Skip to main content
11. janúar 2024

Verðum að vera þátttakendur í þróun gervigreindar

Áslaug Arna SigurbjörnsdóttirViðtal við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um framþróun og menntun í gervigreindarheimi.

Nú hefur gervigreind verið að hasla sér völl í iðnaði og atvinnulífi almennt. Hvaða greinar sérðu fyrir þér að muni nýta þessa tækni í framtíðinni?
Gervigreind mun hafa áhrif á flestar ef ekki allar greinar atvinnulífsins á næstu árum, með beinum eða óbeinum hætti. Við höfum nú þegar séð gervigreind hasla sér völl við hönnun stoðtækja og tækjabúnaðar í sjávarútvegi og víða atvinnulífinu. Að auki hefur hagnýting gervigreindar aukist í starfsemi hins opinbera, en þar má sjá t.d. netspjall og sjálfvirkt innritunarviðtal við sjúklinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Við sjáum mikla aukningu í umsóknum sem tengjast gervigreind í stuðningskerfi hins opinbera.  

Við höfum ekki séð fyrir endann á þessari þróun og líklega verður ekki til það svið atvinnulífsins sem mun ekki taka einhverjum breytingum á næstu árum vegna gervigreindar, og það er fullt tilefni til þess að smáþjóð eins og Ísland leggi mikla áherslu á þróun og innleiðingu gervigreindar.

Hvaða skref hafa verið tekin til að stuðla að nýsköpun og framþróun í gervigreindartækni hér á landi?
Það er mikið að gerast og má þar helst nefna opin gögn en þar leynast gríðarleg tækifæri til að yfirfæra tækni og hugmyndir á hagnýtanlegt form og yfirfæra lausnir úr einni iðngrein eða markaði yfir á annan.

Flest gervigreindartækni sem nýtt verður á Íslandi mun eiga uppruna sinn erlendis. Það breytir því þó ekki að við þurfum að búa til umhverfi þar sem nýsköpun og nýting gervigreindar getur blómstrað. Við fylgjumst vel með þeirri þróun sem er að eiga sér stað og gæta þarf að því að lausnir geti verið nýttar hérlendis, til að geta nýtt þau tækifæri þarf m.a. sterkan grundvöll til grunnrannsókna innanlands og öflugri tækniþekkingu. Þá skiptir máli að fleira fólk útskrifist úr tæknigreinum en það dregur úr samkeppnishæfni okkar og getu til framþróunar á þessari tækni ef okkur vantar mannauðinn.

Hvað finnst þér um þann árangur sem orðið hefur á Íslandi í þróun og þjálfun gervigreindar? Stöndum við framar öðrum löndum eða er enn langt í land?
Ísland stendur vel í hagnýtingu gervigreindar en við þurfum að halda áfram. Við erum vel menntuð og tæknivædd þjóð, nýjungagjörn með sterka innviði og gagnasöfn sem ná áratugi aftur í tímann. Á síðustu árum höfum við lagt mikla áherslu á máltækni sem skilaði sér meðal annars í því að hægt er að eiga samskipti við mállíkan gervigreindarinnar ChatGPT á íslensku, en líkanið er notað af hundruðum milljóna einstaklinga víða um heim. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli en á sama tíma er þó mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum. Við verðum að halda áfram að styðja við þróun gervigreindarlausna, s.s. með auknum aðgangi að gögnum, aukinni tæknifærni og áherslu á netöryggi.

Við stöndum of aftarlega í fjölda nemenda sem útskrifast úr STEM greinum (raun- og tæknigreinar) úr háskóla, í nýlegum tölum frá OECD þá erum víð í 87. sæti og hefur hlutfallið ekki aukist undanfarna áratugi. Við þessu verðum við að bregðast og erum meðal annars að ýta undir með fjárhagslegum hvötum til háskólanna.

Hvaða áskorunum telur þú að Ísland standi frammi fyrir í alþjóðlegri samkeppni um gervigreindartækni?
Aðrar áskoranir Íslands en staða tæknimenntunar eru áskoranir sem tengjast að miklu leyti smæð landsins. Gagnasöfn okkar eru eðli málsins hlutfallslega smærri og erfitt að þróa lausnir sem byggjast á miklu magni af gögnum. Það er því nauðsynlegt að auka við aðgang að gögnum sem nýst geta til að þróa slíka hugbúnað, en þess má geta að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt drög að breytingum á lögum um endurnot opinberra upplýsinga sem er ætlað að auka við aðgang að opnum gögnum hjá opinberum aðilum, og þá sérstaklega að gagnasöfnum sem skilgreind eru sem sérstaklega verðmæt. Einnig er nauðsynlegt að taka þátt í og styðja við framtak til að efla stafræna þróun og nauðsynlega stafræna hæfni, þ.á.m. með sí- og endurmenntun.

Hvernig telur þú að menntakerfið á Íslandi geti best undirbúið nýja kynslóð menntafólks sem vill sérhæfa sig í gervigreind? Er hægt að víkka sviðið út fyrir heim málvísinda og tölvunarfræði?
Nemendur þurfa frá unga aldri að kynnast nýrri tækni og styðja þarf kennarar til að þeir geti nýtt sér slíka tækni við kennslu. Til þess að við getum tekið þátt í þessari þróun að fullum krafti er mikilvægt að við fjölgum nemendum í tæknigreinum samhliða því að við fáum alþjóðlega sérfræðinga til að starfa hér á landi. Þá þarf að styðja við stafræna færni á öllum skólastigum, gagnrýna hugsun og upplýsingalæsi. Nýting á gervigreind og áskoranir sem fylgja munu þurfa þekkingu út fyrir málvísindi og tölvunarfræði, það mun reyna á fjölmörg önnur álitaefni sem tengjast m.a. siðferði.

Hvers konar þróun sérðu fyrir þér innan gervigreindar á næstu árum sem gæti haft áhrif á stefnur og áskoranir á sviðinu?
Líklega mun þróun og hugmyndir til hagnýtingar gervigreindar aukast verulega samhliða aukinni notkun á slíkri tækni. Rétt eins og hugvitið þá eru möguleikarnir endalausir. Í nýrri árangurstengdri fjármögnun háskóla sem ég kynnti nýverið er lögð áhersla á aukna hagnýtingu rannsókna og nýsköpunar í tengslum við atvinnulífið. Í upphafi árs var Miðstöð stafrænna nýsköpunar formlega opnuð og er það tilgangur hennar að tengja saman stafræna þróun, gervigreind og fjarskipti.

Hvernig er stefnt að því að auka samstarf milli háskóla, iðnaðar og stjórnmálamanna til að auðvelda framgang gervigreindarverkefna?
Stjórnvöld þurfa að passa að styðja við þá þróun til að hægt sé að nýta möguleikana til fulls og að reyna eftir bestu getu að draga úr neikvæðum afleiðingum gervigreindarinnar. Í ráðuneyti mínu er ýmislegt í gangi og má m.a. nefna að unnið er að aðgerðaráætlun um gervigreind.

Hvernig gæti gervigreind haft áhrif á jafnrétti á Íslandi? Hefurðu orðið vör við þar halli á einhverjar þjóðfélagshópa?
Gervigreindarhugbúnaður nýtir sér fyrirliggjandi gögn til að komast að niðurstöðum, en í mörgum tilvikum endurspegla söguleg gögn ekki að fullu nútímasamfélag eða nútímaviðhorf. Ein af áskorunum stjórnvalda er að draga úr þeim neikvæðu afleiðingum sem slík skekkja í gögnum getur leitt til. Þarna gegna meðal annars félags- og hugvísindasvið háskólanna mikilvægu hlutverki. Ráðuneytið hefur einnig verið í samtali við Jafnréttisstofu og fleiri aðila um mögulega greiningu á áhrifum gervigreindar á jafnrétti kynjanna.

Hvaða lög þarf að endurhugsa nú þegar gervigreind verður æ fyrirferðameiri í samfélaginu?
Þegar er unnið að löggjöf um gervigreind á vegum Evrópusambandsins, (AI Act), sem gert er ráð fyrir að verði tekin upp í EES samninginn. Það er ljóst að innleiðing gervigreindarlöggjafar ESB mun setja notkun hennar nokkrar skorður. Mikilvægt er að vel sé fylgst með áhrifum slíkra takmarkana, með það að leiðarljósi að skerða ekki um of nýsköpun á þessu sviði auk þess sem svigrúm Íslands til útfærslu íþyngjandi ákvæða verði skoðað með hliðsjón af íslenskum aðstæðum. Þegar frekari reynsla er komin á notkun gervigreindar verður einnig óhjákvæmilega að skoða hvort uppfæra þurfi tiltekin lög til að endurspegla nýjan veruleika í heimi gervigreindarinnar.

Við eigum ekki að hræðast þessa þróun heldur að vera þátttakendur, vanda okkur, aðlagast tækninni og nýta hana. Þeir sem ekki munu nýta sér gervigreindina munu tapa í samkeppni þjóða.

Skoðað: 420 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála