Ritskoðun og öryggi barna á netinu
Ritskoðun þjónar þeim tilgangi að hefta aðgang almennings að “óviðeigandi” upplýsingum og hefur þekkst allt frá dögum Rómarveldis (Newth, 2010). Margs konar efni hefur verið ritskoðað í gegnum tíðina, allt frá málverkum að bókum. Tiltölulega nýlega hefur almenningur öðlast aðgang að internetinu og það er mikil nýjung að hver sem er hafi óheftan aðgang að því gríðarlega magni upplýsinga sem þar er að finna. Það eru skiptar skoðanir á því hvort það sé jákvæð þróun, menn hafa því gert tilraunir til þess að ritskoða internetið. Á vesturlöndunum hefur það oft verið reynt, oftast undir því yfirskini að vernda börn gegn klámi og öðru efni sem almennt þykir óæskilegt og áætlunin verið sú að standa þannig vörð um siðgæði fólks. Einnig hefur ritskoðun margoft verið beitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal. Eins og önnur form ritskoðunar getur það haft miklar slæmar afleiðingar og nær oft ekki þeim markmiðum sem ætlað var í upphafi.
Ritskoðun og börn
Undanfarið hefur mikið verið rætt um áhrif kláms á börn og unglinga, og í hverra verkahring það eigi að vera að vernda börn gegn óæskilegu efni á netinu. Hvort það eigi að vera að vera á ábyrgð foreldra, skóla, yfirvalda eða ritskoðun. Þegar sú spurning vaknar hvort, og þá hvaða efni og/eða upplýsingar skuli vera ritskoðaðar, þá hefur fólk oft skiptar skoðanir, en þegar kemur að því að vernda börn frá skaðlegu efni þá eru eru flestir sammála um nytsemi ritskoðunar (Cleary, 2010).
Til eru leiðir sem hafa þann tilgang að hindra ungmenni í að hafa aðgang að hugsanlega skaðlegu efni á internetinu, sumar leiðir eru ef til vill betri en aðrar. Þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram í því skyni að koma í stað ritskoðunar eða/og til að auka síu og eftirlit, eru til dæmis að foreldri beri alfarið ábyrgð á internetnotkun barns síns og því hvaða efni barnið hefur aðgang að á internetinu.
Hvort sem það er með aðstoð forrita líkt og “parental control”, (en það er forrit sem er ætlað foreldrum og forráðamönnum og hjálpar þeim að setja upp stillingar í einkatölvum barna sinna) eða með því að leyfa tölvunotkun aðeins undir stöðugu eftirliti foreldris. (Safe&Savvy, 2013) Stungið hefur verið uppá að skólar taki þátt í að upplýsa ungmenni um skaðsemi internetsins, og komi þannig í stað ritskoðunar með því að gera ungmennum grein fyrir hvað sé að forðast, upplýsa og kenna um hví skuli forðast efni sem ritskoðun átti að sjá um að sía burt (Cho & Heins, 2002).
Grunnskólar á Íslandi eru, og hafa í þó nokkuð mörg ár, tekið þátt í að upplýsa og fræða nemendur og eru í nánu samstarfi við SAFT, sem stendur fyrir Samfélag, fjölskylda og tækni, en það er “vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi” (SAFT, 2011). Þá hafa foreldrafélög víðs vegar á landinu fengið fulltrúa frá SAFT til að koma og halda fræðsluerindi fyrir foreldra. Mögulega finnst fólki þessi sía fyrir ungt fólki brot á rétti þess til þess að hafa aðgang að því mikla magni upplýsinga sem er að finna á internetinu, og telja að ef til vill ætti það að vera réttur allra að hafa aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þeim þóknast (Wolf, 2014).
Það er auðvelt að misnota ritskoðun
Það er ekki hægt að neita því að það er allskonar efni á netinu sem börn ættu ekki að hafa greiðan aðgang að, en ritskoðun er ekki endilega besta leiðin til þess að hindra aðgang þeirra að óbarnvænu efni. Ritskoðunin getur beinlínis verið skaðleg, enda er auðvelt að misnota valdið til þess að ritskoða upplýsingar.
Til dæmis um vafasama notkun á ritskoðun þá setti ríkisstjórn Rússlands lög árið 2010 um flokkunarkerfi á efni eftir því hversu skaðlegt það er börnum. Árið 2012 var þeim lögum svo breytt þannig að innleiddur var svokallaður svartur listi yfir vefsíður sem yrðu gerðar óaðgengilegar til þess að vernda börnin. Á þennan lista áttu að fara vefsíður sem innihéldu efni sem er flokkað þannig að það gæti verið skaðlegt börnum og valdið þeim ótta eða ofsahræðslu (Kremlin, 2011). Seinna var lögunum um efni skaðlegt börnum breytt og á svarta listann fór einnig “áróður um óhefðbundin kynferðisleg sambönd” (the Guardian, 2013), sem er einmitt í takt við það hvað Rússneska ríkisstjórnin hefur markvisst verið að vinna gegn réttindum LGBT fólks undanfarin ár.
