Skip to main content
26. október 2023

Gervigreind í heimi tónlistarinnar

Daníel Hugi Magnússon

Daníel Hugi MagnússonTónlistin er alls staðar í kringum okkur en nánast ómögulegt er að fara í gegnum daginn án þess að heyra einhvers konar tónlist. Hana má finna í útvarpi, þáttum, kvikmyndum, auglýsingum í sjónvarpi, á samfélagsmiðlum og fleiri stöðum.

Spotify
Auðveldast er að nálgast tónlist á netinu. Spotify er ein vinsælasta tónlistar-streymisveitan en þar má finna eldri tónlist, eins og verkin hans Ludwig van Beethoven, nýútgefna tónlist og allt þar á milli1. Sjálfur hef ég notað Spotify daglega í mörg ár. Ég gæti ekki ímyndað mér að hafa ekki aðgang að streymisveitunni þar sem að ég nota Spotify þegar ég er að læra, keyra eða slaka á heima hjá mér. Ég held að ég sé ekki einn um það að slíkar streymisveitur séu orðnar ómissandi partur af hinu daglega lífi.

Höfundarréttur
Allir tónlistarmenn eiga höfundarréttinn á þeirri tónlist sem þeir gefa út. Mörg dæmi má finna á YouTube þar sem að einstaklingur hlóð upp myndbandi á miðilinn en notaði tónlist annarra í leyfisleysi í myndbandinu. Þetta leiðir til þess að myndbandið er annað hvort tekið út af síðunni eða þá að hljóðið er fjarlægt2. Þegar ég var yngri bjó ég til myndaband, mér til skemmtunar, sem ég deildi á YouTube þar sem ég setti lag undir með tónlistarkonunni Lorde.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvernig höfundarrétturinn virkaði á mínum yngri árum og var myndbandið að lokum fjarlægt af síðunni. Slík dæmi hafa verið ein stærsta áskorun tónlistarbransans því erfitt er að hafa hemil á dreifingu tónlistarinnar í veröld þar sem internetið er allsráðandi.

Þó að til séu mörg dæmi þess að almenningur „steli“ tónlist til að nota á samfélagsmiðlum þá eru líka til dæmi þess að tónlistarmenn steli frá hver öðrum, líkt og stefi eða texta úr lagi. Tónlistarmaðurinn Vanilla Ice gaf út lagið Ice Ice Baby árið 1990.3 Bassastefið úr laginu er í raun það sama og í laginu Under Pressure með hljómsveitinni Queen og söngvaranum David Bowie sem leiddi til þess að lögmenn Queen hótuðu lögsókn. Að lokum náðist þó samkomulag á milli allra aðila í málinu. Niðurstaðan var að Vanilla Ice yrði ekki kærður en höfundar lagsins Under Pressure myndu fá hluta af gróða lagsins eða því sem nemur um 4 milljónir bandarískra dollara í dag4.

Nú stafar þó ný ógn í tónlistarheiminum þar sem lögum og textum er ekki stolið, heldur rödd tónlistarmannanna með gervigreind.

Tegundir gervigreinda
Notkun gervigreinda eykst með hverjum degi í heiminum. Eftir að fyrirtækið OpenAI gerði gervigreindina ChatGPT aðgengilega fyrir almenningi hafa mörg önnur fyrirtæki tekið þátt og skapað sína eigin gervigreind. Vinsælustu gervigreindirnar eru þær sem breyta texta-skipunum í skrifað svar en þær eru ekki einu tegundirnar.

Dalle-E er einnig gervigreind frá fyrirtækinu OpenAI5. Hlutverk Dall-E er að taka við texta-skipunum frá notanda og skila mynd til baka út frá skipuninni. Hægt er að nota Dall-E til þess að búa til listaverk fyrir þig eða einfaldlega til þess að leika sér en ég hef sjálfur notað hana oft í þeim tilgangi. OpenAI leyfir notendum að eiga og selja það sem gervigreindin myndar6.

Mér finnst þó einkennilegt að hægt sé að selja eitthvað sem maður fékk ókeypis frá gervigreind. Sjálfur myndi ég ekki kaupa slíkar vörur og finnst mér að þær ættu að hafa sinn eigin höfundarrétt sem eign fyrirtækisins OpenAI.

Til eru gervigreindir eins og Speechify þar sem notandinn setur inn textaskipun og gervigreindin skilar þér hljóðskrá þar sem rödd les upp textann7. Hægt er að nota alls konar síur til þess að breyta því hvernig röddin hljómar. Önnur gervigreind sem virkar á svipaðan hátt er PlayHT en hún getur tekið við hljóðskrám sem búa til klón út frá röddinni í skránni8.

Auk þess sem er að gerast í tónlistarheiminum finnst mér þessar gervigreindir mest ógnandi. Hver sem er getur látið gervigreindina fá hljóðbút frá annarri manneskju og falsað hljóðupptökur. Þetta gæti leitt til mikilla leiðinda og ég velti því mikið fyrir mér hvernig hægt verði að sanna hvað sé í raun satt eða ósatt þegar slík tækni er til.

Gervigreind og tónlistarmenn
Tónlistarmaðurinn, sem hefur verið mikið í umræðunni á netheiminum, er hinn dularfulli „Ghostwriter“. Hann hefur ekki enn upplýst almenning um sitt raunverulega nafn og hylur hann andlit sitt með hvítu laki og sólgleraugum, því veit enginn hver hann er í raun og veru. Í apríl árið 2023 gaf hann út lagið Heart On My Sleeve á streymisveitunum Spotify og YouTube9. Ghostwriter hafði notað gervigreind til þess að láta það hljóma eins og tónlistarmennirnir Drake og The Weeknd væru að syngja í laginu10. Þetta vakti mikla athygli á samfélagsmiðlinum TikTok og fékk lagið margar spilanir á streymisveitunum þar sem það var gefið út. Starfsfólk tónlistarútgefandans Universal Music Group, sem hafði starfað með Drake, var fljótt að bregðast við og létu þeir fjarlægja lagið af Spotify og YouTube þar sem um augljósa notkun gervigreindar var að ræða11. Ghostwriter lét þetta ekki stoppa sig og gaf út nýtt lag í september árið 2023 þar sem raddir rapparanna Travis Scott og 21 Savage voru notaðar með aðstoð gervigreindar12. Ghostwriter hefur einnig gengið svo langt að reyna að senda lagið Heart On My Sleeve til stjórnenda Grammy-verðlaunanna í von um að fá tilnefningu en svo virðist vera að lítið verði úr því13.

Stóra spurningin er því hvort og þá hvernig tónlistarbransinn geti brugðist enn frekar við notkun gervigreindar í þeirra heimi. Þarf að setja lög og reglur um notkun radda tónlistarmanna og hvað megi gera við þær? Ég tel að hver og einn tónlistarmaður eigi að geta fengið höfundarrétt fyrir rödd sína, þá gætu þeir annað hvort bannað alla augljósa notkun á henni, sem er í þeirra leyfisleysi, eða fengið greitt fyrir þau verk þar sem rödd þeirra er notuð af gervigreind.

Höfundur: Daníel Hugi Magnússon, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir
1 Shewale, Robin. (2023, 29. ágúst). Spotify Stats 2023 — Subscribers, Revenue & Other Insights. Demand Sage. https://www.demandsage.com/spotify-stats/#:~:text=Spotify%20controls%2033%25%20of%20the,over%20the%20last%205%20years.
2 Google. (2023). Restrictions on claimed music. https://support.google.com/youtube/answer/6364458?hl=en#:~:text=If%20you%20use%20this%20music,music%20is%20available%20on%20YouTube.
3 Diggers Factory. (2023, 29. Mars). The "Ice Ice Baby" Controversy. https://www.diggersfactory.com/blog/390/the-ice-ice-baby-controversy
4 Sama heimild og 3
5 OpenAI. (2023). https://labs.openai.com/s/pI7mmMThJRjLR19CxRg6yYgu
6 Raf. (2023). Can I sell images I create with DALL·E?. OpenAI. https://help.openai.com/en/articles/6425277-can-i-sell-images-i-create-with-dall-e
7 Speechify. (2023). https://speechify.com/voiceover-lp-3/?utm_medium=cpc&utm_content=voiceover&gc_id=19609516488&gclid=CjwKCAjw3oqoBhAjEiwA_UaLtqqnPDORR1LEeTl_7dPEaAWCzlSz85fvbgoPBGb8W3CpAO6cG71i7RoCObsQAvD_BwE&landing_url=https%3A%2F%2Fspeechify.com%2Fvoiceover-lp-3%2F&utm_source=googlevoiceover&utm_term=ai+generated+voice&utm_campaign=voiceover&h_ad_id=673058346644
8 PlayHT. (2023). https://play.ht/?utm_source=google&utm_medium=cpc&utm_campaign=19165509588&utm_content=139453557330&utm_term=play%20ht&gad=1&gclid=CjwKCAjw3oqoBhAjEiwA_UaLtkC581yaQq_8m4N90Z9zN_OJcRhkYgKu01LA5HqH0QU_3OoyTjS-dRoC_aUQAvD_BwE
9 Pearson, Jordan. (2023, 18. apríl). Viral AI-Generated Drake Song ‘Heart on My Sleeve’ Removed from Spotify, YouTube. Vice. https://www.vice.com/en/article/xgwx44/heart-on-my-sleeve-ai-ghostwriter-drake-spotify
10 Sama heimild og 9
11 Sama heimild og 9
12 Coscarelli, Joe. (2023, 5. september). Ghostwriter Returns With an A.I. Travis Scott Song, and Industry Allies. The New York Times. https://www.nytimes.com/2023/09/05/arts/music/ghostwriter-whiplash-travis-scott-21-savage.html
13 Lamerre, Carl. (2023, 9. ágúst). Recording Academy Says A.I.-Generated Drake & The Weeknd Song Isn’t Grammy Eligible After All. Billboard. https://www.billboard.com/music/awards/ai-generated-drake-weeknd-song-not-grammy-eligible-harvey-mason-jr-1235409036/
14. Grammy Eligible After All. Billboard. https://www.billboard.com/music/awards/ai-generated-drake-weeknd-song-not-grammy-eligible-harvey-mason-jr-1235409036/

Skoðað: 1077 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála