Skip to main content
12. febrúar 2015

Facebook hefur öðlast sjálfstætt líf innan skólakerfisins

steindorÁ skömmum tíma hefur stór hluti Íslendinga skráð sig á samskiptavefi og afleiðingin af því er sú að myndast hefur nýr grundvöllur samskipta hjá stórum hópi fólks á aldrinum 25 – 45 ára. Fólk sem venjulega hefði ekki af ýmsum ástæðum haft samskipti er farið að mynda ýmiskonar tengsl við hvort annað. Á seinustu misserum hefur samskiptavefir reynst háskólafólki ómissandi námstæki það á t.d. til að stofna formlega hópa utanum hvert námskeið fyrir sig, óformlega hópa samnemenda eða bara almennt spjall.

 

Ég hitti fyrir háskólanemanda, Steindór Inga Snorrason, sem byrjaði aftur í námi eftir langt hlé. Hann lauk námi við Frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík jólin 2014 og stundar nú nám við tölvunarfræðideild sama háskóla. Þegar Steindór byrjaði í sínu námi fyrir  um tveimur árum kom það honum verulega á óvart hversu mikinn þátt upplýsingatækni og samskiptavefir á borð við facebook áttu í að aðstoða hann við námið.

Segðu mér Steindór hvernig var að setjast aftur á skólabekk eftir svona langa pásu?
Það var margt sem kom á óvart við að setjast aftur á skólabekk. Sem dæmi þá kom það mér mikið á óvart hversu auðvelt ég átti að tileinka fög eins og stærðfræði sem höfðu áður reynst mér flókin. Þá fannst mér afar skemmtilegt að kynnast því hvernig framþróun tölvutækninnar hefur breytt kennsluaðferðum gríðarlega á þessum 10 – 15 árum sem ég var í námshléi.

Hvað áttu við þegar þú talar um framþróun í kennsluaðferðum?
Þegar ég var seinast í skóla var t.d. nýbúið að finna upp Internetið, en nú getur maður vart lært staf án þess að heimsækja heimasíðu tölvukerfis skólans til þess að sækja sér hverskyns námsgögn, skila verkefnum eða lesa tilkynningar frá kennurum. Það virðist hreinlega orðið fráleitt að geta stundað skólagöngu án þess að vera nettengdur!

Myndir þú segja að þú nýtir þér samskiptavefi á borð við facebook við námið?
Já það geri ég svo um munar. Mín upplifun er að samskiptavefir eins og facebook virðist hafa öðlast sjálfstætt líf innan skólakerfisins. Á facebook eru stofnaðir ótal hópar í kringum hvert fag, og jafnvel hvert verkefni innan hvers fags, og gildir þá einu hvort meðlimir hvers hóps eru fjórir eða fjörutíu. Á facebook fer fram öll hin óformlega kennsla. Nemendur t.d. spyrja hvern annan spurninga sem þeir hefðu hugsanlega ekki gert í kennslustofunni, deila ýmsum námsgögnum sín á milli og eiga upplífgandi samskipti sem gera námið oft skýrara og áþreifanlegra á marga vísu. Mín upplifun er líka sú að ég hefði ekki haft samskipti við ýmsa aðila nema fyrir tilkomu facebook.

Hvað finnst þér um þessa þróun? Finnst þér hún vera af hinu góða eða er þetta þróun í ranga átt?
Ég er fyllilega sáttur við þessa þróun og tel líklegt að það að geta notað facebook til samskipta hafi hækkað meðaleinkunnina mína um 1,5 til 2,0 þær þrjár annir sem ég hef stundað nám hér Mér finnst gríðarlega gott að geta átt samskipti á því plani sem facebook bíður upp á og ég vona að eigi eftir að eiga jafn árangursrík samskipti við skólafélaga mína innan tölvunarfræðinnar eins og ég hef átt við nemendur frumgreinadeildar skólans.

Fanney

 

Fanney Þóra Vilhjálmsdóttir nemandi við HR tók viðtalið

Skoðað: 2348 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála