þekktra tónlistarmanna.

Það eru ýmsar höfundaréttarlegar spurningar sem þarf að svara og hvergi í heiminum liggur ljóst fyrir hver svörin eru eða eiga að vera: 

  • Telst þróun og þjálfun gervigreindarlíkana með stórum málheildum sem innihalda höfundavarið efni, not sem varin eru að höfundarétti?
  • Getur efni sem framleitt eru með aðstoð gervigreindar talist brot á höfundarétti?
  • Getur efni sem framleitt er af gervigreindarlíkönum notið höfundaverndar og ef svo er hver sé rétthafi slíkrar verndar?
  • Ef talið er að not höfundaréttarefnis í málheildum sem notaðar eru við þróun þjálfun gervigreindarlíkana varði eða eiga að varða við höfundarétt hvernig hægt sé að tryggja annars vegar hag höfundaréttarhafa og hins vegar áframhaldandi þróun gervigreindar?

Menn skiptast í andstæðar fylkingar í þessum efnum. Flestir höfundar og listamenn telja að hagur þeirra sé best tryggður með höfundalögum, þ.e. að í höfundalögum verði skýrt kveðið á um að til að nota efni til að þjálfa og þróa gervigreindarlíkön þurfi að tryggja leyfi rétthafa og greitt skuli fyrir not á höfundavörðum verkum í málheildum og verk sem framleidd eru með gervigreind sem eru lík verkum sem fyrir eru séu auðvitað skýr höfundaréttarbrot. Þannig sé hægt að tryggja að höfundar og listflytjendur geti áfram haft lífsviðurværi af sköpun sinni.

Þau sem vinna innan gervigreindariðnaðarins telja mörg hver að not málheilda til að þjálfa og þróa gervigreindarlíkön séu not sem falla utan höfundaverndar og eigi að vera það til að tryggja framþróun gervigreindar til hagsbóta fyrir mannkynið þar sem að leyfisveitingar og endurgjald fyrir slík not myndu gera slíka þróun óframkvæmanlega. 

Ég tel að það séu ótvíræð tækifæri fólgin í notkun gervigreindar sem hjálpartækis á sviði menningarmála. Gervigreind getur hins vegar aldrei komið í staðinn fyrir þann mennska sköpunarkraft sem hefur fylgt samfélögum í árþúsundir. 

Sérðu fyrir þér breytingu á almennum viðskiptamálum, t.d. ferðaþjónustu, neytenda- og samkeppnismálum, útflutningi, ríkisaðstoð o.s.frv. Mun áhrifa gervigreindar gæta á þessum sviðum? 
Gervigreindartækni mun á komandi árum hafa mikil áhrif á atvinnu- og viðskiptalíf sem og hið opinbera. Það er óhjákvæmilegt að ýmis störf eða verkþætti starfa megi sjálfvirknivæða með gervigreind. Tæknibreytingar kalla á endurmat á sýn okkar á atvinnu og atvinnuöryggi, starfskjör og í raun flest allt sem tengist vinnumarkaðinum.

Hefur eitthvað verið í umræðunni um að setja lög og reglugerðir um þróun gervigreindar? 
Það skiptir höfuðmáli að mannfólkið stjórni tækninni en ekki öfugt. Eitt af stóru atriðunum er að gervigreindin sé nýtt til góðs en ekki til illvirkja. Þetta er sú umræða sem að ríki heims standa meðal annars í, og þar eru vissulega lög og reglugerðir undir til sem ákveðin verkfæri til þess að setja ramma um gervigreind. Það eru þó mismunandi skólar í þeim fræðum. Þannig hafa til að mynda Evrópusambandið og Bandaríkin nálgast efnið á mismunandi hátt. Í Bandaríkjunum, sem hefur verið nokkuð frjálslynt í afstöðu sinni til nota stórra málheilda við þróun og þjálfun gervigreindarlíkana, eru í gangi mörg dómsmál þar sem rétthafa höfundaréttar lögsækja framleiðendur gervigreindarlíkana á grundvelli höfundaréttar síns, t.d. málsókn Getty Images gegn Stability AI sem standa að Stable Diffusion í Bandaríkjunum. Beðið er niðurstöðu þeirra mála í dómstólum. 

Innan Evrópusambandsins er verið að vinna að almennri löggjöf um gervigreind. Hvað varðar höfundaréttarhlið mála þá er afstaða framkvæmdastjórnarinnar sú að til að nota höfundaréttarvernduð verk til að þróa og þjálfa gervigreindarlíkön þurfi leyfi rétthafa höfundaréttar nema til komi undanþágur í höfundalögum.

Það skiptir máli að Ísland verði gerandi og taki virkan þátt í þróun og innleiðingu yfirstandandi tæknibreytinga til þess að bæta samfélagið en á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið stór og framsækin skref til þess að huga að þessum breytingum með einmitt það í huga. Má þar til að mynda nefna stefnu Íslands um gervigreind sem var unnin árið 2021 að beiðni forsætisráðherra. Þar var mótuð skýr framtíðarsýn um hvernig íslenskt samfélag geti unnið með gervigreind, öllum til hagsbóta. Í stefnunni er meðal annars farið yfir ýmsa snertifleti gervigreindar við íslenskt samfélag, til að mynda réttindi Íslendinga gagnvart nýrri tækni, þau gildi sem hafa þarf til hliðsjónar við innleiðingu hennar og hvernig leysa beri úr álitamálum henni tengdri. 

Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu er meðal annars unnið á breytingum um höfundarétt á hinum stafræna innri markaði EES er snúa að texta- og gagnanámi. Í þeirri vinnu verður höfð til hliðsjónar þróun löggjafar um gervigreind með tilliti til gervigreindarlíkana sem geta framleitt texta, myndir, tónlist og kvikmyndir um hvaða gögn voru notuð við þjálfun þeirra líkana. 

Bent hefur verið á að þau gögn og gagnagrunnar sem gervigreind lærir af sé ekki alltaf í þágu kvenna og minnihlutahópa. Hefur eitthvað verið rætt um að hafa eftirlit eða umsjón með slíkum gögnum? Hvernig væri hægt að bregðast við? 
Við erum meðvituð um að skekkjur geti verið í gagnagrunnum um gervigreind, til að mynda í þeim gagnagrunnum sem unnið hefur verið með í máltækniáætlun stjórnvalda. Þetta rannsóknarsvið er hins vegar nokkuð nýtt og því erum við ekki komin á þann stað til þess að meta umfang þessara skekkja með fullkomnum hætti meðal annars vegna skorti á mælitækjum. Það er margt við þessa tækni og möguleika hennar sem er ennþá órannsakað, við fetum okkur inn á spennandi slóðir - í góðri samvinnu allra hagaðila.

Skoðað: 346 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála