Skip to main content
20. nóvember 2014

Ólöglegt niðurhal á afþreyingarefni

bsbÓlöglegt niðurhal á afþreyingarefni virðist vera almenn og hversdagsleg iðja nú til dags og bendir margt til þess að það sé raunveruleiki sem við munum búa við lengi. Í þessari grein verður fjallað um tvo mikilvæga þætti ólöglegs niðurhals, en það er annars vegar skráarskiptahugbúnaðurinn sem notaður er til verksins og hinsvegar áhrif iðjunnar á afþreyingariðnaðinn. Fjallað verður um uppruna og þróun jafningjaneta (e. peer-to-peer networks) og um skáarskiptahugbúnað sem byggir á þeirri tækni. Þá verður einnig reynt að varpa ljósi á mikilvæga spurningu – er ólöglegt niðurhal að ræna afþreyingariðnaðinn af tekjum?

 Skráarskiptahugbúnaður

Umfjöllunin sem hér á eftir fylgir um skráarskiptahugbúnað er takmörkuð að því leyti að einungis er fjallað um þá gerð hugbúnaðar sem notast við jafningjanet. Þetta er gert af þeirri ástæðu að það virðist vera sem svo að sú gerð skráarskiptahugbúnaðar sé mun útbreiddari og hafi haft víðtækari áhrif á ástundun ólöglegs niðurhals á síðustu árum. Það er samt mikilvægt að gera grein fyrir því að öðruvísi skráarskiptahugbúnaður er til og hefur verið notaður til ólöglegs niðurhals þó svo að ekki sé fjallað um hann hér.

Uppruni jafningjaneta

Þegar fjallað er um ólöglegt niðurhal á hvers konar stafrænu efni þá verður óhjákvæmilega að koma inn á skráarskiptahugbúnaðinn Napster, en hann ruddi af stað tæknilegri byltingu með tilkomu jafningjaneta. Þeir sem voru virkir netnotendur í kringum aldamótin hafa að öllum líkindum heyrt talað um Napster og hafa e.t.v. notað það án þess að gera sér almennilega grein fyrir því hversu byltingarkennt það var á sínum tíma.

Napster gerði notendum kleift að sækja og senda hljóðskrár á afar einfaldan og notendavænan hátt. Hugbúnaðurinn var byltingarkenndur að því leyti að hljóðskrárnar voru ekki geymdar á miðlægum þjóni (e. centralized server) eins og gengur og gerist í hefðbundnu sambandi biðlara og miðlara (e. client-server model). Napster þróaði nýja samskiptatækni sem gerði biðlurum (e. clients) kleift að stunda skráarskipti beint sín á milli. Þessi tækni gengur í dag undir nafninu jafningjanet og var Napster í hópi fyrstu kynslóðar þess konar skrárskiptahugbúnaðar (Jeff Tyson, e.d.).

sk1

The original Napster logo, 1999, Sam Hanks. Merki Napster.

Napster kom fyrst út árið 1999. Hugbúnaðurinn gerði notendum kleift að skiptast á hljóðskrám, þ.e.a.s. á tónlist á stafrænu formi. Napster varð gífurlega vinsælt og var fjöldi notenda um tíma 25 milljónir með samtals um 80 milljónir hljóðskráa í dreifingu. Napster var frítt og voru engar þóknanir greiddar til listamanna og útgefenda tónlistarinnar sem var þar í dreifingu. Með Napster fór því fram ólögleg dreifing á tónlist en notendur hugbúnaðarins létu sér það fátt um finnast, eins og vinsældir hugbúnaðarins sýndu (Rajkumar Jonnala, 2013).

Napster var smíðað og rekið af samnefndu fyrirtæki og svo fór að árið 2001 var fyrirtækið sakfellt fyrir brot á lögum um höfundarrétt og var þeim gert að loka fyrir notkun á hugbúnaðinum (Rajkumar Jonnala, 2013). Það sem varð Napster í raun og veru að falli var tæknileg útfærsla jafningjanetsins. Á miðlægum þjóni voru geymd gögn um hvaða hljóðskrár hver og einn notandi væri að deila. Þegar notandi vildi sækja ákveðna hljóðskrá var send fyrirspurn á miðlæga þjóninn sem sendi tilbaka upplýsingar um hvaða notendur hefðu hljóðskrána. Notandinn sem vildi sækja hljóðskrána var þá tengdur við þann sem hafði skrána og fóru skráarskiptin fram á milli þeirra (John Borland, 2005).

