Forgangsröðun efnis á vef með aðferðafræði Gerry McGovern
Í þessari grein er fjallað um hina svonefndu "top-task" aðferðafræði Gerry McGovern við utanumhald efnis á vef. Samkvæmt henni hafa allir vefir örfá lykilverkefni sem skila mesta verðmætinu. Þetta eru verkefni sem flestir notendur koma til að leysa þegar þeir heimsækja vefinn. Lykilverkefnin eru mikilvægustu atriðin og ættu að hafa forgang á hverjum vef. Þau eru staðsett í hinum svokallaða langa hálsi. Í hálsinum er u.þ.b. 5% verkefna, sem skila um 25% af verðmæti vefsins.
Á eftir hálsinum kemur búkurinn. Hann innihleldur minni verkefni, sem eru ekki jafn mikilvæg. Á öllum vefjum eru fleiri minni verkefni. Ef þau eru vel skipulögð geta þau skilað verðmæti, en þau geta einnig minnkað verðmæti vefsins ef þau flækjast fyrir mikilvægari verkefnum. Búkurinn inniheldur 35% af verkefnum og skila þau u.þ.b. 55% af verðmætunum.
Síðastur er langi halinn. Hann inniheldur stærsta hluta efnis á netinu, eða um 60% samkvæmt McGovern. Hann skilar ekki nema 20% af verðmætinu. Halinn er fullur af drasli, sem oft gefur sig út fyrir að vera mikilvægt. Hann fær of mikla athygli. Markmiðið ætti að vera að leggja meiri áherslu á langa hálsinn. Hér fyrir neðan er mynd til skýringar:
Hálsinn, búkurinn og halinn. Mynd fengin frá gerrymcgovern.com
McGovern ráðleggur vefstjórum að skipuleggja lykilatriðin, en ekki innihaldið eða tæknina. Leggja ætti mesta áherslu á að hjálpa notendum að ljúka mikilvægustu verkefnunum eins fljótt og auðveldlega og hægt er.
Oft er langi háls vefstjóranna ekki sá sami og langi háls notendanna. Mikilvægustu verkefnin verða að vera þau sem notendur vilja leysa á vefnum, en ekki þau sem vefstjórar halda að notendur vilji leysa. McGovern tekur tæmi um bílaframleiðanda sem lagði mesta áherslu á „vélar“ og „vörumerki“ á vef sínum. Notendur leituðu hins vegar að „sanngjarnt verð“ og „áreiðanleiki“. Því er mikilvægt að vefstjórar þekki langa háls notendanna.
Einnig er nauðsynlegt að endurskoða langa hálsinn reglulega eftir því sem vefurinn þróast og verkefnin breytast. Til þess eru vefmælingar gott hjálpartæki. McGovern ráðleggur vefstjórum að lokum að fara eftir mælanlegum staðreyndum en ekki sínum eigin tilfinningum þegar ákveðið er hvaða verkefni skuli vera í forgangi.
Vefir sem nýta sér aðferðina
Í fyrirlestri sem McGovern hélt 6. júní 2014 nefndi hann nokkur fyrirtæki og stofnanir sem hafa nýtt sér Top task aðferðina.
Krabbameinsfélag Noregs er meðal þeirra sem tekið hafa upp þessa aðferð. Á gamla vefnum var mesta áhersla lögð á fjárhagsstyrki frá notendum. Mælingar sýndu aftur á móti að á vefnum leituðu notendur að sjúkdómseinkennum, meðferðum og leiðum til að koma í veg fyrir krabbamein. Fjárframlög voru ekki efst í huga notenda. Vefnum var því breytt og mikilvægustu verkefnin að mati notenda voru sett á áberandi stað á forsíðunni. Síðum var fækkað úr 5000 niður í 1000. Beiðnir um fjárframlög hurfu næstum því af forsíðunni.
Gamli vefur Marriott-hótelanna var settur upp eins og auglýsingabæklingur. Á forsíðunni voru myndir af hótelherbergjum. En flestir notendur vefsins komu þangað til að bóka herbergi og því var eyðublað með herbergispöntun sett á forsíðu nýja vefsins. McGovern bendir á að um 90% notenda fara af vefjum hótela ef þeir finna ekki bókunarform á forsíðunni.
Á gamla vef Liverpool-borgar var eitt mikilvægasta verkefnið að finna starf. Vandamálið var að engin störf voru í boði. Helstu verkefnin að mati notenda vefsins voru þau sem voru í langa halanum að mati vefstjóranna. Verkefnin sem vefstjórar settu í forgang skiptu litlu máli fyrir notendur vefsins. Yfirlit yfir mest sóttu síðurnar birtist í litlum kassa á forsíðunni. En með top task aðferðinni var verkefnum á vefnum forgangsraðað að nýju og hægt var að fækka síðum úr 4000 niður í 700.
Vefirnir þrír sem hér voru nefndir eiga það sameiginlegt að hafa fækkað síðum eftir að hafa tileinkað sér top task aðferðina og þannig losað sig við efni úr langa halanum. Heimsóknir á þá jukust eftir að top task aðferðin var tekin upp og notendur þeirra tóku minni tíma í lausn lykilverkefnanna.
Höfundur: Atli Týr Ægisson, nemandi í vefmiðlun og hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.