Skip to main content
28. nóvember 2013

Sölusíður á netinu

solusidur-a-netinuNetið býður upp á óteljandi margar sölusíður víðsvegar um heiminn og hægt er að fjárfesta í nánast hverju sem í gegnum netið. Sölusíður hafa aldrei verið fleiri heldur en núna og varla væri möguleiki að komast yfir allar þær síður sem til eru. Þetta viðfangsefni er gríðarlega víðtækt og áhugavert væri að skoða mun fleiri netsíður í framhaldi og mismunandi möguleika þeirra. Hér ætlum við að taka fyrir tvær virkar sölusíður á Íslandi og tvær erlendar sölusíður sem bjóða uppá sölu og þjónustu. Höfundar höfðu það að markmiði að finna erlendar sölusíður sem eru með ólíku móti heldur en þær sem eru hér á landi. Flestir þekkja Amazon og Ebay sem eru stærstu sölusíður heims, hinsvegar vildu höfundar ekki taka þessar síður fyrir hér heldur frekar að finna einhverjar minna þekktar sölu-og þjónustusíður.

Bland.is

Barnaland sem nú ber heitir bland.is er ein vinsælasta sölusíða Íslands með yfir 200.000 notendur. Hvort sem notendur vilja kaupa eða selja vörur, taka þátt í ýmsum umræðum, koma með fyrirspurnir, opna heimasíðu eða auglýsa þá er býður bland upp á þessa möguleika. Fyrr á þessu ári var síðunni breytt með þeim hætti að auðvelda notendum síðunnar að selja hluti eða kaupa. Nú þarf viðkomandi sölumaður ekki sífellt að uppfæra vöru sem hann er að selja til að hún verði sýnileg öðrum heldur geta notendur einfaldlega valið viðeigandi flokk. Hægt er að raða vörum eftir þeim, nýjustu, dýrustu, ódýrustu og svo framvegis. Einnig er boðið uppá að þrengja leitina með að velja tegund vörunnar, hvar á landinu er söluaðilinn staðsettur og ef verið er að selja fatnað getur notandinn valið ýmist fyrir karlmenn, kvenmenn eða börn. Gæludýr eru einnig til sölu á síðunni. Í kjölfar breytinganna voru svo settir upp hlekkir fyrir neðan hverja auglýsingu sem gefur fólki kleift að deila viðkomandi auglýsingu á Facebook, Twitter eða Pinterest sem eru með þeim mest notuðu samskipta síðum heimsins. Þetta eykur líkur á að fleiri sjái vöruna inná þessum síðum og er því góð auglýsing fyrir söluvörur. Til að kaupa vöruna hefur nú verið settur upp linkur til að setja inn tilboð í ákveðnar vörur.Gefið er upp verð fyrir vöruna og lítist notandanum á vöruna getur hann smellt á tilboðshlekkinn og sett inn það verð sem hann kýs að greiða fyrir vöruna. Uppboð á vörum er líka á síðunni en þá er gefið upp hvert næsta tilboð á vörunni er og vilji notandi taka þátt í uppboði setur hann inn það verð sem gefið er upp. Einnig er hægt að smella á „Kaupa núna“  og ef seljandinn samþykkir kaupin er kaupandinn skyldugur til að kaupa vöruna.

Bland hefur skýrar reglur um öryggi bæði seljanda og kaupanda. Þar er tekið fram að notendum ber að varast vörur sem gætu verið þýfi, ef grunur vaknar skuli þeir hafa samband við lögreglu og sá er kaupir þýfi ber einnig ábyrgð. Notendur þurfa því að hafa augun opin ef verð er of lágt miðað við gæði og krefjast kvittunar við kaup til að ganga úr skugga að seljandinn sé ekki að selja þýfi. Notendum er einnig bent á að borga ekki fyrirfram til að vera vissir um að fá vöruna örugglega. Til að greiða fyrir vöruna væri því best að afhenta greiðsluna þegar varan væri sótt í stað þess að millifæra upphæðina áður.

Í lokin er vert að minnast á að bland bannar sölu á ólöglegum og lyfseðilskyldum lyfjum og matvöru nema einstaklingurinn hafi tilskyld leyfi frá heilbrigðisstofnun, einnig þarf að setja innihaldslýsingu á fæðubótarefnum ef verið er að selja slíkt. Notendaskilmálar síðunnar eru skýrir svo farið sé eftir lögum og reglugerð. Hér er einfaldlega verið að einblína á sölu og kaup á vörum en síðan er viðamikil og hefur mun fleiri sniðuga möguleika sem væri áhugavert að skoða nánar síðar.

Coldstone Creamery

Í leit okkar að síðum sem finnast ekki hér á landi, fundum við bandarísku síðuna Coldstone Creamery sem býður fólki að hanna sína eigin köku frá grunni og fá hana senda upp að dyrum. Síðan er gerð út frá bakaríi sem er starfrækt í um 20 löndum, flest þeirra í Ameríku. Til að panta köku gegnum síðuna velur notandi þá stærð af köku sem hann kýs og gefið er upp fyrir hversu marga hver kökustærð er. Næst er kaupandanum boðið uppá margvíslegar bragðtegundir á bæði kökunni og kreminu og hvort hann kjósi einhverskonar sætindi ofan á kökuna. Einnig er boðið uppá hvaða tegund deigs skuli nota, hvert sé tilefnið og í lokin er kaupanda boðið uppá að skrifa sérstakar óskir ef viðkomandi vill til dæmis láta skrifa eitthvað sérstakt á kökuna. Fólk getur svo annaðhvort sótt eða fengið sent heim og gengið er frá greiðslu á síðunni þeirra í gegnum kreditkort.

Höfundar voru sammála því að þetta væri mjög sniðug hugmynd sem væri mjög hentugt að byrja með hér á Íslandi. Bakarí gætu því haft þennan möguleika á heimasíðum sínum fyrir viðskiptavini sína og boðið þeim að fá kökuna senda heim.

Stuff U Sell

Stuffusell er bresk sölusíða sem selur vörur fyrir notendur síðunnar. Það eina sem viðkomandi þarf að gera er að fara með vöruna eða vörurnar í fyrirtækið sem staðsett er í London. Þar taka starfsmenn við vörunni, meta hvort hún sé söluhæf, mynda hana, setja verð á hana og þaðan er varan sett inn á Ebay þar sem uppboð á vörunni hefst. Eigandi vörunnar getur svo fylgst með sölunni á netinu.

Þegar varan hefur verið seld tekur fyrirtækið Stuff U Sell að sér ákveðin sölulaun. Af hverjum 1000 pundum tekur fyrirtækið 1/3 af sölunni og eftir sem verðið hækkar tekur það 10% af sölunni. Vara sem hefur til dæmis verið seld fyrir 2.053 pund gefur fyrrum eigandanum 1.615 pund í vasann og sölufyrirtækið tekur 21% af sölunni eða 438 pund. Þessi síða nýtist mörgum sem hafa ekki tíma til að standa í að selja sjálfir á netinu og þeim sem kunna ekki almennilega á sölusíður sjálfir. Oft á tíðum fær eigandi vörunnar hærri upphæð fyrir vöruna ef farið er þessa leið þar sem Stuff U Sell breytir markaðssetningu í sölu sinni, fylgist grannt með uppboðinu og tryggir að greitt sé rétt fyrir viðkomandi vöru.  

Facebook Fatasala

Á Íslandi eru nokkrar svokallaðar fatasölusíður sem eru virkar á Facebook. Ein sú vinsælasta hefur yfir 10.000 fylgjendur og eru þar stúlkur í miklum meirihluta. Inn á síðunni eru svo gefnir upp flokkar fyrir þá vöru sem á að selja, stærðarflokkar og því sem fylgjendur eru að óska eftir að kaupa. Síðan er fyrst og fremst fatasala en einnig eru flokkar fyrir sölu á símum, snyrtivörum og skartgripum.

Til að setja inn hlut sem á að selja setur seljandi inn skýra mynd af vörunni og setur hana í viðeigandi möppu. Mælst er til að skrifað sé við myndina hvort varan er notuð eða ný. Vilji seljandinn fá ákveðið verð skal hann setja það við myndina en ef um uppboð er að ræða er varan seld hæstbjóðanda. Hafi salan gengið í gegn þarf að eyða myndinni út. Þegar fylgjandi  ætlar að kaupa vöru setur hann innlegg við myndina þar sem hann býður í vöruna eða samþykkir uppsett verð. Það er svo alfarið á ábyrgð kaupanda og seljanda að salan gangi vel fyrir sig og geta ákveðið sín á milli hvernig greiðsla og afhending fer fram. Síðan fær sífellt fleiri fylgjendur og sínir að mikil eftirspurn er eftir fötum sem eru í ódýrari kantinum.

Í framtíðinni væri þess vegna hægt að hafa fatasöluna sem sjálfstæða síðu á netinu, til dæmis fatasala.is og gætu stjórnendur síðunnar boðið ýmsum fyrirtækjum að kaupa auglýsingapláss á síðunni sinni líkt og bland.is.

Lokaorð

Einsog tekið var fram í byrjun er hér stiklað á stóru og aðeins farið lauslega yfir virkar sölusíður á netinu. Eftir að hafa skoðað fjölmargar síður í vinnslu þessa verkefnis er greinilegt að þetta eru gríðarlega vinsælar síður og hægt að kaupa allt milli himins og jarðar á netinu. Daglega bætast fleiri í hóp þeirra sem versla, selja og nýta sér þjónustu á netinu og því spennandi að fylgjast með þessu í kjölfar vaxandi tölvutækninnar.

Höfundar: Stefanía Bergmann Magnúsdóttir og Halla Björt Ármannsdóttir nemendur í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

 
Skoðað: 6551 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála