Skip to main content
13. október 2011

Hvar er sjónvarpið mitt og hvert er það að fara?

Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um samruna sjónvarps og netsins. Hafa verið uppi ýmsar tilgátur um hvort muni hafa betur, sjónvarpið eða netið.  Þróun í miðlun lifandi efnis yfir ip net hefur verið hröð og vinsældir á lifandi efni á vefnum vex hratt.  Flestir stærri vefir hérlendis hafa bætt við sínu eigin lifandi efni til að skoða og hafa notendur tekið þessu mjög vel, eins og heimsóknartölur sýna.

Símafyrirtækin hafa kynnt IP sjónvarpslausnir sem æ fleiri heimili nota enda mikill gangur í ljósleiðara og ADSL væðingu hérlendis.  Í sjónvarpi er talað um línulega dagskrá, sem er þegar við setjumst fyrir framan sjónvarpið og horfum á áður auglýsta dagskrá á þeim tíma sem tilgreindur er og svo er ólínuleg dagskrá, sem er þegar áhorfandinn velur sjálfur hvenær hann vill horfa á efnið. Gott dæmi um þetta er aðgangur að tveggja vikna efni helstu sjónvarpsstöðva á IP sjónvarpskerfum hérlendis. Annað sem mikið er rætt um í sjónvarpsheimum er sjónvarp númer tvö sem í dag er tölvan/spjaldatölvan eða snjallsíminn en ekki annað sjónvarp.

Þegar horft er til baka er ljóst að að allar þessar tæknibreytingar hafa í raun ekki breytt grunneðli mannsins. Grunnþarfir eru þær sömu, það eru bara fleiri leiðir til að uppfylla þær.  Einnig breytast venjur hægt, það sem þú gerir í dag mun ekki breytast mikið á næstu árum.  Rannsóknir hafa sýnt að 80% þeirra sem eru eldri en 45 ára horfa á línulega dagskrá á meðan 56% þeirra sem eru yngri en 45 ára horfa á línulega dagskrá. Þessi munur endurspeglar þá þróun sem er að eiga sér stað meðal yngri áhorfenda að vilja geta ráðið sinni eigin dagskrá.

Gott dæmi um hve hægt venjur breytast þá tilkynnti Sony 26.10.2010 að þeir væru nú hættir að framleiða Sony Walkman kassettutækið, sem var kynnt á markað 1979.

Augljóslega eru miklir hagsmunir í húfi þegar sjónvarp er annarsvegar, má þar nefna sem dæmi  höfundarétthafa, tækjaframleiðendur, efnisveitur og dreifiveitur sem hafa lagt mikla fjármuni í að framleiða, gera umgjörð um og svo að lokum að byggja upp dreifikerfi sem tryggja afhendingu í góðum gæðum hjá sjálfum áhorfandanum.  Við þessar tæknibreytingar verða þessir aðilar að bregðast við til að mæta nýjum þörfum.

Sjónvarpsframleiðendur hafa svarað þessu með því að nettengja sjónvarpið og gera þar með þennan stóra miðpunkt margra heimila að glugga inn á internetið. Sony hefur leitt þessa vinnu og bjóða þeirra tæki nú upp á hluti eins og td:

-          Facebook
-          YouToube
-          Twitter
-          Skype
-          BBC iPlayer

Auk hefðbundinna atriða eins og bíómyndir og sjónvarpsþætti gegn greiðslu, þessi efnisþjónusta er ekki í boði á Íslandi en í mörgum löndum í evrópu og skandínavíu.  Aðrir framleiðendur hafa síðan einnig tekið þessa stefnu eins og Panasonic en hafa aukið við og bjóða gagnvirka spilun tölvuleikja, fréttaveitur, heilsuefnisveitur og fleira.  Það sem hefur háð þessari tækni er að flestir vilja hafa gott lyklaborð til að vafra um netið, og ein lausn á því er að setja slíka lausn í spjaldatölvuna eða snjallsímann sem er algengt í dag.

Frá sjónarmiði upplýsingatækninnar er þetta jákvæð þróun að mörgu leiti en helsti dragbítur í þessari þróunarvinnu tækjaframleiðanda er að þeir eru ekki að vinna eftir sameiginlegum stöðlum, þannig að þeir sem vilja bjóða sitt efni í gegnum þessa IP tengingar sjónvarpstækja þurfa annaðhvort að velja sér samstarfsaðila eða að þróa fyrir mörg platform.  Þetta er mjög einkennandi fyrir unga tækni sem hefur ekki náð það almennri útbreiðslu að staðall hafi myndast, en slíkt mun líklega þróast á komandi árum.

Dreifiveitur hafa síðan einnig tekið við sér og hugtakið HBBTv hefur rutt sér til rúms. En sú tækni byggir á að samtengja hefðbundin sjónvörp (sem nota venjuleg loftnet til að ná sjónvarpsmerki) við internetið með notkun svonefndra „hybrid“ myndlykla.  En slíkir myndlyklar nota hefðbundin loftnet en eru líka nettengdir og með því má bjóða notandanum upp á ákveðna gagnvirkni í sjónvarpi og líka að nota hefðbundið sjónvarp sem nettengt tæki og skoða þar Facebook, YouTube og annað sem er aðgengilegt á internetinu.  Þessi tækni á vel við þar sem nettengingar eru ekki nægilega öflugar til að bjóða IPTV en til staðar er hefðbundið dreifikerfi sem notar loftnet.

Síðasti valkosturinn sem hefur einnig rutt sér víða til rúms er OTT, eða „Over the Top Television“ en það er að senda út sjónvarpsefni yfir almennt internet og að notendur geti horft í nettengdum búnaði eins og tölvu, spjaldatölvu eða snjallsíma.  Þessi tækni er að mörgu leiti sú sem höfðar mest til yngstu notendanna því þeir eru jú aldir upp við að nota tölvuna og netið til að ná sér í afþreyingu.  Ókostur við OTT er að almennt internet er jú frekar óstjórnað umhverfi og því erfitt að tryggja gæði alla leið til allra notenda.  Augljóslega mun OTT kalla á að dreifiveitur byggi upp öflugra dreifikerfi og umræðan verður sem fyrr hvar lendir sá kostnaður.

Hvort sem við endum í sófanum fyrir framan stóra sjónvarpið okkar eða með spjaldatölvuna eða þá snjallsímann þá er ljóst að sjónvarpsdreifing yfir IP net er komið til að vera og valkvíði neytenda mun enn sem fyrr aukast með auknu framboði af valkostum í mótttöku á sjónvarpsefni.

Höfundur: Ágúst Valgeirsson, Framkvæmdastjóri tæknisviðs 365 miðla

Mynd í haus er frá  Salvatore Vuono / FreeDigitalPhotos.net

Skoðað: 6583 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála