Skip to main content
17. mars 2016

Sýndarveruleiki í kennslu

thrir2Sýndarveruleiki er eitt það heitasta í tækniheiminum í dag. Hugmyndin um sýndarveruleika er gömul en hún er að verða að veruleika og því er að þakka þeirra ódýru og háþróuðu tækni sem við höfum í dag. Sýndarveruleiki er mikið notaður í tölvuleikjum, enda býður það upp á þann möguleika að færa spilarann inn í heim tölvuleikjanna.

Hvað um að nýta sýndarveruleikann til kennslu?
Sýndarveruleikinn getur haft gríðarlega mikil áhrif á kennslu, þar sem hann býður upp á að setja nemandann inn í umhverfi þar sem hann upplifir söguþráðinn líkt og hann sé hluti af sögunni. Þetta gefur honum því gífurlega mikla reynslu og þekkingu þar sem hann fær að upplifa söguna með eigin augum. Sem dæmi væri hægt að leyfa nemendum að upplifa Íslendingasögurnar af eigin raun, á þann hátt að þeir gætu fylgjast með sögunni eins og þeir væru fluga á vegg, í stað þess að lesa hana í líflausri bók.

Nú þegar hefur fyrirtæki á borð við Unimersiv hannað sýndarveruleika umhverfi. Þar getur notandinn meðal annars ferðast út í geim í ferðalag Apollo 11 þar sem hann fer í hlutverk Neil Armstrong og upplifir eitt stærsta geimferðalag mannkynssögunnar. Notandinn hefur einnig möguleika á því að ferðast aftur í tímann, á tíma risaeðlanna eða farið í geimferðalag þar sem hann fræðist um allar plánetur sólkerfis okkar (Baptiste G.). Heilbrigðissviðið er einn stærsti innleiðandi sýndarveruleika, þá aðallega til að þjálfa næstu kynslóðir lækna. Þetta gefur nemendum í skurðlækningu tækifæri á að þjálfa sig í öruggu umhverfi. Með þessu tóli geta nemendur öðlast mikillar reynslu og þekkingu áður en þeir fara að æfa sig á raunverulegum sjúklingum (Virtual reality in surgery).

Til eru alls konar hugmyndir um hvernig hægt er að nota sýndarveruleika í kennslu. Ein þeirra er kennslustofa í sýndarveruleika. Ímyndaðu þér að vera í tíma hjá Albert Einstein og hlusta á hann útskýra allar kenningar sínar. Þar að auki gæti hann gert það myndrænt. Fyrir þér birtast hnettir og atóm á meðan Einstein útskýrir með orðum hvað er að gerast. Þetta gefur nemendum möguleika á að læra eðlisfræði á svipaðan hátt og bifvélavirkjar læra hvernig vélar virka, með
því að sjá hlutina gerast (I magine sitting in a lecture room with Einstein as he talks about the Theory of Relativity.)

Sýndarveruleikinn býður upp á ótal margar leiðir til að kenna fólki á „óhefðbundinn“ hátt. Þegar fólk hugsar um kennslu hugsar það oft um kennara í kennslustofu með tuttugu til þrátíu nemendur. Fólk lærir á ýmsan hátt og ekkert bendir til þess að hefðbundna kennslan með kennara sé sú albesta. Fólk lærir margt sjálft með því að sjá, skoða, fikta, snerta, lesa og hlusta.

Sýndarveruleikinn getur auðveldað okkur að útskýra þá hluti sem erfitt er að útskýra nú þegar. Ef við höfum möguleika á að nýta okkur sýndarveruleika til að bæta kennslu ættum við ekki að gera það?

Höfundar greinar: Birgir Þór Óskarsson, Jóhann Gíslason og Lárus Konráð Jóhannsson, nemendur við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá

Baptiste G. Virtual Learning. Unimersiv. Sótt þann 22. febrúar 2016 af https://unimersiv.com/post/usingtheoculusrifttorevolutionizeeducation/
Imagine sitting in a lecture room with Einstein as he talks about the Theory of Relativity. Immersive VR Education. Sótt þann 22. febrúar 2016 af http://immersivevreducation.com/lecturevr/
Virtual reality in surgery. Virtual Reality Site. Sótt þann 22. febrúar 2016 af http://www.vrs.org.uk/virtual-reality-healthcare/surgery.html

Skoðað: 2750 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála