Skip to main content
8. janúar 2015

Vefstjórar og tækniþekkingin

SigurjonOlafsson bw2 highres new-200x300Vefstjóri í fyrirtæki þarf ekki að búa yfir yfirgripsmikilli tækniþekkingu, það er misskilningur og mýta frá gamalli tíð þegar kerfisstjórar voru í reynd vefstjórar. Almennt gætir mikils misskilnings um hlutverk vefstjóra. En hvað sem þessu liður þá þarf vefstjóri að afla sér lágmarksþekkingar og ekki síst þekkja grundvallaratriðin í HTML og lykilhugtök til að geta átt samskipti við tæknimenn.

Það er líka mikilsvert að átta sig á hvernig vefir eru hýstir, hvert er hlutverk gagnagrunna, hvað þarf til að kalla fram vefsíðu og birta í vafra svo fátt eitt sé nefnt. Það er líka sálarhjálparatriði að þekkja grundvallarhugtök og skilaboð á borð við DNS, IP, ISP, IIS, SQL, .NET, Javascript, 301, 404 og 500.

 

Í þessari grein* er fjallað á mannamáli um nokkrar skilgreiningar á grunntækni vefviðmótsins. Hann færir suma vefstjóra vonandi aðeins nær skilningi á eðli vefsins eða fær tæknimenn og reyndari vefstjóra til að hlæja yfir einfeldningslegri útgáfu af flóknari hlutum!

Hvað er HTML?

Í huga hins venjulega vefrápara er HTML (HyperText Markup Language) forritunarmál vefsins en réttara er að kalla það umbrotsmál. HTML lýsir innihaldi vefsíðu og er grunnur allra vefsíðna á netinu. Með HTML er hægt að skilgreina texta, myndir, töflur, tengla og fleira.

Í HTML eru textaskjöl sem fylgja ákveðnum reglum. Þegar viðeigandi vafri (e. browser) les HTML textaskjalið þá er það túlkað og innihaldinu breytt í myndrænt form fyrir notandann.

HTML hefur tekið ýmsum breytingum frá því að það kom fram á sjónarsviðið fyrst en þróunarsagan verður þó ekki rakin hér. Rétt er þó að minnast á nýjustu útgáfuna sem heitir HTML5. Með henni varð mikil breyting þar sem þessi útgáfa býður t.d. upp á möguleika á að fella myndbönd inn í vefsíðu án þessa að nota viðbætur og möguleikar á gagnvirkni opnuðust. Með HTML5 er að mörgu leyti búið að leysa það sem Flash forritið gerði áður en Flash er á hröðu undanhaldi á vefnum.

Hvað er CSS?

CSS (e. Cascading Style Sheet) er leið til að bæta stíl, t.d. leturgerð, lit og spássíum, við vefsíður og aðgreina efni og útlit vefsíðna. Með þessu móti má aðgreina mismunandi útlit á sama innihald fyrir t.d. borðtölvu í hefðbundinni upplausn eða snjallsíma og vísa þá í mismunandi CSS reglur fyrir hvern og einn miðil. Með CSS er hægt að uppfæra útlit á heilu vefsvæði þar sem öllum útlitstengdum reglum er haldið til haga í fáum skjölum.  Það kannast margir við að vefir skipti litum t.d. í átaksverkefnum, s.s. að bankavefur verði bleikur til stuðnings rannsóknum á brjóstakrabbameini. Það er gert með einfaldri breytingu á CSS.

Hvað er Javascript?

Javascript er vefforritunarmál sem var hannað til að auðvelda smíði gagnvirkra vefsíðna. Dæmi um notkun á Javascript í vefsíðu má nefna að með því er hægt að fylgjast með tilteknu textahólfi á vefsíðu og sannreyna að innsláttur notanda í það sé löglegur (til dæmis hvort kennitala sé af réttri gerð) áður en innihaldið er sent áfram í gagnasafn. Javascript er líka oft notað til að athuga hvort músasmellur sé yfir tilteknu svæði vefsíðunnar og bregðast þá við á réttan hátt.

Hvað er heimasíða?

Á öllum vefjum er ein heimasíða eða upphafssíða. Margir kalla vefi heimasíður en en það er rangnefni og dæmi um dönskuáhrif en Danir nefna vefi “hjemmeside”. Vefur er safn margra vefsíðna og ein þeirra er heimasíða eða forsíða vefs. Það skal fúslega játað að ég er ekki hrifinn af því að tala um heimasíður þegar rætt er um vefi. En líklega er þetta barátta við vindmyllur. Slík er staða orðsins. Google staðfestir það.

Hvað er gagnagrunnur?

Gagnagrunnur er safn upplýsinga sem er geymt í tölvu á skipulagðan hátt til þess að forrit geti svarað spurningum um gögnin. Hefðbundinn gagnagrunnur er byggður upp af töflum, röðum og dálkum. Uppsetning og úrvinnsla gagna í gagnagrunni er að mörgu leyti hliðstæð við það hvernig unnið er með gögn í t.d. Excel.

Vefumsjónarkerfi halda utan um gögn á vefnum í gagnagrunnum. Hver einasti titill, lykilorð eða aðrar upplýsingar á tiltekinni vefsíðu eru geymdar í gagnagrunni.

Flestir vefir keyra á SQL gagnagrunni, t.d. MySQL, Oracle eða MS-SQL. Valið byggir oft á stefnu fyrirtækisins í upplýsingatækni, persónulegu mati eða hvaða "server-side" tungumál er notað sem er einmitt næsta viðfangsefni.

Hvar er server-side og client-side?

Flestir vefstjórar hafa einhvern tímann heyrt forritara eða kerfisstjóra tala um “server-side” og “client-side” en hvað merkja þessa skilgreiningar?

“Server-side” vísar til alls þess sem gerist á vefþjóni, það er kóðinn sem keyrir á vefþjóninum og meginhlutverk hans er að sækja gögn úr gagnagrunni og breyta því í HTML síðu. Kóðinn greinir hvaða síðu notandinn spyr um, safnar saman upplýsingum úr gagnagrunninum og breytir þeim í HTML áður en það er sent aftur til notandans. Mörg forritunarmál eru í boði en þau algengustu eru .ASP, .NET, PHP,

ColdFusion og Java.

“Client-side” vísar til alls sem gerist í tölvu notandans, þar með talið í vafra og öðrum hugbúnaði sem gæti mögulega valdið árekstrum við efni vefsins. Vafri er dæmi um “client-side” hugbúnað og þar geta komið upp ýmis vandamál við birtingu á efni og getur þurft viðamiklar prófanir til að mæta þörfum flestra notenda með fjölbreytta flóru vafra. Virkni á vef sem byggir á Flash og Javascript er sömuleiðis háð “client-side” uppsetningu.

Hvað er IIS?

Í samskiptum við kerfisstjóra sem vinna í Microsoft umhverfi er mjög oft vísað til “issans” eða IIS sem stendur fyrr Internet Information Server. Þetta er sem sagt vefþjónn sem keyrir í Microsoft umhverfi, vefurinn keyrir á tölvum sem byggja á þessum hugbúnaði sem IIS.

Hvað er vefþjónusta (API)?

Vefstjórar umgangast forritara tæplega lengi áður en þeir heyra þá minnast á “apa” og hvað er nú það? Hugtakið API nær yfir samskipti milli kerfa og í vefsamhengi eru slík samskipti oftast við svokallaðar vefþjónustur. Vefþjónusta er lausn sem móttekur beiðnir frá öðrum kerfum (yfirleitt á formi tiltekinna vefslóða) og svarar með umbeðnum gögnum. Með vefþjónustum er þannig hægt að veita utanaðkomandi stýrðan aðgang að tilteknum gögnum með tiltölulega stöðluðum hætti.

Dæmi um notkun á vefþjónustu er t.d. starfsmannalisti úr innra kerfi sem er tengdur yfir á vef fyrirtækis með vefþjónustu (innra kerfið svarar þá API beiðnum frá vefkerfi ytri vefsins). Önnur dæmi eru t.d.  vefverslun sem tengist við vörukerfi verslunar og í raun mætti setja að allar vefslóðir á t.d. Google Maps séu dæmi um API beiðni (þar sem svarið er ætlað til birtingar í vafra).

Höfundur: Sigurjón Ólafsson, Fúnksjón vefráðgjöf

* Greinin byggir á handriti að handbók fyrir vefstjóra sem er væntanleg

Skoðað: 3449 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála