Skip to main content
18. júní 2015

UST fyrir alla?

asrunMÍmyndaðu þér að það væri engin upplýsingatækni (UST) til? Hvernig væri líf þitt þá? Þú hefðir engan farsíma, engan snjallsíma, enga spilara, ekkert sjónvarp, ekkert net og því engar tölvupóst, Facebook, Twitter, Snapchat, varfara eða tölvuleiki, bara engar tölvur. Þú gætir auðvitað lifað án alls þessa þó þér þyki það kannski ekki fýsilegur kostur. Í raun treystum við á UST til að auðvelda okkur lífið s.s. til að fá rafmagn, keyra um, fljúga og ótalmargt fleira sem við hugsum ekki einu sinn út í (1). Án alls þessa væri lífið mjög ólíkt því sem það er í dag.  

UST þróast hratt og eflaust er hægt að segja að vikulega eða oftar komi fram nýjungar sem reynt er að koma á framfæri við notendur. Nýsköpunin er komin út úr stóru fyrirtækjunum og liggur í dag meira hjá einstaklingum og smáfyrirtækjunum. En hvað þýða allar þessar nýjungar fyrir heiminn, eða bara mig og þig? Hvernig getum við nýtt okkur þetta allt saman? Þeir sem vilja lesa meira um hvað er nýjasts í dag geta t.d. kíkt á Top 6 ICT trends 2014 og Gartner: Top 10 Technology Trends for 2015 IT can’t ignore.

Það er sérstaklega eitt sem UST kallar á, það er þekking, ekki bara þekking notandans á notkunarmöguleikum tækja og hugbúnaðar heldur einnig þekking sem getur skapað nýjungar og viðhaldið því sem þegar er til.  Notandinn þarf að kynna sér nýja möguleika og finna út hvað nýtist honum best hverju sinni, sumir leggja á sig að kafa djúpt og vilja vita um allt sem hægt er að gera á meðan aðrir hafa hvorki tíma né áhuga og vilja bara vita um einföldustu atriðin.

Á vegum Tölvumála hefur oft verið fjallað um menntun í UST, t.d. um kennslu í forritun, notkun á spjaldtölvum í kennslu og hvernig hægt sé að auka áhuga á námi tengdu UST og þá sérstaklega hvort hægt sé að auka áhuga kvenna. En það sem við höfum minna fjallað um er notandinn og þekking hans eða þekkingarskortur. Það vill þannig til að ákveðnir hópar nýta UST minna en aðrir og er áhugavert að skoða betur þá hópa.

Lítum á einn hóp. Í tölum frá Hagstofunni þar sem upplýsingatæknin er flokkuð með ferðamálum og samgöngum, má sjá að 96,5% Íslendinga höfðu aðgangur að tölvum og neti á heimilum á árinu 2014. Þar má einnig sjá að í aldurshópnum 16-34 ára hafa allir aðgang að netinu en síðan lækkar hlutfallið og er komið niður í 88,9% í aldurshópnum 65-74 ára, sem segir okkur aðum 2.700 einstaklingar á Íslandihafa ekki aðgang að netinu. Hjá Hagstofunni má líka finna út að 82,1% í þessum aldurshóp notar tölvu daglega eða næstum því sem segir að um 4.450 manns nota tölvuna ekki daglega (2).

Í meistararitgerð sinni við Háskóla Íslands kemst Helgi Þórhallsson að þeirri niðurstöðu að „..  að nýti aldraðir  sér  upplýsingatæknina  batna lífsgæði  þeirra. Það skýrist af  því  að  þeir  eru  síður  einmana,  taka  aukinn þátt í þjóðfélaginu, finna aukinn tilgang í lífinu, geta búið lengur heima hjá sér og styrkjast af andlegri hæfni“ (3).

Það væri gaman að heyra í fleirum og fá svör við spurningunni: Er þessi hópur að missa af einhverju sem gæti aukið lífsgæði hans?

Höfundur: Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík

Heimildir:
1.    http://www.theredhillacademy.org.uk/pluginfile.php/12540/mod_resource/content/1/Chapter%201.pdf
2.    Hagstofan.is
3.    Helgi Þórhallsson (2012). Geymdir eða gleymdir : aldraðir, upplýsingatæknin og lífsgæðin. Meistararitgerð HÍ. http://skemman.is/item/view/1946/12986

Skoðað: 2446 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála