Skip to main content
4. janúar 2024

Sýndarveruleiki

Ívar Alexander Barja

Ívar Alexander BarjaTækni hefur þá möguleika að breyta því hvernig við horfum á kennsluaðferðir, þessar breytingar eru að eiga sér stað akkúrat núna og verða möguleikarnir fleiri með hverjum deginum. Skólar nýta sér þessa tækni til að auðvelda aðgengi fyrir nemendur að námi, auðvelda nemendum að eiga í sambandi við hvort annað og einnig til að skoða sögulega atburði og staði meðan þeir sitja í stól heima hjá sér. Þá er ég að tala um möguleika sýndarveruleika í kennslu og mun það vera aðal viðfangsefnið í þessari grein.

Sýndarveruleiki býður upp á nánast endalausa möguleika fyrir nemendur til að öðlast reynslu í því fagi sem þau vilja tileinkar sér án allrar áhættu. Class VR nýtir sér sýndarveruleika meðal annars fyrir krakka á öllum aldri. Krakkar á 3-4 ár aldri nýta sér þessa tækni til að skoða allskonar hluti, lýsa því sem þau sjá og auka orðaforða, telja hlutina sem þau sjá til að bæta stærðfræðina og jafnvel kíkja á tunglið til að sjá mun á þyngdarafli.

Ef þér dettur eitthvað í hug eru miklar líkur á að sýndarveruleikinn geti sýnt þér það. Það er mikilvægt að þroska ímyndunarafl krakka á ungum aldri. Ég veit ég hvort það hægt í dag en ef sýndarveruleikavél með gervigreind kæmi til leiks gætu krakkar einfaldlega leitað uppi allt sem þeim dettur í hug og gervigreindin gæti búið það til í sýndarveruleika fyrir þau og þannig víkkar ímyndunaraflið og þekkingu krakka á því sem er til í heiminum.

Samkvæmt könnun frá Zippia eru 97% nemenda í bandaríkjunum spenntir fyrir því að sýndarveruleiki sé blandaður inn í kennslu hjá þeim. Persónulega hefði ég verið virkilega til í að sýndarveruleiki væri möguleiki á minni skólagöngu. Að geta verið í sögutíma eða íslenskutíma og geta verið á staðnum þegar Brennu-Njáls saga gerðist eða sjá Ingólf Arnarson lenda á ströndum Íslands hefði fest þessar sögur og mörg smáatriði betur í hausnum mínum. Bara það að horfa á mynd um þessa atburði finnst mér hjálpa meira heldur en að lesa það upp úr þurrum gömlum ízlenzkum texta sem krakkar nú til dags tengja ekki við. Sá möguleiki að upplifa atburðina sjálfur er enn þá betra og vona ég að sýndarveruleiki verði aðgengilegur í öllum skólum Íslands á næstu árum.

Sjálfstraust er einnig eitthvað sem sýndarveruleiki getur byggt upp hjá nemendum. Nemendur geta æft sig að flytja verkefni fyrir hóp af sýndarveruleika „fólki“ áður en það kynnir í raunveruleikanum. Sem nemandi átti ég oft erfitt með að kynna fyrir fólki vegna stress en með sýndarveruleika veit ég að fólk í sýndarveruleikanum er ekki alvöru og hefur ekki áhrif á taugarnar. Þannig hefði ég getað æft mig aftur og aftur og verið meira tilbúinn fyrir raunveruleikann. Einnig æfði ég körfubolta í mörg ár og er sjálfstraust mikilvægt í öllum íþróttum þannig taugarnar fari ekki með mann á mikilvægum tímum.

Forbes nefnir upp 10 bestu dæmi þar sem sýndarveruleiki er nýttur í kennslu, eitt af dæmunum sem mér fannst áhugaverðast var kennsla í tungumálum. Til er forrit fyrir sýndarveruleikavélar þar sem einstaklingur er settur í land af eigin vali þar sem fólkið þar talar einungis þjóðartungumálið. Í forritinu getur þú átt samtöl við innfædda og sýnir forritið valmöguleika á því hvernig einstaklingur getur svarað og hvernig framburðurinn er.

Á minni grunns- og menntaskóla göngu tók ég allskonar dönsku áfanga, árið 2013 flutti ég í ár til Danmerkur og komst að því að ég kunni ekki neitt í dönsku. Eftir 4 mánuði þar sem krakkarnir í skólanum mínum neituðu að tala við mig ensku og sögðu mér að ég þyrfti að læra tungumálið var ég búinn að læra meira heldur en öll árin sem ég lærði tungumálið í skóla. Þess vegna myndi svona forrit gjörbreyta tungumálakennslu á Íslandi til hins betra.

Sýndarveruleiki er ein af stærstu uppfinningum nútímans og held ég að við séum einungis rétt svo búin að snerta alla þá möguleika sem hann getur skapað í kennslu og einnig bara lífinu almennt. Ég er persónulega virkilega spenntur þegar kennsla með sýndarveruleika verður aðgengileg í skólum svo að börnin mín geti lært allt mögulegt á þennan snjalla hátt.

Höfundur: Ívar Alexander Barja

Heimildir:
https://www.classvr.com/virtual-reality-in-education/virtual-and-augmented-reality-in-pre-school-education-age-4-to-7-years/
https://www.adorama.com/alc/virtual-reality-in-education/
https://www.forbes.com/sites/bernardmarr/2021/07/23/10-best-examples-of-vr-and-ar-in-education/?sh=6a724c371f48

Skoðað: 466 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála