Skip to main content
15. október 2015

Augnablikið sem hverfur

snapSnapchat er einn vinsælasti samfélagsmiðill í heimi. Hér á landi er Snapchat annar vinsælasti samfélagsmiðillinn samkvæmt Capacent Gallup en Facebook trónir á toppnum í notendafjölda. Yfir 100 milljón manns um allan heim nota Snapchat daglega. Snapchat geymir ekki það efni sem fólk sendir og þær sögur sem settar eru þar inn lifa einungis í sólarhring og síðan eru þær horfnar – gleymdar að eilífu.

Þegar litið er á söguna þá eru stutt myndbrot eins og Snapchat býður upp á ekki ný hugmynd sem nýtur hylli almennings. Í árdaga kvikmyndanna voru stutt myndbrot, undir mínútu að lengd, fyrstu lifandi myndirnar sem fólk sá. Yfirleitt svipmyndir af hversdagslífi, teknar í einu skoti og án allrar klippingar og tæknibrellna. Ekki ósvipað eiginleikum Snapchat.

Snapchat er í grunninn samskiptamiðill en það sem dregur fólk sérstaklega að Snapchat er að samskiptin gleymast. Þau eru ekki geymd og ekki hægt að fletta þeim upp. Á tímum þar sem okkur finnst eins og allt sem við gerum á netinu sé vistað og skráð þá er auðvelt að sjá hversu heillandi Snapchat er.

Við lifum á tímum þar sem minningar, atburðir og daglegt líf er fest á ,,filmu” á hverjum degi, á hverri einustu sekúndu um allan heim. Trilljónir pixla sem lifa í stafrænni veröld. Flestar myndir eigum við ekki í föstu formi heldur í farsímanum, tölvunni eða í skýinu og stór hluti þessara mynda mun aldrei lifa áfram.

Við tökum svo mikið af ljósmyndum í dag að stór hluti þessara mynda mun týnast, eyðileggjast eða hverfa á einn eða annan hátt. Það er því ákveðin hugarró sem fylgir því að taka myndskeið og ljósmyndir með Snapchat vegna þess að við vitum að myndskeiðin eða ljósmyndirnar hverfa, þær eru ekki vistaðar í gagnagrunni eða hægt að fletta þeim upp á Google eða Facebook. Af þeim sökum þá opnar Snapchat fyrir þá möguleika að leyfa sér að taka eins mikið efni og maður vill án þess að þurfa að ná rétta sjónarhorninu eða hafa áhyggjur af mynduppbyggingu. Með Snapchat verðum við móttækilegri fyrir því að sýna okkar sanna sjálf eða skapa okkur hliðarsjálf.

Það er þessi eiginleiki sem gerir Snapchat svo vinsælan samfélagsmiðil. Með smáforritinu náum við augnablikinu sem svo hverfur. Það fylgir því ákveðin hreinsun (kaþarsis) að vita að myndefnið varðveitist ekki heldur glatast að eilífu.

Það er því kannski kaldhæðni örlaganna þegar Snapchat er borið saman við fyrstu kvikmyndirnar um aldamótin 1900 að ríflega 80% af árdaga kvikmyndunum eyðilögðust eða var eytt viljandi.

Höfundur: Ragnar Trausti Ragnarsson, markaðsfulltrúi hjá Nova

Mynd fengin af https://www.google.com/search?q=snapchat+photo&tbm=isch&tbo=u&source=univ&sa=X&ved=0CB8QsARqFQoTCLbqhNmzxMgCFYhwPgodDMsCXQ&biw=1280&bih=611

Skoðað: 2109 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála