Skip to main content
11. desember 2014

Facebook-Stórkostleg uppfinning eða endalok friðhelgar

ElinBjork CVGH

Samfélagsmiðilinn Facebook er fyrirbæri sem við könnumst all flest við. Það hefur vaxið gífurlega ár frá ári og er orðin hluti af daglegu lífi hjá flestum þeim sem hafa aðgang af tölvum og interneti. Í þessari umfjöllun munum við skoða betur þetta umdeilda en geisivinsæla alheimsundur. En það er ekki allt gull sem glóir og eins og flest önnur fyrirbæri hefur Facebook sína kosti og galla. Við skoðum friðhelgi einstaklinga á Facebook og hvernig upplýsingar sem það setur inná síðuna geta komið þeim um koll seinna meir.

Árið 2010 var gerð könnun um hvað fólki fannst vera besta uppfinningin og var meiri en helmingur eða 73% allra sem sögðu að það væri Facebook. (The Telegraph, 2010). Virkir notendur á Facebook í hverjum mánuði eru um 1,32 milljarður manna og það eru um 802 milljónir sem skrá sig inn daglega á samskiptamiðilinn (Noyes 2014).

Facebook hefur verið hannað fyrir stóran notenda hóp og forsendurnar fyrir notkun hvers og eins eru margbreytilegar. Flestir nota samfélagsmiðillinn daglega, hver og einn í sínum tilgangi, en Facebook er staður þar sem fólk getur deilt myndum, viðburðum, stöðu uppfærslum úr lífi sínu og spilað leiki með vinum sínum.

Fyrir mörgum hefur samfélagsmiðillin þó mun dýpri og meiri tilgang og virðist það tengjast ákveðnum kynslóðum en fyrir þeim er Facebook í raun samfélag. Þessar tilteknu kynslóðir nota Facebook fyrir allt sem þær þarfnast. (Yeung, 2014)  Megin áhersla Facebook er að notendur hafi frelsi til þess að dreifa þeim upplýsingum sem þeir vilja, í hvaða formi sem er og eigi rétt á því að tengjast hverju sem er á netinu, hvort sem það er manneskja, fyrirtæki eða önnur þjónusta á meðan báðir aðilar samþykkja að tengjast. (Facebook, e.d.)

Facebook er núna þýtt á 37 tungumálum og er íslenska eitt af þeim. Helstu samskiptamiðla eiginleikarnir hjá Facebook eru skilaboðaþjónustan (e.messenger), tímalína (e.timeline), hópar (e. groups), viðburðir, síður, mynda albúm, stöðuuppfærslur (e. status updates) og friðhelgisstillingar(e. privacy settings). (Rouse, 2014)

Afhverju að nota Facebook?

Það eru þegar til margar aðrar leiðir til þess að eiga samskipti á netinu. Nokkur dæmi eru að senda tölvupóst, nota spjallþræðir, deila myndum á instagram og fleira. Hvað gerir Facebook einstakt og afhverju velur fólk Facebook til þess að spjalla við vini og deila myndum með fjölskyldunni?

Fyrir mörgum ertu ekki til ef þú átt ekki facebook aðgang og í raun horfa margir á aðgang þinn eins og tölvupóstfang. Facebook hefur unnið að því að notendur geti innskráð sig í önnur öpp með Facebook aðgangi sínum, það auðveldar notendum nýskráningu í nýjum öppum. Við nýskráningar í öpp er oft beðið um alls kyns upplýsingar og er í flestum tilvikum vænlegur kostur að skrá sig bara með Facebook vegna þess að það veitir þær upplýsingar sem er vanalega spurt um. Þetta sparar notendum að vera alltaf að skrá sömu upplýsingarnar aftur og aftur. (Stokes, 2014)

Ef við skoðum upplýsingasamskipti milli tveggja einstaklinga þá hefur Facebook tekið yfir smáskilaboð og tölvupóst með Facebook skilaboðum (e.messenger) þar sem flestir farsímar nú til dags hafa Facebook smáforritið (e.app). Fólk er farið að fylgjast betur með þessu skilaboðasmáforriti en tölvupóstinum sínum eða smáskilaboðum og telur skilaboðin fljótlegri og skilvirkari en hin fyrrnefndu. (Arthur,2012)  Samskiptin sem fara fram í Facebook skilaboðum eru  persónuleg og engin sér þau nema þeir sem eru að senda þau sín á milli. 

Ef notandi vill koma skilaboðum á vin sinn og er sama um hvort aðrir sjái það þá þarf hann ekki annað en að skrifa á tímalínuna (e. timeline) hjá félaga sínum. Það sem kemur fram á tímalínunni er sýnilegt öllum vinum þess notanda. (Luck, e.d.) Ef notandi vill deila einhverju með öllum vinum sínum á Facebook þá getur hann notað stöðuuppfærslu (e.status) sem deilist á hans eigin tímalínu. Þá getur notandinn einnig ráðið hvort hann vilji deila með öllum vinum sínum eða aðeins ákveðnum aðilum .(Facebook,e.d.)

Friðhelgi Facebook hefur verið mjög umdeild frá því fyrirtækið var stofnað og stór hópur fólks vill ekki vera á Facebook vegna þess að þeim finnst skortur á friðhelgi þar. Facebook er hinsvegar með mjög skýra persónuverndarstefnu.

Samskiptamiðillinn hefur ákveðnar megin reglur sem þeir hafa sinnt mjög vel fram til dagsins í dag. Facebook er hannað til þess að það sé auðvelt að deila upplýsingum með hverjum sem er. Hver og einn ákveður hve miklum upplýsingum honum líður vel með að deila á Facebook og getur hver og einn notandi stjórnað því í einkastillingum (e.privacy setting). Þegar notandi stofnar aðgang fær hann sjálfgefnar stillingar en þarf sjálfur að bera ábyrgð á því að breyta þeim eins og hann vill (Facebook, 2009).

Facebook er ekki eins og hver önnur vefsíða. Facebook er einnig þjónusta til þessa að deila upplýsingum um þig til annara smáforrita eða vefsíðna. Notandinn getur ákvarðað hvernig upplýsingar um sjálfan sig birtast þriðja aðila í gegnum stillingar smáforritsins (e.application settings) (Facebook, 2009). Í dag snýst öll tækni um að gera hlutina auðveldari fyrir notendann og hafa þeir staðið sig með prýði eins og við sjáum hér fyrir ofan í því takmarki.

Nú spyrjum við okkur er Facebook að standa sig vel í að halda friðhelgi notenda?

Endalok friðhelgarinnar

Internetið kom inn á heimili almennings fyrir rúmlega 15 árum. Þá er talað um að friðhelgin hafi byrjað að hverfa en einhvern veginn tók engin eftir því. Allt í einu var nýr heimur opin fyrir öllum og ekki komnar neinar reglur né lög um hvað mátti og mátti ekki gera í þessum nýja heimi. (Weinstein, 2013)

Spurning sem allir ættu að spurja sig út í dag er, hversu mikilvæg er friðhelgi einkalífsins? Er ekkert til lengur sem heitir friðhelgi einkalífsins eða er okkur einfaldlega bara alveg sama? Þetta þarf hver og einn að ákveða fyrir sig en mikilvægt er að komast að niðurstöðu. Þegar notandi setur inn stöðuuppfærslu á Facebook eða myndir er það oft merkt með pínu litlum hnetti í horninu á aðgerðinni, þessi litli hnöttur þýðir að allir sem hafa áhuga á geta lesið eða séð það sem notandinn setur inn. Þó er hægt að breyta þessari stillingu með því að ýta á hnattmerkið og breyta stillingum úr ,,opið fyrir alla” yfir í ,,aðeins vinir sjá”. Ekki er þörf fyrir viðkomandi að vera skráður inn á Facebook heldur er nóg að nota til dæmis að nota leitarvélina google og leita að nafni notanda. Þetta eru fyrirtæki byrjuð að nýta sér. Hinsvegar er hægt að stilla Facebook þannig að ekki sé hægt að leita að ákveðnum notanda.

Þegar fyrirtæki eru að ráða í störf hjá sér er ekkert mál að skoða Facebook síðu viðkomandi umsækjanda og skoða myndir, stöðuuppfærslur nú eða í hvaða skóla þú varst í eða áhugamál. Með þessu geta vinnu veitendur  eða tryggingarfélög til dæmis komist að allskonar upplýsingum um aðilann án þess að hann viti af því. (Consumer Reports, 2014) Í Bandaríkjunum hafa einnig verið stofnuð fyrirtæki sem sjá um að finna upplýsingar um aðila fyrir fyrirtæki í gegnum samskiptamiðla á borð við Facebook. Þetta er allt fullkomlega löglegt samkvæmt Facebook en þó svo að þetta sé löglegt geta þær upplýsingar sem finnast haft mikil áhrif á umsókn viðkomandi hjá því fyrirtæki sem hann er að sækja um eða hjá tryggingarfyrirtækinu. Samkvæmt Social Intelligence eru 43% þeirra sem sækja um stöðu sem framkvæmdarstjórar í bandarískum fyrirtækjum með einhverjar upplýsingar á netinu sem urðu til þess að þeir fengu ekki stöðuna. (Social Intelligence, e.d.)

Þann 31. maí 2010 var sett af stað herferð, Quit Facebookday (quitfacebookday.com), gegn persónuverndarstefnu Facebook. Í henni fólst að sniðganga Facebook alveg og þeir notendur sem tóku þátt lokuðu aðgöngum sínum. Facebook gefur fólki ákveðna kosti um hvernig og hverjum þau vilja sýna gögnin sín, þ.e. myndir, stöðuuppfærslur og fleira, en herferðin var sett af stað vegna lélegra valkosta og hversu erfitt væri að skilja þá valkosti sem eru í boði. Síðan þá hafa 40935 skráð sig í herferðina og hætt á Facebook. (We‘re quitting Facebook, e.d.)

Fyrir rúmu ári gerði teymi frá Háskólanum í Vín í Austurríki, rannsókn á 310 manns sem skráðir voru í Quit facebook day og 321 manns sem ákvað að vera áfram á Facebook. Þar kom í ljós að þeir sem hættu á Facebook voru 72% karlmenn með meðalaldurinn 31. árs og flestir almennt eldri en þeir sem héldu áfram á Facebook. Þeir notendur sem héldu áfram voru 71% konur með meðalaldurinn 24. ára Rúmlega helmingur þeirra sem hætti á Facebook sagðist hafa hætt vegna friðhelgis- eða siðferðis áhyggja um hvernig persónulegar upplýsingar yrðu notaðar. (Szalavitz, 2013)

Unglingar og Facebook

Í maí 2013 gerði The Pew Research Center í Bandaríkjunum rannsókn um Facebook notkun unglinga á aldrinum 12-17 ára. Þar kom í ljós að aðeins 60% voru með Facebook síðuna sína stillta þannig að aðeins vinir þeirra gátu séð hana. Næstu 25% voru með sínar síður stilltar þannig að vinir vina sinna gátu séð myndir, stöðuuppfærslur og fleira og 14% voru með sínar síður alveg opnar fyrir öllum á netinu. Einnig kom í ljós að stelpur eru líklegri til að hafa sínar síður lokaðar, þ.e. um 70% þeirra voru með það stillt þannig en aðeins 50% strákanna. (Madden o.fl, 2013)

Niðurstaða

Í þessari grein höfum við aðeins fjallað um brot af því sem samskiptamiðillinn Facebook hefur uppá að bjóða og það helsta sem samskiptamiðillinn hefur verið gagngrýndur fyrir. Markmið þessarar greinar var ekki að ákveða fyrir fólk hvort það eigi að vera skráð á Facebook eða hverju það eigi að deila með öðrum, heldur reyna að opna augu fólks um friðhelgi samskiptamiðilsins og fá fólk til að hugsa um hvað það er að setja á netið, því gögnin geta oft verið opin fólki sem ætti kannski ekki að vera að sjá þau.

Niðurstaða okkar er að Facebook er stórfengleg uppfinning en fólk þarf að læra að nota hana rétt og á þeirra eigin forsendum. Ef við skoðum yngri hópana sem nota Facebook þá mætti mögulega leiðbeina þeim betur þegar þau hefja notkun sína á samskiptamiðlinum og benda þeim á hvað þarf að varast og hvað er í lagi. En auðvitað þurfa þau, og allir aðrir, að passa hvaða upplýsingar eru settar inn í byrjun og í framhaldi að fylgjast vel með vegna þess að það sem er sett á netið, ekki bara Facebook heldur hvaða miðil sem er, mun alltaf vera á netinu.
Við munum fylgjast spenntar með framtíð þessara merkilega fyrirbæris og það er aldrei að vita hvað þeir bjóða okkur uppá næst.

Höfundar: Elín Björk Jónsdóttir og Guðrún Hauksdóttir nemendur við Háskólann í Reykjavík

Heimildarskrá
Arthur, C. (2012, desember). The Guardian. Í Facebook turns Messenger into a text message killer. Sótt 6.október 2014 af http://www.theguardian.com/technology/2012/dec/04/facebook-messenger-android-sms-killer
Consumer Reports. (2014, mars). Facebook‘s biggest privacy risk: How to beat it. Sótt 7.október 2014 af  http://www.consumerreports.org/cro/news/2014/03/how-to-beat-facebook-s-biggest-privacy-risk/index.htm
Facebook. (2009, október). Facebook‘s privacy policy. Sótt 7.október 2014 af https://www.facebook.com/note.php?note_id=%20322194465300
Facebook. (e.d.). Facebook Principles.Sótt 6.október 2014 af https://www.facebook.com/principles.php
Facebook. (e.d.).How sharing works. Sótt 6.október 2014 af https://www.facebook.com/about/sharing
Luck, C. (e.d.) Chron. How to post on someone‘s wall on Facebook. Sótt 7.október 2014 af http://smallbusiness.chron.com/post-someones-wall-facebook-54588.html
Madden, M., Lenhart, A., Cortesl, S., Grasser, U., Duggan, M., Smith, A. Beaton. M.(2013, maí) Pree Research internet project. Teens,Social Media,and Privacy. Sótt 7.október 2014 af
http://www.pewinternet.org/2013/05/21/teens-social-media-and-privacy/
Noyes, D (2014, júní). Zephoria. The top valuable Facebook statistics. Sótt 7.október 2014 af https://zephoria.com/social-media/top-15-valuable-facebook-statistics/
Rouse, M. (2014, ágúst). Facebook. Sótt 6.október 2014 af:http://whatis.techtarget.com/definition/Facebook
Social Intelligence. (e.d.). Social insight. Sótt 7.október 2014 af http://www.socialintel.com/social-insight.html
Stokes, N. (2014, maí). Should you use Facebook or Google to log into other sites. Sótt 6.október 2014 af http://www.techlicious.com/blog/should-you-use-facebook-or-google-to-log-in-to-other-sites/
Szalavitz, M. (2013, september). Time. Behind the „unlikes:“ Understanding why people quit Facebook. Sótt 7.október 2014 aÍ  http://healthland.time.com/2013/09/19/behind-the-unlikes-understanding-why-people-quit-facebook/
The Telegraph. (2010, febrúar). Technology News. Facebook voted best invention of the decad. Sótt 6.október 2014 af www.telegraph.co.uk/technology/facebook/7316391/Facebook-voted-best-invention-of-the-decade.html
Weinstein, M. (2013, apríl). The Blog.  Is privacy dead? Sótt 7.október 2014 af http://www.huffingtonpost.com/mark-weinstein/internet-privacy_b_3140457.html
We‘re quitting Facebook. (e.d.) Why are we quitting?  Sótt 7.október 2014 af http://www.quitfacebookday.com/
Yeung, K. (2014, febrúar).Facebook at 10: How it grew from a social network to a social phenomenon. Privacy readjusted, but not forgotten. (e.d.). Sótt 6.október 2014 af http://thenextweb.com/facebook/2014/02/16/facebook-10-moved-just-social-network-impact-lives/2

Skoðað: 4640 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála