Bandarísk yfirvöld og njósnir þeirra á internetinu
Eftirlit yfirvalda á internetinu komst eftirminnilega í sviðsljósið í júní síðastliðnum, þegar uppljóstrarinn Edward Snowden afhenti fjölmiðlum 15-20 þúsund skjöl sem innihéldu leynilegar upplýsingar yfirvalda í Bandaríkjunum. Þessum upplýsingum hafði verið safnað saman undir hatti PRISM og XKeyscore, sem voru leynileg eftirlitskerfi NSA, þar sem Snowden starfaði sem verktaki.
Í dag dvelst Snowden í Rússlandi þar sem hann hefur fengið tímabundið hæli eftir að hafa dvalið á flugvelli þar í landi í lengri tími í leit að pólitísku hæli. Í Bandaríkjunum bíður hans ákæra fyrir njósnir og þjófnað á ríkiseignum. Bandarísk yfirvöld reyna hvað þau geta til að minnka skaðann með því að draga úr staðhæfingum Snowdens og réttlæta eftirlitið með því að halda því fram að það sé mikilvægur hluti í baráttunni gegn hryðjuverkum (sú réttlæting er búin í miklu uppáhaldi vestanhafs síðastliðin 12 ár). Skjölin tala engu að síður sínu máli.
Eftirlitinu var ekki beint eingöngu að einstaklingum sem lágu sérstaklega undir grun sem byggður var á annars konar upplýsingasöflun, heldur hverjum sem er og hvenær sem er og voru upplýsingarnar geymdar í risastórum gagnagrunnum í kjölfarið. Samkvæmt skjölunum eru þessi kerfi með nánast ótakmarkaða getu til að fylgjast með internet notkun hvers og eins.
Það sem kemur fram í skjölunum sýnir að það var ekki eingöngu stundað eftirlit með einstaklingum heldur beinlínis njósnir. Kína, Íran, Pakistan og Ástralía eru bara nokkur af þeim löndum sem skjölin staðfesta að hafi verið njósnað um. Ásamt því að berjast gegn hryðjuverkum var ætlaður tilgangur þessara kerfa að fylgjast með utanríkisstefnu, efnahagsástandi og að komast um snoðir um leyndarmál sem tengjast viðskiptum.
Eftirmálar
„Meginhættan af umfjöllun þessa máls er sú að þjóðir heims fari að nota dulkóðun sem gæti haft sundrungaráhrif á internetið og brotið það niður í einingar eftir þjóðum.“ – Eric Schmidt, Google.
Í kjölfar uppljóstrananna sagði Barack Obama að enginn væri að hlera símtöl né njósna um netsamskipti Bandaríkjamanna. Samkvæmt lögum voru skilyrði fyrir eftirliti með einstaklingum þau að annar hvor aðilinn þyrfti að vera erlendur. Þetta var samt eitthvað sem var erfitt að fylgja eftir vegna eðli netsamskipta og þó svo að samskiptin væru á milli tveggja Bandaríkjamanna, þá voru þau engu að síður móttekin og geymd í gagnagrunni þangað til að nánari skoðun leiddi í ljós að um tvo bandaríska þegna væri að ræða.
Obama skipaði síðar sjálfstæða nefnd sem samanstendur af utanaðkomandi séfræðingum til að endurskoða aðferðir NSA. Þetta þýðir að ef þú hringir í vin sem býr í Bandaríkjunum hefur NSA fullt leyfi til að hlusta á það samtal, ef þú átt í samskiptum við vin í Evrópu en á einhverjum tímapunkti fer samtalið í gegnum USA þá hefur NSA fullt leyfi til að fylgjast með. Eina fólkið sem er því nokkurn veginn öruggt með sín persónulegu mál eru bandarískir þegnar.
Sú staðreynd að Bandarísk yfirvöld geti framvísað FISA skipun hvenær sem er, fengið allar persónulegar upplýsingar ásamt netnotkun viðkomandi án nokkurs gruns um að aðilinn sé á einhvern hátt hættulegur samfélaginu er verulega truflandi. Þá skiptir ekki máli hvaða samskiptamiðill á í hlut, Facebook, Twitter, Google ofl., þeim ber öllum skylda til að afhenda allar þær upplýsingar sem yfirvöld óska eftir.
Það sem er virkilega kaldhæðið er að Obama sagði eftirfarandi áður en hann varð forseti: “This administration also puts forward a false choice between the liberties we cherish and the security we provide [...] I will provide our intelligence and law enforcement agencies with the tools they need to track and take out the terrorists without undermining our Constitution and our freedom”
Eins og staðan er í dag þá er hægt að fylgjast með öllum í gegnum samfélagsmiðla, hvenær verður farið að fylgjast með svokölluðum clouds þar sem fólk geymir oft á tíðum mun persónulegri hluti? Bandarísk yfirvöld geta fylgst með símtölum þínum, netnotkun, og samskiptum við annað fólk, og að margra mati er það réttlætanlegt í baráttunni við hryðjuverk. En hvað með þegar yfirvöldin eru komin í skýið þitt, harða diskinn, farin að fylgjast með Skype myndbandssímtölum, sjá myndböndin þín, ljósmyndir, tónlist og allt sem þér dettur í hug að geyma. Eru þessar njósnir þá réttlætanlegar lengur? Er fólk tilbúið að gefa upp allt sitt persónulega líf fyrir öryggi Bandaríkjanna?
Höfundar: Elísa Erludóttir og Ragnar Örn Clausen, nemendur í tölvunarfræði í HR
Heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/2013_mass_surveillance_disclosures
http://www.futuristgerd.com/2013/06/22/5-reasons-why-the-snowden-nsa-prismaffair-is-a-game-changer-for-the-future-of-the-internet/
https://www.futuristgerd.com/old_lib/2013/07/5-reasons-why-the-Snowden-NSA-PRISM-affair-is-indeed-a-game-changer-for-the-Future-of-the-Internet-Futurist-Author-and-Keynote-Speaker-Gerd-Leonhard.pdf
http://www.theguardian.com/world/2013/jul/31/nsa-top-secret-program-online-data
https://thenextweb.com/insider/2013/06/16/forget-prism-the-recent-nsa-leaks-are-plain-digital-privacy-is-a-joke/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.