Af hverju hugvit?
Það eru ýmsar leiðir til að nálgast umræðu um mikilvægi hugvits. Ein leiðin er að benda á að við erum að taka fyrstu skrefin okkar inn í stærstu tæknibyltingu allra tíma. Í gær, miðvikudag, hófu sjálfkeyrandi leigubílar að aka um stræti Pittsburgh í Bandaríkjunum. Það eru góðar líkur á því að innan tveggja áratuga geti sjálfvirknivæðing þurrkað út um helming allra starfa á Bandarískum vinnumarkaði [1]. Þau störf sem koma í stað þeirra verða að öllum líkindum störf sem byggja á hugviti; þekkingu og hugmyndaauðgi. „Vélmennin eru að koma, hugvit er okkar eina von“ – það er ein leið til að tækla málefnið, og nokkuð sannfærandi leið ef út í þá sálma er farið. Mig langar hins vegar til að tala smá um fisk.
91 kíló af fiski. Það er það magn sem meðal-íslendingurinn neytir á ársgrundvelli. Það er um sex sinnum meira en heimsmeðaltalið per einstakling – og sjálfsögðu heimsmet eins og svo margt annað í lífi okkar Íslendinga sem viðkemur höfðatölunni. Þetta er ef til vill vel skiljanlegt. Það er svaka mikið af fiski í hafinu í kringum okkur. Svo mikið í raun að jafnvel þó við borðuðum, hvert og eitt okkar, okkar 91 kílóa skerf er alveg nóg eftir af fiski sem við síðan seljum til útlanda og fáum í staðinn gjaldeyri inn í landið. Fyrir vikið er sjávarútvegurinn ein af fjórum stoðum íslensks efnahagslífs þegar litið er til öflun gjaldeyristekna. Síðustu árin hafa þessar fjórar stoðir, hver um sig, staðið undir nokkurn veginn fjórðungi útflutningstekna okkar Íslendinga eins og mynd 1 sýnir.
Mynd 1. Samsetning útflutnings
Þrjár af þessum stoðum þekkja flestir Íslendingar mjög vel. Það er, jú, sjávarútvegurinn, áliðnaður og ferðaþjónusta. Fjórða stoðin er hins vegar minna þekkt og ber hin ýmsu nöfn. Stundum er hún kölluð „alþjóðageirinn“, sökum þess að um er að ræða fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði og eru í raun ekki bundin, nema að mjög litlu leyti, náttúruauðlindum nærumhverfis síns. Því gætu þau fyrirtæki sem teljast til þessarar fjórðu stoðar „allt eins“ starfað annars staðar en á Íslandi. Stundum er fjórða stoðin kölluð hugverkagreinar. Öðrum stundum er fjórða stoðin einfaldlega kölluð „eitthvað annað“, sökum þess hve ólík fyrirtækin eru sem mynda hana. Okkur hjá xHugvit finnst hins vegar eðlilegast að tala um þessa fjórðu stoð sem hugvitsgeirann.
Þó fyrirtækin sem liggja að baki tölfræðinni séu gríðarlega ólík þá eiga þau það öll sameiginlegt að starfsemi þeirra byggir á hugviti – einhverju sniðugu eða nýstárlegu sem gerir afurð þeirra samkeppnishæfa á alþjóðlegum markaði. Megininntakið í verðmætasköpun þeirra kemur úr kolli einhvers eða einhverra. Útflutningsvaran getur verið tölvuleikur sem er búinn til á Íslandi og seldur á Evrópumarkaði, hönnun íslenskrar verkfræðistofu á verksmiðju sem byggð er í Abu Dhabi, eftirprentanir af verkum íslenskra listmálara sem seldar eru í New York - eða íslenskt húðkrem sem selst eins og heitar lummur í London. Svona mætti lengi telja. Verðmætasköpunin byggir í öllum tilvikum á þekkingu og hugmyndaauðgi þeirra sem standa vörunni að baki.
En þá komum við að mikilvægustu spurningunni. Af hverju skipta þessar greinar okkur máli? Vissulega getum við heldur betur verið þakklát fyrir sjávarútveginn, áliðnaðinn og ferðaþjónustuna. Þessar þrjár stoðir tilheyra hins vegar allar auðlindageiranum. Vöxtur þeirra er með öllu háður náttúrulegum auðlindum Íslands. Þar sem auðlindirnar eru alltaf takmarkaðar eru vaxtarmöguleikarnir sömuleiðis takmarkaðir. Hugvitsgeirinn er ekki bundinn þessum takmörkunum nema að mjög litlu leyti. Til einföldunar má stilla því upp á þann veg að ef við sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi ætluðu á næsta ári að selja tvöfalt meira af fiski úr landi en þau gera í dag, þá væri eina leiðin að veiða tvöfalt meira af fiski og leggja þannig tvöfalt meira álag á takmarkaðar auðlindir okkar. Það er sumsé með öllu ómögulegt. Ef að íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki myndi hins vegar á næsta ári selja tífalt, tuttugufalt, eða hundraðfalt fleiri smáforrit á app-store en það gerir í dag, þyrfti það ekki að hafa nein aukin áhrif á náttúruauðlindir Íslands. Það myndi hins vegar þýða umtalsverðan vöxt útflutningstekna. Vissulega er þetta ekki algilt dæmi, en skín þó vonandi ljósi á mikilvægi hugvitsgeirans þegar kemur að vexti útflutningstekna. Vaxtarmöguleikar útflutnings á vörum og þjónustu hugvitsgeirans eru ekki líkir nokkru öðru sem við þekkjum.
Sem leiðir okkur að annarri spurningu; af hverju skiptir máli að auka útflutningstekjur? Við viljum í fyrsta lagi hagvöxt sem heldur í við fólksfjöldaaukningu (og rétt rúmlega það, vegna breytinga á lýðfræðilegri uppbyggingu þjóðarinnar), þannig að heildarvelferð á Íslandi aukist eða haldist í það minnsta óbreytt eftir því sem gæðum landsins er skipt meðal sífellt fleiri Íslendinga á næstu áratugum. Við viljum að sá hagvöxtur sé drifinn áfram af auknum útflutningi vegna þess að framleiðsla og þjónusta til útflutnings eru heilt á litið með hærri framleiðni en framleiðsla og þjónusta sem er bundin við innanlandsmarkað. Eðli málsins samkvæmt þarf útflutningurinn að vera það til að geta keppt á alþjóðamarkaði. Með því að vera með útflutningsdrifið hagkerfi er lögð áhersla á þá starfsemi sem skilar mestu til samfélagsins fyrir sem minnst. En hversu mikil þarf aukning útflutningstekna að vera? Þeir sem þekkja til McKinsey skýrslunnar vita nú þegar svarið.
Mynd2. Útflutningsvöxtur
Í Íslandsskýrslu McKinsey frá 2012 kom fram hin svokallaða 1.000 milljarða áskorun (sjá mynd 2). Þar er talið að til að viðhalda sjálfbærum, kröftugum 4% hagvexti á ári til 2030 þurfi á þeim tíma (frá 2012) að auka útflutningstekjur um 1000 milljarða í það heila. Það er, tvöfalda útflutningstekjur okkar. Nýverið birti Viðskiptaráð Íslands stöðumat, þar sem í ljós kemur að á núverandi róli eigum við langt í land, en árlegur meðalvöxtur útflutnings hefur verið 1,9%. Sá takmarkaði vöxtur er nær eingöngu tilkominn vegna gríðarlegs vaxtar í ferðaþjónustu (142 milljarða króna aukning), þó hugvitsgeirinn hafi vissulega aukið útflutningstekjur sínar um 4 milljarða, og Landbúnaður um 2 milljarða, síðan McKinsey skýrslan kom út (sjá mynd 3).
Mynd 3. Þróun útflutningstekna
Eðli málsins samkvæmt er svo umfangsmikill vöxtur í ferðaþjónustu ekki viðráðanlegur til lengdar. Jafnvel þó að svo væri þá kæmi það okkur heldur skammt. Akkúrat í dag erum við ekki á réttri leið. Við þurfum algjöra áherslubreytingu til að gera okkur undirbúin fyrir framtíðina. Við þurfum hugvit, og ekkert smá af því – jafnvirði 1.000 milljarða. Ekki bara ef vélmennin eru á leiðinni. Við þurfum áherslu á hugvit bara til þess að tryggja að lífsskilyrði á Íslandi verði ekki verri árið 2030 en þau eru í dag.
Höfundur: Hlynur Hallgrímsson, hagfræðingur. Sérfræðingur á hugverkasviði Samtaka iðnaðarins.
Heimild:
[1] Frey, C. B., & Osborne, M. A. (2013). The Future of Employment: How susceptible are jobs to computerisation? Oxford: Oxford Martin Programme on the Impacts of Future Technology. Slóð: http://www.oxfordmartin.ox.ac.uk/downloads/academic/The_Future_of_Employment.pdf
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.