Skip to main content
3. mars 2016

Samfélagsmiðlafíkn

benoSamfélagsmiðlar hafa haft víðtæk áhrif á líf okkar allra. Þeir eru okkur alltaf nærtækir, hvar sem er, hvenær sem er. Samfélagsmiðlar, sérstaklega Facebook, hafa náð að blanda sér inn í daglegt líf okkar og koma við sögu nánast alls staðar og við flestar athafnir hjá mörgum. Orðið samfélagsmiðill er einstaklega vel þýtt orð því það er meira lýsandi en „Social media“.  Forskeytið samfélag segir meira en orðið Social á ensku, sem þýðir einfaldlega eitthvað félagslegt. Facebook til að mynda, er ekki aðeins félagslegur vettvangur. Það er ekki skorðað við einstaklinga, heldur eru þar einnig alls konar fyrirtæki, stofnanir, verslanir, íþróttafélög, skólar, leikir og hinir ýmsu hópar eða grúppur eins og það er oftast kallað. Þar af leiðandi er orðið samfélagsmiðill einstaklega lýsandi og vel við hæfi.

En er það gott þegar svona mikil truflun er okkur í boði á hverri stundu?
Ýtir þetta ekki bara undir minni afköst og aukinn athyglisbrest?
Hverjar eru afleiðingarnar er að verða til ný tegund af fíkn, samfélagsmiðlafíkn ?

Eitt er ljóst, að samfélagsmiðlar eins og Facebook eru að reynast fólki ávanabindandi og stundum með neikvæðum afleiðingum („Online Networking ‘Harms Health’ “, M.T.).

Skilgreiningin á netfíkn er ítrekuð og óhóflega mikil netnotkun sem veldur truflun á daglegu lífi. Ef við setjum orðið Facebook inn fyrir orðið net þá erum við komin með skilgreininguna á Faceookfíkn. Ég held það sé óhætt að segja að margir myndu svara já ef þeir væru spurðir hvort að notkun þeirra á Facebook hafi ítrekað valdið þeim eða öðrum í kringum þá einhvers konar truflun. Ég hef persónulega lent í því og ég verð reglulega vitni að því hjá öðrum. Oftast er þetta ekki alvarlegra en það að fanga athygli einstaklingsins, en einnig veldur þetta dramatík í ástarsamböndum, í skólum og á vinnustöðum, sem getur endað með brottrekstri fíkilsins í öllum þremur tilfellum.

Flestir sem hafa farið út að borða hafa orðið vitni að pörum og vinahópum þar sem að allir eru annað hvort með andlitið ofan í símanum eða símann fyrir andlitinu. Flest hristum við líka hausinn við þessu en gómum okkur svo sjálf í sömu aðstæðum á annarri stundu.

En þrátt fyrir mikinn persónulegan vitnisburð um að ávani fyrir samfélagsmiðlum er til staðar og sé að valda sífellt meira tjóni, sérstaklega hvað yngri kynslóðirnar varðar, þá hefur ekki tekist að skilgreina vandamálið nægilega vel á vísindalegan hátt og það er lítið til af áreiðanlegum rannsóknum á viðfangsefninu.

Kimberly S. Young við háskólann í Pittsburgh í Bradford hefur líklegast verið mest áberandi, þegar það kemur að því að rannsaka netfíkn og hún hefur komið með ágætis skilgreiningu á netfíkn og skipt henni niður í fimm flokka.
1.    Tölvuleikjafíkn
2.    Upplýsingafíkn, að leita sér upplýsinga á netinu (Wiki)
3.    Net þráhyggja, fjárhættuspil og verslun
4.    Klámfíkn
5.    Félagsfíkn, að eiga netsambönd og samskipti við fólk á netinu („Online Social Networking And Addiction”, D.K. og .M.G.).

Tilgangurinn með samfélagsmiðlum er að auðvelda samskipti fólks, auka tengsl og almennt bæta félagslíf okkar. Í flestum tilfellum þá gera þeir það líka, en rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á að mikil Facebook notkun getur valdið fólki örðugleikum þegar þau hafa bein samskipti í eigin persónu (ekki í gegnum miðil) og jafnvel þunglyndi sem ýtir undir það að fólk einangri sig og forðast mannleg samskipti („UH Study Links Facebook Use to Depressive Symptoms”, M.C.)
Jafnvel þeir sem hafa mikið fylgi og eru virkir í félagslegu þáttunum á miðlinum, geta orðið fyrir tjóni. Þeir geta til að mynda misst tök á raunverulegum samböndum og eiga þar af leiðandi aðeins samskipti á netinu þar sem að upplýsingaskipti fara fram, en það skortir tilfinningalega gildið.

