Skip to main content
19. október 2023

Gervigreind, hvað er málið!

Björn Elvar Þorleifsson

Viktoría Hulda ÞorgrímsdóttirÁ síðustu misserum hef ég verið mjög duglegur að nota nýjustu vöru úr smiðjum OpenAI, ChatGPT. Ég hef til að mynda leitað ráða við blettahreinsun, fengið hugmyndir að uppskriftum fyrir vikuna og núna síðast sótt innblástur fyrir þessa grein. Ég er á hraðri leið með að láta gervigreind alfarið sjá um að leysa litlu vandamálin í mínu lífi sem áður hefðu stolið tíma og orku.

Mér finnst þetta vera það gott tól að ég er tilbúinn að borga mánaðarlega fyrir það, en þó ekki með glöðu geði. Upprunalega hugmynd Sam Altman, framkvæmdarstjóra OpenAI, var nefnilega að hafa gervigreindina fríkeypis og aðgengilega fyrir alla, en árið 2015 sagði hann orðrétt „We think the best way AI can develop is if it’s about individual empowerment and making humans better, and made freely available to everyone.“ (Levy, 2015).

Hlutir breytast á 8 árum, við sjáum það svart á hvítu með því stökki sem hefur orðið í heimi gervigreindarinnar, en GPT-4 sem kom út tæpum þremur árum á eftir GPT-3, er sagður allt að 100x kraftmeiri (Loron, 2022).

En hversu mikið geta hlutir breyst á 200 árum? Ef við viljum spá fyrir um hvað gæti gerst í framtíðinni, þá er mikilvægt að horfa til baka og skoða hversu mikið hlutir hafa breyst. Ég hef því ákveðið að rekja sögu gervigreindar 200 ár aftur í tímann með það að markmiði að gera okkur hugarlund um hvað framtíðin ber í skauti sér.

Uppruni
Gæti verið að fyrstu tákn um gervigreind hafi átt sér stað um miðja 19. öld?

Í kringum miðja 19. öld hafði Charles Babbage fundið upp „greiningavélina“, eða í öðrum orðum, tölvuna (ast, 1984).

Ada Lovelace var samstarfskona Charles Babbage og af mörgum talin vera fyrsti forritarinn. Hún tók það í sínar hendur að þýða grein eftir Ítalann Luigi Menabrea sem var um greiningavélina hans Babbage.

Þýðingin innihélt athugasemdir eftir hana, sem tóku á endanum þrefalt fleiri blaðsíður en greinin sjálf. Í þessum athugasemdum lýsti hún aðferð til að reikna runu af Bernoulli-tölum með greiningavélinni (Lovelace, 1842). Hún hafði einnig lagt fram pælingu um að vélin gæti verið forrituð til þess að eiga við alls konar efni, til dæmis að vélin gæti teflt eða samið tónlist.

Ada Lovelace sagði um vélina hans Charles Babbage að hún væri hugsandi, eða jafnvel rökhugsandi. Varaði hún samt við því að leggja of mikinn stokk í mætti vélarinnar (Lovelace, 1842).

20. öldin - Vor
Seinna meir, eða árið 1936, fann Alan Turing upp Turing Machine. En sú ímyndunarvél átti að geta reiknað öll þau föll sem voru talin reiknanleg af manneskjum. Föll eru alls staðar og ekki bara á blaði, heldur eru þau áþreifanleg í raunheiminum eins og Thomas Garrity benti svo réttilega á í fyrirlestri sínum On Mathematical Maturity: „Functions describe the world.“ (Garrity, 2017). Því má segja að ímyndunarvélin hafi verið risastórt skref.

Skákvélin 1950
Mynd 1: Edward Lasker og Claude Shannon tefla á skákvélinni hans Shannon árið 1950

Mannkynið fékk að kynnast hugtakinu „gervigreind“ á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Claude Shannon hafði einmitt skrifað grein upp úr 1949 þar sem hann talaði um að forrita tölvu til þess að spila skák, hann var fyrsti maðurinn til þess að nota tölvu í því skyni að reyna leysa ýmsa leiki.

Gervigreind var þó ekki almennilega viðurkennd fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar þegar hún varð loks að fræðigrein. Kaplan, 2022

Það má einnig sjá dæmi um gervigreind í vísindaskáldskap frá þessum tíma en HAL 9000 var aðalsögupersónan í 2001: A Space Oddysey. Marvin Minsky, sem stýrði MIT Computer Science and Artificial Intelligence Laboratory og var einn af áhrifaríkustu rannsóknarmönnunum í fræðinni var ráðgjafi fyrir þá kvikmynd. Stork, 1998 Um miðjan 7. áratug voru tölvunarfræðingar mjög bjartsýnir á að vélar myndu hafa sömu getu og HAL eftir nokkra áratugi. Árið 1965 spáði Herbert A. Simon, stjórnmálafræðingur, fyrir um að innan 20 ára myndum við sjá vélar gera alla vinnu sem mannfólk hafði getuna til (Crevier, 1993).

Bjartsýnin um gervigreind náði nýjum hæðum árið 1956 þegar forritið Rökfræðingurinn (e. Logic Theorist) kom út, en það var forrit sem tókst að sanna 38 af fyrstu 52 kenningum í öðrum kafla Principia Mathematica (Pind, 1998).

Það vakti gífurlega athygli að forritinu tókst að sanna kenningu 2.85 á mun betri hátt en það sem Bertrand Russell og Alfred North Whitehead, höfundar bókarinnar, höfðu áður gert.

gervigreind hvad er malid mynd2
Mynd 2: Human proof í Principa Mathamtica og Machine proof frá Logic Theorist

20. öldin - Vetur
Bjartsýnin lifði þó ekki lengi því tímabilið frá áttunda og út þann níunda áratug er kallað AI Winter. DARPA, Bandarísk ríkisstofnun sem veitir styrki til rannsókna í varnarmálum, hafði styrkt rannsókn hjá Carnegie Mellon sem snerist um að láta tölvur skilja töluð orð. Rannsóknin gekk alls ekki vel og DARPA endaði á að hætta að styrkja þessa rannsókn því niðurstöðurnar voru frekar lélegar.

Seinna meir fylgdi svo risa niðurskurður í fjármögnun á gervigreindarrannsóknum. Sömuleiðis sá Bretland rannsóknarfjármögnun dvína vegna skýrslu sem kom út 1973 og bar nafnið Lighthill Report. Skýrslan var gerð greining á gervigreind og voru líkurnar á velgengni tækninnar metnar frekar litlar.

Björninn var svo sannarlega í hvíld í gegnum þessa tíma, en má segja að hann hafi vaknað fyrir alvöru árið 1997 þegar skáktölvan Deep Blue sigraði ríkjandi heimsmeistara Garry Kasparov. Sú skáktölva stóð á öxlum risans Claude Shannon.

Nútími
Mikið hefur gerst á síðustu árum og má segja að þessi nýjasta bylgja hafi byrjað með AlphaGo árið 2015, en þá var það fyrsta forritið til þess að vinna atvinnumann í Go. Í kjölfarið var forritið nefnt eitt af Breakthroughs of the Year hjá Science tímaritinu árið 2016. AlphaGo notaði gervitaugakerfi (e. Artificial Neural Network) til að finna besta leikinn á borðinu. Gervitaugakerfi er ekki ný hugmynd, við sjáum hana fyrst birtast árið 1943 en það er ekki fyrr en um 2010 þegar reiknikrafturinn og fáránleiki stórra gagnasafna verður meiri þar sem við getum notað djúpnám (e. Deep Learning) til þess að fá nytsamlegar niðurstöður.

Kísildalurinn er núna í kapphlaupi að vera um „bestu“ gervigreindina. OpenAI eru klárlega í forystunni enn sem komið er. Við erum heppin að kapphlaupið hefur gefið okkur greinina „Attention is all you need“ eftir Ashish Vaswani sem starfaði hjá Google. Greinin er merkileg í því skyni að Transformer modelið varð til en það leiddi til gríðarlegrar framfara í náttúrulegri málvinnslu (e. Natural Language Processing). ChatGPT, BERT og fleiri gervigreindarmodel sem eru í mikillri notkun eru byggð með Transformers.

Í nákominni framtíð munum við sjá Google, Apple, Meta og OpenAI etja harða baráttu um toppsætið í geiranum og ég held að mannkynið eigi eftir að vera ríkara fyrir vikið.

Höfundur: Björn Elvar Þorleifsson

Heimildaskrá
ast. (1984). Verðum að breyta uppeldismynstrinu annars missa konur alveg af lestinni. Þjóðviljinn. Crevier, D. (1993). AI: The Tumultuous History Of The Search For Artificial. Basic Books.
Garrity, T. (2017). On Mathematical Maturity (1). https://www.youtube.com/watch?v=zHU1xH6Ogs4
Kaplan, A. (2022). Artificial Intelligence, Business and Civilization. Routledge.
Levy, S. (2015). How Elon Musk and Y Combinator Plan to Stop Computers From Taking Over. https://www.wired.com/2015/12/how-elon-musk-and-y-combinator-plan-to-stop-computers-from-taking-over/
Loron, A. (2022). GPT-4–100X More Powerful than GPT-3. Geek Culture.
Lovelace, A. (1842). A Sketch of the Analytical Engine, with Notes by the Translator [Translation of Menabrea’s paper on Babbage’s Analytical Engine]. Taylor’s Scientific Memoirs.
Pind, J. (1998). Efnisleg táknkerfi. Hugur.
Stork, D. G. (1998). HAL’s Legacy: 2001’s Computer as Dream and Reality. MIT Press.

 

Skoðað: 506 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála