Með jákvæðni að vopni er allt hægt
Harpa er stærsta tónleika- og ráðstefnuhús landsins og þarf lítið að kynna það fyrir lesendum. Aðalsalur Hörpu tekur 1800 manns í sæti og þar eru í hverjum mánuði settir upp margs konar viðburðir, hvort sem það eru tónleikar, óperur, sýningar eða ráðstefnur. Allt þarf þetta að ganga upp á þann máta að þeir sem sýna og þeir sem hlýða á séu sáttir. Við erum vön því að líta glæsilega gluggabrynju hússins augum en Tölvumál tók tæknistjóra Hörpunnar, Hrannar Hafsteinsson, tali um þá hlið Hörpunnar sem við sjáum sjaldnar en er þó nauðsynleg starfsemi hennar.
Hrannar segir tæknideildina þurfa að vera eins og tannhjól í vél sem þurfi að snúast án truflana því það sé auðvelt að klúðra tæknimálunum. „Við erum 12 að jafnaði sem erum í tækniliðinu. Við reynum að styðja hver annan og flestir eru fjölhæfir tæknimenn þó að nokkrir séu með sín sérsvið. Til dæmis eru þrír í hljóðgeiranum og einblína á það, fimm eða sex sem eru sviðsmenn og sérfræðingar á því sviði, að redda hlutunum.“
Hrannar segir góðan mannskap vera lykilatriði svo að allt gangi upp. „Ef tæknimaður missir tækniviljann og er ekki lengur til í að prófa nýja hluti er hann snöggur út. Þó að búnaðurinn hérna sé afar góður og að miklu leyti sjálfvirkur þá er aldrei hægt að missa þennan mannlega þátt. Ef það er til dæmis söngprógramm í gangi þá þarf söngvarinn ekki annað en að tala í lengri tíma milli laga en áætlað var og þá er fer allt í handaskolum. Á tónleikunum hjá Kraftwerk var tímakóði á bak við allar skipanir í kerfinu en þeir þurfa samt sem áður að stjórna honum sjálfir á sviðinu. Þeirra „show“ var reyndar ótrúlega fullkomið, en eins og alltaf, þarf líka mannshöndin að koma að því þegar það er flutt. Hrannar er ánægður með búnaðinn sem notaður er í Hörpunni. „Hann er rosalega góður hér og það var vandað til við innkaup og val á honum. Honum er tölvustýrt að miklu leyti, við getum stýrt honum hvaðan sem er, heiman frá, frá skrifstofunni, til dæmis er þá hægt að stýra ljósum óháð því hvar maður er staddur.“
Miðað við hversu margir viðburðir eru í Hörpunni í hverjum mánuði, eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að gera? „Við getum tekið öll verkefni, svo lengi sem viðkomandi listamaður getur aðlagað sig að húsinu, að veggjum og skipulagi salarins, þá erum við til í allt. Um daginn var meira að segja MMA hérna, þá kom einn svífandi af efstu svölum og lét sig síga niður, þetta var svona wrestling-grín. Já, það er eiginlega allt hægt ef maður hefur tíma, jákvæðni og jú, peninga.“
Þegar setja á upp atriði sem eru ekki hönnuð með Hörpuna sérstaklega í huga segir Hrannar að Harpan sé vel útbúin upp á viðbætur að gera. „Ef maður byrjar tímanlega og gerir fólki grein fyrir húsinu þá er mjög auðvelt að vinna með fólki sem kemur inn í húsið með eigin uppfærslu, eins og til dæmis Stomp. Svona verkefnum fylgir yfirleitt 10-20 síðna bæklingur sem ég skoða, greini og teikna inn í tölvuforrit sem er 3D teikniforrit af sölunum. Inni í því eru öll hlutföll rétt og þar teikna ég þeirra „set-up“ inn í og reyni að færa til eftir þörfum. Ég get hoppað inn í salinn í þrívídd, get sest í hvaða sæti sem er í salnum. Ég get tengt ljósaborðið við og byrjað að forrita ljósin og sett element inn eins og sviðspalla. Ég get prentað út úr forritinu og vistað sem pdf-skjal, svo er þetta sent á milli þangað til allir eru ánægðir. Það er mjög tímafrekt að teikna þetta upp en mjög gaman líka.“ Hrannar segir þetta sama forrit meðal annars vera notað í Eurovision-keppninni og fyrir tónlistarhátíðina í Hróarskeldu.
Baksviðs í Hörpunni
Forritið sem Hrannar lýsti hér að ofan heitir WYSIWYG Hann notar jafnframt önnur forrit til að setja upp viðburði og halda utan um starfsemi sinnar deildar. „Ég nota EasyJob, forrit sem er eiginlega hjartað í starfseminni í okkar deild og heldur utan um allan búnað og mannskap. Þar sér maður hvar búnaður er staðsettur, hvenær þarf að nota hann, hvort verið sé að nota hann á ákveðnum tíma. Þetta er forrit er fyrir leigur eða hverja þá starfsemi þar sem eitthvað kemur inn og fer út reglulega. Þetta er svo mikið af búnaði að það er ekki hægt að halda utan um þetta í Excel-skjali. Við notum EasyJob til að reikna verð á búnaði og hægt að skrá að búnaður sé farinn út ákveðið mörgu sinnum og þurfi því viðhald. Þarna er líka listi yfir starfsmenn og hvaða hæfni þeir hafa. Navision er svo annað sem ég nota, sem snýr að mér. Ofan á það kemur Cenium add-on, sem er sérstaklega skrifað fyrir hótel, ráðstefnur og fundi og við notum ráðstefnuhlutann en þær eru stór hluti af starfseminni hér í Hörpu.“
Og hvað er mælikvarði Hrannars á góða tæknivinnu? „Okkar vinna fer fram á bakvið tjöldin en er samt nauðsynlegur hluti að hverri einustu uppsetningu. Ég held að það sé einfaldast að segja að ef öllum líður vel, gestum og tónlistarfólki, og ef enginn minnist á tæknina, þá hefur gengið vel.“
Guðbjörg Guðmundsdóttir, textagerðarmaður, vann viðtalið
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.