Netöryggi og ungmenni: Ys og þys útaf engu?
Þegar ég hóf að kenna afbrotafræði við Háskóla Íslands um 1990 fjölluðu kennslubækur í afbrotafræði ákaflega lítið um tölvuglæpi og áhrif þeirra á samfélagið, hvað þá á ungmenni. Í dag er þessu öðru vísi farið. Í kennslubókinni sem ég styðst við núna, Criminology eftir Siegel (2012), er heill kafli undir heitinu Nýir glæpir á 21. öldinni. Tölvuglæpir (e. cybercrime) taka mest rými með ítarlegri umfjöllun og fjölda dæma og rannsókna.
Í upphafi kaflans er greint frá vefsíðunni Wikileaks sem eins og kunnugt er lak fjölda leyniskjala um starfsemi stjórnvalda bakvið tjöldin, ekki síst bandarískra frá stríðinu í Írak. Við getum velt fyrir okkur hver sé sökudólgurinn, aðstandendur Wikileaks sem leka trúnaðarskjölum eða stjórnvöld fyrir leynilegar aðgerðir sínar – hugsanlega báðir aðilar?
Tegundir tölvuglæpa
Tölvuglæpum í afbrotafræðinni er skipt upp í nokkrar tegundir. Í fyrsta lagi er vísað til netþjófnaðar (e. cybertheft). Hér er tölvutækni og netið hagnýtt til auðgunar á ólöglegan hátt. Ólöglegum vörum eða þjónustu er dreift, fjársvik stunduð, annað fólk svikið og prettað.
Í öðru lagi netskemmdaverk (e. cybervandalism) til að hefna sín eða eyðileggja, s. s. með vírusum. Undir netskemmdaverk falla líka umsátur eða stalking þar sem gerandi situr um eða kúgar tiltekinn einstakling og cyberbullying eða netáreitni en nánar verður komið að þessu tvennu hér á eftir í tengslum við netöryggi og ungmenni.
Í þriðja lagi er vísað í hernað á netinu eða nethernað (e. cyber warfare) þar sem óprúttnir aðilar, óvinaþjóð eða óvinveitt öfl, reyna að spilla fjarskiptum annarra þjóða, stofnana eða samtaka. Aðdáendur Bonds geta t.a.m. séð mál af þessu tagi í nýjustu mynd kappans, Skyfall.
Í fjórða og síðasta lagi tengjast tölvuglæpir alþjóðlegri brotastarfsemi (transnational crime) þar sem skipulögð glæpasamtök hagnýta sér netið og tölvutækni til ólöglegrar starfsemi af margvíslegu tagi. Fíkniefnadreifing og sala, mansal, vændi, ólöglegt klám, barnaníð eða vopnasala eru allt afbrot sem gerð eru auðveldari í krafti netsins með hjálp tölvunnar.
Um allar þessar fjórar tegundir tölvuglæpa fylgja ítarleg dæmi í kennslubók Siegels (2012) frá ólíkum löndum, mestmegnis Bandaríkjunum. Saman sýna þau að umfangið er gríðarlegt og ólögleg velta slíkrar starfsemi allt að því stjarnfræðileg.
Hvað um net- og tölvuglæpi einsog þeir snúa að ungmennum? Tvenns konar brot eru einna helst tekin til umfjöllunar í afbrotafræðinni.
Í fyrsta lagi netumsátur (e. cyberstalking), þar sem leitað er eftir samskiptum við annan einstakling undir fölskum formerkjum eða til að skaða eða áreita annan einstakling. Þekktustu dæmi af þessu tagi, og þau sem vekja mestan ótta í hugum okkar, eru þegar fullorðnir einstaklingar setja sig í samband við börn til tælingar í kynferðislegum tilgangi, s.s. á msn, facebook eða öðrum samskiptamiðlum. Auðvelt er að dyljast í netheimum og blekkja með hjálp tölvunnar og mörg dæmi hafa komið upp erlendis og einhver hér á landi í tengslum við brot af því tagi. Sjaldan er beitt beinu ofbeldi heldur er komið á trúnaðarsambandi við barnið smám saman án þess að beita þvingunum. Netumsátur eða cyberstalking er þó ekki bara beitt í kynferðislegum tilgangi heldur geta verknaðir af því tagi falist í að senda ögrandi eða meiðandi skilaboð til tiltekinna einstaklinga.
Nátengt cyberstalking er svo netáreitni eða einelti (e. cyberbullying), þar sem einstaklingur er beittur endurteknum svívirðingum eða auðmýkingu af hendi eins eða fleiri einstaklinga á netinu. Hér geta þeir sem eru færir á tölvur gert öðrum mikinn skaða með því að senda meiðandi skilaboð, dreifa óhróðri um tiltekna einstaklinga, skrumskæla með framsetningu mynda, villa á sér heimildir, eyðileggja heimasíður annarra til að nefna örfá dæmi af netáreitni.
Rannsóknir á netáreitni meðal ungmenna
Hversu algeng er netáreitni meðal ungmenna? Tveir þekktustu rannsakendur netáreitni, Hinduja og Patchin (2012), hafa árlega gert mjög víðtækar mælingar á netáreitni meðal ungmenna og sú nýjasta í BNA sýnir að vandinn er talsverður.
Árið 2010 sögðust um 20 prósent menntaskólanemenda hafa orðið fyrir netáreitni einhvern tíma á ævinni og síðustu 30 dagana fyrir mælinguna höfðu um 8 prósent orðið fyrir áreitni af þessu tagi. Um það bil fimmtungur þeirra sem hafði orðið fyrir áreitni hafði tvisvar eða oftar orðið þolandi – þannig að þetta er býsna algengt.
Hvaða áreitni var hérna á ferðinni?
- Móttekið særandi bréf eða athugasemd um sig
- Óhróðri verið dreift um sig
- Fengið ógnandi sms skilaboð
- Fengið ógnandi skeyti um að eitthvað illt verði gert gegn sér á netinu
- Einhver þóttist vera ég
- Sett var særandi og óviðeigandi mynd af viðkomandi á netið
Er einhver munur á drengjum og stúlkum? Athyglisvert er að unglingsstúlkur eru líklegri til að hafa orðið fyrir netáreitni en strákar. Jafnframt er munur á hvers konar áreitni kynin verða fyrir á netinu. Stúlkur eru líklegri til að dreifa óhróðri, sér í lagi um aðrar stúlkur á netinu, meðan strákar eru líklegri til að senda meiðandi myndir eða myndbönd á netinu – oft um stúlkur.
Það sem er áhugavert við rannsóknir á áhrifum netsins og tækninnar á ungmenni er að þetta eru alls ekki ný brot í sjálfu sér. Það er ekkert nýtt við áreitni eða einelti eða að sitja um eða elta einhvern á ógnandi hátt – við þekkjum mál af þessu tagi mörg ár aftur í tímann. Það sem er nýtt er að þarna færa menn sér tæknina í nyt til að fremja athæfi sem er löngu þekkt. Í raun er þarna kominn öflugur miðill eða ný tækifæri til að kúga, pretta eða koma öðrum í bobba þar sem tæknin er notuð til að klekkja á öðrum.
Áhrif kláms og tölvuleikja á ofbeldi
Önnur ógn sem iðulega er tengd við tölvur og netheiminn eru áhrif tölvuleikja á ofbeldi og áhrif kláms á ungmenni sem auðveldlega er aðgengilegt á netinu. Hvað segja rannsóknir?
Rannsóknir á áhrifum kláms á kynferðisofbeldi sýna ekki einhlítar niðurstöður. Mikil notkun á klámi hefur sýnt sig að hafa áhrif á kynferðisofbeldi, sér í lagi ef viðkomandi er í áhættuhópi þeirra sem líklegir eru til að fremja kynferðisbrot. Fyrir ákveðna hópa getur áhorf á klám ýtt undir kynferðisofbeldi og þjónað sem réttlæting fyrir beitingu þess, ákveðinni hugmyndafræðilegri afsökun, sérstaklega eftir á fyrir að hafa beitt ofbeldi.
Fjöldi rannsókna sýnir þó að meðal þeirra sem ekki eru í áhættuhópi eða hafa enga eða litla tilhneigingu til að fremja kynferðisbrot að líkurnar eru hverfandi að þeir fremji brot af því tagi við áhorf eða notkun á klámi (Ferguson og Hartley, 2009). Klámið eitt sér virðist því ekki búa til kynferðisbrotamann en það getur átt þátt í brotum þeirra sem líklegir eru til að fremja brot af því tagi og er því varasamt (Malamuth, Addison og Koss, 2000).
Andstaðan við klámið er þó ekki bara vegna áhrifa þess á kynferðisofbeldi heldur ekki síður gegn því siðferði og þeirri mynd sem dregin er upp af samskiptum kynjanna í klámheiminum. Klámið felur sjaldan í sér heillavænlegar fyrirmyndir gagnvart ungmennum og getur auðveldlega brenglað hugmyndir þeirra um kynlíf. Bein áhrif kláms á kynferðisofbeldi hefur samt verið erfiðara að sýna fram á.
Sama á við um tölvuleiki og áhrif þeirra á ofbeldi ungmenna. Fyrir börn sem eru í góðum samskiptum við foreldra sína, eiga traustan vinahóp og standa sig vel í skóla er lítil hætta á að tölvuleikir kalli fram ofbeldi. Ef ungmenni eru vanrækt og tölvan og tölvuleikir verða helsta uppeldistækið og fyrirmynd þeirra geta áhrifin orðið meiri, þá geta ofbeldisleikir af þessu tagi orðið afdrifaríkari.
Lokaorð
Spurningin er ekki hvort tölvuleikir eða tölvur hafi áhrif á ungmenni eða ekki. Þetta er miklu frekar spurning um hvernig börn og ungmenni eru í stakk búin til að meðtaka það sem fram fer á tölvuskjánum og þar er ekki endilega allt fallegt eins og við vitum. Í baráttu okkar gegn netáreitni, blekkingu og svikum á netinu verðum við að ná til ungmennanna sjálfra og notkunar þeirra á netinu. Miklu skiptir að halda vöku sinni gagnvart börnunum okkar og huga vel að félagslegri umgjörð þeirra. Börn standa misvel að vígi, sum eru vanrækt og eftirlitslaus, og því er brýnt að opinberir aðilar og samfélagið allt haldi vöku sinni gagnvart umhverfi ungmenna. Netið býður upp á ýmsar hættur sem þarf að forðast um leið og netið býður upp á margvísleg tækifæri sem ungmenni eiga að nýta sér. Við eigum ekki að reisa Kínamúra og banna netið eða tölvunotkun ungmenna heldur miklu frekar setja leiðbeinandi reglur og nýta kostina í samvinnu við börnin sjálf.
Helgi Gunnlaugsson, Prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands
Byggt á erindi haldið á Ráðstefnu um netöryggi og ungmenni – 14. nóvember 2012
Tilvísanir:
Ferguson, C. J. og Hartley, R. D. (2009). The pleasure is momentary…The expense damnable? The influence of pornography on rape and sexual assault. Aggression & Violent Behavior (14(5): 323-9.
Hinduja, S. og Patchin, J. W. (2012). Cyberbullying Research Center. Sjá heimasíðu stofnunarinnar, sótt 21. nóvember 2012:
http://www.cyberbullying.us/publications.php
Malamuth, N., Addison, T. og Koss, M. (2000). Pornography and sexual aggression: Are there reliable effects and can we understand them? Annual Review of Sex Research 11: 26-94.
Siegel, L. J. (2012). Criminology International Edition, 11th edition. Wadsworth, Cengage Learning.
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.