Ástralir hafa einnig reynt að ritskoða netið, með það að markmiði að vernda einstaklinga fyrir barnaklámi og öðru óæskilegu efni. Það hefur haft umdeildar afleiðingar. Ástralska stofnunin ACMA sér um að flokka efni eftir því hvaða aldurshópa það er viðeigandi fyrir, eða hvort það eigi að banna það yfir höfuð.
Árið 1992 fékk stofnunin valdið til þess að sekta eigendur innlendra vefsíða um háar upphæðir daglega þar til þeir fjarlægja efni af vefsíðunni sinni ef það er fellur í flokkinn RC (refused content), sem stendur fyrir “bannað efni”. Ef vefsíða sem inniheldur bannað efni er hýst erlendis þá er hún sett á svartan lista sem er notaður í netsíuhugbúnaði sem vefþjónustufyrirtæki (internet service providers) þurfa að bjóða fólki upp á.
Svarti listinn yfir bannaðar vefsíður lak á netið og þá kom í ljós að helmingurinn af vefsíðunum á listanum voru ekki tengdir barnaklámi eða ólöglegu athæfi, heldur voru þar hlutir eins og myndbönd af youtube, wikipedia greinar, venjulegar klámsíður, vefsíður um ýmis trúarbrögð og pólitísk málefni og meira að segja vefsíða saklauss tannlæknis (Moses, 2009).
Árið 2006 voru sett lög í Ástralíu sem bönnuðu umræður á samfélagsmiðlum um réttlætingu á sjálfsmorði (Perron, 2006). Þetta þýðir að allar umræður um líknardráp voru ólöglegar og þar með er verið að brjóta á lýðræðislegum rétti fólks til að tjá stjórnmálaskoðanir sínar.
Eftir þetta hafa verið lagðar fram tillögur á ástralska þinginu um að nota þennan svarta lista til þess að sía allan netaðgang fólks í Ástralíu. Ef þær hefðu komist í gegn þá væri netaðgangur að vefsíðunum á svarta listanum lokaður fyrir alla, sem væri mjög slæmt vegna þess að svo virtist sem hvað sem er gæti komist á þennan lista. Ríkisstjórnin hætti við þessar tillögur og málið endaði með þeirri málamiðlun að efni sem síað yrði út væri einungis efni á svarta lista INTERPOL, en sá listi inniheldur bara barnaklámsvefsíður (Falconer, 2012).
Það er auðvelt að komast framhjá ritskoðun
Nýlega var sett lögbann við því að Vodafone og Hringdu veittu viðskiptavinum sínum aðgang að Deildu.net og Piratebay, til þess að sporna við ólöglegu niðurhali (RÚV, 2014). Deildu.net skipti um lén samdægurs og nýja lénið fellur ekki undir lögbannið (Erla Karlsdóttir, 2014). Það tekur tíma að fá lögbann en það tekur enga stund að skipta um lén.
Þetta er aðeins eitt dæmi um það hversu erfitt og gagnslaust það getur reynst að ritskoða internetið. Jafnvel þó aðgangi að vefsíðu sé lokað og hún skipti ekki um lén, þá er samt tiltölulega auðvelt að fá aðgang að henni. Það þarf ekki að grennslast fyrir nema í nokkrar mínútur til þess að sjá að það eru til ótal margar leiðir til þess að komast í kring um ritskoðun á vefsíðum. Með einfaldri leit finnast fljótlega leiðbeiningar um hvernig megi útfæra ýmsar leiðir til að komast hjá ritskoðun.
Sem dæmi má nefna DNS server, þá þegar vefþjónustufyrirtæki (internet service providers) hafa síað lokaðar vefsíður með DNS server og áframsent viðkomandi vefsíðu á annað veffang. Leiðbeiningar á netinu sýna hvernig auðveldlega er hægt að komast hjá þessu, og hefur fólk á íslandi mikið notað þetta til þess að fá aðgang að t.d. Netflix. Annað dæmi er Tor, en það er netvafri sem geri fólki kleift að vafra um netið nafnlaust og auðveldar aðgang að lokuðum vefsíðum. Enn annað dæmi er Proxy server, sem fólk getur notað til að fá aðgang að lokuðum síðum auðveldlega (Hoffman, 2013).
Aðrar lausnir
Líkt og nefnt hefur verið þá er “parental control” möguleg lausn, en það er eins og áður sagði forrit til aðstoðar foreldrum til að stjórna hvaða efni börn þeirra hafa aðgang að, og til að takmarka þann tíma sem barnið eyðir á internetinu. Forritin virka þannig að ákveðið efni er síað út svo barnið hefur ekki aðgang að því, en hefur ekki áhrif á nettenginu annarra og eru því betri en ritskoðun stjórnað af stjórnvöldum sem gengur yfir alla í samfélaginu. Þessi forrit hafa hins vegar svipaða galla og ritskoðun á stærri skala, en það er hægt að komast í kring um hana á auðveldan hátt og þegar börn eru komin á ákveðinn aldur þá geta þau gert það sjálf. Eftir það er lítið hægt að gera annað en að fræða barnið um hætturnar á netinu.
