Netvæðing tónlistar og áhrif hennar
Bylting tölvutækninnar síðustu 30 árin eða svo hefur breytt mörgu í okkar daglega lífi og þá aðallega framþróun veraldarvefsins sem hefur haft mikil áhrif á samskiptahætti, neyslu og atvinnu okkar. Ein birtingarmynd þess er hve neysla almennings á tónlist hefur breyst mikið. Flestir eru með hörðu diskana sína, I-poda og jafnvel snjallsíma troðfulla af tónlist, myndum og öðru efni sem það hefur sótt á veraldarvefinn og í flestum tilfellum ólöglega. En hvernig hófst þetta allt saman?
Upphaf deilisíðna
Árið 1999 stofnaði 19 ára gamall bandarískur háskólanemi Shawn Fanning fyrirtækið Napster utan um forrit sem hann hafði hannað og gerði öllum þeim sem höfðu netaðgang auðveldara fyrir að hala niður og deila tónlist. Forritið notaði P2P-deilitækni (peer-to-peer file sharing – internet service) og þá aðallega fyrir tónlist sem var kóðuð í MP3-formi. Kosturinn við þessa deilitækni er að álagið við skiptin deilast á alla notendur en lendir ekki á einum eða fáum netþjónum eins og þegar skrár eru sóttar á hefðbundin hátt á Netinu. Þannig má deila efni á ódýrari hátt, enda getur bandvíddarkostnaður netþjóna sem hýsa stórar skrár sem margir sækja, orðið ansi hár [1].
En Napster varð ekki langlíft í þessari mynd því fyrirtækið lenti í erfiðum málaferlum vegna brots á höfundarréttarlögum og varð að lokum gjaldþrota og lagt niður. Hin nýja tækni spurðist hratt út og í lok ársins 2000 var talið að notendur Napster væru um 75 milljónir á heimsvísu. Því má segja að Napster hafi markað upphafið að netvæðingu tónlistar. Lokun Napster opnaði dyrnar fyrir aðra sjóræningjastarfsemi og til eru ótal margar leiðir til að sækja tónlist og annað efni á ólöglegan hátt á veraldarvefnum. Piratebay, Limewire, Shareaza og Utorrent eru bara brota brot af þeim tólum sem til eru og hægt er að nota til slíkrar iðju.
Barrátta útgafufyrirtækja
Ekki voru þó allir á eitt sáttir með þessa þróun. Útgáfufyrirtæki og tónlistarfólk sat eftir með lítinn ávinning af þessu formi. Geisladiskasala dróst saman og verðmæti tónlistar rýrnaði. Brotið var ítrekað á höfundarréttarlögum og enn í dag er netvæðing tónlistar stærsta vandamál tónlistariðnaðarins.
Regnhlífarsamtök útgáfufyrirtækja RIAA í Bandaríkjunum og International Federation of Phonographic Industry (IFPI) sem eru alþjóðleg regnhlífarsamtök útgáfufyrirtækja hafa barist fyrir upprætingu svokallaðrar sjóræningjastarfsemi sem er orðið heitið yfir alla ólöglega dreifingu og sölu á höfundavörðu efni.
Þessi barátta hefur staðið lengi og hefur að mestu snúist um ólöglega framleiðslu og sölu á geisladiskum. Þegar sjóræningjasíður fóru að líta dagsins ljós, hver af annarri, fóru samtökin að reyna að uppræta starfsemi þeirra með ýmsum hætti. Starfshættir þeirra hafa verið gagnrýndir harðlega. Sérstaklega hefur tilraun þeirra til að koma inn í löggjöf Evrópuríkja nokkurs konar netlögreglu sem skoðar hvort einstaklingur sem er með netaðgang, sé að nýta sér þjónustu sjóræningjasíðna, sætt talsverðri gagnrýni. Einnig hefur RIAA verið gagnrýnt fyrir harkalegar aðgerðir í garð netverja sem hafa gerst sekir um að deila höfundavörðu efni. Dæmi eru um að mæður og ömmur hafa verið ákærðar fyrir gerðir barna og barnabarna sinna [2].
Hrun í hljómplötusölu á Íslandi
Baráttan er þó ekki einungis bundin við alþjóðamarkaðinn heldur hefur ólögleg dreifing tónlistar haft svipaðar afleiðingar hér á landi. Enginn sem starfar innan tónlistargeirans hefur farið varhluta af þessari þróun og í því samhengi má t.d. nefna að frá aldamótum hefur sala á hljómplötum og geisladiskum dregist saman um rúmlega helming. Hér hafa hagsmunasamtök höfunda einnig barist gegn sjóræningjastarfsemi enn með litlum árangri. Nægir þar að nefna tilraun Smáís (samtök myndrétthafa á Íslandi) til að loka deildu.net sem er síða sem deilir höfundavörðu efni ólöglega á vefnum en það hefur ekki tekist enn sem komið er. Á meðan þurfa útgefendur tónlistar að bíta í hið súra, reiða tekjur sínar á annað en plötusölu og leita nýrra leiða til að nálgast neytendur, svo allir gangi sáttir frá borði.
Hvað er til ráða?
Napster hafði ekki eingöngu neikvæð áhrif á netvæðingu tónlistar því í kjölfar lokunar þess spruttu upp netverslanir á vefnum sem selja tónlist á stafrænu formi. Napster var einmitt endurvakið sem slík verslun og Itunes Store var opnuð í apríl 2003 og hefur verið stærsta tónlistarveita heims um nokkurt skeið. Hér á landi var Tónlist.is stofnuð og einnig hefur Gogoyoko.is verið starfrækt um hríð. Spotify veitan er loks nýjasta viðbótin við markaðinn hérlendis en á síðunni geta notendur streymt lögum gegn vægu gjaldi. Síðan er af sænsku bergi brotinn og hefur átt gríðarlegri velgegni að fagna í heimalandi sínu og hefur á skömmum tíma orðið aðgengileg í fleiri heimshlutum. Þær netverslanir sem að ofan hafa verið taldar virðast vera að einhverju leyti svarið við sjóræningjastarfsemi en betur má ef duga skal ef að ná á sátt milli neytenda og útgefanda tónlistar.
Útgáfufyrirtækin þurfa að laga sig að nýju viðskiptalíkani og neytendur að vera viljugri til að greiða fyrir vöruna og bera meiri virðingu fyrir höfundaverki annara. Fjölmargar hugmyndir hafa verið á lofti í þeirri viðleitni að brúa bilið á milli útgefanda og neytenda en enginn þeirra virðist leysa vandann fullkomlega. Eitt er það víst, að alltaf verður hægt að nálgast á ólöglegan hátt ýmist efni á vefnum en með breyttu hugarfari mætti minnka þann skaða sem útgefendur og höfundar tónlistar verða fyrir. Og þá er ekki hægt að líta framhjá því að í hinu eilífa stríði gegn alþjóðlegri sjóræningjastarfsemi felast ótal tækifæri sem tónlistarmenn og útgefendur geta nýtt sér til framdráttar ef vel er haldið á spöðunum.
Höfundur Nói Steinn Einarsson, tónlistarmaður og nemi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík
[1] Baldur Blöndal. „Hvernig virkar torrent?“. Vísindavefurinn. Sótt 14. október 2013 af http://visindavefur.is/?id=30392.
[2] The Economist. (3. september 2009). Keeping pirates at bay. Sótt 14. október af http://www.economist.com/search/displaystory.cfm ?story_ id=14299558
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.