Takmarkalausir möguleikar gervigreindar til að efla líf sjónskertra
Í áratugi, hefur þróun í tækni verið beint að því að finna leiðir til að færa sjónskertum verkfæri til að gera lífið auðveldara og gefa þeim betra aðgengi að heiminum. Nýleg þróun á gervigreind í aðstoðartækni býður upp á margvíslega möguleika, með það að markmiði að auka lífsgæði blindra og sjónskertra.
Greining á myndum og hlutum
Með þróun í vélrænu gagnanámi getur gervigreindin nú greint og þekkt heiminn eins og við sjáum hann betur en talið var mögulegt áður fyrr. Forrit eins og Seeing AI, sem þróuð var af Microsoft, nota myndþekkingu til að lesa og lýsa heiminum fyrir blinda (Microsoft, 2017). Allt frá því að lesa upp prentaðan texta upphátt yfir í að þekkja tilfinningar á andlitum fólks í kring, þessi forrit hjálpa sjónskertum að greina og skilja umhverfið sitt.
Auðveldara að komast á milli staða
Tól eins og blindrastafir eða leiðsagnahundar hafa verið ómissandi til að hjálpa blindum að labba um á öruggan máta. En tæki og forrit sem studd eru af gervigreind, eins og Project Guideline frá Google, veitir blindu fólki en meira sjálfstæði (Panek, 2020). Þetta tæki gerir notendum kleift að hlaupa eftir ákveðnum leiðum án hjálpar frá öðru fólki, með notkun á vélrænu gagnanámi til að fylgja vegvísi á jörðinni og gefa notenda leiðbeiningar í gegnum heyrnartól.
Bætt aðstoð í lestri
Að lesa hefur alltaf verið stór áskorun í lífi blindra og hefur Braille verið gífurlega sterkt tól fyrir marga en það nær ekki yfir allar gerðir af efni, svo sem myndir, grafík eða breytilegar stafrænar upplýsingar. Tól eins og OrCam MyEye, sem er fest á gleraugu, getur lesið prentaðan texta frá hvaða yfirborði sem er og lesið hann upp fyrir notandann (OrCam, e.d.). Þar að auki gerir samþætting gervigreindar í forritum eins og KNFB Reader mögulegt að breyta prentuðum texta í tal á hraðan og nákvæman máta.
Bæting í daglegum verkefnum
Hversdagsleg verkefni, hvort sem það er að þekkja liti þegar maður klæðir sig í föt á morgnanna eða eitthvað slíkt, getur verið stór áskorun fyrir blinda. Forrit og tæki sem knúin eru af gervigreind hafa komið á markaðinn til þess að einfalda slík verkefni. Aipoly Vision sem dæmi getur þekkt þúsundir hluta og lita þeirra og geta þannig hjálpað blindum með val á fötum, mat og fleira (Media Acess Australia, 2017).
Sérsniðnara nám
Gervigreindin hjálpar blindum ekki bara að skilja heiminn, hún hjálpar þeim líka í námi. Námsumhverfi sem drifin eru af gervigreind geta boðið upp á sérsniðna námsreynslu, með því að aðlaga efni eftir þörfum nemandans. Sem dæmi, áþreifanleg grafík sem notast við gervigreind getur breyst í rauntíma og gefið nemendum hraða endurgjöf sem getur gert efni eins og stærðfræði og náttúrufræði aðgengilegra (Mukhiddinov og Kim, 2021).
Mannleg samskipti
Að þekkja og túlka andlitstjáningar og handahreyfingar í mannlegum samskiptum getur reynst virkilega erfitt fyrir sjónskerta. Með hjálp gervigreindar getur hún fært sjónskertum rauntíma endurgjöf um tilfinningar, aldur eða jafnvel borið kennsl á fólk í kringum þau, og tryggt að þau geti tekið þátt í félagslegum aðstæðum á skilvirkari máta.
Lokaorð
Samþætting gervigreindar og aðstoðartækja snýst ekki aðeins um að bjóða blindum og sjónskertum upp á ný tól. Það snýst um að brjóta niður hindranir sem blindir og sjónskertir standa frammi fyrir, auk þess að efla sjálfstæði þeirra og veita þeim meira frelsi. Því meira sem gervigreind þróast og verður stærri hluti í daglegu lífi, þeim mun meira getur hún breytt lífi sjónskertra og raun fyrir alla aðra sem standa frammi fyrir hindrunum í daglegu lífi. Allir einstaklingar samfélagsins græða þegar hver og einn getur lifað, unnið og haft samskipti án takmarkanna.
Höfundur: Axel Ingi Elíasson Sívertsen, nemandi við Háskólann í Reykjavík
Heimildir
Media Acess Australia. (2017, 24. apríl). Aipoly vision is a truly visionary app. https://mediaaccess.org.au/latest_news/blind-or-vision-impaired/aipoly-vision-is-a-truly-visionary-app
Microsoft. (2017). Seeing AI in new languages. https://www.microsoft.com/en-us/ai/seeing-ai
Mukhiddinov, M., og Kim, S-Y. (2021). A systematic literature review on the automatic creation of tactile graphics for the blind and visually impaired. Processes, 9(10), https://doi.org/10.3390/pr9101726
OrCam. (e.d.). OrCam MyEye. https://www.orcam.com/en-us/orcam-myeye
Panek, T. (2020, 19. nóvember). How Project Guideline gave me the freedom to run solo. Google. https://blog.google/outreach-initiatives/accessibility/project-guideline/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.