En það eru margar hættur sem leynast á netinu fyrir börn og jafnvel þó svo að ritskoðun eða “parental control” forrit myndu virka til að útrýma einhverjum þeirra þá eru fleiri sem ritskoðun myndi ekki hafa nein áhrif á. Til dæmis hafa oft verið nefndar hættur eins og barnaníðingar sem gætu reynt að hafa samband við börnin og fá þau til að senda sér kynferðislegar myndir eða hitta sig.
Einnig hefur mikið verið talað um “sexting”, þ.e. þegar fólk sendir hvort öðru nektarmyndir af sér. Rannsóknir hafa leitt í ljós að um 20% unglinga hafa sent einhverjum nektarmyndir af sér eða sett þær á netið (Bowker & Sullivan, 2010).
Önnur hætta sem hefur oft verið nefnd er einelti á internetinu, en fjórðungur unglinga segist hafa orðið fyrir einelti í gegnum netið (Hirsch, 2014). Í baráttunni við þessi vandamál virðist lítið vera hægt að gera annað en fræða börnin um hætturnar og fylgjast með netnotkun þeirra.
Niðurstaða
Af ofangreindu er hægt að draga þá ályktun að ritskoðun sé ekki endilega besta lausnin til þess að vernda einstaklinga, hvort sem það eru börn eða fullorðnir, á internetinu. Ritskoðun er ekki aðeins áhrifalítil, þó hún virki stundum að takmörkuðu leyti, heldur hefur hún oft aðrar og verri afleiðingar en þær sem í upphafi var ætlað.
Aðrar lausnir sem hér hefur verið bent á eru hugsanlega betri kostur í sambandi við t.d. öryggi barna á internetinu, kostur sem gæti haft jákvæðari áhrif og losað fólk undan neikvæðum afleiðingum eins og t.d. skerðingu á tjáningarfrelsi eða öðrum mannréttindabrotum.
Höfundar: Gerður Mekkín Gunnarsdóttir og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir nemendur við Háskólann í Reykjavík
Heimildaskrá
SAFT Samfélag, fjölskylda og tækni. (2011). Um okkur. Sótt af https://www.saft.is/um-okkur/
Newth, M. (2010). The Long History of Censorship. Sótt af http://www.beaconforfreedom.org/liste.html?tid=415&art_id=475
Cleary, R. (2010). Protecting Children Online Takes More than a Filter. Sótt af https://www.smh.com.au/politics/federal/protecting-children-online-takes-more-than-a-filter-20100113-m6g8.html
Cho, C., & Heins, M. (2002). Media Literacy: an Alternative to Censorship. Sótt af http://www.ntia.doc.gov/legacy/ntiahome/ntiageneral/cipacomments/pre/fepp/medialiteracy.htm
Wolf, A. (2014). Censorship in the Name of Protecting Children. Sótt af https://www.abc.net.au/news/2014-01-31/wolf-internet-censorship/5229690
Kremlin (2011). Law on Protecting Children from Negative and Harmful Information. Sótt af http://eng.kremlin.ru/news/1580
The Guardian (2013). Russia Passes AntiGay Law. Sótt af https://www.theguardian.com/world/2013/jun/30/russia-passes-anti-gay-law
Moses, A. (2009). Leaked Australian Blacklist Reveals Banned Sites. Sótt af http://www.smh.com.au/articles/2009/03/19/1237054961100.html?page=fullpage
Perron, M. (2006). Suicide Debate Law a Blow to Free Speech. Sótt af http://www.theage.com.au/news/opinion/suicidedebatelawablowtofreespeech/2006/01/04/1136050492339.html RÚV (2014).
Lögbann á Deildu.net og Pirate Bay. Sótt af https://www.ruv.is/frett/logbann-a-deildunet-og-pirate-bay
Karlsdóttir, E. (2014). Deildu komin með nýtt lén. Sótt af http://www.dv.is/frettir/2014/10/15/deildukominmednyttlen/
Hoffman, C. (2013). 5 Ways to Bypass Internet Censorship and Filtering. Sótt af https://www.howtogeek.com/167418/5-ways-to-bypass-internet-censorship-and-filtering/
Bowker, A., & Sullivan, M. (2010). Sexting. Sótt af https://leb.fbi.gov/articles/featured-articles/sexting-risky-actions-and-overreactions
Hirsch, L. (2014). Cyberbullying. Sótt af http://kidshealth.org/parent/positive/talk/cyberbullying.html
Safe & Savvy (2013). Kids and the Internet: Why Parental Controls aren’t Enough. Sótt af http://safeandsavvy.fsecure.com/2013/11/07/kidsandtheinternetwhyparentalcontrolsarentenough/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.