Þróun jafningjaneta

Lokun Napster árið 2001 hafði ekki tilskyld áhrif á ólöglegt niðurhal og líklega þvert á móti. Mikil þróun varð á nýjum skráarskiptahugbúnaði sem byggði á jafningjanetum og þeir sem smíðuðu þennan hugbúnað lærðu af mistökum Napster.


Næstu kynslóðir jafningjaneta voru svokölluð dreifð jafningjanet (e. decentralized peer-to-peer networks). Þau virkuðu þannig að fyrirspurnir fóru ekki í gegnum miðlægan þjón heldur treystu notendur á hvorn annan til að finna og sækja tilteknar skrár. Þannig gæti t.d. notandi A þurft að fara í gegnum notendur B, C og loks D til að finna og sækja tiltekna skrá. Dreifð jafningjanet voru sterkari en forverar sínir því þau lifðu og þrifust á sjálfstæðan hátt, þ.e.a.s. án aðkomu miðlægs þjóns. Þau gerðu jafnframt þeim fyrirtækjum sem smíðað höfðu skráarskiptahugbúnað kleift að verja sig lagalega með þeim rökum að fyrirtækin sem slík hefðu engar upplýsingar um hvaða og hvers konar skrár notendur væru að stunda skráarskipti með. Það var vissulega rétt því enginn miðlægur þjónn var notaður (John Borland, 2005).

Hér að neðan eru myndir sem sýna muninn á milli annars vegar jafningjanets sem notar miðlægan þjón og hinsvegar dreifðs jafningjanets.

sk2

Network with central server, e.d., André Klein. Fyrsta kynslóð jafningjaneta – jafningjanet með miðlægum þjóni. Skráarskiptahugbúnaðurinn Napster notaði þessa gerð.  De-centralized peer to peer network, e.d., André Klein. Seinni kynslóðir jafningjaneta – dreift jafningjanet. Skráarskiptahugbúnaðurinn Morpheus, LimeWire, Kazaa og Grokster notuðu þessa gerð. 


Tilkoma dreifðra jafningjaneta opnaði betur gáttina fyrir dreifingu á annars konar stafrænu efni, t.d. kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og hugbúnaði en þetta efni er venjulega vistað í frekar stórum skrám sem geta farið upp í nokkur gígabæti að stærð. Það er þó mikilvægt að gera grein fyrir því að slíkt efni hafði þegar verið í dreifingu á öðrum vettvangi og með öðrum aðferðum fyrir tilkomu dreifðra jafningjaneta. Það sem gerðist hinsvegar var að dreifð jafningjanet gerðu almennum notendum á venjulegum heimilistengingum betur kleift að sækja fyrrgreint efni því nú var hægt að sækja sömu skrána frá mörgum notendum samtímis. Skráarskiptin gengu því mun hraðar fyrir sig og úrval efnis jókst og breyttist (Marshall Brain, e.d.) (Stephanie Watson, e.d.).

BitTorrent

Netnotendur stunda skráarskipti með tónlist, kvikmyndir, sjónvarpsþætti, hugbúnað og margt fleira þrátt fyrir að um ólöglega iðju sé að ræða. Aukið framboð á háhraða nettengingum til heimila, tilkoma dreifðra jafningjaneta og ýmsar aðrar tæknilegar framfarir hafa gert venjulegum notendum auðvelt að stunda þessa iðju. Skráarskiptahugbúnaður hefur haldið áfram að þróast og enn er notast við dreifð jafningjanet en þó með breyttu sniði. Þróunin hefur einna helst falist í því hvernig auka megi skilvirkni á skráarskiptum með stórar skrár, hvernig bæta megi leitaraðgerðir og hvernig sé hægt að minna rekjanleika samskipta (John Borland, 2005). BitTorrent arkitektúrinn hefur verið leiðandi í þessari þróun en hann byggist á því að hámarka flutningshraða, þ.e. bæði niðurhals- og upphalshraða, með því að brjóta skrár niður í marga bita. Notendur eru þá að sækja bita af tiltekinni skrá frá mörgum öðrum notendum samtímis (Carmen Carmack, e.d.).

sk3

The BitTorrent logo, (e.d.), BitTorrent Inc. Merki BitTorrent.

Vinsældir BitTorrent hugbúnaðar eru gífurlegar um þessar mundir en sagt var frá því í fréttatilkynningu árið 2012 að heildarfjöldi notenda á BitTorrent hugbúnaði hafi farið yfir 150 milljónir undir lok árs 2011 („BitTorrent Inc.“, 2012). Samkvæmt skýrslu frá árinu 2013 var 3,35% af allri bandvídd þess árs notuð til skráarskipta þar sem BitTorrent hugbúnaður var notaður til verksins. Tekið skal fram að 6,27% af allri bandvídd ársins 2013 var notuð til skráarskipta almennt. Því tók BitTorrent til sín meira en helming af allri þeirri bandvídd sem notuð var til skráarskipta á árinu 2013 (Palo Alto Networks, 2014).

Áhrif á afþreyingariðnaðinn

Hagsmunasamtök, framleiðendur, listamenn, akademískir fræðimenn og fleiri hafa velt því fyrir sér hvort ólöglegt niðurhal hafi haft góð eða slæm áhrif á sölu afþreyingarefnis. Til eru ótal rannsóknir þar sem leitast er við að kanna áhrif ólöglegs niðurhals á sölu á afþreyingarefni og í næstu efnisgreinum verður fjallað um niðurstöður nokkurra rannsókna.

Tónlistariðnaðurinn

Því hefur verið haldið fram að Napster hafi breytt tónlistariðnaðinum og það virðist vera rétt því neyslumynstrið þegar kemur að tónlist er allt öðruvísi en það var fyrir síðustu aldamót. Þannig voru t.d. tekjur tónlistariðnaðarins á fyrri part þessa árs að lang mestu byggðar upp á niðurhali og streymi (e. streaming), eða því sem nam 68% en sala á geisladiskum og hljómplötum nam 28% (RIAA, 2014).

sk4Skipting tekjustofna tónlistariðnaðarins á fyrri helming þessa árs.

Árið 2013 kom út rannsókn frá Institute for Prospective Technological Studies en sú stofnun er hluti af rannsóknarsetri Evrópusambandssins. Rannsóknin var víðtæk og náði til 16.000 evrópubúa í fimm mismunandi löndum. Í rannsókninni voru könnuð áhrif streymis og niðurhals á sölu á stafrænni tónlist. Í augum rannsakenda er stafræn tónlist eingöngu sú tónlist sem er á tölvutæki formi og þannig voru t.d. geisladiskar og hljómplötur ekki tekin með í reikninginn. Niðurstaða rannsakenda var sú að þegar um stafræna tónlist er að ræða, þá hefur ólögleg neysla ekki valdið rýrnun á löglegri neyslu. Rannsakendur gátu einnig varpað ljósi á afar mikilvæga spurningu – eru notendur einfaldlega að hala niður sinni tónlist í stað þess að greiða fyrir hana? Rannsóknin leiddi í ljós að tengja mætti tölfræðilega aukningu á sölu stafrænnar tónlistar við ólöglegt niðurhal. Þeir sem stunduðu ólöglegt niðurhal væru líklegri til að kaupa stafræna tónlist og þeir sem kaupa ekki mikið af stafrænni tónlist stunduðu ekki mikið ólöglegt niðurhal.

Það var einnig árið 2013 sem hagfræðingurinn Robert G. Hammond rannsakaði hvort tenging væri á milli ólöglegs niðurhals með BitTorrent hugbúnaði og sölu á albúmum (e. music album). Niðurstöður Hammonds voru þær að ekkert benti til þess að ólöglegt niðurhal hefði slæm áhrif á sölu albúma. Ennfremur leiddu niðurstöður í ljós að því meira sem væri um ólöglegt niðurhal, því meiri yrði sala á albúmum.

Kvikmyndaiðnaðurinn

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur einnig breyst mikið á undanförnum árum. Neyslumynstrið í dag er allt öðruvísi en það var fyrir tíu árum síðan og líklega hefur ólöglegt niðurhal verið einn áhrifavaldurinn á bakvið breyttar neysluvenjur. Á síðustu árum hefur stafræn neysla inni á heimilum aukist til muna og aðsókn í kvikmyndahús minnkað.

Samkvæmt ársskýrslu The Digital Entertainment Group frá árinu 2013 hafa orðið miklar breytingar á því með hvaða hætti Bandaríkjamenn kjósa að horfa á sínar kvikmyndir heima fyrir. Þróunin virðist vera þannig að DVD-diskar séu að fara sömu leið og VHS-spólurnar sálugu en stafræn neysla með streymi er að færast verulega í aukanna.

sk5

Annual Ticket Sales and Revenues, e.d., The Numbers. Sala á bíómiðum og hagnaður af sýningum í kvikmyndahúsum frá 1995 til 2014. Mest var salan á bíómiðum árið 2002 en hagnaðurinn hefur aldrei verið meiri en í fyrra, árið 2013.

Breytt neyslumynstur kallar á breytta markaðsnálgun og hafa kvikmyndafyrirtæki þurft að aðlaga sig að nýjum aðstæðum. Kvikmyndir hafa stundum lekið á netið áður en þær fara í sýningu í kvikmyndahúsum eða koma út á einkanotamarkaðinum og þá kemur ólöglegt niðurhal inn í myndina. Rannsóknaraðilar hafa reynt að kanna hvaða áhrif ólöglegt niðurhal hefur haft á kvikmyndabransann en það er alls ekki auðvelt að mæla áhrif þess með nákvæmum hætti.

sk6

Aukning og lækkun á tekjustofnum kvikmyndaiðnaðarsins á milli áranna 2012 og 2013

Í júlí á þessu ári kom út rannsóknargrein eftir hagfræðinginn Koleman Strumpf en þar kannaði hann hvort ólöglegt niðurhal sé að hafa einhver áhrif á áætlaðar tekjur af sýningum í kvikmyndahúsum(e. box office sales). Strumpf bar saman gögn frá vinsælli BitTorrent síðu við áætlaðar tekjur kvikmynda samkvæmt tölum frá Hollywood Stock Exchange. Rannsókn Strumpf var víðtæk en í úrtakinu voru 150 tekjuhæstu kvikmyndir hvers árs frá 2003 til 2009 eða 1057 kvikmyndir samtals. Strumpf gat ekki hafnað þeirri tilgátu að ólöglegt niðurhal hefði engin áhrif á tekjur af sýningum í kvikmyndahúsum, en hann ályktaði sem svo að áhrifin væri ekki marktæk.
Hagfræðingurinn Alejandro Zentner hefur einnig rannsakað áhrif ólöglegs niðurhals á kvikmyndaiðnaðinn. Í grein sem hann gaf út rannsakaði hann hvernig staða kvikmyndaiðnaðarins væri í löndum sem hafa verið fljótari að tileinka sér notkun á skáarskiptahugbúnaði. Í rannsókn sinni notaði Zentner ekki tölfræðiupplýsingar um ólöglegt niðurhal heldur gögn um netvænan tengjanleika (e. online connectedness) sem hann tengdi við útbreiðslu á skáarskiptahugbúnaði. Zentner komst að þeirri niðurstöðu að ólöglegt niðurhal sé að hafa mikil og slæm áhrif á sölu kvikmynda á einkanotamarkaði. Hann gat þó ekki sagt til um áhrif ólöglegs niðurhals á tekjur af sýningum í kvikmyndahúsum og á útleigu kvikmynda.

Í greininni fjallar Zentner einnig um tónlistariðnaðinn og telur hann að sá iðnaður hafi orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna ólöglegs niðurhals. Hann vill meina að skáarskiptahugbúnaður sem byggist á dreifðum jafningjanetum sem og aukinn nethraði séu mikið áhyggjuefni fyrir kvikmyndaiðnaðinn. Á línuritinu hér að neðan, sem tekið er úr skýrslu Zentner, má sjá þróun mismunandi tekjustofna innan tónlistar- og kvikmyndaiðnaðarins. Tekið skal fram að línuritið byggir á tekjum af öllum mögulegum afurðum; geisladiskum, VHS-spólum, DVD-diskum, o.s.frv. Þá er vert að benda á að notkun á BitTorrent hugbúnaði fór að aukast mikið árið 2003 og á árunum eftir það.

sk7

Þróun nokkurra tekjustofna tónlistar- og kvikmyndaiðnaðarins á árunum 1996 til 2008.

Lokaorð

Ef getið er til um framtíðarþróun á skráarskiptahugbúnaði, þá eru góðar líkur á því að dreifð jafningjanet muni áfram vera notuð. Skráarskiptahugbúnaður sem notar dreifð jafningjanet hefur aldrei verið vinsælli en nú og er útbreiðslan og notkunin er gífurlega mikil eins og fjallað hefur verið um. Með BitTorrent arkitektúrnum hefur það reynst erfitt fyrir hagsmunasamtök innan afþreyingariðnaðarins og aðra skylda aðila að koma höggi á þá sem bera ábyrgð á opnun og rekstri vettvangs þar sem ólöglegt niðurhal er stundað. Það verður því að teljast afar líklegt að BitTorrent hugbúnaður muni áfram vera fyrsti valkostur notenda sem stunda ólöglegt niðurhal.

Nú hefur verið fjallað um niðurstöður nokkurra rannsóknaraðila sem reynt hafa að meta áhrif ólöglegs niðurhals á afþreyingariðnaðinn. Út frá niðurstöðum þeirra rannsókna sem fjallað var um hér þykir það líklegra en ella að ólöglegt niðurhal sé ekki að valda afþreyingariðnaðinum eins stórum skaða og hagmunasamtök vilja oft meina – og jafnvel ekki neinum skaða. Það sem gleymist oft að taka með í reikninginn í þessum rannsóknum eru áhrif aðgengis. Neytendur nútímans gera allt aðrar kröfur en neytendur fortíðarinnar. Þannig er það t.d. í dag að þegar „meðal-Jón“ sest inn í stofu og vill horfa á kvikmynd, þá er oftar en ekki auðveldast fyrir hann að hala myndinni niður með ólöglegum hætti. Horfnir eru dagarnir þar sem farið er út á vídeóleigu eða keyptir DVD-diskar og það er eitthvað sem afþreyingariðnaðurinn þarf einfaldlega að sætta sig við. Neyslumynstrið er breytt og mun halda áfram að breytast – hvort sem ólöglegu niðurhali sé um að kenna eða ekki.

Höfundur: Brynjar Smári Bragason, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir
Alejandro Zentner. (e.d.). Measuring the Impact of File Sharing on the Movie Industry: An Empirical Analysis Using a Panel of Countries. Bandaríkin: Höfundur.
André Klein. (e.d.). De-centralized peer to peer network [stafræn ljósmynd]. Sótt 19. október 2014 af http://learnoutlive.com/a-brief-history-of-peer-to-peer-networks/
André Klein. (e.d.). Network with central server [stafræn ljósmynd]. Sótt 19. október 2014 af http://learnoutlive.com/a-brief-history-of-peer-to-peer-networks/
BitTorrent and uTorrent Software Supass 150 Million User Milestone; Announce New Consumer Electronics Partnership. (2012). BitTorrent Inc. Sótt 10. október af http://www.bittorrent.com/company/about/ces_2012_150m_users
BitTorrent Inc. (e.d.). The BitTorrent logo [stafræn ljósmynd]. Sótt 19. október 2014 af http://computer.howstuffworks.com/bittorrent.htm
Carmen Carmack. (e.d.). How BitTorrent Works. How Stuff Works. Sótt 10. október 2014 af http://computer.howstuffworks.com/bittorrent.htm
Institute for Prospective Technological Studies. (2013). Digital Music Consumption on the Internet: Evidence from Clickstream Data. Luxembourg: Luis Aguiar, Bertin Martens.
Jeff Tyson. (e.d.). How the Old Napster Worked. How Stuff Works. Sótt 5. október 2014 af http://computer.howstuffworks.com/napster.htm
John Borland. (2005). The evolution of file swapping. CNET. Sótt 6. október 2014 af http://news.cnet.com/The-evolution-of-file-swapping/2100-1030_3-5752075.html
Koleman Strumpf. (2014). Using Markets to Measure the Impact of File Sharing on Movie Revenues. Bandaríkin: University of Kansas School of Business.
Marshall Brain. (e.d.). How Gnutella Works. How Stuff Works. Sótt 8. október 2014 af http://computer.howstuffworks.com/file-sharing.htm
Palo Alto Networks. (2014). Application Usage And Threat Report, 2013. Bandaríkin: Höfundur.
11
Rajkumar Jonnala. (2013). P2P: A Complete History. TechieState. Sótt 5. október 2014 af http://www.techiestate.com/p2p-a-complete-history/
RIAA. (2014). News and Notes on 2014 Mid-Year RIAA Shipment and Revenue Statistics. Bandaríkin: Joshua P. Friedlander.
RIAA. (2014). US Music Industry Revenues 1H 2014 [stafræn mynd]. Sótt 11. október af http://riaa.com/media/1806D32F-B3DD-19D3-70A4-4C31C0217836.pdf
Robert G. Hammond. (2013). Profit Leak? Pre-Release File Sharing and the Music Industry. Bandaríkin: North Carolina State University.
Sam Hanks. (1999). The original Napster logo [stafræn mynd]. Sótt 5. október 2014 af http://www.quora.com/Who-created-the-original-Napster-logo
Stephanie Watson. (e.d.). How Kazaa Works. How Stuff Works. Sótt 8. október 2014 af http://computer.howstuffworks.com/kazaa.htm
The Digital Entertainment Group. (2014). 2013 Home Entertainment Report. Bandaríkin: Höfundur.
The Numbers. (e.d.). Annual Ticket Sales and Revenues [stafræn mynd]. Sótt 12. október 2014 af http://www.the-numbers.com/market/
The Wall Street Journal. (2014). Watching the Trends [stafræn mynd]. Sótt 13. október 2014 af http://bgr.com/2014/01/08/digital-movie-sales-up-47-percent/

Skoðað: 4534 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála