Framtíðartækni í kvikmyndum - 5 kvikmyndir sem spáðu rétt fyrir um framtíðina
Í gegnum árin hafa kvikmyndir byggðar á vísindaskáldsögum alltaf laðað að. Þegar rýnt er í lista yfir tekjuhæstu kvikmyndir allra tíma eru 5 af 10 efstu vísindaskáldsögur. Í mörgum af þessum myndum sjáum við tækni sem ekki er til í raun og veru. Við gerð stærstu myndanna er fjöldi fræðimanna fenginn til að spá fyrir um það hvernig tæknin gæti verið á tíma myndarinnar. Þeim tekst misvel að spá fyrir um tæknina. Stundum hafa þeir rétt fyrir sér en oftar en ekki fara þeir aðeins fram úr sér. Hér fyrir rýnum við 5 kvikmyndir sem okkur þótti hafa skarað fram úr í því að spá fyrir um tækni framtíðarinnar.
Back to the Future 2 (1989)
Stórmynd frá leikstjóranum Robert Zemeckis frá árinu 1989 með þeim Michael J. Fox og Christopher Lloyd í aðalhlutverkum. Önnur myndin í þríleiknum sem fjallar um afdrif félaganna Marty McFly (Fox) og Dr. Emmet Brown (Lloyd). Í þessari mynd ferðast þeir á DeLorean tímaflakksbílnum til ársins 2015 með það fyrir stafni að hjálpa framtíðar fjölskyldu Marty. Myndin gerist því að hluta til árið 2015 í Bandaríkjunum.
Dæmi um hluti úr Back to the Future 2 sem spáð var rétt fyrir um:
Sjálfreimandi skór: Nike skór með svokölluðum “power laces” sem aðlöguðust fætinum ef ýtt var á takka á hliðinni. Nike stefnir á að gefa skóna út á næsta ári í tilefni 30 ára afmæli Back to Future. Líklegt er að þeir verði þá gefnir út í mjög takmörkuðu magni og að þeir kosti sitt.
Sýndargleraugu: Persónur í myndinni nota sýndargleraugu við matverðarborðið til að horfa á sjónvarp. Þessi tækni er til í dag að stóru leiti og heitir Oculus Rift og er stefnt á að setja það á almennan markað 2015. Í því tæki upplifir maður sýndarveruleika og tölvuleiki í gegnum sérstök sýndargleraugu.
Þunnir flatskjáir: Á þeim tíma sem myndin er gerð voru túbusjónvörp á hverju heimili. Í myndinni er stór flatskjár á vegg á heimilinu. Skjárinn bauð upp á það að horfa á 6 sjónvarpsstöðvar samtímis. Í dag er flatskjár inná flestum heimilum og hluti af þeim býður uppá svokallaða mynd-í-mynd tækninni sem gerir notenda kleift á að horfa á fleiri en eina stöð í einu.
Fingrafaraskanni: Í myndinni eru fingraför notuð bæði til þess að opna útidyrahurð á heimahúsi og til þess að greiða fyrir vöru. Þetta er ekki fjarri lagi og í dag eru skannar á nýjustu snjallsímunum þar sem notast er við fingraför til að staðfesta greiðslur. Það er auðvelt fyrir aðila að misnota fingraför fólks og þess vegna verður sú tækni líklega aldrei almenn.
Hundagangari: dróni sem svífur um með hund í bandi og viðrar hann fyrir eigandan. Tækni sem er til staðar en ekki komin í fjöldaframleiðslu. Þarf að vera kraftmikill dróni til að geta haldið í hundinn ef hann ætlar að fara útaf leiðinni.
Dæmi um hluti úr Back to the Future 2 sem ekki enn hafa ræst:
Sjálfþurrkandi jakki: sem þurrkar sig sjálfur þegar ýtt er á takka.
Svifbretti: eins og hjólabretti nema án hjóla og þau svífa u.þ.b. 30 cm frá jörðinni. Ekki er ólíklegt samt sem áður að við eigum eftir að sjá svona bretti eftir 20-30 ár. Uppfærsla: 20. október komu fréttir þess efnis að verkfræðingar í Californíu hefðu búið til bretti sem svipar til þeirra sem voru í myndinni. Það bretti er á tilraunastigi og til þess að geta svifið er notast við segulkraft og undirlag úr kopar.
Total Recall (1990)
Kvikmynd frá árinu 1990 með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Myndin er byggð á smásögunni "We Can Remember It for You Wholesale" eftir Philip K. Dick frá árinu 1966. Myndin gerist árið 2084 og fjallar um Douglas Quaid (Arnold), verkamann, sem dreymir alltaf að hann sé á Mars. Hann sér auglýsingu frá Rekall Inc sem selja tilbúnar minningar. Þegar hann fer og ætlar að fá minnis ísetningu hjá fyrirtækinu fer af stað ótrúleg atburðarás. Þó svo að myndin eigi að gerast eftir 70 ár þá er nú þegar eitthvað af hlutum sem hafa ræst.
Dæmi um hluti úr Total Recall sem spáð var rétt fyrir um:
GPS staðsetning á fólki: Í myndinni eru gps-sendir inn í líkama Douglas þannig að hægt er að sjá hvar hann er staðsettur. Í dag er þetta ekki almennt inni í fólki en með tilkomu snjallsímanna eru fleiri og fleiri sem eiga síma sem senda frá sér gps-merki.
Flatskjár: Þetta er sjálfsagður hlutur á heimilum í dag en mögulega verður sjónvarpstæknin eitthvað þróaðari eftir 70 ár.
Líkamsskanni: Skanni sem er notaður til þess að greina það hvort fólk sé með vopn á sér. Sambærileg tæki er farin að sjást á flugvöllum í Bandaríkjunum, þar sem fólk sett í frekari skoðun ef það pípar á það í málmleitarhliðinu.
Sjálfkeyrandi bílar: í myndinni eru tölvustýrðir leigubílar með sjálfstýringu. Þessi tækni er komin og styttist í að svona bílar fari í fjöldaframleiðslu. Google er eitt af þeim fyrirtækjum sem er að vinna í þróun þessarar tækni og eru með leyfi fyrir tilraunaakstri í 4 fylkjum í Bandaríkjunum.
Dæmi um hluti úr Total Recall sem ekki enn hafa ræst:
Innsetning minninga: Rekall fyrirtækið sérhæfir sig í innsetningu minninga. Í dag er ennþá langt í land að svona þjónusta verði í boði fyrir almenning. Til eru vísindamenn sem hafa rannsakað þessa fræði en það er á algjöru tilraunastigi. Mjög ólíklegt að þetta verði komið eftir 70 ár.
Mannfólk á Mars: Í myndinni er Mars einskonar nýlenda fyri mennina þar sem sérstakur lofthjúpur gerir fólkinu kleift að anda. Nú í dag hefur enginn maður stigið fæti á Mars en eftir 70 ár verður örugglega annað uppá teningnum.
Minority Report (2002)
Steven Spielberg tókst nokkuð vel að spá fyrir um framtíðina í myndinni Minority Report. Hann safnaði saman 15 sérfræðingum og lét þá skrifa niður mögulega tækni sem komin værir árið 2054. Í myndinni er hægt að sjá fram í tímann og nýtir ríkið sér það til að stoppa glæpi áður en þeir gerast. Þegar myndin var gefin út hefur öll þessi tækni virkað frekar ótrúleg en margt af þessu hefur nú þegar ræst og enn fleira sem verið er að vinna að núna.
Dæmi um hluti úr Minority Report sem spáð var rétt fyrir um:
Persónulegar Auglýsingar: Í myndinni var notast við augnskanna til að auðkenna fólk og gátu auglýsingar byrt upplýsingar sem áttu við. Þessi tækni er kominn í dag þó hún sé ekki í mikilli notkun. Andlit eru skönnuð í stað augna og svo leitast eftir upplýsingum á netinu. Facebook er dæmi um stað sem væri hægt að grafa upp ýmsar upplýsingar til að vita hvaða auglýsingu væri gott að birta. Google nýtir sér upplýsingar um efnið sem þú leitar af til að vita hvaða auglýsingar henta þér og því er öll tæknin til staðar.
Lítil vélmenni: vélmennapöddur notaðar í myndinni til að finna fólk. Bandaríski herinn vinnur nú að því að gera lítil vélmenni sem minna á pöddur sem hægt er að senda inn í hús þegar möguleg hætta getur stafað af. Þær komast í gegnum litlar rifur og gera húsleit mun auðveldari.
E-blöð sem dagblöð: Í myndinni sést í dagblað sem er með hreyfimyndir og getur breytt um mynd. Þessi tækni er komin í fjöldaframleiðsu ennþá vegna of mikils kostnaðar.
Snertiskjástölva: risavaxin tölva stýrt með hanska og handahreyfingum, ekki ósvipaðar þeim sem við notumst við í dag á snertiskjáum, bæði í tölvum og símum. Svipuð tækni er til en tæknin virðist stefna í það að nota frekar myndavél og handahreyfingar sem gerir hanskann óþarfan.
Dæmi um hluti úr Minority Report sem ekki enn hafa ræst:
Spá um glæpi: Í myndinni leitast lögreglan við að stöðva glæpi áður en eiga sér stað. Lögreglan í Bandaríkjunum eru að vinna að tækni sem getur sér fyrir glæpi, þó tæknin sé ekki sú sama og í myndinni, þá er þetta að vinna að sama markmiði. Forritið notar stóran gagnagrunn til að sjá fyrir um líklega staði eða aðila sem gætu tengst glæpum.
2001: A Space Odyssey (1968)
Ein af áhrifamestu vísindaskáldsögum sem gerð hefur verið. Myndin fjallar um geimferðir árið 2001. En á þeim tíma sem myndin er gerð voru þær nýhafnar og 7 ár frá því að fyrsti maðurinn fór út í geim. Þegar myndin er gefin út voru tölvur ekki mjög þróaðar og því erfiðara fyrir þá að spá fyrir um þessa tækni. Geimferðir í dag eru ekki ósvipaðar þeim sem eru í myndinni. Mikið af framtíðartækni myndarinnar er nú í dag mikið notuð.
Dæmi um hluti úr 2001: A Space Odyssey sem spáð var rétt fyrir um:
Myndsímtöl: tækni sem var komin þegar myndin kom út en ekki eins aðgengileg og í myndinni. Það var ekki fyrr en internetið kom og þróaðist, að í kringum árið 2000 fór að vera auðveldara að framkvæma myndsímtöl.
Spjaldtölvur: Í myndinni eru notaðar spjaldtölvur sem eru nokkuð líkar þeim sem við notum í dag. Þær voru reyndar ekki orðnar jafn þróaðar árið 2001 og núna árið 2014.
Gervigreind: Ofurtölvan HAL-9000 býr yfir mikilli gervigreind. Árið 2001 var gervigreind ekki kominn jafn langt og framleiðendur myndarinnar spáðu fyrir um. Apple Siri er líklega það sem kemst næst þessu í dag. Mikil framför hefur þó verið á síðustu árum í gervigreind en hún langt frá því að vera jafn fullkomin og í HAL-9000 tölvunni.
Star Trek: The Motion Picture (1979)
Fyrsta Star Trek myndin sem gerð var eftir uprunulegu þáttunum. Myndin á að gerast í framtíðinni, nánar tiltekið árið 2273. Fjallar um Captain Kirk og félaga, í Enterprise geimskipinu, og baráttu þeirra gegn svokölluðu V’ger sem er stuttu máli geimveruský sem hyggst ráðast á jörðina. Framleiðendur Star Trek hafa alltaf verið duglegir að koma fram með nýjungar á hvíta tjaldinu og var fyrsta myndin engin undantekning þar á. Það eru 35 ár síðan að myndin kom út og hvað varðar samskiptatækni þá má segja að framleiðendur myndarinnar hafi spáð hárrétt fram í tímann. Samt sem áður gæti sú tækni verið úrelt árið 2273.
Dæmi um hluti úr Star Trek sem spáð var rétt fyrir um:
Myndsímtöl: Samskipti á milli manna í geimskipinu fara oft fram með myndsímtölum á stórum skjáum.
Þráðlaus headset: Flestir í áhöfninni á Enterprise eru með headset til þess að tala sín á milli. Ekki ósvipað handfrjálsum bluetooth búnaði sem við sjáum í dag.
Spjaldtölvur: Þeir starfsmenn áhafnarinnar sem sjá til þess að allar tölvur og vélar séu í toppstandi eru oftar en ekki með spjaldtölvu sem sýnir allskonar upplýsingar og tölfræði.
Raddskipanir: Opnað og lokað var fyrir myndsímtöl í myndinni með raddskipun. Í dag eru raddskipanir notaðar í nýjustu snjallsímunum.
Armbands-talstöð/sími: Enn einn samkiptamátinn sem notaður var í Star Trek og hefur ræst núna. Þessi tækni er eitt það heitasta í dag með tilkomu Apple Watch og Samsung Gear S.
Dæmi um hluti úr Star Trek sem ekki enn hafa ræst:
Teleport-tækni: Notuð í myndinni til að flytja fólk á milli staða. Þessari tækni velta margir vísandamenn fyrir sér en hún er ekki nálægt því að vera möguleg núna.
Warp drive: Þessi tækni, hraði hraðari en ljósið, er talin ómöguleg. Nasa vill ekki útiloka það alveg en telur það ómögulegt. Þeir telja líkurnar á tímaflakki mun meiri.
Að lokum
Það fer ekki á milli mála að fólk hefur gaman að því að velta fyrir sér framtíðinni eins og sést í vinsældum vísindaskáldsagna síðustu áratugi. Myndunum tekst þó misvel að spá en margar þeirra komast ansi nálægt raunveruleikanum. Mikið af tækninni sem spáð var fyrir um er til staðar en er ekki komin í almenn not. Stærstu myndirnar í dag virðast einblína meira á ævintíri en að spá “rétt” fyrir um framtíðina en miðað við allt sem hefur ræst, margt langt fram úr vonum, er erfitt að segja til um hvað gæti verið rétt og hvað ekki. Við verðum víst bara leifa tímanum að leiða það í ljós.
Höfundar: Bergur Logi Lúðvíksson og Stefán Arnar Einarsson nemendur við Háskólann í Reykjavík
Heimildaskrá:
2001: A Space Odyssey (film). (2014, October 20). In Wikipedia, The Free Encyclopedia. Retrieved 11:17, October 21, 2014, from http://en.wikipedia.org/w/index.php?title=2001:_A_Space_Odyssey_(film)&oldid=630400739
Back to the Future 2. (2008, October 7). In Wikipedia, The Free Encyclopedia. Retrieved 20:12, October 8, 2014, from http://en.wikipedia.org/w/index.php?title=Back_to_the_Future_2&oldid=243685564
Minority Report (film). (2014, October 2). In Wikipedia, The Free Encyclopedia. Retrieved 23:15, October 6, 2014, from http://en.wikipedia.org/w/index.php?title=Minority_Report_(film)&oldid=630412185
Star Trek: The Motion Picture. (2014, October 7). In Wikipedia, The Free Encyclopedia. Retrieved 19:18, October 9, 2014, from http://en.wikipedia.org/w/index.php?title=Star_Trek:_The_Motion_Picture&oldid=629951350
Total Recall (1990 film). (2014, September 29). In Wikipedia, The Free Encyclopedia. Retrieved 15:14, October 9, 2014, from http://en.wikipedia.org/w/index.php?title=Total_Recall_(1990_film)&oldid=627555744
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.