Að eiga tilfinningaleg samskipti eða tengsl við aðra er ein af grunnþörfum mannsins og skortur á því getur leitt til þunglyndis („Online Social Networking And Addiction”, D.K. og .M.G.).

Ein áhugaverð rannsókn á Facebook fíkn var framkvæmd af norskum rannsóknarmönnum við háskólann í Bergen í Noregi, undir leiðsögn Dr. Cecilie Andraessen. Eftir að hafa lagt spurningalista fyrir 423 nemendur, hafa þeir gefið út sálfræðilegan skala til að mæla Facebook fíkn.

Spurningalistinn var samansettur af 6 spurningum, sem rannsóknarmönnunum þótti ná sem best yfir helstu þættina sem lýsa Facebook fíkn. Spurningunum átti að svara á skalanum 1-5, þ.s. 1 var jákvæðasta svarið og 5 neikvæðasta. Að þeirra mati á viðkomandi við Facebook fíkn að stríða ef hann svarar fjórum eða fleiri spurningum á skalanum 4-5. Einnig virtust vera bein tengsl milli þess að fá slæma niðurstöðu og að hafa slæmar svefnvenjur og þeir sem eru metnaðarfullir og skipulagðir eiga það ekki til að ánetjast Facebook, heldur nota það frekar til samskipta tengt vinnu og þess háttar.

Tilgangurinn með rannsókninni er að auðvelda kannanir á hegðunarmynstri fólks sem glímir við Facebook fíkn. Rannsóknin og mæliskalinn nær aðeins til Facebook fíknar og er ekki hægt að endurtaka á öðrum vettvöngum. Mæliskalinn hefur verið nefndur BFAS sem stendur fyrir Bergen Facebook Addiction Scale („Facebook Addiction - New Psychological Scale”, 2015).

Það kemur í ljós að samfélagsmiðlafíkn fellur undir fleiri en einn af þessum fimm flokkum sem Kimberly Young setti fram um netfíkn, vegna þess að hugtakið er svo víðtækt. Það að vera háður samfélagsmiðli er ekki sambærilegt við það að vera háður t.d. fíkniefnum eða klámi. Takið líka eftir því að flestir af þessum fimm flokkum eru fremur víðtækir, sem gefur aðeins til kynna af hverju netfíkn er svo flókið og viðamikið hugtak sem við eigum enn mjög mikið ólært um. Sumir hafa lagt til að hugtakið sé úrelt og að það ætti ekki lengur að nota það, heldur eigi að koma með betri skilgreiningu.

Netfíkn segir nefnilega ekkert til um hvaða fíkn liggur þarna raunverulega á bakvið. Þetta er vegna þess að Internetið er ekki einhver einn hlutur. Internetið er okkar miðill fyrir alls konar upplýsingar, afþreyingu, fréttir, samskipti og þannig væri hægt að telja áfram endalaust. Það er algjört einsdæmi ef einstaklingur verður háður Internetinu heldur verður hann nánast alltaf háður einhverjum tilteknum hlut sem hann hefur aðgang að í gegnum Internetið. Það að vera háður Internetinu er ekki það sama og að vera háður einhverju ákveðnu inn á Internetinu („Facebook Addiction - New Psychological Scale”, 2015).

Þetta er eins með samfélagsmiðlafíkn. Inn á samfélagsmiðlum fer fram ýmis konar starfsemi og þeir sem verða háðir samfélagsmiðlum eru yfirleitt háðir einhverjum ákveðnum athöfnum inni á miðlinum, eins og að spila FarmVille á Facebook svo dæmi sé nefnt.

Það er eitt áhugavert sem virðist vera fasti í þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á samfélagsmiðlafíkn og það er að stelpur virðast hafa meiri tilhneigingu til að ánetjast samfélagsmiðlum. Sjá („Facebook Addiction - New Psychological Scale”, 2015 og „Online Social Networking And Addiction”, D.K. og .M.G.).

Þetta er áhugavert þegar horft er til þess að eitt algengasta og mest áberandi vandamál sem fylgt hefur samfélagsmiðlum og farið vaxandi í kjölfar þeirra, er sjálfs- og útlitsdýrkun ásamt slæms sjálfsálits. Það kemur líklega engum á óvart að þetta er verra hjá yngri kynslóðunum heldur en þeim eldri.

Stelpur eru í meiri áhættuhóp en strákar við að verða fyrir sálfræðilegum vandamálum hvað varðar útlit sitt. Stelpur eru einnig í meiri áhættuhóp við að ánetjast samfélagsmiðlum eins og Facebook og Instagram, þ.s. að fólk og þá einkum ungar stúlkur, eiga í hættu á að mynda sér einhvers konar útlitstengd geðvandamál eins og átröskunarsjúkdóma.

Samfélagsmiðlafíkn getur haft víðtæk áhrif og áhrifin eru einnig persónubundin. Ungir krakkar á aldrinum 10-20 ára eru líklegri en aðrir til að þróa með sér slæmt sjálfsálit og finnast þau einskisverð. Í rannsókn með rúmlega 200 manna úrtaki kom í ljós að um 75% þátttakenda tilkynntu að Facebook notkun þeirra hefði neikvæð áhrif á líf sitt, einkum hvað varðar tímasóun, truflun og lélega hæfni við að skipuleggja tímann sinn og sig sjálf („Online Social Networking And Addiction”, D.K. og .M.G.).

Það er þó greinilegt að samfélagsmiðlafíkn er ekki bara samfélagsmiðlafíkn heldur er yfirleitt eitthvað meira á bakvið það. Allir þessir miðlar bjóða upp á auðvelt aðgengi að einhverju sem við viljum og það auðveldar okkur þörfina til að fullnægja fíkninni. Það er því undir okkur sjálfum komið að bera virðingu fyrir þessum tólum og þeim áhrifum sem þau geta haft á okkur.

Við þurfum að viðurkenna okkar eigin veikleika og nota miðlana og Internetið í samræmi við það. Við verðum líka öllsömul að vera vakandi fyrir þeim vandamálum sem geta fylgt notkun samfélagsmiðla og sýna ábyrgð þegar við notum þá. Við verðum að vera fyrirmynd fyrir yngri kynslóðirnar og leggja okkar af mörkum til að sporna gegn einelti, útlitsdýrkun og þess háttar.

Samfélagsmiðlar eru ótrúleg uppfinning sem hafa gjörbreytt heiminum, en þeir eru líka tvíeggjað sverð. Með því að vera vakandi og upplýst getum við lágmarkað neikvæðu þættina sem fylgja þeim, en aðeins ef við vinnum saman og sýnum hvor öðru virðingu. Það er eins með samfélagsmiðla og allt annað sem er gott eða veitir manni vellíðan, athöfnin hættir að veita manni vellíðan þegar mis- eða ofnotkun á sér stað. Allt er gott í hóflegu magni sem er notað á skynsamlegan hátt, en fólk er mis veikt fyrir hlutunum og þegar einhver misstígur sig þá ber okkur skylda að hjálpa þeim einstaklingi, með því að láta hann vita að við erum honum til staðar og gæta okkur að sýna ekki fordóma.

Þó svo að það hafi ekki verið gerðar nægilega margar rannsóknir á net- og samfélagsmiðlafíkn þá hefur verið rannsakað fíkn almennt mjög mikið. Nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að ein helsta orsök fíknar er skortur á tilfinningalegum tengslum við annað fólk („The Likely Cause of Addiction Has Been Discovered, and It’s Not What You Think”, J.H.). En þá spyr ég, ef ein helsta orsök fíknar er skortur á tengslum, hvað þýðir það að vera háður tengslum, þ.e. nettengslum á samfélagsmiðlum?

Höfundur Bertel Benóný Bertelsson nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá

Online Networking ‘Harms Health’. (M.T.). (2015). BBC  Sótt 4. nóvember 2015 af http://news.bbc.co.uk/2/hi/7898510.stm

Online Social Networking And Addiction. (D.K. og .M.G.) (2015). MDPI. Sótt 8. nóvember 2015 af http://www.mdpi.com/1660-4601/8/9/3528/htm?hc_location=ufi

UH Study Links Facebook Use to Depressive Symptoms. M.C. (2015). University of Houston. Sótt 6. nóvemer 2015 af https://ssl.uh.edu/news-events/stories/2015/April/040415FaceookStudy.php

Facebook Addiction - New Psychological Scale. (2015). Medical News Today. Sótt 4. nóvember 2015 af http://www.medicalnewstoday.com/articles/245251.php

The Likely Cause of Addiction Has Been Discovered, and It’s Not What You Think. (J.H.). (2015). The Huffington Post. Sótt 8. nóvember 2015 af http://www.huffingtonpost.com/johann-hari/the-real-cause-of-addicti_b_6506936.html

Skoðað: 4278 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála